Verður aukin skattbyrði umflúin ?

"Skattbyrði launafólks að teknu tilliti til tekjuskatts, útsvars og persónuafsláttar auk barna- og vaxtabóta hefur þyngzt í öllum tekjuhópum frá árinu 1998 t.o.m. árinu 2016, en þó mest frá árinu 2010."

Þetta er niðurstaða úr rannsókn Hagdeildar ASÍ, sem birt var 28. ágúst 2017.  Í þessu eru engar fréttir, og sama niðurstaða gildir um allan hinn vestræna heim.  Flest önnur vestræn ríki glíma við hagvaxtartregðu, sem kann að halda innreið sína hér fyrr en margan grunar, því að mjög sígur nú á ógæfuhlið með s.k. framfærsluhlutfall, sem er fjöldi fólks utan vinnumarkaðar sem hlutfall af fjölda á vinnumarkaði.

Höfuðmáli skiptir fyrir tekjuöflun hins opinbera, að hagkerfið hiksti ekki og sýni helzt hagvöxt yfir 3 %/ár að raunvirði.  Þá þarf skattgrunnurinn að vera sem breiðastur, svo að skattheimtan (skatthlutfallið) geti orðið sem lægst.  Nú mun ríða á að sigla á milli skers og báru varðandi skattheimtuna, svo að hún hafi sem minnzt lamandi áhrif á hagkerfið, en afli hinu opinbera þó nægra tekna til að standa straum af óumflýjanlega vaxandi útgjöldum af völdum öldrunar.  Það vitlausasta, sem yfirvöld geta gert í þessari stöðu, er að drepa mjólkurkúna.  Það er miðstéttin og hátekjufólk, sem stendur undir rekstri opinbera kerfisins að meginhluta, og gegndarlausar skattahækkanir á þetta fólk eru ígildi þess að drepa mjólkurkúna, því að þar með er verið að letja fólk til tekjuöflunar, sem gefin er upp til skatts, og á endanum verður landflótti sérfræðinga, sem er eitt það versta, sem fyrir landið getur komið.  Til þess er blindinginn Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hins vegar albúin, ef hún kemst til valda.  Í anda Hugo Chavez og Nicholas Maduros, geggjuðu sósíalistaforingjanna í Venezúela, mun téð Katrín ekki hika við að saga í sundur greinina, sem við öll þó sitjum á.

Í téðri skýrslu kvartar ASÍ undan því, að skattbyrði lágtekjufólks hafi hækkað mest.  Skattkerfið og bótakerfið mynda eina flækju, sem fáir hafa fullan skilning á.  Til einföldunar ætti að hækka skattleysismörkin upp í 250-300 kISK/mán (k=þúsund) og fella bætur niður á móti, t.d. vaxtabætur og barnabætur.  Allir njóta góðs af hækkuðum skattleysismörkum, en lágtekjufólk þó lang mest.  

Fasteignagjöld sveitarfélaganna ná ekki lengur neinni átt og eru orðin refsing fyrir að eiga húsnæði. Fyrir skuldugt ungt fólk og tekjulitla gamlingja eru fasteignagjöldin þungbær. Húseigendur borga sveitarfélögum margfaldan þann kostnað, sem þau bera af þjónustu vegna húsnæðisins.  Fasteignagjöld á höfuðborgarsvæðinu eru nú 0,20 %-0,31 %.  Með lögum ætti að lækka hámarksfasteignagjöld í 0,2 %, fjarlægja gólfið og fella þau niður af eldri borgurum til að auðvelda þeim að dvelja áfram í eigin húsnæði, öllum til hagsbóta.  Sömu sveitarfélög leggja 1,18 %-1,65 % á atvinnuhúsnæði. Þetta jaðrar við eignaupptöku og er orðið mjög íþyngjandi fyrir atvinnuvegina og ætti með lögum að lækka í hámark 1,0 %. Lágmarkið ætti að afnema. 

Útflutningsfyrirtækin berjast mörg í bökkum, þótt ISK láti nú undan síga.  Til að bæta samkeppnishæfni fyrirtækjanna væri ráð að lækka tekjuskatt þeirra niður í 12 % - 15 %.  Þetta mundi örva fjárfestingar hérlendis, auka nýsköpunarkraft fyrirtækjanna og gera þeim kleift að leggja meira fé í rannsóknir.  Óðinn skrifar um þetta í Viðskiptablaðið, 13. júlí 2017, og vitnar í nafngreinda fræðimenn:

"Í einföldu máli komast þau að þeirri niðurstöðu, að nýsköpun innan fyrirtækjanna minnkar í kjölfar hækkunar tekjuskatts á fyrirtæki í þeirra heimaríki.  Hækkun tekjuskatts um 1,5 % (frá miðgildinu 7 %) leiðir til þess, að um 37 % fyrirtækja sækja um einu færra einkaleyfi á næstu tveimur árum.  Miðgildi einkaleyfaumsókna fyrirtækja er 9,1 umsókn á ári.  Þegar hafður er í huga sá gríðarlegi fjöldi fyrirtækja, sem í Bandaríkjunum eru, þá er um verulega mikil áhrif að ræða."

Breyttar þjóðfélagsaðstæður gera enn meiri kröfur til yfirvalda en áður um gæði skattheimtu.  Frá 2007 hefur tekjuskattur einstaklinga hækkað um 34 %, útsvarið hækkað um 11 %, fjármagnstekjuskattur og erfðafjárskattur um 100 % og tekjuskattur fyrirtækja um 33 % (úr 15 % í 20 %).Fjármagnstekjuskattur er skaðlegur fyrir sparnað. Hann ætti að helminga og ekki að skattleggja verðbætur.  Erfðafjárskattur ætti að fara (aftur) í 5 %.  

Katrín Jakobsdóttir og fylgifiskar virðast aldrei leiða hugann að afleiðingum skattheimtubreytinga á hegðun skattborgarans.   Slíka greiningu er nauðsynlegt að gera til að leggja mat á afleiðingarnar fyrir hagkerfið.  Gösslaragangur og einsýni vinstri manna í umgengni við skattkerfið gerir þá óhæfa til setu í ríkisstjórn á tímum aukinnar fjárþarfar og minnkandi tekjustofna. Slík hegðun verður enn skaðlegri fyrir hagkerfið, þegar rekstur ríkissjóðs verður í járnum, eins og fyrirsjáanlegt er með minnkandi tekjuaukningu og síðan tekjusamdrætti og hratt vaxandi útgjaldaþörf.   

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Skattkerfi þar sem verðbætur á innistæðum eru skattlagðar, hlýtur að þarfnast hressilegrar endurskoðunar. Þetta er eignaupptaka og allt að því þjófnaður. Það er undarlegur fjandi, að ekki skuli skipta neinu máli hvort ríkisstjórnir hér á landi séu hægri, vinstri eða miðjumoðs. Skattar og álögur gera aldrei annað en að hækka. Núverandi ríkisstjórn hefur staðið sig ömurlega í því því að einfalda skattkerfið og lækka álögur á einstaklinga og fyrirtæki. Sennilega vegna þess að hún er einhverskonar hérumbil ljósblá, með fölbláu ívafi fílupúka, sem einu sinni voru einhverskonar bláir, ásamt viðhengi í sinnepslitum jakkafötum.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 2.9.2017 kl. 00:15

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ríkisreksturinn er kynjaskepna, sem er orðin ófreskja, risavaxin og hálflömuð.  Slík skepna verður auðvitað fljótt óseðjandi hít.  Það er og hefur alltaf verið trúaratriði vinstri manna, að þessa skepnu verði að fóðra æ meira.  Það verður að spyrna við fótum og inna hluta þjónustunnar af hendi á skilvirkari hátt en nú er gert.  Annars sligast burðardýrin.

Bjarni Jónsson, 2.9.2017 kl. 10:40

3 Smámynd: Emil Þór Emilsson

Það er rétt það virðist engu skipta hver er í stjórn alltaf hækka skattar.

Það hefði nú verið gott ef Pétur Blöndal hefði verið á lífi hann hefði verið upplagður maður í að skoða þetta.

Það vantar duglegar skattalækkanir á réttum stöðum til þess að skattekjur ríkisins geti aukist

Því miður vantar alla frjálshyggju í stjórnmál á íslandi.

Emil Þór Emilsson, 2.9.2017 kl. 10:43

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er lóðið, Emil Þór.  Skattbyrði á Íslandi er nú þegar á meðal hinna þyngstu, sem þekkjast.  Það er áhyggjuefni til framtíðar litið.  Þess vegna verður að auka skilvirknina í meðferð skattfjár, "fá meira fyrir minna", ef skattstofnarnir eiga ekki að hrynja við minnstu ágjöf.  Það þarf að leiða til öndvegis fólk með rekstrarvit og peningavit, fólk, sem kann að reka fyrirtæki, fólk, sem veit, að þegar endar ná ekki saman, er stundum eina lausnin að spara.  Ef þetta er frjálshyggja í pólitík, þá er frjálshyggjan í ætt við heilbrigða skynsemi. 

Bjarni Jónsson, 2.9.2017 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband