16.6.2017 | 15:02
Stjórnarandstaða í ruslflokki
Stjórnarandstaðan á Íslandi hefur engan annan valkost við ríkisstjórnina fram að færa en stórhækkaða skattbyrði á miðstéttina, útþenslu ríkisbáknsins með hallarekstri, verðbólgu og vinnudeilum sem afleiðingu.
Nú síðast hafa talsmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Katrín Jakobsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir o.fl., tekið að fjargviðrast út af sýnilegum viðbúnaði lögreglunnar á mannamótum í Reykjavík gegn illvirkjum. Er svo að skilja af málflutninginum, að slík návist lögreglunnar sé viðstöddum hættuleg; hún dragi að illvirkja.
Hér er svo nýstárlegur málflutningur á ferð, að nauðsynlegt er að deila þessari speki með lögregluyfirvöldum í öðrum löndum, sem tekin eru upp á þessu sama í kjölfar viðbjóðslegra hryðjuverka Múhameðstrúarmanna á Vesturlöndum, sem standa nú í forneskjulegu "heilögu stríði", Jihad, gegn Vesturlöndum og þeirri menningu, sem þau standa fyrir.
Hér er á ferðinni eitt dæmið af mörgum um glópsku fólksins í stjórnarandstöðunni. Þau hafa löngum haldið því fram, að vörnum landsins yrði bezt fyrir komið án hervarna og án aðildar að NATO. Nú halda þau því með sama hætti fram, að hættulegt sé að hafa í frammi sýnilegar varnir og viðbúnað gegn hryðjuverki. Vinstri menn eru öfugmælaskáld okkar tíma, og enginn kemst með tærnar, þar sem þeir hafa hælana í fíflaganginum. Eru vinstri menn margir hverjir hérlendir sennilega lengst til vinstri í vinstra litrófinu á Vesturlöndum og svipar til "Die Linke" í Þýzkalandi, sem eru arftakar SED, "Sozialistische Einheitspartei Deutschlands", sem fór með alræðisvald í DDR á sinni tíð. Er það ekki leiðum að líkjast, eða hitt þó heldur.
Kári er maður nefndur, Stefánsson, kenndur við Erfðagreiningu, sonur Stefáns Jónssonar, frábærs fréttamanns og liðtæks penna, fyrrverandi þingmanns Alþýðubandalagsins, sem var arftaki Kommúnistaflokks Íslands á sinni tíð. Þrátt fyrir að vera framtaksmaður virðist Kári, þessi, vera býsna langt til vinstri í ýmsum skoðunum, en það aftrar honum þó ekki frá því að gefa núverandi stjórnarandstöðu á Íslandi falleinkunn fyrir ferlega frammistöðu. Hann líkir henni við sveitahund, sem beit í álfótlegg föður hans forðum og vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið. Kári ritaði um þetta óvenju skemmtilega grein í Fréttablaðið 6. júní 2017,
"Heppin þjóð":
"Og ég prísa okkur samt sæl, þótt undarlegt megi virðast. Þegar bölvunin verður blessun, sem gerist af og til [danskt orðalag-innsk. BJo], minnir það mig gjarnan á sögu, sem ég hef oft sagt af því, þegar faðir minn sté út úr bíl við bæ í Suðursveit, og hundur rauk á hann og beit hann í hægri fótlegginn. Faðir minn var einfættur og með gervifótlegg úr áli hægra megin, þannig að hundgreyið fékk taugaáfall og þaut ýlfrandi frá bænum, niður brekkuna, fyrir fjóshorn og sást ekki aftur í nokkra daga. En faðir minn leit á mig og sagði brosandi út undir eyru: "þarna sérðu, strákur, það er ekki alltaf vont að hafa glatað fæti".
Stjórnarandstaðan á Þingi er sá hundur, sem hefur sannfært mig um, að núverandi ríkisstjórn sé ekki það versta, sem hefði getað komið fyrir okkur. Stjórnarandstaðan er gagnslaus, hugmyndasnauð og málstola. Hvar eru tillögur stjórnarandstöðunnar um endurreisn heilbrigðiskerfisins, til minnkunar á muninum á þeim, sem eiga og eiga ekki, að heilbrigðu bankakerfi og til þess að takast á við árekstra hagsmuna samfélagsins og hagsmuna þeirra, sem samfélagið hefur kosið til þess að stjórna sér ? Hvar er stjórnarandstaðan ? Skyldi hún halda, að hún sé að ferja okkur inn í betri heim og að leiðin liggi í gegnum Vaðlaheiðargöngin ? Það er eins gott fyrir hana að gera sér grein fyrir því, að í þá ferð fer hún ein. Það fylgir henni enginn.
Að lokum ráð til lesandans: þegar þú fyllist örvæntingu út af vesöld ríkisstjórnarinnar, mundu, að þetta hefði gerað verið verra. Við hefðum getað endað með núverandi stjórnarandstöðu í ríkisstjórn, og það er staðreynd, að þótt ríkisstjórnin sé býsna slöpp, er stjórnarandstaðan líklega verri. Þar af leiðandi eigum við kannski að prísa okkur sæl fyrir þann gervifót, sem ríkisstjórnin er, þótt það þýði, að við verðum ein og óstudd að sjá um að veita henni aðhald. Stjórnarandstaðan á Þingi leggur þar næstum ekkert af mörkum."
Hér tekur framtaksmaður af eðalkommaætt stjórnarandstöðuna á kné sér og lætur hana hafa það óþvegið að hætti hússins. Hér er enginn aukvisi á ferð og augljóst, að getuleysi, flumbrugangur, kjaftavaðall og rangar áherzlur stjórnarandstöðunnar hafa gengið svo fram af vinstri manninum, að hann sér þann kost vænstan að stofna nýjan stjórnmálaflokk, "Kárínurnar", til að freista þess að berjast fyrir hugðarefnum sínum á Alþingi, þar sem þar sé enginn, sem talar máli hans. Þetta eru nokkur tíðindi ofan á "ekki-fréttina" af stofnun Sósíalistaflokks Íslands. Skyldu ekki vinstri menn fyllast valkvíða, þegar þeir ganga að kjörborðinu næst ? Kannski þeir gefist þá upp á að gera upp á milli fulltrúa hins eina sannleika og kjósi bara Píratana, sem hvarvetna annars staðar eru að hverfa af vettvangi stjórnmálanna.
Hvernig svara stjórnmálaflokkarnir kalli framtíðarinnar ? Hvað bíður okkar í framtíðinni ? Um það skrifaði Þorkell Sigurlaugsson, viðskiptafræðingur og formaður menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins, áhugaverða grein í Viðskiptablaðið 8. júní 2017,
"Er erfitt að spá fyrir um framtíðina ?:
"Ferðaþjónustan er gott dæmi um undirbúningsleysi stjórnvalda, en fiskveiðistjórnun og stýring á því sviði er að flestu leyti til fyrirmyndar. Stefnumörkun, t.d. í atvinnumálum, menntamálum og á öðrum sviðum, þarf að vera mun skýrari og byggja á meira samstarfi stjórnvalda og atvinnufyrirtækja."
Er stjórnarandstaðan líkleg til afreka á þessu sviði ? Hún vill rífa niður fiskveiðistjórnunarkerfið. Afstaða hennar til atvinnulífsins er bæði einhæf og neikvæð, enda reist á skilningsleysi á þörfum þess og getu. Stjórnarandstaðan lítur á atvinnulífið sem skattstofn, og er sjávarútvegurinn gott dæmi um það, en hún hefur lýst fyrirætlunum sínum um stórfellt aukna skattheimtu af honum til að fjármagna aukin ríkisumsvif. Við núverandi aðstæður mundi slíkt hafa hrun hinna minni fyrirtækja vítt og breitt um landið í för með sér, sem oft eru reist á dugnaði eins framtaksmanns eða framtakshjóna.
"Þetta [ný iðnbylting] kallar á nýja hugsun, alveg eins og rafmagnið umbreytti þjóðfélaginu. Við hættum fyrir löngu að tala um rafmagnið og mikilvægi þess. Það er orðið sjálfsagður hlutur, og allt okkar líf og starf byggist á því. Sama gildir um Internetið, það er orðið 40 ára gamalt. Við tölum um það með öðrum hætti en áður, og það er orðið sjálfsagt til samskipta og viðskipta. Nýting Internetsins, þráðlausra og stafrænna lausna og nýting gervigreindar, er rétt að byrja."
Það er ekki ríkisvaldið, heldur einkaframtakið, stórfyrirtæki, framtaksmenn og frumkvöðlar, sem eru í fararbroddi þessarar þróunar. Stjórnarandstaðan vill bara skattleggja einkaframtakið undir drep og þenja út ríkisbáknið. Þar með kæfir hún þróun og frumkvöðlastarfsemi hérlendis og veldur atgervisflótta og flótta verðmætra starfa til útlanda. Stefna íslenzku stjórnarandstöðunnar er í þágu nýrra starfa á erlendri grundu.
"Við verðum að taka þátt í þessari 4. iðnbyltingu, því að lífskjör Íslendinga, lífsgæði og lífsgleði, munu ráðast af því, hvernig til tekst. Verðmætasköpun mun í vaxandi mæli byggja á hugviti, sköpun og þekkingu til að auka framleiðni og verðmætasköpun. Þekkingin getur auðveldlega flutzt af landi brott, ef við sköpum ekki tækifæri hér á landi. Hún verður ekki í höftum eða bundin við Ísland, eins og fasteignir, fiskveiðikvóti eða aðrar náttúruauðlindir. Auk innlendrar þekkingar verður að laða til landsins erlenda þekkingu, erlenda nemendur og erlent vinnuafl á sviði þekkingarsköpunar, en ekki eingöngu láglaunastarfa."
Tæknibyltingin, sem Þorkell Sigurlaugsson lýsir hér, verður reist á tækniþekkingu einstaklinga, frumkvöðlum og einkaframtaksmönnum, en ekki á frumkvæði að hálfu ríkisvaldsins. Hlutverk stjórnmálamanna í þessari þróun er að skapa hagstæða efnahagslega umgjörð um þessa starfsemi, sem flyzt óhjákvæmilega þangað, sem starfsskilyrðin eru bezt, eins og Þorkell bendir á. Stjórnarandstaðan hefur margsýnt það, þegar hluti hennar hefur verið við völd og með málflutningi sínum á síðasta og núverandi kjörtímabili, að hún hefur engan skilning á þörfum framtaksmanna, og hún hefur þannig dæmt sig úr leik sem valkostur til að leiða þjóðina inn í framtíðina, enda getur hún ekki haft augun af baksýnisspeglinum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kjaramál, Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.