5.6.2017 | 07:38
Græddur er geymdur eyrir
Íslenzka krónan, ISK, hefur risið í áður óþekktar hæðir gagnvart Norðurlandamyntunum NOK og SEK og sterlingspundi, GBP, og er nálægt efri mörkum gagnvart evru, EUR, en gagnvart aðalviðskiptamynt okkar, bandaríkjadal, USD, var hún talsvert hærri á fyrsta áratugi 21. aldarinnar. Hvernig stendur á því, að verðgildi ISK hækkar langt umfram getu hagkerfisins núna til að rísa undir ?
Þrátt fyrir afnám fjármagnshafta heldur ISK áfram að styrkjast. Á einum mánuði, eftir að Seðlabankinn hætti að selja ISK og bæta við gjaldeyrisvarasjóðinn í vor, hafði hún hækkað um 7 % gagnvart USD, 5 % gagnvart GBP og rúmlega 4 % gagnvart EUR. Um miðjan maí 2017 hafði ISK hækkað á 12 mánuðum um 16 %-25 % gagnvart þessum gjaldmiðlum og 19 %-22 % gagnvart NOK og SEK. Hér er greinilega spákaupmennska markaðarins á ferð, því að til lengri tíma er gengið a.m.k. fimmtungi of hátt. Líklega er gengið í árslok 2015 nálægt efnahagslegu jafnvægisgengi og getu hagkerfisins.
Þetta hefur gríðarleg neikvæð áhrif á afkomu gjaldeyrisaflandi atvinnugreina, sem mynda undirstöðu efnahagskerfis landsins. Er því spáð, að framlegð, EBITDA, sjávarútvegsins verði að meðaltali aðeins 13 % af tekjum hans 2017, og eru minni fyrirtæki og einkum útgerðir án eigin fiskvinnslu enn ver stödd. Þetta er mikil lækkun framlegðar frá meðaltali undanfarinna 20 ára, sem var um 23 % af söluandvirði. Til að standa undir afborgunum og vöxtum lána, nýjum nauðsynlegum fjárfestingum, veiðigjöldum, hefðbundnum sköttum og arðgreiðslum, þarf EBITDA að vera a.m.k. 20 % í fjármagnsfrekri starfsemi á borð við sjávarútveg, svo að viðunandi rekstrarárangur geti talizt til lengdar.
Í ljósi þess, að tæplega fjórðungur sjávarútvegsfyrirtækja var með neikvætt eigið fé árið 2015, þ.e. átti ekki fyrir skuldum, þýðir stórminnkuð framlegð síðan þá, að óvenjumörg fyrirtæki munu óhjákvæmilega leggja upp laupana á næstunni og önnur verða að hagræða rekstrinum með róttækum hætti til að ná endum saman. Þetta jafngildir enn meiri samþjöppun í sjávarútvegi og fækkun starfsstöðva með þeim félagslegu afleiðingum, sem kunnar eru.
Þróun gjaldmiðils landsins undanfarin 2-3 ár, þ.e. árin 2015-2016, og það sem af er árinu 2017, knýr fram aukna framleiðni og breytingar á atvinnuháttum um allt land. Þetta er "hrossalækning", sem hefur í för með sér varanlega töpuð störf á einstaka stað, en víðast tímabundna erfiðleika, þar sem Byggðastofnun og aðrar atvinnugreinar geta linað sársaukann.
Við þessar aðstæður koma gallar veiðigjaldakerfisins berlega í ljós. Útreikningur á veiðigjöldum er reistur á afkomu útgerðanna fyrir 2-3 árum. Þetta er allt of mikil afturvirkni, sem ber að afnema. Nær er að miða við framlegð á síðasta almanaksári, og sé hún undir 20 %, falli veiðigjöldin niður á næsta almanaksári. Jafnframt þarf að vera þak á veiðigjöldum í góðu árferði, t.d. 5 % af framlegð fyrirtækis á síðasta almanaksári, svo að ekki sé farið offari við þessa gjaldtöku af afnotum náttúruauðlindar. Það er reyndar brýnt réttlætismál að jafna aðstöðu á milli atvinnugreina með því að taka upp samræmt mat á verðmætum náttúruauðlinda og gjaldtöku af nýtingu slíkra, sem falla utan einkaeignarréttar. Á þetta hefur margfaldlega verið bent á á þessu vefsetri.
Stóriðjan aflar nokkru minni gjaldeyris en sjávarútvegurinn, og samtals afla þessar tvær greinar minni gjaldeyris en ferðaþjónustan. Vegna mikilla launahækkana eða um 30 % á undanförnum 2-3 árum, berst nú sá umtalsverði hluti iðnaðarins í bökkum, þar sem starfsmannakostnaður er hátt hlutfall, t.d. yfir 40 %, heildarkostnaðar. Í stóriðjunni er þetta hlutfall þó mun lægra, og þar eru aðalkostnaðarliðirnir, hráefni og orka, greidd í erlendum gjaldeyri, oftast USD, og tekjurnar eru í sömu mynt. Stóriðjan er þess vegna að nokkru leyti varin gegn gengisáhrifum ISK, en sömu sögu er engan veginn að segja um aðra þætti iðnaðarins, sem nú afla um miaISK 100 í erlendum gjaldeyri.
Ferðaþjónustan hefur fjárfest talsvert á undanförnum árum og er þess vegna skuldug. Hún er mannaflsfrek og framlegð hennar er tiltölulega mjög lág við þessar aðstæður. Hún hefur sennilega flotið á bættri nýtingu fjárfestingar ár frá ári og e.t.v. bættri framleiðni vegna gríðarlegrar aukningar á fjölda erlendra ferðamanna. Framleiðnin er hins vegar lág, og m.a. þess vegna eru meðallaun tiltölulega lág í þessari starfsgrein.
Fjölgun ferðamanna verður þó senn að dvína, því að álagsþol norðlægrar náttúru er takmarkað, og landið var óviðbúið hinum mikla flaumi. Bætt dreifing ferðamanna um landið, t.d. með innanlandsflugi, er lykilatriði til að forðast ofálag á vinsælustu stöðunum. Samkvæmt markaðslögmálunum hlýtur aukningin senn að færast niður að heimsmeðaltali árlegrar aukningar ferðamannafjölda, sem mun vera 5 %-10 %.
Seðlabankinn leikur stórt hlutverk í afkomu allra atvinnugreina á Íslandi og þar með allra fjölskyldna. Honum ber að framfylgja peningamálastefnu, sem heldur verðbólgu við 2,5 % +/- 1,5 %, þ.e. 1,0 % - 4,0 % verðvísitöluhækkun á ári. Sé vísitölu húsnæðisverðs haldið utan við (auk flestra sparenda og lántakenda mæðir hún aðallega á þeim, sem eru að festa kaup á húsnæði í fyrsta sinn), er í raun verðhjöðnun á Íslandi.
Um 40 mánaða skeið hefur heildarhækkun verðvísitölu (með húsnæðisliðnum) verið undir verðbólguviðmiði Seðlabankans, og undanfarna 12 mánuði hefur verðvísitala án húsnæðis lækkað um 1,8 %, en með húsnæði nemur hækkunin 1,9 %. Miðað við væntingar skuldabréfamarkaðarins mun þessi hækkun verða á bilinu 2,2 % - 2,5 % á ári að meðaltali næstu 5-10 árin. Samkvæmt verðmælingum í maí 2017 hefur hert á téðri verðhjöðnun, t.d. vegna vaxandi samkeppni á smásölumarkaði. Þótt spenna sé enn vaxandi á húsnæðismarkaði, er samt mikið af húsnæði í byggingu (þó ekki nóg og ekki af réttri stærð og kostnaði), og vonir standa til, að aukið framboð valdi minnkandi spennu þar eftir árið 2018, en þá þurfa að koma 9000 íbúðir inn á markaðinn á árabilinu 2017-2019.
Væntingar skuldabréfamarkaðar eru jafnan í hærri kantinum. Það verður ekki betur séð en Peningastefnunefnd hafi algerlega brugðizt bogalistin við að framfylgja peningastefnunni, sem er verðbólga sem næst 2,5 %/ár, því að hún heldur vöxtunum nú aðeins 0,5 % undir vaxtastiginu, sem var 2014, þegar verðbólgan fór undir verðbólguviðmið bankans eftir langa mæðu.
Munur á raunvöxtum hér og í nágrannalöndunum hefur líklega aldrei verið hærri en núna. Þetta veldur því, að fjárfestar hérlendis á borð við lífeyrissjóðina eru tregir til að selja ISK og fjárfesta erlendis, og hingað leitar fé erlendis frá til að nýta vaxtamuninn. Fjárfestarnir gera greinilega út á hækkandi gengi ISK. Þetta þrýstir genginu enn upp á við og getur verið skýringin á metháu og óeðlilega háu gengi ISK núna. Peningastefnunefnd Seðlabankans þiggur stefnuna frá Alþingi, en henni hafa verið hrapallega mislagðar hendur við að nýta tæki og tól bankans til að framfylgja þeirri stefnu með þeim afleiðingum, að skapazt hefur mikið ójafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem ógnar tilveru fjölda fyrirtækja og lífsafkomu fólks um allt land. Við svo búið má ekki standa, og það er Alþingis að grípa í taumana að frumkvæði fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra.
Valdimar Ármann, forstjóri Gamma, birti skýra greiningu sína á vandanum í Morgunblaðinu, 6. maí 2017,
"Tími til að leyfa Íslandi að njóta velgengninnar":
"Mikil fjölgun ferðamanna á Íslandi á stuttum tíma hefur valdið ýmiss konar ójafnvægi, enda ekki óeðlilegt, að það taki hagkerfið nokkur ár að aðlaga sig viðlíka breytingu, eins og átt hefur sér stað hér á landi. Auðséð er, að slík gjörbylting á hagkerfinu hlýtur að skila sér í mikilli breytingu í peningamála- og efnahagsstjórnun [leturbr. BJo].
Háum vöxtum verður ekki beitt til að stöðva umsvifin í hagkerfinu, sem eru drifin áfram af stórauknum komum erlendra ferðamanna til landsins. Háum vöxtum verður ekki beitt til þess að lækka fasteignaverð, sem að hluta til er drifið af því að hýsa þarf ferðamennina, sem hingað koma (svo að ekki sé minnzt á aukningu erlends vinnuafls), en talið er, að um 3000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu séu í leigu til ferðamanna einhvern hluta úr ári, sem eru nærri 4 % íbúða á öllu höfuðborgarsvæðinu.
Ekki þarf að beita háum vöxtum til að viðhalda vaxtamun til að laða gjaldeyri til landsins, þar sem óskuldsettur gjaldeyrisforði er fyrir hendi, viðskiptajöfnuður jákvæður ásamt jákvæðri erlendri stöðu þjóðarbúsins."
Ef þessi greining Valdimars Ármanns á nýju hagkerfi Íslands er rétt, sem ástæða er til að halda, þá stendur Peningastefnunefnd uppi sem steintröll, sem dagaði uppi, af því að hún einblíndi í baksýnisspegilinn, en horfði hvorki fram á veg né gerði hún sér far um að greina stöðuna, sem hagkerfið er nú í, og gera síðan viðeigandi ráðstafanir í peningamálum, sem henni ber lögum samkvæmt. Peningastefnunefnd hefur ekki reynzt vandanum vaxin, og þess vegna er ISK í methæðum, útflutningsatvinnuvegunum og þar með fjölda manns til stórtjóns.
Valdimar Ármann endar grein sína með ádrepu á núverandi stjórn Seðlabankans:
"Undanfarin ár hefur kaupmáttur hækkað myndarlega, og áfram er útlit fyrir umtalsverða samkeppni í smásöluverzlun, sem litast af innkomu erlendra aðila sem og aukinni verzlun á netinu. Þá hefur vöruverð lækkað bæði vegna hagræðingar og gengisstyrkingar, en einnig vegna lægri skatta í formi afnuminna vörugjalda og tolla og lækkunar á virðisaukaskatti [Þessar lækkanir innflutningsgjalda eiga mikinn þátt í komu Costco til landsins og þar með hertri samkeppni í verzlun - innsk. BJo]. En nú er kominn tími til þess, að Seðlabanki Íslands leyfi íslenzkum almenningi og fyrirtækjum að njóta góðs af velgengni landsins með því að lækka hér vaxtastig og létta þannig á heimilum landsins og auka samkepnishæfnina."
Í bankaráði Seðlabanka Íslands sitja 7 manns. Þann 25. apríl 2017 kaus Alþingi eftirfarandi í ráðið: Sigurður Kári Kristjánsson, Sveinn Agnarsson, Þór Saari og Frosti Sigurjónsson. Nýir vendir sópa bezt. Áfram sitja: Þórunn Guðmundsdóttir, Auður Hermannsdóttir og Björn Valur Gíslason.
Hagstjórnarmistök Peningastefnunefndar, sem að miklu leyti er skipuð æðstu stjórn bankans, eru svo alvarlegs eðlis, að bankaráðið getur ekki látið kyrrt liggja. Verður ekki öðru trúað en senn dragi til tíðinda undir Svörtuloftum, því að engir aukvisar hafa þau hingað til verið talin, sem nú skipa bankaráðið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þvert á það sem menn ætluðu þá flæddu peningar ekki út úr hagkerfinu við losun hafta, að hluta til vegna skilyrða seðlabankans og að hluta til vegna þess að það er freistandi að fjárfesta hér nú. Nú eru krónubréfaeigendur, vogunarsjóðir og minni banksterar á fullu við að kaupa upp fyrirtæki, laxár og landnæði fyrir aurinn. Þetta er tvíeggjað sverð og engar hömlur á þessu. Með sama áframhaldi verðum við kannski leiguliðar í eigin landi rétt eins og nýr lénstími fari í hönd. Það Þarf ekki annað en að líta á húsnæðismarkaðinn þar sem í krafti stöðu sinnar og með dyggri hjálp lifeyrisjóða þessir aðilar hafa tekið yfir þann markað og búið skortstöðu þar sem þeir hafa tögl og hagldir.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.6.2017 kl. 17:24
Hækkandi ISK er líka hvati fyrir lífeyrissjóðina til að bíða með fjárfestingar erlendis. Samt er nú vaxandi hagvöxtur á meginlandi Evrópu eftir langa mæðu stöðnunar, svo að skilyrði fyrir fjárfestingar þar hafa batnað. Það ber allt að sama brunni með of hátt gengi ISK. Þann vítahring verður að rjúfa, og það ætti að vera verkefni þeirra undir Svörtuloftum, aðallega.
Varðandi lax og landnæði hefur mest borið á brezkum iðnjöfri á Norð-Austurlandi, sem kaupir land með veiðihlunnindum og vill efla laxgengd í árnar. Þar er veiðinni oftast sleppt, þótt það kunni að orka tvímælis út frá dýraverndarsjónarmiði.
Staðan á húsnæðismarkaði er óþolandi, enda farin að lykta af mafíósum, eins og þú gefur í skyn. Okrið verður að brjóta á bak aftur með miklu framboði lóða og húsnæðis. Til þess þarf stjórnmálamenn á sveitarstjórnarstigi með bein í nefinu.
Bjarni Jónsson, 5.6.2017 kl. 20:28
Það þarf bara að setja þak á það hvað einstaklingar og félög geta átt af íbúðarhúsnæði. Einnig hafa tengslanet félaga í huga þar.
Fleiri lóðir þýðir bara að þeir hinir sömu munu gófla það upp líka ef menn draga ekki línu í sandinn.
Það er víðar sem verið er að kaupa upp ár og laxveiði en þú telur til. Það er bara ekkert fjallað um það. Heilu dalirnir eru nú í eigu erlendra spekúlanta. Danir settu stopp á þetta þótt þeir séu í esb. Við getum það líka, en menn kjósa hér að eyða tímanum sínum í smámál sem engu skipta eins og ráðningu einhverra dómara. Brenna upp í möðursýkisupphlaupum yfir engu á facebook á meðan hákarlar naga undan þeim lappirnar.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.6.2017 kl. 21:21
Fákeppni er alls staðar til bölvunar, einnig á húsnæðismarkaði. Er Samkeppnisstofnun sofandi á verðinum ? Ég er sammála; það er eðlilegt að reisa skorður við of stórri markaðshlutdeild á húsnæðismarkaði. Þar gætu 10 % verið algert hámark að meðtöldum tengdum félögum.
Bændum fækkar með vaxandi framleiðni. Þeir, sem vilja hætta, hafa átt í vandræðum með að fá viðunandi verð fyrir jörðina, þangað til eftirspurnin jókst frá útlendingum. Enn er í gildi sú regla, viti ég rétt, að viðkomandi sveitarfélag hefur forkaupsrétt að jörð í sölu. Ef spurn eftir jörðum til búskapar eykst skyndilega í framtíðinni, standa menn frammi fyrir vandamáli með heilu dalina "í eigu erlendra spekúlanta", sem ég þó kann ekki deili á.
Bjarni Jónsson, 6.6.2017 kl. 09:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.