13.8.2017 | 11:35
Er rörsýn vænleg ?
Fegurðin í samneyti manns og náttúru er fólgin í hógværð og tillitssemi í umgengni við hana, þannig að nýting á gjöfum hennar á hverjum tíma beri glögg merki um beitingu vits og beztu fáanlegu þekkingar (tækni) á hverjum tíma. Á okkar tímum þýðir þetta lágmörkun á raski í náttúrunni og að fella mannvirki vel að henni eða augljóslega eins vel og unnt er.
Þetta á t.d. við um orkunýtingarmannvirki og flutningsmannvirki fyrir umferð ökutækja eða raforku. Á þessari öld og nokkru lengur hefur verið uppi ágreiningur með þjóðinni um mannvirkjagerð utan þéttbýlis og alveg sérstaklega á stöðum, þar sem lítil eða engin bein ummerki eru um manninn, en óbein ummerki um mannvist blasa þó víðast við þeim, sem eru með augun opin, í "stærstu eyðimörk Evrópu", þar sem gróðurfarið er hryggðarmynd mannvistar og búfjárhalds í landinu. Það er skylda okkar hérlendra nútímamanna og afkomenda að stöðva frekari eyðingu jarðvegs og klæða landið aftur gróðri. Þetta fellur þeim þó ekki í geð, sem engu vilja breyta. Slíkir eru ekki íhaldsmenn, því að þeir vilja aðeins halda í það, sem vel hefur gefizt, heldur afturhaldsmenn. Þá kemur ofstækisfull andúð á "erlendum" gróðri á borð við lúpínu og barrtré spánskt fyrir sjónir í landi, sem kalla má gróðurvana.
Hugmyndin að baki Rammaáætlun var að skapa sáttaferli með kerfisbundnu vali á milli verndunar og orkunýtingar. Nýtingarhugtakið þyrfti að víkka út, svo að það spanni nýtingu ferðamanna á landinu, nú þegar tala erlendra af því sauðahúsi fer yfir 2,0 milljónir á ári. Iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra ýjaði að slíku í Morgunblaðsgrein laugardaginn 12. ágúst 2017.
Blekbóndi er þó ekki hrifinn af framkvæmdinni á mati Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun fyrirkomulaginu, og telur mat á virkjunarkostum vera hlutverk Orkustofnunar, en ekki pólitísks skipaðrar "Verkefnisstjórnar um Rammááætlun" virkjunarkosta, enda hefur iðulega verið slagsíða á þessu mati. Af einhverjum ástæðum hefur Verkefnisstjórnin ekki tekið neinn vindorkukost til mats, og skýtur það skökku við, því að umhverfisáhrif vindmyllna, hvað þá vindmyllulunda upp á 100 MW eða meir, eru mikil að mati blekbónda, en sínum augum lítur hver á silfrið. Hins vegar hefur Verkefnisstjórn hneigzt til verndunar á vatnsföllum og lausbeizlaðrar flokkunar jarðhitasvæða sem nýtingarstaða. Ekki er víst, að þetta sjónarmið þjóni umhverfisvernd vel, þegar upp er staðið.
Engu að síður er hér um lýðræðislegt ferli að ræða, þar sem Alþingi á lokaorðið, og það ber að virða, hver sem skoðun manna er á niðurstöðunni, enda geta frekari rannsóknir og breyttar aðstæður breytt niðurstöðunni.
Þeim, sem hafna niðurstöðu þessa ferlis og andmæla hástöfum virkjunaráformum um valkosti, sem lent hafa í nýtingarflokki Rammaáætlunar, má líkja við mann, sem er of seinn að ná strætisvagni, en hleypur samt á eftir honum, þar sem hann fer af stað, og úr barka hans berast hljóð, sem ólíklegt er, að nái eyrum bílstjóra lokaðs strætisvagnsins.
Þann 8. ágúst 2017 birtist í Fréttablaðinu grein með þeirri fordómafullu fyrirsögn,
"Stóriðju- og virkjanaárátta - stríð á hendur ósnortnum víðernum".
Greinarhöfundur er þekktur læknir, hér og t.d. á "Karolinska" í Svíþjóð, Tómas Guðbjartsson. Fyrirsögnin lýsir rörsýn hans á viðfangsefni landsmanna, sem er að skapa öflugt og sem fjölbreytilegast atvinnulíf í landi gjöfullar og viðkvæmrar náttúru, svo að landið verði samkeppnishæft við aðra um fólk með alls konar þekkingu, getu og áhugamál. Greinin ber með sér sorglega viðleitni til að etja saman atvinnugreinum, og verður ekki hjá því komizt að leiðrétta misskilning og að hrekja rangfærslur höfundarins, eins og nú skal rekja. Hún hófst þannig:
"Undanfarið hefur skapazt töluverð umræða um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á Íslandi, enda virðist sem stjórnvöld ætli áfram að greiða götu mengandi stóriðju."
Læknirinn stóð í sumar sjálfur fyrir umræðu um Hvalárvirkjun, 55 MW, 320 GWh/ár, á Vestfjörðum. Sagðist hann reyndar sjálfur þá hafa mestar áhyggjur af loftlínum þar í "ósnortnum víðernum" Vestfjarða. Nú vill svo til, að HS Orka ætlar að hafa allar lagnir neðanjarðar að og frá stöðvarhúsi Hvalárvirkjunar, svo að þetta var tómt píp í lækninum. Stöðvarhúsið verður lítt áberandi, gott ef það verður ekki sprengt inn í bergið, eins og stærsta stöðvarhús landsins í Fljótsdal.
Það er enn fremur alveg út í hött hjá téðum Tómasi að tengja þessa miðlungsstóru virkjun við orkukræfa stóriðju. Hann hlýtur að hafa heyrt um þjóðþrifaverkefnið orkuskipti, og að þau standa fyrir dyrum á Íslandi, þótt hægt fari enn. Stjórnvöld hafa sem undirmarkmið varðandi Parísarsamkomulagið frá desember 2015, að að meðaltali 40 % af ökutækjaflotanum á Íslandi verði orðinn umhverfisvænn árið 2030. Það dugar reyndar ekki til að ná markmiðinu um 40 % minni losun umferðar þá en árið 1990, heldur þarf umhverfisvænn ökutækjafloti þá að nema 60 % af heildarfjölda. Ef 40 % ökutækjaflotans eiga að verða rafknúnir þá, þarf að virkja a.m.k. 170 MW afl og 770 GWh/ár orku fyrir árið 2030 til viðbótar við Búrfell 2 og Þeistareyki 1 og 2. Orkuskiptin þurfa árið 2030 miklu meiri raforku en þetta, því að það er líka annars konar eldsneytisnotkun, sem þarf að leysa af hólmi, t.d. fiskimjölsverksmiðjur. Ætla virkjana- og loftlínuféndur að reyna að hindra þessa sjálfsögðu þróun ? Þá hefur ný víglína verið mynduð í umhverfisvernd á Íslandi.
Næst fór læknirinn út í "samanburðarfræði". Fór hann niðrandi orðum um málmframleiðsluiðnað í landinu og reyndi að upphefja ferðaþjónustu á kostnað hans. Það er ótrúlegt af Tómasi Guðbjartssyni, lækni, að hann skuli ekki upp á eigin spýtur geta gert sér grein fyrir því, að slík skrif eru fleipur eitt, eins og nú skal rekja:
"Aðstæður á Íslandi eru gjörbreyttar, og staðreynd er, að stóriðja fer illa saman við blómstrandi ferðamannaiðnað, sem er orðin sú atvinnugrein, sem skapar langmestar gjaldeyristekjur og veitir miklu fleiri Íslendingum atvinnu en stóriðja."
Þær staðreyndir, sem blekbónda eru tiltækar, styðja það þvert á móti, að stóriðja og ferðaþjónusta fari ágætlega saman. Árlega kemur fjöldi fólks gestkomandi í álverin og óskar eftir kynningu á starfseminni. Enn fleiri koma í virkjanir, sem sjá stóriðjunni fyrir raforku, til að kynnast þessari náttúrunýtingu Íslendinga, bæði í jarðgufuverum og fallvatnsorkuverum. Læknirinn málar hér skrattann á vegginn og býr til vandamál. Til hvers þennan barnalega meting ? "Cuo bono" ? Hann er ekki aðeins illa haldinn af rörsýn, heldur undirlagður af ranghugmyndum um grundvallaratvinnuvegi landsins.
Umhverfisálag af völdum erlendra ferðamanna á Íslandi er margfalt á við umhverfisálag orkukræfs iðnaðar á Íslandi. Hafa menn heyrt um mannasaur og fjúkandi viðbjóð í íslenzkri náttúru af völdum iðnaðarins ? Úti fyrir strönd Straumsvíkur eru ummerki eftir ISAL ekki mælanleg í lífríkinu. Halda menn, að 2,0 milljónir erlendra ferðamanna reyni ekki verulega á fráveitur landsins ? Það er ekkert smáræði af skolpi, þvottaefnum og annarri mengun, úti fyrir ströndum landsins og jafnvel í ám og stöðuvötnum af völdum þessara ferðamanna, sem minna stundum á engisprettufaraldur. Átroðningar og áníðsla á viðkvæmum gróðri landsins er víða þannig, að stórsér á.
Álverin búa við ströngustu mengunarkröfur í heimi, og opinbert eftirlit er með því, að þau uppfylli þessar kröfur. Í grennd við álverið í Straumsvík er flúor í gróðri ekki merkjanlegur nú orðið umfram það, sem hann var fyrir 1969, t.d. vegna eldgosa. Að láta sér detta það í hug að bera saman hátækni og háborgandi atvinnugrein og lágt borgandi atvinnugrein, sem snýst um að éta og drekka, tronta á náttúrunni og spúa eiturefnum og koltvíildi úr jarðefnaeldsneytisbrennandi ökutækjum, er ósvífni.
Það má tína fleira til, eins og aukna hættu á vegum landsins og sýkingarhættu af völdum erlendra ferðamanna, og eru berklar, lifrarbólga A og nóruveiran fá dæmi úr fúlum flór, en alvarlegasta umhverfisógnunin er af völdum losunar millilandaflugvélanna á gróðurhúsalofttegundum í háloftunum.
Losun á 1 kg af CO2 í háloftunum er á við losun á tæplega 3 kg af CO2 á jörðu niðri. Þegar tekið hefur verið tillit til þessa, nam losun íslenzkra flugvéla í millilandaflugi árið 2016 7,1 Mt (milljón tonn), sem var 59 % af heildarlosun landsmanna þá. Losun iðnaðarins nam þá 2,3 Mt eða innan við þriðjungi af losun millilandaflugsins. Það kemst engin atvinnugrein í hálfkvisti við ferðaþjónustuna varðandi illa meðferð á náttúrunni.
Í þessu ljósi er ekki boðlegt að skrifa um "mengandi stóriðju" og dásama um leið ferðaþjónustuna, því að mengun "fjöldaferðamennskunnar" á Íslandi er margföld á við mengun orkukræfs iðnaðar, eins og rökstutt hefur verið:
"Stóriðja er ekki aðeins mengandi, heldur krefst hún mikillar orku, sem fæst með því að virkja vatnsföll og háhitasvæði. Þessar virkjanir eru nær undantekningarlaust nálægt náttúruperlum, sem bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn laðast að. Auk þess rjúfa þær ósnortin víðerni, sem hafa minnkað um 70 % á s.l. 70 árum hér á landi."
Stærsta virkjanasvæði landsins er Þjórsár/Tungnaár svæðið. Þar eru landspjöll hverfandi, en ávinningurinn feiknarlegur fyrir þjóðina. Þar hefur Landsvirkjun þess vegna tekizt mjög vel upp við að sækja gull í greipar náttúrunni með sjálfbærum og sumir segja afturkræfum hætti.
Það er ástæða til að bera brigður á þessa 70 % rýrnun Tómasar. Mælingin virðist tilfinningablendin, því að sumum dugar að vita af mannvirki utan sjónsviðs til að upplifa truflun af því. Er það ekki sjúkleg ofurviðkvæmni, sem ekki ætti að hafa áhrif á þetta mat ? Blekbónda rekur minni til að hafa lesið grein eftir fyrrverandi Orkumálastjóra og lærimeistara blekbónda úr Verkfræðideild HÍ, Jakob Björnsson, þar sem hann hélt því fram, að meint rýrnun "ósnortinna víðerna" gæti seint (og ekki á okkar dögum) farið yfir 10 % á Íslandi, svo víðáttumikil væru þau.
Það er engu líkara af ofangreindum orðum Tómasar en hann skilji ekki, að ferðamannaiðnaðurinn er knúinn áfram af gríðarlegri orku, en sú orka kemur hins vegar nánast öll úr jarðolíunni. Tómas virðist vera þeirrar skoðunar, að slík orkunýting sé vænlegri kostur fyrir mannkynið en að afla orkunnar með endurnýjanlegum hætti úr náttúrunni á Íslandi. Slíkt sjónarmið verðskuldar heitið "rörsýn".
Árið 2016 brenndu millilandaflugvélar Íslendinga um 0,79 Mt af eldsneyti, sem var 0,17 Mt meira en allir aðrir jarðefnaeldsneytisbrennarar á Íslandi til samans, þ.e. landsamgöngur, fiskiskipaflotinn og millilandaskipin. Að hampa slíkri starfsemi lýsir afar undarlegu lífsviðhorfi. Tómas, læknir, hefur fullt leyfi til slíks lífsviðhorfs, en það verður aldrei ofan á á Íslandi.
Árið 2050, þegar orkuskiptin á láði og legi (ekki í lofti) verða vonandi um garð gengin hérlendis, munu bílaleigubílar, smárútur og langrútur, þurfa 180 MW af rafafli og 626 GWh af raforku frá nýjum virkjunum á Íslandi. Millilandaflug Íslendinga gæti þurft á tífaldri þessari orku að halda, þegar þar verða orkuskipti. Á að láta afturhaldsmenn komast upp með að þvælast fyrir þeirri sjálfsögðu og eðlilegu þróun, sem orkuskiptin fela í sér ?
Lokadæmið um hugrenningar læknisins:
"Íslenzk orka er heldur ekki ókeypis, og að baki hverri virkjun er gríðarleg fjárfesting, þar sem tekin hafa verið stór lán - oft í samvinnu við erlend risafyrirtæki. Stóriðja hefur vissulega skapað störf og tekjur hér á landi, en það hefðu peningarnir líka gert, hefðu þeir verið nýttir til annarrar atvinnustarfsemi."
Hér veður læknirinn reyk, þótt af öðrum toga sé en áður. Hvað er athugunarvert við að taka lán til atvinnu- og verðmætaskapandi athafna, ef þær eru arðsamar, eins og raforkusala í heildsölu samkvæmt langtímasamningum hefur verið ? Þessi aðferð hefur reynzt giftudrjúg við að lágmarka raforkuverð til almennings, sem er ólítill þáttur í velferð hér og samkeppnishæfni. Það er hundalógík að halda því fram, að lánsfé, sem eyrnamerkt fékkst til ákveðinnar fjárfestingar, sem reist var á tekjutryggingu að stórum hluta til áratuga frá alþjóðlegum stórfyrirtækjum, hefði fengizt í "eitthvað annað". Heldur margtéður Tómas, læknir, Guðbjartsson því fram, að lánastofnanir hefðu lánað Íslendingum á sömu kjörum í mengandi áhættufjárfestingu, sem hótelbygging er, svo að dæmi af eftirlæti hans í hópi útflutningsgreinanna sé tekið ?
Að lokum verður ekki hjá því komizt að leiðrétta eina tölulega villu læknisins í tilvitnaðri grein um 3 stærðargráður, þ.e. um er að ræða þúsundfalda villu. Má draga þá ályktun, að sá, sem gerir sig sekan um svo stóra villu, beri lítið skynbragð á umræðuefnið, sem hann hefur þó sjálfur kosið sér ? Er þetta allt bara einhvers konar PR eða skrum fyrir galleríið ? Hann heldur því fram, að raforkuvinnsla á hvern íbúa Íslands nemi 54 kWh/íb. Það er mjög langt síðan, að svo var. Hið rétta er 55 MWh/íb á ári.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Heilbrigðismál, Umhverfismál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.