27.8.2017 | 08:22
Raforkumál í öngstræti
Í hverri viku ársins verður tjón hjá viðskiptavinum raforkufyrirtækjanna í landinu, sem rekja má til veiks raforkukerfis. Oft er það vegna þess, að notendur eru aðeins tengdir einum legg við stofnkerfið, þ.e. nauðsynlega hringtengingu vantar.
Nýlegt dæmi um þetta varð austur á Breiðdalsvík í viku 34/2017, þar sem stofnstrengur bilaði með þeim afleiðingum, að straumlaust varð í 7 klst. Auðvitað verður tilfinnanlegt tjón í svo löngu straumleysi, og hurð skall nærri hælum í brugghúsi á staðnum, þar sem mikil framleiðsla hefði getað farið í súginn, ef verr hefði hitzt á.
Flestar fréttir eru af tjóni hjá almennum notendum, en stórnotendur verða þó fyrir mestu tjóni, því að þar er hver straumleysismínúta dýrust. Þar, eins og víðar, er líka viðkvæmur rafmagnsbúnaður, sem ekki þolir spennu- og tíðnisveiflur, sem hér verða nokkrum sinnum á ári. Getur þetta hæglega leitt til framlegðartaps yfir 11 MISK/ár og svipaðrar upphæðar í búnaðartjóni.
Á þessari öld hafa Vestfirðingar orðið harðast fyrir barðinu á raforkutruflunum á stofnkerfi landsins og straumleysi, enda er landshlutinn háður einum 132 kV legg frá Glerárskógum í Dölum til Mjólkárvirkjunar, og sú virkjun ásamt öðrum minni á Vestfjörðum annar ekki rafmagnsþörf Vestfirðinga. Hún er aðeins 10,6 MW, 70 GWh/ár eða um þriðjungur af þörfinni um þessar mundir. Þess ber að geta, að talsverður hluti álagsins er rafhitun húsnæðis, sem gerir Vestfirðinga að meiri raforkukaupendum en flesta landsmenn í þéttbýli.
Vestfirðingar verða árlega fyrir meiri truflunum og tjóni á búnaði og framleiðslu en flestir aðrir af völdum ófullnægjandi raforkuframleiðslu og flutningskerfis. Til úrbóta er brýnt að koma á hringtengingu á Vestfjörðum. Beinast liggur við að gera það með 132 kV tengingu Mjólkárvirkjunar við nýja virkjun, Hvalárvirkjun, 50 MW, 360 GWh/ár, í Ófeigsfirði á Ströndum. Þessa nýju virkjun, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar III, þarf jafnframt að tengja við nýja 132 kV aðveitustöð í Ísafjarðardjúpi, sem Landsnet þarf að reisa og tekið getur við orku frá fleiri vatnsaflsvirkjunum þar í grennd og veitir kost á hringtengingu Ísafjarðarkaupstaðar og allra bæjanna á Norður- og Suðurfjörðunum. Með því jafnframt að leggja allar loftlínur, 60 kV og á lægri spennu, í jörðu, má með þessu móti koma rafmagnsmálum Vestfirðinga í viðunandi horf. Viðunandi hér er hámark 6 straumleysismínútur á ári hjá hverjum notanda að meðaltali vegna óskipulagðs rofs.
Þegar raforkumál landsins eru reifuð nú á tímum, verður að taka fyrirhuguð orkuskipti í landinu með í reikninginn. Án mikillar styrkingar raforkukerfisins er tómt mál að tala um orkuskipti. Það er mikil og vaxandi hafnlæg starfsemi á Vestfjörðum, sem verður að rafvæða, ef orkuskipti þar eiga að verða barn í brók. Aflþörf stærstu hafnanna er svo mikil, að hún kallar á háspennt dreifikerfi þar og álagsaukningu á að gizka 5-20 MW eftir stærð hafnar. Öll skip í höfn verða að fá rafmagn úr landi og bátarnir munu verða rafvæddir að einum áratug liðnum.
Laxeldinu mun vaxa mjög fiskur um hrygg og e.t.v. nema 80 kt/ár á Vestfjörðum. Það verður alfarið rafdrifið og mun e.t.v. útheimta 30 MW auk álagsaukningar vegna fólksfjölgunar, sem af því leiðir. Fólkið á sinn fjölskyldubíl, reyndar 1-2, og rafknúin farartæki á Vestfjörðum munu útheimta 20 MW. Fólksfjölgun til 2030 gæti þýtt álagsaukningu 10 MW. Alls gæti álagsaukning á raforkukerfi Vestfjarða á næstu 15-20 árum vegna atvinnuuppbyggingar, fólksfjölgunar og orkuskipta orðið um 100 MW.
Við þessu verður að bregðast með því að efla orkuvinnslu í landshlutanum og hringtengja allar aðveitustöðvar á svæðinu. Dreifikerfið þarf eflingar við til að mæta þessu aukna álagi, og allar loftlínur 60 kV og á lægri spennu þurfa að fara í jörðu af rekstraröryggislegum og umhverfisverndarlegum ástæðum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sæll, meistari.
Ég á mikilvæga aths. við næstu grein þína hér á undan. :)
Jón Valur Jensson, 28.8.2017 kl. 19:10
Heill og sæll, Jón Valur;
Ég sá ítarlegar athugasemdir þínar því miður ekki fyrr en í morgun í símanum mínum og ætla að svara þeim hér, enda um að ræða hagsmuni Vestfjarða í báðum tilvikum. Ég er reyndar að semja grein í blaðið Sám, fóstra, sem út á að koma í nóvember með áherzlu á Vestfirði og sameinar þessi tvö svið, þ.e. laxeldi á Vestfjörðum mun bylta þar öllu mannlífi, skapa mikla grózku og þörf á innviðauppbyggingu, og raforkumál Vestfjarða.
1) KHG virðist mér hafa sýnt fram á vanhæfi Hafrannsóknarstofnunar til að fást við málefni tengd meintum hagsmunaárekstrum veiðiréttarhafa í laxveiðiám og laxeldismanna. Það er stórmál varðandi trúverðugleika áhættugreininga Hafró á sjókvíaeldi.
2)Það hefur þó komið fram hjá Hafró, að engin skaðleg erfðablöndun getur átt sér stað utan fjarðarins, þaðan sem eldislaxinn sleppur. Einstaka laxar geta leitað lengra, en það hefur enga erfðafræðilega þýðingu.
3)Laxeldismenn eru meðvitaðir um hættuna á úrgangsmengun og munu "hvíla" svæði í eitt ár til öryggis, ef úrgangur safnast á botninn.
4)Hreinleika laxastofna í íslenzkum ám þarf að kortleggja nú á þessum tímamótum. Það gæti hafa verið fúskað með blöndun á milli áa vegna þess, að menn gerðu sér ekki grein fyrir fjölbreytileika íslenzkra laxastofna.
5)Ef fjöldi eldislaxa af villtum laxi í á fer yfir 4 %, telur Hafró vera hættu á skaðlegri erfðablöndun. Þessi viðmiðun er hærri í Noregi, en verum varkár. Skaðsemi erfðablöndunar getur t.d. verið fólgin í því, að hæfileikar afkvæmanna til að komast af í hafinu og ná til árinnar aftur (ratvísi) verði minni en villtu laxanna. Þetta getur í versta tilviki endað með því, að laxar hverfi úr viðkomandi á.
6) Eldislax verður að öðru jöfnu ekki lúsugri en sá villti. Hitastig sjávar ræður mestu um lúsina.
7) Gelding á laxi er dýraníð, sem mundi stórskaða markaðinn. Geltur lax hefur minna mótstöðuþrek gegn sjúkdómum en ógeltur.
8) Norski eldislaxinn er sérræktaður fyrir kvíaeldi. Sá íslenzki er ósamkeppnishæfur að þessu leyti, en ekki ætla ég að bera saman gæði þess villta íslenzka við eldislaxinn til matar. Þar er nú ólíku saman að jafna.
Þú kvartar, ef ég hef gleymt einhverju.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 29.8.2017 kl. 10:30
Þetta eru frábær svör þín við spurningum mínum á eftir grein þinni Um laxeldi í Ísafjarðardjúpi, Bjarni. Mér á eftir að nýtast þetta vel. Hafðu beztu þakkir fyrir, og gangi þér vel með skrifin í blaðið Sám, fóstra
Jón Valur Jensson, 29.8.2017 kl. 11:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.