Lýðheilsu á hærri stall

Það varð lýðum ljóst, er loks fréttist af bilun í skolphreinsistöð þremur vikum eftir að farið var að hleypa óhreinsuðu klóaki út um neyðarlúgu stöðvar OR/Veitna við Faxaskjól, að sumir stjórnmálamenn og embættismenn láta sér í léttu rúmi liggja, þótt kólíbakteríur og saurgerlar séu vikum saman í margföldum leyfilegum styrk m.v. heilsuverndarmörk úti fyrir strönd, sem er vinsælt útivistarsvæði og sjóbaðstaður, Nauthólsvík.  Framferði OR/Veitna var tillitslaust við íbúana, sem syntu í sjónum og stunduðu fjöruferðir í góðri trú um, að hreinsikerfið væri fullnægjandi, enda hefur stjórn OR nú beðið fólk afsökunar fyrir sína hönd og hlutaðeigandi starfsmanna.  

Af þessu má þó ráða, að lýðheilsa sé ekki hátt skrifuð á þeim bænum.  Það er hið versta mál, því að lýðheilsa hefur versnað á þessari öld með alls konar lífstílssjúkdómum, sem rýra lífsgæðin og valda hinu opinbera gríðarlegum kostnaði.  Hugarfarsbreytingar er þörf, og hún hefur þegar átt sér stað hjá nokkrum, á að gizka 20 % fólks, en um 80 % fólks er enn of kærulaust um heilsu sína.  

Frá 5. júlí 1937 hefur Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) verið starfandi í landinu.  Félagið varð þannig nýlega áttrætt og er í fullu fjöri, t.d. með starfsemi sína á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, HNLFÍ, enda hefur aldrei verið jafngóður jarðvegur fyrir félagið í þjóðfélaginu og nú.  Það hefur heldur aldrei verið jafnmikil þörf fyrir starfsemi þess og nú um stundir. Munaðarlíf og rangt fæðuval er enn meira áberandi en áður var.   

Þann 5. júlí 2017 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Gunnlaug K. Jónsson, forseta NLFÍ og formann rekstrarstjórnar HNLFÍ, undir hinu sígilda heiti,

"Berum ábyrgð á eigin heilsu !".

Þar sagði um um NLFÍ:

"Tilgangurinn var að stofna félag, sem hefði það að markmiði að efla og útbreiða þekkingu á lögmálum heilbrigðs lífs og heilsusamlegum lifnaðarháttum.  Áherzla var lögð á nauðsyn þess og mikilvægi, að einstaklingurinn bæri ábyrgð á eigin heilsu og velferð.  Sérstaklega var höfðað til foreldra, hvað börnin áhrærir.  Allt frá stofnun hafa einkunnarorð NLFÍ verið:"Berum ábyrgð á eigin heilsu.""

Þessi einkunnarorð eiga einkar vel við nú á dögum, þegar hið svo kallaða öryggisnet heilbrigðiskerfisins grípur þann, sem missir heilsuna, hvort sem það er fyrirsjáanlegt sjálfskaparvíti vegna óhollustusamlegs lífernis eða af öðrum orsökum.  Þó að það hafi ekki verið hugmyndin með hinum ríkisfjármögnuðu sjúkratryggingum, þá hafa þær leitt til þess, að margir segja einfaldlega við sjálfa sig: "den tid, den sorg", ríkið mun sjá um að færa mér heilsuna á ný, ef/þegar ég missi hana, og þess vegna get ég étið, drukkið, reykt og dópað, eins og mér sýnist, og ég nenni ekki að stunda neina líkamsrækt.  

Þetta er eins skammsýnt, skaðlegt og ábyrgðarlaust sjónarmið og hugsazt getur.  Góð heilsa, sem fer forgörðum, kemur einfaldlega aldrei aftur.  Það er hægt að lappa í fólk golunni, en heilsufarið verður aldrei, nema svipur hjá sjón.  Að halda góðri heilsu í nútímaþjóðfélagi er að hugsa vel um líkamann með hollu matarræði og hæfilegri blöndu af áreynslu og hvíld.  

Þetta er loðin uppskrift, því að hvað er hollt, og hvað er hæfilegt ?  Það er einmitt hlutverk NLFÍ að fræða fólk um þetta, en til að sjá dæmi um hollan og góðan mat og smakka hann, er hægt að gera sér leið í HNLFÍ í Hveragerði í hádegi (kl. 1145) eða að kvöldi dags (kl. 1800), panta sér mat og snæða á staðnum.  

Meira um NLFÍ úr téðri grein Gunnlaugs:

"Stefna NLFÍ hefur ávallt verið sú að auka og efla þátt hugtakanna heilbrigði og heilsuvernd í umræðu og verkum og að víkja frá hinni einlitu sjúkdómaumræðu.  NLFÍ forðast kennisetningar, sem ekki standast vísindalega gagnrýni.  

Hófsemi í líferni og skilningur á heildstæðum lausnum læknisfræðinnar, heilbrigt líferni í víðum skilningi, verður um ókomna framtíð meginhlutverk félagsins auk umhverfisverndar." 

Síðan rekur hann innreið lífsstílssjúkdómanna og gagnrýnir heilbrigðisstefnu stjórnvalda, sem með fjárveitingum sínum leggja höfuðáherzlu á "viðgerðarþjónustu og skyndilausnir í stað þess að fjárfesta til framtíðar m.a. á þann hátt að stórauka fjárframlög í fyrirbyggjandi aðgerðir, t.a.m. með stóraukinni fræðslu í grunnskólum."

Núverandi léttúð um þau atriði, sem bætt geta lýðheilsuna, hvað þá þættina, sem eru henni beinlínis skaðlegir, mun leiða til stjórnlausrar kostnaðaraukningar hins opinbera við "viðgerðarþjónustu og skyndilausnir" á næstu árum samfara fjölgun eldri borgara.  Áherzla á lýðheilsuna í öllum aldursflokkum, mest á meðal æskunnar, er eitt þeirra ráða, sem dregið geta úr aukningu á lækningaþörf á Háskólasjúkrahúsinu, bætt lífsgæðin og í sumum tilvikum lengt ævina, sem ekki þarf þó endilega verða til kostnaðarauka hjá ríkissjóði í þjóðfélagi sívaxandi lífeyrissjóða.  Nú nema eignir íslenzku lífeyrissjóðanna um 1,5 landsframleiðslu og munu að 10-20 árum liðnum líklega nema þrefaldri landsframleiðslu og verða tiltölulega sterkustu lífeyrissjóðir heims, ef ekki verða stórfelld fjárfestingarslys, eins og henti fyrir Hrunið. 

Árið 1946 skrifaði Jónas Kristjánsson, læknir, frumkvöðull að HNLFÍ, sígilda hugvekju í 1. tbl. Heilsuverndar, sem var tímarit Náttúrulækningamanna:

"Til að skapa heilbrigt og dugandi þjóðfélag þarf andlega og líkamlega heilbrigða þegna.  Undirstaða heilbrigðinnar eru réttir lifnaðarhættir og rétt fræðsla.  En heilsurækt og heilsuvernd þarf að byrja áður en til sjúkdóms kemur; áður en menn verða veikir.  Í þessu starfi þurfa allir hugsandi menn að taka þátt, allir góðir synir og dætur fósturjarðar vorrar verða að telja það sína helgustu skyldu að vernda heilsu sína ættjörðinni til handa.  Og takmark allra þarf að vera það að deyja frá betri heimi en þeir fæddust í."

Þann 21. júní 2017 birti Agnes Bragadóttir fréttaskýringu í Morgunblaðinu um samanburð stofnunarinnar "Social Progress Imperative" á "félagslegum framförum" í 128 ríkjum heims.  Þar eru metnir einir 12 þættir, og eru heilsa og heilbrigði og umhverfisgæði þeirra á meðal.  Ísland lenti í 3. sæti, og voru Danmörk og Finnland rétt fyrir ofan.  Það er þannig ljóst, að lífsgæði eru tiltölulega mikil á Íslandi, þótt okkur þyki þeim enn vera ábótavant, en þó vekur furðu og er umhugsunarvert, að Ísland lenti aðeins í 25. sæti, þegar umhverfisgæði voru metin.  Við höfum gjarna staðið í þeirri trú, að Ísland væri í fremstu röð varðandi loftgæði, vatnsgæði og hreinleika lands, en hreinsun skolps vítt og breitt um landið er vissulega ábótavant og mikil plastnotkun er hér á hvern íbúa. Mikið af plastleifum lendir í hafinu og hafnar í lífkeðjunni.  

Þann 30. maí 2017 skrifaði forseti "Eat Foundation", Gunhild A. Stordalen, grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:,

"Getur norrænn matur orðið meðal heimsins ?"

Greinin hófst þannig:

""Notum matinn sem meðal" sagði gríski læknirinn Hippokrates fyrir meira en 2000 árum.  Hann hafði rétt fyrir sér.  Hollur og kraftmikill matur er forsenda betri heilsu okkar allra, betra lífs og betri plánetu. ... Norðurlöndin raða sér í efstu sæti á listum heimsins, hvað varðar heilsu, sjálfbærni, jafnrétti og hamingju.  En er það vegna þess eða þrátt fyrir það, sem við leggjum okkur til munns ?  Tíðni offitu og sjúkdóma, sem rekja má til mataræðis, eykst.  Óhollt mataræði er orðið stærra heilbrigðisvandamál en reykingar.  Þótt við séum "grænni" en margir aðrir, er loftslags og umhverfisfótspor fæðunnar, sem við neytum og hendum, enn stórt."

Hippokrates hitti naglann á höfuðið, en nútímamaðurinn hefur afvegaleiðzt.  Matvælaiðnaðurinn á nokkra sök á þessu, og afurðir sælgætisiðnaðarins eru stórvarasamar, og margt bakkelsi er skaðræði, nema í litlu magni sé. Þróun neyzlunnar hlýtur að verða frá mat úr dýraríkinu og að jurtaríkinu.  Það er bæði vegna hollustunnar, þ.e. áhrifa fæðunnar á mannslíkamann, og vegna mikils álags á náttúruna af völdum landbúnaðarins við kjötframleiðsluna, eins og hann er nú rekinn í heiminum.  Kolefnisfótspor hans er t.d. helmingi (50 %) stærra en af völdum allrar umferðar á landi.  Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði heimsins nemur nú 18 % af heild.  

Gunhild A. Stordalen nefnir í grein sinni, að Norðmenn gætu sparað meira en 150 miaISK/ár í heilbrigðisútgjöld, ef þeir mundu fylgja leiðbeiningum norrænu ráðherranefndarinnar um mataræði, sem reistar eru á hugmyndum um sjálfbæra neyzlu.  Fært yfir á Ísland nemur þessi sparnaður 10 miaISK/ár, 6 % af heildar opinberum kostnaði til heilbrigðismála, en hérlendis eru sparnaðarmöguleikarnir fyrir opinber heilbrigðisútgjöld með heilbrigðari lífstíl líklega a.m.k. tvöfalt meiri.  Það er eftir miklu að slægjast.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband