18.7.2017 | 10:59
Of háreistar hugmyndir
Velgengni fiskeldis hér við land og á landi er fagnaðarefni. Á tækni- og rekstrarsviði starfseminnar má þakka velgengnina beinni norskri fjárfestingu í 4 fyrirtækjanna, sem hefur gert þeim kleift að fjárfesta fyrir um 10 miaISK/ár að undanförnu, og á næstu árum er búizt við fjárfestingu í fiskeldi um 5 miaISK/ár Nánast allt er þetta bein norsk fjárfesting, sem eflir íslenzka hagkerfið.
Nemur hinn norski eignarhlutur á bilinu 34 %-60 % í þessum fyrirtækjum. Framlegð fyrirtækjanna hefur jafnframt verið góð eða yfir 20 % af söluandvirði afurðanna. Há framlegð helgast af skorti á heimsmarkaði fyrir lax vegna framboðsbrests um 7 % af völdum fiskisjúkdóma, m.a. í Noregi. Markaðsáhrifin hafa orðið 50 % hækkun á laxi upp í um 1000 ISK/kg, sem tæpast verður þó varanleg.
Það er engum blöðum að fletta um byggðalegt mikilvægi fiskeldisins, þar sem það er stundað, enda hefur það sums staðar snúið fólksfækkun upp í fólksfjölgun, og sömuleiðis um þjóðhagslegt mikilvægi þess. Um þessar mundir er hallinn mjög mikill á vöruviðskiptum við útlönd eða um 150 miaISK/ár. Hluti af þessu er vegna fjárfestinga, en megnið eru neyzlu- og rekstrarvörur. Þetta gengur ekki til frambúðar og brýn þörf á að auka tekjur af vöruútflutningi, því að endi þetta með halla á viðskiptajöfnuði (þjónustujöfnuður (ferðamennskan) meðtalin), eins og stefnir í nú, þá hefst skuldasöfnun við útlönd og ISK hrynur.
Ef laxeldið fær að tífaldast m.v. núverandi framleiðslu og vaxa upp í 100 kt/ár, munu gjaldeyristekjur aukast um 90 miaISK/ár m.v. núverandi verðlag á laxi, en á móti kemur innflutningskostnaður aðfanga. Þar vegur fóðrið mest, og það er óskandi, að innlend hlutdeild í fóðrinu margfaldist, t.d. með framleiðslu repjumjöls og sérverkaðs fiskimjöls fyrir laxinn.
Það þarf greinilega mun meiri viðbót við vöruútflutninginn en laxeldið, og þar mun væntanlegur kísilútflutningur vega þungt, en starfsemi eins kísilframleiðandans af 4, sem orðaðir hafa verið við þessa starfsemi hérlendis, PCC á Bakka við Húsavík, mun hefjast í desember 2017, ef áætlanir ganga eftir.
Þótt mikil þörf sé á auknum gjaldeyri inn í landið á næstu árum, þá ber að gjalda varhug við stórkarlalegum hugmyndum um vaxtarhraða og lokaumfang laxeldis í sjókvíum við Ísland. Þessir villtu draumar komu fram í viðtali við Knut Erik Lövstad hjá Beringer Finance í sjávarútvegsblaði Morgunblaðsins 6. júlí 2017:
""Eldisfyrirtækin hafa fengið leyfi fyrir framleiðslu á 40 kt/ár af laxi, og þau hafa lagt inn umsóknir fyrir 130 kt/ár [til viðbótar]. Ef umsóknirnar verða samþykktar, gæti framleiðslan orðið 170 kt/ár", segir hann."
Það er ljóst, að Lövstad býst við mjög örum vexti, því að hann nefnir tvöföldun árið 2018 upp í 21 kt, og að árið 2020 muni hún verða 66 kt, þ.e. meira en sexföldun á þremur árum. Þetta jafngildir árlegum meðalvexti um 87 %. Ef sá vöxtur héldi áfram upp í 170 kt/ár, næðist sú framleiðsla árið 2022. Hér er allt of geist farið og öllu nær að reikna með, að árið 2022 hafi framleiðslan náð 60 kt/ár, verði um miðbik næsta áratugar 75 kt/ár og nálgist e.t.v. 100 kt/ár undir 2030 í sjókvíum, en þá því aðeins, að reynslan gefi tilefni til 30 kt/ár aukningar á starfsleyfum m.v. frumráðleggingu Hafrannsóknarstofnunar.
Rökin fyrir þessum varúðarsjónarmiðum eru í fyrsta lagi umhverfisverndarlegs eðlis, og í öðru lagi þurfa innviðir þessarar atvinnugreinar tíma til að þroskast og laga sig að þörfum greinarinnar.
Það er enn ekki komin nein teljandi reynsla af hinni nýju tækni fiskeldisfyrirtækjanna, þ.á.m. nýrri hönnun eldiskvíanna. Við þurfum haldfastar tölur um stroktíðnina úr hinum nýju eldiskerum til að unnt sé að leggja mat á, hversu marga fiska má leyfa í hverjum firði Vestfjarða og Austfjarða auk Eyjafjarðar. Slík reynsla fæst tæpast fyrr en árið 2022, og þangað til er ekki ráðlegt að leyfa yfir 50 kt/ár á Vestfjörðum og 20 kt/ár á Austfjörðum, alls 70 kt/ár samkvæmt frumáhættumati Hafró. Þetta frummat vísindamanna stofnunarinnar kemur blekbónda ekki mikið á óvart, þótt talan fyrir Austfirði virki nokkuð lág.
Ef fyrirtækin vilja meira, eiga þau kost á að fara út í laxeldi í landkerum og losna þannig við áhættu stroks og lúsar, en á móti kemur aukinn orkukostnaður vegna nýtingar hitaveitu til upphitunar á sjó, sem getur gefið meiri vaxtarhraða en í sjó. Þá þarf öflugt hreinsikerfi. Rafmagnskostnaður er einnig meiri vegna dælingar, en þetta virðist samt álitlegur kostur, þegar skortur er á laxi á markaðina.
Það er mikil verðmætasköpun per tonn í laxeldi um þessar mundir, jafnvel meiri en í íslenzka sjávarútveginum, sem á þó heimsmet í verðmætasköpun sjávarútvegs. Þannig segir Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, að samkvæmt mati Norðmanna skapi hvert ársverk í laxeldi MNOK 2,7 eða um MISK 33. Þá hafi fjöldi ársverka í greininni í Noregi árið 2014 við eldi, slátrun, vinnslu og markaðssetningu verið 9´500, og afleidd störf hafi þá reynzt vera 19´000, eða tvö fyrir hvert beint starf, svo að heildarfjöldi ársverka var 28´500.
Þar sem Norðmenn framleiddu um 1,3 Mt árið 2014 af laxi í sjóeldiskvíum við Noreg, þýðir þetta, að framleiðsla á 1,0 kt útheimtir 22 ársverk (mannár). Þetta þýðir, að til að framleiða 40 kt/ár, sem ætla má, að verði raunin hér árið 2020, þarf tæplega 900 ársverk, þar af tæplega 300 bein störf. Allir sjá, hvílíkur búhnykkur hér er á ferðinni.
Hins vegar sér prófessor Daði Már ástæðu, eins og blekbóndi, til að slá varnagla við vaxtarhugmyndum, sem uppi eru:
""Þetta er lyftistöng fyrir þessi samfélög [fiskeldis]. Og það er í sjálfu sér ástæða til að vera jákvæður gagnvart fiskeldi sem grundvallar atvinnugrein á Íslandi, eins og annars staðar."
Hins vegar þurfi fiskeldismenn og stjórnvöld að stíga varlega til jarðar. Ýmis þjóðhagslegur kostnaður fylgi atvinnugreininni.
"Umhverfisáhrifin af fiskeldi eru umtalsverð. Þau eru mjög vandlega staðfest í nágrannalöndunum, og það er einnig vandlega staðfest, að þeir, sem hafa slakað verulega á kröfum í umhverfismálum, hafa iðulega séð eftir því til lengri tíma litið. Við ættum að láta það verða lexíu fyrir okkur.""
Það er ekki sanngjarnt að velta laxeldisfyrirtækjum á Íslandi upp úr mengunarsögu laxeldisfyrirtækja í öðrum löndum. Það er vegna þess, að íslenzku fyrirtækin hafa lært af áföllum annars staðar og innleitt nýjustu tækni og aðferðir við eldið. Þar má nefna traustari sjóeldiskvíar, myndavélavætt eftirlit í kringum þær og með fóðruninni, svo að hún er stöðvuð, þegar græðgin minnkar í fiskinum. Þá ætla fiskeldisfyrirtækin hér að hvíla eldissvæðin í eitt ár af þremur til að leyfa svæðinu að hreinsast. Allt er þetta til fyrirmyndar. Stroktíðnin er lykilstærð fyrir ákvörðun um hámark starfsleyfa. Enn tröllríður húsum sú úrelta stroktíðni, að einn lax sleppi upp í árnar úr hverju tonni í sjóeldiskvíum. Hafi einhvern tímann verið eitthvað hæft í því hlutfalli, er alveg víst, að það á ekki við laxeldi við strendur Íslands nú, enda mundi það jafngilda stroklíkindum 0,5 %/ár=5000 ppm, en fyrir nokkrum árum voru stroklíkindi í sjókvíaeldi við Noreg 20 ppm. Nýjar rauntölur vantar, en ef vel á að vera, þurfa þessi líkindi við Íslandsstrendur að minnka um eina stærðargráðu og verða 2 ppm. Það mundi þýða, að með 70 kt í sjóeldiskvíum, mundu 70 laxar sleppa á ári upp í árnar. Það gæti numið 1 % af íslenzku hrygningarstofnunum í ánum, sem falla í firði, þar sem sjókvíaeldi er leyft. Erfðafræðingar þurfa að meta hættuna á úrkynjun íslenzku laxastofnana við þessar aðstæður, en ágizkun leikmanns er, að hún sé hverfandi.
Niðurstaðan er þessi: Fiskeldið, einkum laxeldið, er hvalreki fyrir byggðir Vestfjarða og Austfjarða, sem staðið hafa höllum fæti. Mikil verðmætasköpun á sér stað, og 2 óbein störf fylgja hverju starfi beint við eldið.
Stefnumörkun skortir að hálfu stjórnvalda um útreikning og töku sanngjarns auðlindagjalds af greininni og um vaxtarhraða hennar. Stjórnvöld verða að leyfa henni að ná lágmarks hagkvæmni stærðarinnar sem fyrst, t.d. árið 2022, s.s. 60 kt/ár til slátrunar, en eftir það ber að hægja á framleiðsluaukningu á meðan frekari reynslu af starfseminni er safnað. Ólíklegt er, að verjandi þyki nokkurn tíma að taka áhættu af meira en 100 kt/ár sjókvíaeldi, en fyrirtækin gætu aftur á móti fljótlega fært út kvíarnar með verulegu eldi í landkerum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Umhverfismál, Viðskipti og fjármál, Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.