Landbúnaður í mótbyr

"Íslenzkur landbúnaður getur gegnt lykilhlutverki í því mikilvæga verkefni, að við sem þjóð náum árangri í loftslagsmálum.  Bændur ættu að senda stjórnvöldum tilboð strax í dag um að gera kolefnisbúskap að nýrri búgrein."

Þannig hóf Haraldur Benediktsson, Alþingismaður, merka grein sína í Morgunblaðinu 26. ágúst 2017,

"Tækifærið er núna".

Hann mælir þar fyrir því, sem virðist vera upplagt viðskiptatækifæri og hefur verið mælt með á þessu vefsetri. Ef vitglóra væri í hafnfirzka kratanum á stóli landbúnaðarráðherra, hefði hún tekið sauðfjárbændur á orðinu síðla vetrar, er þeir bentu henni á aðsteðjandi vanda vegna markaðsbrests, og lánað þeim ónotaðar ríkisjarðir, sem eru margar, til að rækta nytjaskóg, sem fljótlega yrði hægt að nota til kolefnisjöfnunar gegn hækkandi gjaldi.

Haraldur skrifar:

"Sauðfjárbændur hafa ályktað, að búgrein þeirra verði kolefnisjöfnuð.  Innan tíðar á að liggja fyrir fyrsta tilraun til útreiknings á bindingu og losun sauðfjárbúa."

Með vottaða kolefnisjöfnun í farteskinu við markaðssetningu lambakjöts öðlast bændur viðspyrnu á markaði, sem ríkisvaldið á að aðstoða þá við.  Ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs virðist hins vegar bara vera fúl á móti öllum þeim atvinnugreinum, sem eiga með réttu að vera skjólstæðingar hennar.  Það er alveg sama, hvort hér um ræðir sjávarútveg, laxeldi eða landbúnað, ráðherrann hlustar ekki og hreyfir hvorki legg né lið til að koma til móts við þessar greinar og aðstoða þær til að þróast til framtíðar. Menn átta sig ekki vel á, hvar stefnu þessa ráðherra í atvinnumálum er að finna.  Er hennar e.t.v. að leita í Berlaymont í Brüssel ? Þessum ráðherra virðist aldrei detta neitt í hug sjálfri, heldur reiðir sig á aðra með því að skipa nefndir.  Það er allur vindur úr þessum hafnfirzka krata, sem pólitískt má líkja við undna tusku.  

Af hverju bregzt hún ekki kampakát við herhvöt Haraldar í niðurlagi greinar hans ?:

"Gerum árið 2017 að tímamótaári, þar sem við leggjum grunn að nýrri og öflugri búgrein, kolefnisbúskap, sem getur fært okkur sem þjóð mikil tækifæri til að takast á við skuldbindingar okkar og ekki sízt að skapa með því grunn að styrkari byggð í sveitum.  Það er óþarfi að gefast upp fyrir þessu verkefni með því að senda mikla fjármuni til annarra landa [ESB-innsk. BJo] í því skyni að kaupa losunarheimildir, þegar vel má kaupa slíka þjónustu af landbúnaði og íslenzkum bændum."

Þetta er hverju orði sannara, og blekbóndi hefur bent á það á þessu vefsetri, að nú stefnir í milljarða ISK yfirfærslur til ESB út af því, að embættismenn og ráðherrar hafa skrifað undir óraunhæfar skuldbindingar fyrir hönd Íslands um minnkun á losun koltvíildis.  Þessi lömun ráðherranna umhverfis og landbúnaðar er orðin landsmönnum öllum dýrkeypt, en sá fyrrnefndi virðist aðeins rumska, ef mál á hennar könnu komast í fréttirnar.  Annars er hún gjörsamlega utan gátta, nema ef halda á tízkusýningu innan gáttar.  Þá er hún til í tuskið, enda vill hún sýna, hvernig "sterk kona" hagar sér.  Því miður er Stjórnarráð Íslands hér til umfjöllunar, en ekki Sirkus Íslands.  Sá síðar nefndi er þó áhugaverðari, enda er þar hæft fólk á sínu sviði.  

Haraldur Benediktsson fræddi okkur á því í téðri grein, að "[sem] dæmi má nefna, að mælingar hérlendis hafa sýnt, að losun vegna tiltekinnar landnotkunar, t.d. framræslu á mýrartúni, er um 80 % minni en þau viðmið, sem alþjóðlegar leiðbeiningar styðjast við."

Þetta eru allnokkur tíðindi. Lengi hefur verið hnjóðað í landbúnaðinn fyrir ótæpilegan skurðgröft, sem hafi orðið valdur að losun á 11,6 Mt/ár af koltvíildisjafngildum, sem er svipað og öll losun vegna orkunotkunar á Íslandi á láði, í lofti og á legi, að teknu tilliti til þrefaldra gróðurhúsaáhrifa af losun þotna í háloftunum m.v. brennslu á jörðu niðri.  Þessi áhrif hafa þá lækkað niður í 2,3 Mt/ár, sem er svipað og af völdum iðnaðarins á Íslandi.  Þessi mikla losun, 11,6 Mt/ár CO2eq, frá uppþornuðum mýrum átti að vera vegna niðurbrots gerla (baktería) á lífrænum efnum, en fljótt hægist á slíku niðurbroti, og hitt vill gleymast, að frá mýrum losnar metan, CH4, sem er meir en 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2.

Sauðfjárbændur hafa orðið fyrir barðinu á þeirri stjórnvaldsákvörðun að taka þátt í efnahagslegum refsiaðgerðum Vesturveldanna gegn Rússum.  Enn muna menn eftir Gunnari Braga, þáverandi utanríkisráðherra, er hann óð gleiðgosalegur um lendur Kænugarðs og hafði í hótunum við gerzka stórveldið.  Rússar svöruðu ári seinna með því að setja innflutningsbann á ýmis matvæli frá Íslandi. 

Var lambakjöt á bannlista Rússanna ?  Það hefur ekki verið staðfest.  Það, sem meira er; Jón Kristinn Snæhólm hafði það eftir sendiherra Rússa á Íslandi í þætti á ÍNN 1. september 2017, að hjá Matvælastofnun (MAST) lægi nú rússneskur spurningalisti.  Ef MAST svarar honum á fullnægjandi hátt fyrir Rússa, þá er ekkert í veginum fyrir því að flytja íslenzkt lambakjöt út til Rússlands, var haft eftir sendiherranum.  Það er ástæða fyrir núverandi utanríkisráðherra Íslands að komast til botns í þessu máli og gefa yfirlýsingu út um málefnið.  Ennfremur ætti hann að beita utanríkisráðuneytinu til að semja við Rússa um kaup á t.d. 10 kt af lambakjöti á þriggja ára skeiði að uppfylltum gæðakröfum gerzkra.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Já kollege Bjarni, mæltu manna heilastur. Reynum að vingast meira við Rússa. Eftir upplýsingar Jóns Kristins er þar verk að vinna. En við verðum að hætta að beita kindum á uppblástur og reyna að hlífa afréttunum sem ekki þola ofbeit. Hugsa um hvar kindin gengur og hvar hún er búin að ofbeita sér.

Halldór Jónsson, 7.9.2017 kl. 01:53

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Kollega Halldór.  Það eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi viðskipti okkar við Rússa.  Upplýsingar Jóns Kristins Snæhólm voru merkilegar, þótt ekki fylgdi sögunni, hvort báðir voru edrú, þegar samtalið fór fram.  Gildandi viðskiptabann Vesturveldanna á Rússland er einvörðungu á vörum, sem nota má við hergagnaframleiðslu, og svo ferðabann og fjármunafrysting á nokkra ólígarka.  Hvað kemur okkur þetta við ?  Það var heimskulegt af utanríkisráðuneytinu að láta draga Íslendinga á asnaeyrunum inn í þetta viðskiptabann.  Útflutningsvörur okkar til Rússlands voru sambærilegar við útflutning Færeyinga.  Þeir halda uppteknum hætti.  Ef núverandi utanríkisráðherra ætlar að fá betri eftirmæli en sá fyrri, ætti hann að beita sér fyrir sölu á íslenzku kindakjöti til Rússlands strax og til lengri tíma að draga Ísland út úr þessu kjánalega viðskiptabanni ESB/BNA.

Sauðfé er líklega helmingi færra í landinu núna, en þegar það var flest.  Hefur Landgræðslan varað við ofbeit nýverið, nema á Hólsfjöllum og í grennd við Þórsmörk ?

Bjarni Jónsson, 7.9.2017 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband