Orkuskipti útheimta nýjar virkjanir

Vestfirðingar standa nú frammi fyrir byltingu í atvinnuháttum sínum.  Það mun verða gríðarleg vítamínsprauta í samfélag þeirra og í þjóðfélagið allt, þegar laxeldi nær tugþúsundum tonna á hverju ári eða á bilinu 50-80 kt/ár, sumt hugsanlega í landkerum. Þarna er að koma til skjalanna ný meiri háttar útflutningsatvinnugrein með öllum þeim jákvæðu hliðaráhrifum, sem slíkum fylgja.  

Ný framleiðsla mun útheimta nýtt fólk.  Af þeim orsökum mun verða mikil fólksfjölgun á Vestfjörðum á næstu tveimur áratugum.  Hagvöxtur verður e.t.v. hvergi á landinu meiri en þar, þar sem Vestfirðingum gæti fjölgað úr 7 k (k=þúsund) í 12 k eða um 70 % á tveimur áratugum.  Þetta verður þó ekki hægt án þess að hleypa nýju lífi í innviðauppbygginguna, skólakerfi, heilbrigðiskerfi, vegakerfi og raforkukerfi, svo að eitthvað sé nefnt.  Fyrstu hreyfingarnar í þessa veru má merkja með Dýrafjarðargöngum á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem einnig mun hýsa háspennustrengi, og niður fara á móti loftlínur í 600 m hæð. Þá er einnig gleðiefni margra, að búið er að auglýsa deiliskipulag fyrir 55 MW Hvalárvirkjun.

Þörf fyrir raforku og rafafl mun aukast gríðarlega á Vestfjörðum samhliða vexti atvinnulífsins og fólksfjölgun.  Það dregur ekki úr aukningunni, að megnið af húsnæðinu er rafhitað, ýmist með þilofnum eða heitu vatni frá rafskautakötlum.  Ætla má, að starfsemi laxeldisfyrirtækjanna og íbúafjölgunin henni samfara ásamt óbeinu störfunum, sem af henni leiða, muni á tímabilinu 2017-2040 leiða til aukningar á raforkunotkun Vestfjarða um tæplega 300 GWh/ár og aukinni aflþörf 56 MW.  Við þessa aukningu bætist þáttur orkuskiptanna, sem fólgin verða í styrkingu á rafkerfum allra hafnanna og rafvæðingu e.t.v. 70 % af fartækjaflotanum. 

Nýlega kom fram í fréttum, hversu brýnt mengunarvarnamál landtenging skipa er.  Þýzkur sérfræðingur staðhæfði, að mengun frá einu farþegaskipi á sólarhring væri á við mengun alls bílaflota landsmanna í 3 sólarhringa.  Yfir 100 farþegaskip venja nú komur sínar til Íslands.  Þau koma gjarna við í fleiri en einni höfn.  Ef viðvera þeirra hér er að meðaltali 3 sólarhringar, liggja þau hér við landfestar í meira en 300 sólarhringa.  Þetta þýðir, að árlega menga þessi farþegaskip 2,5 sinnum meira en allur fartækjafloti landsmanna á landi.  Þetta hefur ekki verið tekið með í reikninginn, þegar mengun af völdum ferðamanna hérlendis er til umræðu.  Gróðurhúsaáhrif millilandaflugs eru 7,6 sinnum meiri en landumferðarinnar.  Þetta fer lágt í umræðunni, af því að millilandaflugið er ekki inni í koltvíildisbókhaldi Íslands.  Er ekki kominn tími til, að menn hætti að vísa til ferðaþjónustu sem umhverfisvæns valkosts í atvinnumálum ?  

Staðreyndirnar tala sínu máli, en aftur að aukinni raforkuþörf Vestfjarða.  Orkuskiptin munu útheimta tæplega 100 GWh/ár og 24 MW.  Alls mun aukin raforkuþörf árið 2040 m.v. 2016 nema tæplega 400 GWh/ár og 80 MW. Þetta er 58 % aukning raforkuþarfar og 92 % aukning aflþarfar.  Að stinga hausnum í sandinn út af þessu og bregðast ekki við á annan hátt mundi jafngilda því að láta gullið tækifæri úr greipum sér ganga.  

Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir, hefur samt skorið upp herör gegn virkjun Hvalár á Ströndum.  Hann hefur hlaupið út um víðan völl og þeyst á kústskapti á milli Suðurnesja og Stranda í nýlegum blaðagreinum.  Læknir, þessi, berst gegn lífshagsmunamáli Vestfirðinga með úreltum rökum um, að ný raforka, sem verður til á Vestfjörðum, muni fara til stóriðjuverkefna á  "SV-horninu".  Þetta eru heldur kaldar kveðjur frá lækninum til Vestfirðinga, og hrein bábilja.  Þróun atvinnulífs og orkuskipta á Vestfjörðum er algerlega háð styrkingu rafkerfis Vestfjarða með nýjum virkjunum til að auka þar skammhlaupsafl og spennustöðugleika, sem gera mun kleift að stytta straumleysistíma hjá notendum og færa loftlínur í jörðu.  Tvöföldun Vesturlínu kemur engan veginn að sama gagni.   

Skurðlæknirinn skrifaði grein í Morgunblaðið, 1. september 2017,

"Fyrst Suðurnes - síðan Strandir:

"Virkjunin er kennd við stærsta vatnsfall Vestfjarða, Hvalá, og er sögð "lítil og snyrtileg".  Samt er hún 55 MW, sem er langt umfram þarfir Vestfjarða.  Enda er orkunni ætlað annað - einkum til stóriðju á SV-horninu."

Hér er skurðlæknirinn á hálum ísi, og hann ætti að láta af ósæmilegri áráttu sinni að vega ódrengilega að hagsmunum fólks með fjarstæðukenndum aðdróttunum.  Honum virðist vera annt um vatn, sem fellur fram af klettum í tiltölulega vatnslitlum ám á Ströndum, en hann rekur ekki upp ramakvein sem stunginn grís væri, þótt Landsvirkjun dragi mikið úr vatnsrennsli yfir sumartímann í Þjófafossi og Tröllkonuhlaupi í árfarvegi stórfljótsins Þjórsár og þurrki þessa fossa  upp frá september og fram um miðjan maí með Búrfellsvirkjun II.  Hvers vegna er ekki "system i galskapet" ? 

Mismikið vatnsmagn í þessu sambandi er þó aukaatriði máls.  Aðalatriðið er, að það er fyrir neðan allar hellur, að nokkur skuli, með rangfærslum og tilfinningaþrungnu tali um rennandi vatn, gera tilraun til að knésetja ferli Alþingis um virkjanaundirbúning, sem hefst með Rammaáætlun, þar sem valið er á milli nýtingar og verndunar, og heldur svo áfram með umhverfismati, verkhönnun, upptöku í deiliskipulag og framkvæmdaleyfi.  Þessi sjálflægni og rörsýn er vart boðleg á opinberum vettvangi.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband