3.5.2017 | 10:17
Oft er fall fararheill
Það er einstætt á Íslandi, að forstjóri fyrirtækis sé boðaður á fund fastanefndar Alþingis til að gera grein fyrir tæknilegum vandamálum í starfsemi fyrirtækis síns.
Það gerðist í vor, að Helgi Þórhallsson, forstjóri United Silicon, USi, mætti á fund Umhverfisnefndar Alþingis út af ólykt, sem þjakar suma íbúa og þeir telja stafa frá fyrirtæki téðs Helga. Það, sem blekbóndi sá í sjónvarpi af þessum fundi, skýrði orsakir vandans ekki hót fyrir honum, en helzt er þó minnisstætt, að téður forstjóri kvað ekki eitt vera að verksmiðjunni, heldur allt. Er slík einkunnargjöf (0,0) forstjóra yfir starfsemi sinni einstæð á Íslandi, og þótt víðar væri leitað. Téð fyrirtæki og forstjóri eru þegar búin að tryggja sér sess í annálum. Hvernig eftirmælin verða, er þó enn á huldu.
Um tíma básúnaði Umhverfisstofnun (UST) út kolvitlaus mæligildi á hættulegum efnum frá verksmiðjunni og varð starfsmönnum sínum til minnkunar fyrir vikið. Virðist þeim allnokkur sálarháski búinn, sem nálægt þessari starfsemi koma, og er það sjálfstætt rannsóknarefni atferlisfræðinga. Um meinta mengun skrifaði téður Helgi í Fréttablaðið, 3. apríl 2017,
"Mengunarmælingar og rekstur United Silicon":
"Nýjar mælingar á gildi þungmálma og PAH-efna, sem nú hafa borizt og verið kynntar Umhverfisstofnun og United Silicon, benda til, að rekstur verksmiðjunnar hafi ekki mælanleg áhrif á magn þessara efna í umhverfinu. Samkvæmt síðustu mælingum virðist ekki skipta máli, hvort verksmiðjan er í rekstri eða ekki; gildi þessara efna í umhverfinu mælast þau sömu."
Þetta er gleðileg niðurstaða, því að hvort heldur sem styrkur þungmálma eða PAH (polyaromatiske hydrokarboner-fjölliðusambönd vetniskolefnis) hefði verið yfir heilsuverndarmörkum, hefði orðið að stöðva verksmiðjuna í heilsuverndarskyni fyrir starfsmenn og nágranna, þar til viðeigandi hreinsibúnaður hefði verið settur upp. Öðru máli gegnir um ólykt. Þar er UST á hálum ís.
Framkoma umhverfisráðherra og UST í þessu máli er forkastanleg, því að margt benti þegar í upphafi upphlaupsins til, að hinar kolvitlausu mælingar (67 sinnum of há mæligildi) væru einmitt það, kolvitlausar.
Nú hefur rekstur þessarar nýju kísilmálmverksmiðju samt verið stöðvaður, og er það vegna ólyktar, sviða í augum og sárinda í hálsi, sem kennd eru aldehýðum, acetónum eða ketónum úr ófullkomnum bruna í ljósbogaofni verksmiðjunnar. Rót vandans liggur þó annars staðar, en af henni segir þó fátt. Hvers vegna ?
Það eru mjög óljósar fregnir af bilanagreiningunni, og annaðhvort vilja forráðamenn USi ekki upplýsa um hana eða þeir eru sjálfir engu nær. Það hefur þó komið fram, að rekstur ofnsins er "óstöðugur". Af þessu mundi blekbóndi, sem hefur áratugareynslu af að stýra miklu afli, margföldu því, sem þarna um ræðir, draga þá ályktun, að aflstýring ofnsins sé ófullkomin og magni jafnvel upp sveiflur afls og spennu með útslætti ofnsins sem afleiðingu að lokum.
Það er vel þekkt, að framleiðendur kasta höndunum til forritsins, sem stýra á ferlisbreytunum, hvort sem þær eru spenna, straumur, afl eða annað, og ætla viðskiptavinunum og ráðgjöfum þeirra að laga hugbúnaðinn að aðstæðum á hverjum stað. Það á nánast alltaf við, ef annað er ekki skilgreint í kaupsamningi. Slík hugbúnaðarþróun getur kostað þúsundir manntíma hjá forritara hérlendis, t.d. í álveri, því að aðstæður eru hér sjaldgæfar, svo að feta þarf sig áfram. Rafkerfið hérlendis er veikt, sérstaklega á jöðrunum, t.d. á Reykjanesi, sem þýðir óvenjumiklar og tíðar spennusveiflur. Hafa íbúar ekki orðið varir við þær ?
Ljósbogaofn er mjög erfitt álag fyrir stofnkerfi landsins, því að það skiptast á skammhlaup og rof í ofninum, sem valda spennuhöggum á kerfið. Þegar stýrikerfi ofnsins verður vart við spennusveiflur á netinu, getur það brugðizt ranglega við og annaðhvort keyrt ofnaflið niður eða farið að sveifla því. Starfsmenn virðast ekkert hafa ráðið við ofninn, sem kemur heim við þessa lýsingu. Fróðlegt væri að frétta af því, hvort aðrir rafmagnsnotendur á Suðurnesjum hafi orðið varir við spennusveiflur, t.d. ljósaflökt, þegar téður ljósbogaofn var í rekstri.
Sennilegast er að mati blekbónda, að hönnun rafkerfis ofnsins, sem deyfa á spennusveiflur af hans völdum, sé ábótavant og henti ekki íslenzkum aðstæðum, og að hugbúnaður aflstýringarinnar sé "hrár" og ekki aðlagaður íslenzkum aðstæðum.
USi hefur fengið norska ráðgjafarfyrirtækið Multikonsult sér til aðstoðar við greiningu og úrbætur auk tæknimanna frá framleiðanda ofnbúnaðarins. Ekki liggur í augum uppi, hvers vegna Multikonsult varð fyrir valinu, þegar nær væri að ráðfæra sig við innlendar verkfræðistofur, sem reynslu hafa af að fást við vandamál tengd miklu álagi á veiku stofnkerfi rafmagns. Hvað sem öðru líður, eru miklar líkur á, að reynda hugbúnaðarmenn þurfi til að bezta stýrikerfi ofnsins. Verði enn óstöðugleiki í rekstri, þegar ofninn verður prófaður eftir endurbætur, þá hafa þær brugðizt.
Alvarleiki málsins kom berlega fram í frétt Morgunblaðsins 27. apríl 2017,:
"Tölvukerfi stillt og tækjum skipt út" (betra er skipt um tæki), sem hófst þannig:
"Ekki liggur fyrir, hvenær svo nefndur ljósbogaofn kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík verður ræstur, að sögn Kristleifs Andréssonar, sem stýrir öryggis- og umhverfismálum fyrirtækisins. Í gær [26.04.2017] sendi Umhverfisstofnun frá sér tilkynningu um, að rekstur verksmiðjunnar hefði verið stöðvaður og færi ekki í gang fyrr en stofnunin gæfi grænt ljós."
Ekki er ljóst með hvaða réttarheimildum UST stöðvaði verksmiðjuna, því að hún hefur ekki vísað í neina reglugerð, hvað þá lög, sem verksmiðjan hafi brotið. UST veit ekki einu sinni um styrk lyktarefnanna, sem um ræðir, og hefur ekki sett fram nein viðmiðunarmörk um þau. Fyrir að fara offari í sinni stjórnsýslu gæti UST átt yfir höfði sér skaðabótakröfu.
Um þátt norsku ráðgjafanna, Multikonsult, segir í téðri frétt:
"Norðmennirnir séu ekki ósáttir við búnað verksmiðjunnar, en ýmislegt þurfi þó að laga [bendir til, að Multikonsult hafi ekki komið að hönnun verksmiðjunnar-innsk. BJo]. Tillögurnar lúti að því að fá meira jafnvægi og stöðugleika í rekstur ofnsins [aflstýringar viðfangsefni ?], en lyktin, sem frá verksmiðjunni berst og margir kvarta yfir, berst, þegar ofninn er undir ákveðnu álagi eða slokknar á honum."
Nokkru síðar í annars anzi loðmullulegri frétt, þar sem fulltrúar verksmiðjunnar fara, eins og venjulega, sem kettir í kringum heitan graut, kannski af því að þeir hafa ekki meira vit á ofnkerfinu en venjulegur húsköttur, kemur þó fram, að ófullburða hönnun, kannski hreint fúsk, er ásamt þekkingarleysi rekstraraðila (hvernig var háttað þjálfun þeirra ?)grunnorsök vandræða verksmiðjunnar:
"Menn frá framleiðanda ofnsins eru einnig hér á landi og vinna að endurbótum á búnaði, sem ekki hefur virkað sem skyldi, segir Kristleifur, sem tiltekur þar stillingar á tölvubúnaði [þetta orðalag er út í hött, því að vafalítið er um töluverðar hugbúnaðar breytingar að ræða-innsk. BJo]. Þá sé verið að skipta um ýmis tæki, sem ekki þyki starfa rétt [rangur búnaður valinn upphaflega-innsk. BJo]. Verða sérfræðingar þessir, svo og ráðgjafarnir norsku frá Multikonsult, á svæðinu, unz búið er að koma ofninum í stöðuga og eðlilega virkni."
Það er ógæfulegt að standa svona að málum, því að áreiðanlega munu koma upp óvæntir atburðir, eftir að búið verður að endurræsa ofninn, og þá verða útlendingarnir á bak og burt, og engin þekking fyrir hendi hérlendis á því, sem þeir gerðu, eða á þessu ofnkerfi. Það eru grundvallarmistök að tryggja ekki þekkingu í landinu á öllum tæknibúnaði, sem þar er í notkun. Vanir rekstrarmenn úr iðnaði gera ekki slík mislök. Vítin eru til að varast þau, og vona verður, að tæknileg stjórnun kísilvera, sem eru í bígerð, verði traustari en þetta, og blekbóndi hefur ástæðu til að ætla, að svo verði, a.m.k. hvað varðar PCC Bakka.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Umhverfismál, Tölvur og tækni | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.