"Costco-áhrifin"

Í viku 21/2017 hófst eldsneytissala og önnur vörusala Costco í Kauptúni, Garðabæ.  Blekbóndi telur hafa orðið vatnaskil í viðskiptasögu Íslands með þessum atburði.

Alla sína tíð hafa Íslendingar mátt búa við litla samkeppni söluaðila neyzluvarnings og fjárfestingarvara í landinu. Að sumu leyti hefur áhugaleysi birgja stafað af smæð markaðarins og ýmsum viðskiptahömlum, en kaupmáttur þessa markaðar hefur vaxið mikið og hömlum verið aflétt.  Afleiðingar takmarkaðrar samkeppni voru hátt vöruverð, lítið vöruúrval og oft takmörkuð gæði. Um þverbak keyrði í þessum efnum á einokunartímanum.  Samvinnuhreyfingin hélt um tíma uppi samkeppni við kaupmenn, en hún dó drottni sínum af innanmeinum, eins og kunnugt er. Kaupfélagshugsjónin stóðst innlenda framtaksmanninum ekki snúning, og danski kaupmaðurinn lagði upp laupana. 

Hingað hafa hvorki sótt erlendir bankar né neyzluvöruseljendur á smásölumarkaði fyrr en nú, að tuskusalar og hin alþjóðlega Costco-samsteypa opna hér útibú.  Hér hefur ríkt fákeppni og verðlag haldizt of hátt af þeim sökum. Til að neytendur hafi hag af markaðslögmálunum, verður að ríkja raunveruleg samkeppni, en ekki sýndarsamkeppni.   

Nú hillir undir raunverulega samkeppni á sviði neyzluvarnings og ýmissar fjárfestingarvöru heimilanna almenningi til hagsbóta, einnig þeim á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sem verzla annars staðar.  Skammtímaáhrifin eru minni ös á annatímum í "gömlu" verzlununum og lækkað vöruverð þar. 

Hvernig bregðast álitsgjafar við þessum tíðindum ?  Almennt er þessu framfaraskrefi fagnað, en þó heyrist fýlutónn úr herbúðum vinstri manna.  Þeir finna nýrri samkeppni allt til foráttu ?  Hvernig skyldi standa á því ?

Skýringarnar liggja grafnar djúpt í hugskoti vinstri mannsins.  Að vissu leyti er glæp auðvaldsins stolið frá honum.  Hatur vinstri manna á kaupmönnum hérlendis hefur lengi verið við lýði, og ekki dró úr því, þegar samvinnuhreyfingin varð undir í samkeppninni, nema á skagfirzka efnahagssvæðinu.  Hatrið hefur verið nært á meintu okri kaupmanna, sem neytendur geta nú sýnt vanþóknun sína á með fótunum.  Ánægjan með ríkjandi þjóðfélagsskipulag er líkleg til að vaxa við þessar aðstæður, og ekki mun uppdráttarsýki vinstri armsins dvína við það. 

Önnur hlið á fýlunni út í Costco er, að þar fer bandarísk verzlunarsamsteypa, jafnvel sú næststærsta þar í landi, og þar með telja kommar, að bandaríska auðvaldið hafi náð að læsa klóm sínum í íslenzka neytendur.  Það telur "Íslandskomminn" vera áfall fyrir vígstöðu sína.  "Íslandskomminn" hugsar sem svo, að nú muni bandaríska auðvaldið maka krókinn á íslenzkri alþýðu og flytja allan arðinn úr landi, sem sé alger frágangssök, og þess vegna beri að berjast gegn þessu fyrirbrigði með kjafti og klóm.  Vindmylluriddararnir láta ekki að sér hæða.

Þetta er sama vitleysan og haldið hefur verið fram gagnvart allri erlendri atvinnustarfsemi á Íslandi.  Það er horft framhjá meginatriði málsins, að hinir erlendu fjárfestar, í þessu tilviki Costco, hafa fjárfest talsvert, sumir mikið á íslenzkan mælikvarða, fjármagn kostar, og þess vegna eiga hinir erlendu fjárfestar rétt á að njóta arðs af fjárfestingum sínum.  Þeir greiða há opinber gjöld vegna fjárfestingarinnar og rekstrarins, og sömu sögu er að segja af starfsmönnum þeirra hérlendis, þótt í tilviki Costco muni vera margir Bretar a.m.k. fyrst um sinn.  Það léttir á þöndum atvinnumarkaði á Íslandi.  Nú reynir á utanríkisráðuneyti Íslands að gera vitrænan samning við brezku ríkisstjórnina um frelsin fjögur, sem taki við, þegar Bretar ganga úr Brüssel-hnappheldunni. 

Maður er nefndur Svavar Gestsson, lærisveinn Magnúsar Kjartanssonar ritstjóra Þjóðviljans og ráðherra, og hefur stundum verið kenndur við erlendan sparnaðarreikning hins fallna Landsbanka frá 2008, sem Svavar samdi um, að íslenzkir skattgreiðendur skyldu ábyrgjast greiðslur á.  Var sá gjörningur alveg dæmigerður fyrir dómgreindarleysi og getuleysi vinstri forkólfanna, þegar til stykkisins kemur.  Verður hann lengi í minnum hafður sem víti til varnaðar.  Er saga vinstri manna á Íslandi e.t.v. eitt samfleytt feigðarflan ?   

Líklega er téður Svavar eins konar Nestor vinstra liðsins á Íslandi, og af því má ráða, hvers konar lið þar er á ferðinni. Þar leiðir blindur haltan. Seint verður sagt, að sá söfnuður stigi í vitið.  Téður Svavar mun hafa tjáð sig með fýlufullum hætti um opnun Costco verzlunarinnar í Kauptúni.  Í ljósi skýringanna, sem hér hafa verið hafðar uppi um þessa fjandsamlegu afstöðu gegn hagsmunum almennings, þarf engan að undra, að hljóð komi úr þessari átt. Marxistum margra gerða er sama um hagsmuni alþýðunnar.  Það, sem skiptir þá máli, er, að marxistískt þjóðskipulag sé við lýði, með öðrum orðum ríkiseinokun.

Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, gat ekki dulið önuglyndi sitt og öfuguggahátt, þegar hún gaf eftirfarandi ritaða umsögn um opnun Costco:

"Vond áhrif á vöruverð, skipulag og samgönguhætti og mannlíf í byggð til lengri tíma, og það verður alltaf erfiðara og erfiðara að vinda ofan af henni." 

"Nomenklatúran" telur sem sagt samkeppni hafa vond áhrif á vöruverð.  Það er ágætt fyrir almenning að fá það á hreint, að ef fyrirtæki neyðast til að lækka vöruverð til að missa ekki alla viðskiptavinina til samkeppnisaðilanna, þá eru það "vond áhrif á vöruverð" að dómi ráðandi afla lengst til vinstri í stjórnmálunum.  Þetta mat hlýtur að stafa af því, að Sóley Tómasdóttir og skoðanasystkini hennar óttist, að einhverjir kaupahéðnar leggi upp laupana.  Það er hins vegar lögmál markaðarins, að hinir hæfustu lifa af.  "Nómenklatúran" vill auðvitað ráða því, hverjir lifa og hverjir ekki.  Fáir telja, að tilveran yrði betri, ef málum væri þannig fyrir komið. 

Sóley telur, að "skipulag og samgönguhættir" líði fyrir Costco.  Það fellur ekki að geðþótta hennar, að Costco sé í deiliskipulagi Garðabæjar (hafnaði ekki Sóley og skoðanasystkini hennar um umsókn Costco um lóð í Reykjavík á sínum tíma ?) og að fólk aki þangað á sínum einkabíl, birgi sig upp af vörum og fylli eldsneytistank einkabifreiðarinnar af benzíni eða dísilolíu í leiðinni, nú eða hlaði rafgeyma rafmagnsbílsins.  Þetta er ekki mögulegt í draumaheimi Sóleyjar, þar sem almenningssamgöngur eru alfa & omega. 

Það er ekki ljóst, hvers konar sveitarómantík býr að baki fortíðarþrá eftir "mannlífi í byggð".  Það er nokkuð ljóst, að sveitafólk, sem leið á "í bæinn", þ.e. Garðabæ, mun birgja sig upp, eins og það getur, og fara langt með að borga ferðakostnaðinn með þeim hætti.

Að lokum hugsar Sóley Tómasdóttir til byltingarinnar, sem á að koma höfðingjum vinstri manna, Marxistunum, til valda. Þeir munu þurfa að byrja á því "að vinda ofan af vitleysunni".  Þá munu þeir loka fyrirtækjum alþjóðlegs auðvalds og þjóðnýta önnur, reka almenning með harðri hendi upp í strætisvagna og einoka fjölmiðlana. 

Að verða vitni að Costco-áhrifunum á vinstri menn er jafngildi þess að líta ofan í ormagryfju.  Fólk, sem snýr öllu á haus, getur ekki gengið heilt til skógar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

ÞEIR sem ekki virða hag almennings eiga ekki að fara á þing,

Erla Magna Alexandersdóttir, 1.6.2017 kl. 18:46

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þau eru verri en boðflennur í veizlu. wink

Bjarni Jónsson, 1.6.2017 kl. 20:24

3 Smámynd: Hrossabrestur

Góður Bjarni, en það virðist hafa farið framhjá flestu þessu vinstra fýluliði viðtalið sem kom við Forstjóra Costco um það leiti sem innreið þess hingað var ákveðin, þá var hann spurður hvort Costco myndi ekki með tímanum aðlagast þessu vöruverði sem hér ríkti og kóa með hinum eins og aðrar verslanir sem hingað hafa komið, því svararði hann neitandi og máli sínu til stuðning benti hann á að Costco ættu engir fjárfestar heldur væri þetta félag í eigu þeirra sem væru skráðir í félagið og að sjálfsögðu væru það þeir sem nytu hagnaðarins af rekstrinum í hagstæaðara vöruverði. Ef kommunum líkar þetta ekki þá held ég að þeim muni einfaldlega aldrei líka neitt. það vantar svona samfélagslega miðaðan banka án hagnaðarsjónarmiða, það myndi hræra hraustlega upp í samfélaginu.

kv. Hrossabrestur. 

Hrossabrestur, 1.6.2017 kl. 20:57

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ef Costco er "no profit organisation", þá er þarna á verðinni "Coop organization" eða samvinnuhreyfing, en ég hef ekki séð samsteypuna kynnta sem slíka.  Þetta aðgangskort taldi ég vera ráð hennar til að auka trúnað viðskiptavina við verzlunina.  Ef þeir eru ekki komnir til að græða, þá er nú bleik brugðið.  Hins vegar er alveg fráleitt að ímynda sér, að þeir muni laga sig að verðlaginu, sem hér var.  Þeir slást nú fyrir umtalsverðri markaðshlutdeild á sviði eldsneytis, neyzluvara og fjárfestingarvara heimilanna (nema bíla) og til þess beita þeir verðstríði.  Costco fer vel af stað.  Fjöldi viðskiptavina gömlu verzlananna hefur fallið um sinn, og þær eiga ekki annarra úrkosta völ en að lækka sín verð.   

Bjarni Jónsson, 1.6.2017 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband