23.7.2017 | 13:42
Flaustursleg reglugerð
Sjávarútvegsráðherra setti þann 13. júlí 2017 reglugerð um álagningaraðferð og innheimtu veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2017/2018. Reglugerðin er m.a. reist á lögum frá 2012 um veiðigjöld. Segja má, að ráðherra þessi hafi hrakizt frá einu axarskaptinu til annars, síðan hún tók við þessu embætti. Hún glutraði hér niður gullnu tækifæri til að sýna, að hún hefði loks náð tökum á þessu vandasama starfi, sem ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála gegnir. Þar sem hún kaus að sveigja hvergi af leið, þótt allar aðstæður í sjávarútvegi byðu svo á að horfa, stefnir hún nú á að magna ósanngirnina, sem í þessari endemis skattheimtu, veiðigjöldum, felst. Verður hér reifað í hverju þessi ósanngirni felst. Ráðherra þessi ber kápuna á báðum öxlum í samskiptum sínum við hagsmunaaðila, sem til ráðuneytis hennar leita, eins og nýjustu fréttir af viðskiptum hennar við bændaforystuna benda til.
Fyrst verður vitnað í lok forystugreinar Morgunblaðsins 14. júlí 2017,
"Afkáralegir ofurskattar":
"Allt frá því að vinstri stjórnin setti ný lög um veiðigjöld sem hluta af umfangsmikilli skattahækkunarstefnu sinni, hefur verið varað við því, að gjöldin væru allt of há og að afleiðingarnar gætu orðið þær, sem nú hefur komið í ljós. Það blasir við, að ekki er hægt að bjóða undirstöðu atvinnuvegi þjóðarinnar upp á slíka ofurskatta, sem að auki eru svo afkáralegir í framkvæmd."
Það er enn látið viðgangast, að sjávarútvegurinn, einn allra, greiði fyrir aðganginn að náttúruauðlind allra landsmanna, en þær eru þónokkrar, eins og kunnugt er. Þetta veikir samkeppnisstöðu sjávarútvegsins bæði innanlands og utan og er hrópandi óréttlæti til lengdar. Dæmi um greinar, sem nýta náttúruauðlindir í almannaeign, eru fjarskiptafyrirtækin, ferðaþjónustustarfsemi í þjóðlendum, virkjunarfyrirtækin og fyrirtæki með fiskeldi í sjókvíum. Það er óskiljanlegt, að ekki skuli enn vera gerður reki að samræmdu nýtingargjaldi náttúruauðlinda. Halda ráðherrar, að nóg sé að sýna myndavélum tanngarðinn ?
Í ljósi þess, að staða útgerðanna tók stakkaskiptum til hins betra eftir að full innleiðing fiskveiðistjórnunarkerfisins frá 1984 var farin að virka á hag útgerðanna, þá er ekki óeðlilegt, að útgerðirnar greiði af auðlindarentunni, en það stríðir gegn Stjórnarskrá ríkisins að heimta ekki að sama skapi auðlindagjald af öllum nýtingaraðilum á landi, í lofti og á sjó, með sömu útreikningsaðferðum, svo að jafnræðis atvinnustarfsemi sé gætt. Sýnir það mikið döngunarleysi stjórnvalda að hafa enga sýnilega tilburði uppi í þessa átt.
Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi, SÍF, hafði þetta að segja við Kjartan Stefánsson hjá Fiskifréttum, 11. maí 2017, um tekjurýrnun sjávarútvegsins árið 2017 m.v. 2015, sem er viðmiðunarár veiðigjaldanna fiskveiðiárið 2017/2018:
"Ef tekið er tillit til gengis og verðvísitölu sjávarútvegsins, þá má áætla, að tekjur vegna bolfiskafurða, svo að dæmi sé tekið, verði um miaISK 25-30 lægri árið 2017 en þær voru árið 2015."
Þetta er meira en fjórðungslækkun tekna í þessari grein, enda hefur gengið styrkzt um 26 % frá upphafi árs 2014. Á kostnaðarhlið hefur orðið lækkun á olíuverði um 20 %-30 % 2015-2017 og hækkun á launalið, þar sem launavísitala gagnvart sjávarútvegi hefur hækkað um 27 % á sama tíma (laun í landvinnslu hafa hækkað um 25 % - 30 %).
Heildaráhrif þessara breytinga eru mikil á framlegðina, sem er það, sem eftir er, þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá tekjunum, og verður þá til skiptanna til að greiða afborganir og vexti, skatta, veiðigjöld, arð og að fjárfesta fyrir. Þessi mismunur þarf að vera yfir 20 % af tekjum, svo að vel sé, ella er út í hött að tala um auðlindarentu í sjávarútvegi, sem myndi andlag veiðigjalds. Framtíðarkerfi ætti þess vegna að miða við, að falli framlegð undir 20 %, þá falli auðlindagjald á viðkomandi fyrirtæki niður fyrir sama tímabil.
Árið 2015 áraði vel í sjávarútvegi, enda nam vegið meðaltal framlegðar botnfiskveiða og botnfiskvinnslu þá um 27 %. Áætlun SFS um framlegð sömu aðila árið 2017 er aðeins 16 %. Af þessum ástæðum er nýsett reglugerð sjávarútvegsráðherra um forsendur veiðigjalds fiskveiðiárið 2017/2018 óskiljanleg, og engu er líkara en þar fari efnahagslegur blindingi með völdin. Þessi ákvörðun mun hækka veiðigjöldin upp í um miaISK 11, sem er meira en tvöföldun frá fiskveiðiárinu 2016/2017 og mun ríða allmörgum útgerðum að fullu og skerða getu hinna til nýsköpunar.
Ráðherrann lét hjá líða að taka tillit til mikillar lækkunar fiskverðs við ákvörðun sína og á þeim grundvelli að framlengja áður gildandi afslátt á veiðigjöldum til skuldsettra fyrirtækja. Þetta er óafsakanlegt í ljósi stöðunnar. Þá hefði hún átt að gera ráðstafanir til að taka tillit til minni framlegðar lögaðila, sem veiðigjöld eru lögð á. Hlutfall ofangreindra heildarframlegða er 16/27=59 %. Ef því væri beitt á útreiknað veiðigjald og síðan veittur hefðbundinn afsláttur vegna skuldsetningar fyrirtækis, þá yrði sennilega lítil breyting á upphæð veiðigjalda nú á milli fiskveiðiára. Óbreytt veiðigjöld á næsta fiskveiðiári m.v. núverandi er hámark þess, sem sanngjarnt getur talizt. Sjávarútvegsráðherra er ekki að vinna vinnuna sína. Hverra erinda gengur hún eiginlega ?
Sjávarútvegsráðherra segir nú, að hún hafi lengi verið talsmaður breytinga á veiðigjöldum. Talsmáti hennar hingað til hefur hins vegar allur verið til hækkunar á þeim, og opinberar hún þannig skilningsleysi sitt á sambandi skattheimtu, nýsköpunar og fjárfestinga. Það er mjög bagalegt að sitja uppi með slíkan sjávarútvegsráðherra.
Í þessu sambandi skal vitna til niðurlags téðs viðtals Fiskifrétta við Hallveigu Ólafsdóttur:
"Að lokum verður ekki hjá því komizt að nefna umræðu um að auka gjaldtöku í sjávarútvegi. Sérstakar álögur eru nú þegar fyrir hendi í formi veiðigjalda, og heildarfjárhæð þeirra hefur á umliðnum árum verið áþekk þeim tekjuskatti, sem sjávarútvegur greiðir. Það er því mikilvægt, þegar kallað er eftir auknum sérstökum álögum á atvinnugreinina, að stjórnmálamenn horfi bæði á þau rekstrarskilyrði, sem fyrirtæki standa frammi fyrir, og taki tillit til þeirrar fjölbreyttu flóru íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja, sem nú er raunin. Sjávarútvegsfyrirtæki eru jafnmisjöfn og þau eru mörg, bæði að því er stærð og fjárhagslega stöðu varðar. Þau eru því mjög misjafnlega í stakk búin til að takast á við auknar gjaldtökur.
Fjölbreytileiki er einn af styrkleikum íslenzks sjávarútvegs og lykill að samkeppnishæfni greinarinnar. Það er mikilvægt að gleyma ekki þessari staðreynd, þegar rætt er um aukna gjaldtöku."
Sjávarútvegsráðherra gerir sig nú líklega til að vega að sjávarútveginum, eins og rakið hefur verið. (Það, sem sauðfjárbændur hafa til málanna að leggja við hana varðandi markaðsstöðu lambakjötsins erlendis og mótvægisaðgerðir fer inn um annað eyrað og út um hitt.) Hún mun þar með draga úr þeim styrkleika, sem hagfræðingur SFS nefnir og er fjölbreytni fyrirtækjanna. Nú reka um 1000 lögaðilar útgerð í landinu. Ætlar sjávarútvegsráðherra með sinni hugsunarlausu reglugerð meðvitað með atbeina skattheimtuvalds ríkisins að fækka þeim ? Að óreyndu hefði maður haldið, að ríkisvaldið, ráðherra, myndi forðast að gera erfitt ástand útgerðanna enn verra og verða þar með valdur að óþarfa fækkun útgerðanna. Ráðherra, sem vinnur gegn hagsmunum útgerðanna í landinu, vinnur gegn hagsmunum hagkerfisins og þar með heildarinnar.
Sjávarútvegsráðherra skýtur sér gjarna á bak við nefnd, sem hún skipaði í byrjun maí 2017 undir formennsku Þorsteins Pálssonar, flokksbróður síns og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. Nefnd þessi á að skila af sér drögum að lagafrumvarpi eigi síðar en 1. desember 2017. Við því er ekki að búast, að lög, sem reist yrðu á vinnu þessarar nefndar, taki gildi fyrr en á fiskveiðiárinu 2018/2019, og þess vegna hefði ráðherrann átt að gera bráðabirgða bragarbót á reiknireglum veiðigjalds í nýju reglugerðinni, sbr það, sem sett er fram hér að ofan.
Ráðherrann hefur hreykt sér af því að hafa skipað "þverpólitíska" nefnd, sem leita eigi sátta um sjávarútvegsmál. Ráðherrann fór þó illa að ráði sínu við samsetningu þessarar nefndar. Ef hún á annað borð átti að vera "þverpólitísk", þá þurfti hún auðvitað að endurspegla styrkleikahlutföllin á þingi. Því fer hins vegar víðs fjarri, og getur hún vart kallast lýðræðislega valin.
Það er svo önnur saga, að þessi aðferðarfræði ráðherrans er ólíkleg til árangurs, hvað þá að ná sáttum á pólitískum forsendum í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar. Miklu nær hefði verið að leita til fiskihagfræðinga, innlendra og jafnvel erlendra, og hagsmunaaðilanna í greininni, sem í sameiningu mundu reyna að finna þjóðhagslega hagkvæmustu stjórnunaraðferðina í ljósi reynslunnar bæði innan lands og utan. Samkvæmt því, sem gerst er vitað nú, er slíkt framtíðarstjórnkerfi fiskveiða keimlíkt núverandi kerfi.
Útgerðarfyrirtækin, stór og smá, eru kjölfesta byggðarinnar við strandlengju landsins. Þau standa í harðri samkeppni innanlands og utan og þurfa svigrúm til hagræðingar til að standast samkeppnina. Í fordómafullri umræðu í garð þessara fyrirtækja, sem gjarna gýs upp, þegar hagrætt er, og ráðherrann er ekki saklaus þar, gleymist oft, að ekki er allt sem sýnist; fyrir tilverknað útgerðarfélaga hefur vaxið upp klasi sprotafyrirtækja, sem allmörgum hefur vaxið fiskur um hrygg með auknum fjárfestingum útgerða og fiskvinnslufyrirtækja. Þetta gerði Jens Garðar Helgason, formaður SFS, að umræðuefni á ársfundi samtakanna 19. maí 2017:
"Á Akranesi hefur byggzt upp þekkingarfyrirtækið Skaginn með 170 starfsmenn, sem einmitt byggir á því, að íslenzkur sjávarútvegur er að fjárfesta til framtíðar og í framtíðinni.
Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að úthrópa HB Granda fyrir að standa ekki við samfélagslegar skuldbindingar og stuðla ekki að byggðafestu. Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að þessari niðurstöðu, þegar fyrirtækið er að fækka úr 270 starfsmönnum á Akranesi í 185, og fyrirheit eru um að reyna að finna sem flestum vinnu annars staðar hjá fyrirtækinu - annaðhvort á Akranesi eða í Reykjavík ? Akranes er 6´800 manna samfélag í hálftíma akstri frá Reykjavík. Á sama tíma hefur HB Grandi fjárfest fyrir 10 milljarða í atvinnutækjum og kvóta til að styrkja 600 manna byggðarlag austur á fjörðum. Tíu milljarðar, sem hafa tryggt starfsöryggi og byggðafestu Vopnafjarðar til framtíðar. Samfélag, sem er einn tíundihluti Akraness í 700 km fjarlægð frá Reykjavík. Að halda því fram, að stefna HB Granda sé ekki samfélagslega ábyrg, er í einu orði sagt "galið"."
Á þessum sama ársfundi benti Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við HÍ, á, að íslenzkur sjávarútvegur hefði ekki orðið arðbær fyrr en á 21. öldinni. Þessi staðreynd er nauðsynlegt skilyrði, en ekki nægilegt, fyrir því að álykta, að haldið hafi verið inn á rétta braut með innleiðingu íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfisins árin 1984 og 1990. Þessi hagnaður er undirstaða velmegunar í flestum íslenzkum sjávarplássum, sem er þá algerlega háð núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, frjálsu framsali aflaheimilda og frjálsri ráðstöfun aflans, eins og téður Ásgeir hélt fram. Jafnframt sagði hann, "að það væri mýta [goðsögn], að kvótakerfið hefði komið landsbyggðinni á kaldan klaka. Samkeppnishæfur sjávarútvegur væri forsenda fyrir samkeppnishæfum lífskjörum úti á landi".
Stjórnmálafólk, sem ekki áttar sig á þessum staðreyndum, á vart erindi á Alþingi Íslendinga, hvað þá í ríkisstjórn.
Hitt skilyrðið, sem með arðsemisþættinum leyfir að álykta sem svo, að haldið hafi verið inn á rétta braut við innleiðingu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis, er, að það felur í sér hvata til sjálfbærrar nýtingar veiðistofnanna og að það hefur í raun umbylt veiðunum við Ísland úr ósjálfbærri nýtingu auðlindarinnar í sjálfbæra nýtingu, eins og viðsnúningur þorskstofnsins til hins betra er gleggsta dæmið um.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
.
.
Hér sem oftar, heiðursmaður,
hrífa rök þín. Býsna glaður
skrifa ég upp á grein þá góða.
Goldið skal jafnt til náttúrusjóða.
Jón Valur Jensson, 23.7.2017 kl. 17:07
Það er ekki amalegt að fá jákvæða umsögn um pistil í bundnu máli, og kann ég höfundinum beztu þakkir fyrir. Mér er ljóst, að ég á að þakka fyrir mig í bundnu máli, en það verður að bíða betri tíma. Þú átt þá inni hjá mér kviðling, Jón Valur.
Bjarni Jónsson, 23.7.2017 kl. 17:37
Hvers vegna í ósköpunum ætli svonefndur "sjávarútvegsráðherra" minnki kvóta um tvö þúsund tonn, á einni fisktegund, miðað við ráðleggingar Hafró? Enginn spyr, enginn efast og allt í gúddí? Ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar er gjörsamlega rúin trausti, enda hefur hún ekki hundsvit á sínum málaflokkum, sama hvað hún gasprar af innihaldslausu rausi.
Ekki frekar en ömurlegir fjölmiðlar, sem kyngja öllu gagnrýnislaust. "Ráðherran" tekur kúluna á þetta og veit að enginn spyr og enginn efast, meðan hún kemst upp með það. Svo lengi hún sleppi sjálf. Þó kúlan splundrist, heldur ráðherran áfram endalausu orðagjálfri, sem enginn nennir einu sinni að ráða í og setur sig á stall með mannvitsbrekkum eins og "burgermeisternum" í Reykjavík.
Hvað ætli hafi valdið þessari umturnun núverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, frá því að vera Sjálfstæðismanneskja og yfir í það að verða að ömurlegum kratahaugi með Engeyjar-Benna?
Spyr sá sem ekki veit.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 24.7.2017 kl. 02:19
Takk dyrir góðan pistil Bjarni.
Halldór Egill Guðnason, 24.7.2017 kl. 02:21
Þakka þér kærlega fyrir innleggið og ábendinguna, Halldór Egill.
Það fór framhjá mér, að sjávarútvegsráðherra minnkaði aflamark (hvaða tegundar ?) um 2,0 kt frá ráðleggingu Hafró. Slíkt er fáheyrt og ber merki sýndarmennsku í ljósi ríkra varúðarsjónarmiða vísindamanna Hafró.
Framganga þessa ráðherra gagnvart hagsmunaaðilum, sem henni er falið að fjalla um í ríkisstjórninni, er einstök og í raun svo fráleit, að ráðherrann virðist setja á oddinn að ganga í augun á flokkssystkinum sínum, sem eru fulltrúar lítils minnihluta í þjóðfélaginu og eru á hverfanda hveli, eins og aðrir sérvitringahópar, sem upp hafa komið í pólitíkinni.
Bjarni Jónsson, 24.7.2017 kl. 09:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.