Sósíalismi er ekki svarið

Landsmenn standa frammi fyrir langtíma hagvaxtarrýrnun af völdum óhagstæðrar þróunar aldurssamsetningar þjóðarinnar.  Að öðru óbreyttu mun þetta leiða til hægari lífskjarabata þjóðarinnar og að lokum lífskjararýrnunar, ef fer fram sem horfir.

Svo kann að fara af þessum sökum, að landsmenn upplifi aldrei aftur viðlíka hagvöxt og í fyrra, 7,2 %, og að kaupmáttur ráðstöfunartekna vaxi ekki mikið úr þessu. Svona svartsýni styður mannfjöldaspá Hagstofu Íslands.  Á hálfri öld, 2017-2065, mun fjöldi fólks yfir 64 ára aldri 2,4 faldast, hækka úr 50 k í 120 k.  Hið s.k. framfærsluhlutfall, þ.e. fjöldi fólks undir tvítugu og yfir 64 sem hlutfall af fjöldanum 20-64 ára mun á sama tíma hækka úr 51 % í 72 %.  Þetta er mjög íþyngjandi breyting fyrir samfélagið, því að árlegur sjúkrakostnaður fólks yfir 64 ára aldri er að jafnaði ferfaldur á við árlegan sjúkrakostnað yngri borgaranna.

Samkvæmt Sölva Blöndal, hagfræðingi hjá GAMMA Capital Management, í grein í Markaðnum, 23. ágúst 2017, má bást við, að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu muni rúmlega tvöfaldast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á tímabilinu 2015-2050 m.v. 3,0 % raunaukningu á ári, fara úr 7,0 % í 15,2 %.  Þetta þýðir með núverandi verðlagi og hlutdeild ríkisins í sjúkrakostnaði yfir 200 miaISK/ár útgjaldaauka ríkisins.  Hvernig í ósköpunum á að fjármagna þetta ?

Hjá OECD hafa menn komizt að því, að meðaltal ríkissjóðsútgjalda til heilbrigðismála muni árið 2060 nema 14 % af VLF og hafa orðið ósjálfbær um miðja öldina, þ.e. eitthvað verður undan að láta á útgjaldahlið ríkisfjármálanna.  Kerfið hrynur. 

Við þessari óheillaþróun þarf að bregðast nú þegar til að draga úr tjóninu, sem blasir við.  Er meiri sósíalismi svarið ?  Nei, áreiðanlega ekki.  Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, talaði á nýlegum flokksráðsfundi eins og Hugo Chavez áður en hann kollsigldi ríkasta landi Suður-Ameríku í gjaldþrot:

"Vaxandi misskipting gæðanna sprettur beinlínis af því efnahagskerfi og þeim pólitísku stefnum, sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi, og nú er svo komið, að sífellt fleira fólk er farið að finna fyrir því."

Stefna Katrínar og hennar nóta birtist við afgreiðslu fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar á síðasta þingi.  Þær fólu í sér svo mikla hækkun ríkisútgjalda á næstu árum, að þær mundu grafa undan getu ríkisins til að takast á við öldrunarvandann, sem við blasir í framtíðinni.  

Það eru aðeins tvær leiðir til að fjármagna útgjaldahugdettur vinstri manna.  Annaðhvort með skuldasöfnun eða skattahækkunum.  Hvort tveggja dregur úr svigrúmi ríkissjóðs til langs tíma og er þannig ávísun á enn stórfelldari kjaraskerðingu barna okkar og barnabarna en ella verða nauðsynlegar.

Skynsamlegustu viðbrögðin núna við aðsteðjandi vanda eru þríþætt:

  1. Reyna að bæta lýðheilsuna með fræðsluátaki í skólum og í fjölmiðlum um skaðsemi óhófsneyzlu, hreyfingarleysis og óholls matarræðis.  Ef þetta leiðir til betri heilsu eldri borgara, sparast opinber útgjöld, þótt langlífi aukist.  
  2. Reyna að lækka einingarkostnað á hvers konar þjónustu hins opinbera.  Til þess hafa aðrar þjóðir nýtt einkaframtakið.  Af hverju er það talið ósiðlegt hér, sem er viðurkennd sparnaðarleið fyrir skattborgarana erlendis ?  Kasta verður kreddum og pólitískum fordómum á haf út, þegar meðferð skattfjár er annars vegar.  Um þetta skrifar Sölvi Blöndal í téðri grein: "Áskorunin felst m.a. í því að tryggja fjármögnun og framboð á heilbrigðisþjónustu og stuðla að hagvaxtarhvetjandi aðgerðum til framtíðar.  Hvað viðvíkur fjármögnun og framboði á heilbrigðisþjónustu þá er mikilvægt að tryggja fjölbreytni. Fleiri geta annast sjálfa þjónustuna, hið opinbera, einkafyrirtæki, einstaklingar, sjálfseignarstofnanir, tryggingafélög o.fl.  Sá, sem aflar fjárins, þarf ekki endilega að hafa yfirumsjón með þjónustunni.  Tvær hagvaxtarhvetjandi aðgerðir, sem vert er að nefna, eru hækkun eftirlaunaaldurs annars vegar og minni hömlur á fólksflutninga til Íslands hins vegar."  Ef innflytjendur eiga að styrkja hagkerfið, þurfa þeir að hafa menntun og þekkingu, sem spurn er eftir hér. Ekki er víst, að afkvæmi þeirra fjölgi sér hraðar en "frumbyggjarnir".
  3. Nýta verður núverandi svigrúm ríkisfjármála til að greiða hratt niður skuldir ríkissjóðs, því að að einum áratug liðnum mun "ellibyrðin" hafa vaxið til muna.   

 Hugmyndafræði vinstri manna er meira í ætt við trúarbrögð en stjórnmálastefnu, því að annars væri hugmyndafræði þeirra löngu dauð vegna slæmrar reynslu af henni á sviði efnahagsmála og á sviði frelsis einstaklinga og félagasamtaka.  Hugmyndafræði vinstri manna á enn verr við á 21. öldinni en áður, því að nú verður að setja aukna verðmætasköpun á oddinn sem aldrei fyrr til að "hinn öfugi aldurspýramídi" hrynji síður.  Um þetta skrifar Óli Björn Kárason, Alþingismaður, í ágætri miðvikudagsgrein í Morgunblaðinu, 23. ágúst 2017,

"Játning: ég mun aldrei skilja sósíalista":

"Hugmyndafræði vinstri manna - sósíalista - gefur ekkert fyrir þjóðfélag frjálsra einstaklinga, sem eru fjárhagslega sjálfstæðir.  Mælikvarði velferðar og réttlætis [þeirra] mælir umsvif ríkisins.  Íslenzkir vinstri menn - líkt og skoðanabræður þeirra í öðrum löndum - byggja á þeirri bjargföstu trú, að ríkið sé upphaf og endir allra lífsgæða.  Aukin umsvif ríkis og annarra opinberra aðila er markmið í sjálfu sér, en [eru] ekki aðeins æskileg."

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Rétt hjá þér, Bjarni, að taka á þessu alvarlega máli framtíðar þessarar litlu þjóðar. Ég rakst einmitt á grein Sölva Blöndal í Markaðnum og hef ætlað mér að blogga um hana. Þetta er fyrst og fremst afleiðing lítillar tímgunar þjóðarinnar nú orðið, og í raun er "vöxturinn" orðinn neikvæður -- það fæðast ekki nema 1,75 börn á hvert par í landinu eða hverja konu á barneignaaldri, og það leiðir í sjálfu sér til hruns í fólksfjölda.

Er upptekinn nú, en kem aftur að þessu máli, en þakka þér pistilinn.

Jón Valur Jensson, 30.8.2017 kl. 13:36

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er hárrétt hjá þér, Jón Valur, að orsaka þessarar óheillaþróunar er aðallega að leita í of lítilli tímgun.  Hún hefur hrapað og er nú á meðal minnstu tímgunar í Evrópu, minni en á meðal Svía.  Þetta gerist þrátt fyrir foreldraorlof og á sama tíma og mikil fjölgun á sér stað á konum með háskólapróf.  Ég get mér þess til, að þeim þyki barneign ógna starfsframa sínum um of.  Foreldraorlofið hefur þá ekki virkað fyllilega.  Þetta er sorgleg þróun, sem samfélagið þarf að hægja á.  Ævin lengist stöðugt, en aukast lífsgæðin að sama skapi ?

Bjarni Jónsson, 30.8.2017 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband