Skringilegur ráðherra

Umhverfis- og auðlindaráðherra braut síðareglur Alþingis með því uppátæki sínu að fara í einhvers konar fyrirsætuhlutverk í ræðusal hins háa Alþingis fyrir  kjólahönnuð.  Fyrir vikið fær ráðherrann ekki lengur að njóta vafans, en hún hefur verið með stórkarlalegar  yfirlýsingar um atvinnuvegi landsmanna, t.d. orkukræfan iðnað. Við þetta hefur hún misst allt pólitískt vægi og er orðin þung pólitísk byrði fyrir Bjarta framtíð og er ekki ríkisstjórninni til vegsauka.   

Í kjölfar hinnar alræmdu kjólasýningar í Alþingishúsinu, sem afhjúpaði dómgreindarleysi ráðherrans, birtist hún í fréttaviðtali á sjónvarpsskjám landsmanna með barn sitt á handlegg og lýsti því yfir, að hún vildi, að bílaumferðin væri orðin kolefnisfrí árið 2030 !  Þetta er ómögulegt og er ekki í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, sem miðar við, að 40 % bílaflotans í heild sinni verði knúinn raforku árið 2030. 

Þetta undirmarkmið ríkisstjórnarinnar dugar þó ekki til þess að ná heildarmarkmiðinu um 40 % minni koltvíildislosun frá innanlandsnotkun jarðefnaeldsneytis utan ETS (viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir).  Til þess verður olíu- og benzínnotkun um 60 kt of mikil árið 2030, sem þýðir, að hækka þarf undirmarkmið ríkisstjórnarinnar úr 40 % í 60 % til að ná yfirmarkmiðinu.  Hröðun á þessu ferli næst hins vegar ekki án íþyngjandi og letjandi aðgerða stjórnvalda gagnvart kaupendum og eigendum eldsneytisbíla og hvetjandi aðgerðum til að kaupa rafknúna bíla, t.d. skattaívilnanir.  Þá verður einnig að flýta allri innviðauppbyggingu.  Allt þetta þarf að vega og meta gagnvart gagnseminni fyrir hitafarið á jörðunni og loftgæðin á Íslandi.  Áhrifin af þessu á hitafarið verða nánast engin. 

Ráðherra umhverfis- og auðlindamála gerði sig enn einu sinni að viðundri með yfirlýsingu, sem er óframkvæmanleg.  Fyrsta undirmarkmið ríkisstjórnar í þessum efnum er frá 2010 og var einnig alveg út í hött, en það var um, að 10 %  ökutækjaflotans yrðu orðin umhverfisvæn árið 2020.  Nú er þetta hlutfall um 1,0 %, og með mikilli bjartsýni má ætla, að 5,0 % náist í árslok 2020.  

Þetta illa ígrundaða undirmarkmið vinstri stjórnarinnar var skuldbindandi gagnvart ESB, og það mun kosta ríkissjóð um miaISK 1,0 í greiðslur koltvíildisskatts, að óbreyttu til ESB, en vonandi verður bróðurparti upphæðarinnar beint til landgræðslu á Íslandi, sem jafnframt bindur koltvíildi úr andrúmsloftinu.  Það er þó í verkahring ríkisstjórnarinnar (téðs umhverfisráðherra ?) að vinna því máli brautargengi innan ESB.

Vegna þess, að koltvíildisgjaldið mun hækka á næsta áratug úr núverandi 5 EUR/t CO2 í a.m.k. 30 EUR/t, þá gætu kolefnisgjöld ríkissjóðs vegna óuppfyllts markmiðs íslenzkra stjórnvalda farið yfir miaISK 5,0 á tímabilinu 2021-2030.  Það er verðugt viðfangsefni íslenzkra stjórnvalda að fá ESB til að samþykkja, að þetta fé renni t.d. til Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.  Er ráðherrum á borð við Björt Ólafsdóttur treystandi í slík alvöruverkefni ?

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

"Pabbi minn er miklu meiri en pabbi þinn". Svona heyrist oft á tíðum þegar leikskólabörn eru að leika sér í sandkassanum og vissulega dettur manni þetta í hug þegar umhverfisráðherra tjáir sig. Norðmenn gefa út markmiði um orkuskipti bílaflotans og þá þarf auðvitað okkar umhverfisráðherra að bæta enn um, til að verða enn meiri. Þó eru norðmenn mun lengra komnir á þessu sviði en við, eru reyndar leiðandi á því, meðan við erum rétt að byrja ferlið.

Auðvitað mun verða útilokað að framfylgja þessu markmiði ráðherrans. Orku þarf að afla, byggja þarf upp öflugra dreifikerfi allt frá framleiðanda orkunnar heim að húsdyrum og síðast en ekki síst þarf einhverja gulrófu til kaupenda, svo þeir velji rafbílinn fram yfir bíl með sprengihreyfil. Þó einhverjir hafi efni á að horfa til hugsjónar, eru samt flestir sem versla eftir getu buddunnar.

Útilokað er að öflun orkunnar muni haldast í hendur við þetta markmið ráðherrans, möguleiki er að kannski muni verða hægt að efla dreifikerfið í tíma,en þá þarf að slá verulega í klárinn.

Framleiðslukostnaður rafbíla er enn mun hærri en bíla með sprengihreyflum. Þetta er eðlilegt, það tekur tíma að þróa nýja tækni og koma henni á það framleiðslustig að sambærilegt sé fjárhagslega og það sem framleitt hefur verið í meir en öld, með tiltölulega litlum breytingum. Þetta mun auðvitað breytast með tímanum og fjölgun rafbíla og líklegt að þegar upp verður staðið muni rafbílar jafnvel verða hlutfallslega ódýrari í framleiðslu. Enn er þó nokkuð í að það náist, einkum vegna þess að rafbílar eru jú enn í hönnunarferli á sumum sviðum. Öruggt er að framleiðslukostnaði mun ekki verða búið að ná niður eftir 3 ár og litlar líkur á að það takist að jafna hann á næstu 13 árum.

Í dag eru tekjur ríkisins af bílaflotanum nærri 100 milljarðar á ári, þessum tekjum þarf ríkið vissulega á að halda. Af innflutningi rafbíla eru tekjurnar hins vegar hverfandi og engin skattur er enn lagður á raforku til þessara bíla, eins og jarðefnaeldsneytið. Auðvitað þarf að ná þessum tekjum í ríkiskassann þó bílaflotinn verði rafknúinn. Innflutningsgjöld munu auðvitað verða lagðir á þá og einhverskonar aksturs skattur. Þær ívilnanir sem nú er til rafbíla geta auðvitað ekki haldið og því útilokað að tala um alger orkuskipti fyrr en framleiðslukostnaður rafbíla kemst á par við framleiðslukostnað bíla með sprengihreyflum.

Markmið upp á 40% eftir 13 ár er verulega metnaðargjarnt markmið. Því mun hugsanlega verða hægt að ná, með samstilltu átaki. Markmið upp á 100% eftir 13 ár er bara dómadags bull!

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 10.8.2017 kl. 08:05

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Allt satt og rétt, Gunnar.  

Það má ganga kraftaverki næst, ef rafbílar ná 40 % bílaflotans árið 2030.  Til að ná markmiðinu um 40 % minnkun losunar CO2 frá umferðinni árið 2030, þarf þetta hlutfall hins vegar að ná 60 %.  Aflþörf 138 k rafbíla (40 %) er vægt áætluð 170 MW og orkuþörf 770 GWh/ár.  Er farið að huga að þessari orkuöflun ?  Nei, þvert á móti, forstjóri OR lætur hafa eftir sér, að ekkert þurfi að virkja fyrst um sinn fyrir þennan markað.  Aðdragandi virkjunar er langur.  

Enn eru rafbílar aðeins rúmlega 2 % af framleiðslunni hjá bílaverksmiðjunum.  Þjóðverjar eru nú að undirbúa umskipti í verksmiðjum sínum í átt að rafmagnsbílum, en búast ekki við hagnaði af framleiðslu þeirra fyrr en undir lok næsta áratugar.  

Íslenzka ríkið fær fullan virðisaukaskatt af rafmagninu á bílana og lækkuð bifreiðagjöld.  Skriður mun ekki komast á söluna fyrr en verðið verður samkeppnishæft fyrir þorra fólks.  Nú á það aðeins við um þá, sem mest aka.

Ég held, að í Noregi sé annar hver nýr bíll tengilrafbíll, en hér aðeins 8 %.  Í Noregi eru ýmsir hvatar, sem ekki eru hér, og orkukostnaðarmunurinn er meiri, því að Norðmenn hafa aðgang að afsláttarrafmagni á lágálagstíma, t.d. að nóttu.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 10.8.2017 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband