Auðlindastjórnun í ljósi reynslunnar

Frá öndverðu nýttu Íslendingar aðallega gögn og gæði landsins sér til lífsviðurværis, þótt sjórinn væri ætíð nýttur með. Takmörkuðu vinnuafli var aðallega beint að landbúnaðarstörfum, þótt ungir menn væru sendir í verið.  Sjórinn tók hins vegar ægilegan toll af sjómönnum, allt þar fiskiskipin urðu öflugri undir lok 19. aldar.  Kann hræðilegur fórnarkostnaður að hafa ráðið nokkru um, að sjávarútvegur varð ekki undirstöðuatvinnuvegur hér fyrr en skömmu fyrir aldamótin 1900.

Nú tækni ruddi þá sjávarútvegi brautina.  Þilskipin gjörbreyttu aðstöðu sjómanna, hafnargerð hófst og vélvæðing skipanna hóf innreið sína.  Hvalveiðar Norðmanna upp úr 1870 hér við land og hvalvinnsla á Vestfjörðum og Austfjörðum umbyltu atvinnuháttum og þar með þjóðlífinu öllu.  Árið 1890 námu útflutningstekjur af sjávarafurðum hærri upphæð en útflutningstekjur af landbúnaðarafurðum, sem verið höfðu aðalútflutningsvörur landsmanna frá upphafi, í vöruskiptum og sem gjaldeyrislind. Síðan hefur sjávarútvegur verið undirstöðu atvinnugrein landsmanna.   

Nýlega gaf Ágúst Einarsson, prófessor emeritus við Háskólann á Bifröst, út bókina "Fagur fiskur í sjó".  Að því tilefni birti Guðsteinn Bjarnason viðtal við fræðimanninn í Fiskifréttum, 31. ágúst 2017:

"Það má segja, að hinar hefðbundnu veiðar og vinnsla standi undir 9 %-11 % af landsframleiðslunni, en þegar sjávarútvegurinn er skoðaður í heild, þá skilar hann okkur ríflega 20 %, því að sjávarútvegurinn hér á landi er svo miklu meira en bara veiðar og vinnsla.  Til hans verður líka að telja t.d. veiðarfæragerð og vélsmíði í tengslum við sjávarútveg, en þar erum við með stórfyrirtæki á heimsmælikvarða, eins og Hampiðjuna og Marel og mörg önnur fyrirtæki.  Þarna hefur orðið bylting, og þetta gerir sjávarútveginn að mikilvægustu atvinnugrein landsmanna."

Ekki skal í efa draga, að sjávarútvegurinn skapi landsmönnum mestan auðinn allra atvinnugreina, en reiknað með sama hætti stendur iðnaðurinn undir um 20 % landsframleiðslunnar líka.  Í sambandi við raforkuiðnaðinn í landinu má geta þess, að ef flytja þyrfti inn olíu til að framleiða þær 18,5 TWh/ár af raforku, sem framleiddar eru með vatnsafli og jarðgufu, sem er auðvitað óraunhæft dæmi, þá næmi andvirði þess innflutnings um 280 miaISK/ár um þessar mundir. Orkuvinnslan í landinu lyftir lífskjörunum og gerir landið samkeppnishæft við útlönd um fólk og fyrirtæki.   

Ágúst ræddi einnig um fiskveiðistjórnunina:

"Ástæðan fyrir því, að það hafa verið svo miklar deilur um fiskveiðistjórnina, er sú, að þetta kerfi býr til verðmæti, sem heitir auðlindarenta, og það gerist vegna þess, að aðgangurinn er takmarkaður, en þá vakna spurningar um það, hver á rentuna ?  Á að skattleggja þetta sérstaklega t.d. til að efla byggðir landsins."  

Umrædd skattlagning er veikasti hlekkur fiskveiðistjórnunarkerfisins.  Hún er reist á röngum og úreltum forsendum.  Spyrja má grundvallarspurningar varðandi verðmætasköpun sjávarútvegsins á borð við þá, hvers virði óheftur réttur að miðunum sé, þegar ljóst er, að hann mundi valda tapi allra útgerðanna.  Hann er einskis virði.  Þess vegna er engin ástæða til sérskattlagningar á núverandi útgerðir.  Hins vegar má til sanns vegar færa, að útgerðirnar standa í þakkarskuld við ríkisvaldið fyrir að hafa skapað umgjörð sjálfbærrar nýtingar á sjávarauðlindunum.  Þess vegna er hóflegt auðlindagjald af útgerðunum sanngjarnt, en afraksturinn á ekki að renna í ríkissjóð, heldur í sjávarútvegssjóð til sveiflujöfnunar innan sjávarútvegsins og fjárfestinga tengdum sjávarútveginum, s.s. í nýju hafrannsóknarskipi Hafrannsóknarstofnunar, þyrlum Landhelgisgæzlu, hafnabótum, rafkerfisstyrkingu hafnanna o.s.frv.  

Núverandi afturvirka aðferðarfræði við útreikning auðlindagjalds af sjávarútvegi er ótæk, og mun ganga af litlum og meðalstórum útgerðum dauðum.  Hún getur valdið ofsaskattheimtu, þar sem andvirði skattheimtunnar getur numið þriðjungi framlegðar fyrirtækis. 

Það er algerlega óskiljanlegt, að sjávarútvegsráðherra skuli leggja blessun sína yfir þá ofstopaskattheimtu af einni atvinnugrein, sem núverandi aðferðarfræði felur í sér, og girða fyrir breytingar fiskveiðiárið 2017/2018, sem henni væri þó í lófa lagið að gera.  Reikna ber verðmæti auðlindarinnar, sem er tiltölulega einfalt með núvirðisreikningum meðalframlegðar, deila henni á aflahlutdeildir og taka síðan ákveðna rentu af þessu, allt að 0,5 %/ár, en árleg upphæð mætti aldrei fara yfir 5 % framlegðar á síðasta fiskveiðiári.  

Þann 15. júní 2017 birtist viðtal Ásgeirs Ingvarssonar við Hjört Gíslason í Sjávarútvegi-riti Morgunblaðsins, í tilefni þýðingar Hjartar á nýrri bók Óla Samró, færeysks sjávarútvegsráðgjafa og hagfræðings, um mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfi:

"Óli Samró kemst að þeirri niðurstöðu í bókinni, að hvergi sé til fiskveiðistjórnunarkerfi, sem gerir ekkert rangt og allt rétt, en kerfi eins og það íslenzka og nýsjálenzka komist næst því að stýra fiskveiðum með hvað skynsamlegustum hætti."

"Í Lettlandi og á Kamchatka í Rússlandi var sú leið [uppboðsleið] prófuð, og í báðum tilvikum var uppboðstilraununum hætt, því að ávinningurinn var ekki sá, sem vonazt hafði verið eftir.  Í Rússlandi keyptu Kínverjar allan kvótann, sem var í boði, og í Lettlandi voru það Íslendingar."

Hvernig á að koma í veg fyrir, að fjársterkir aðilar, innanlands eða utan, bjóði hæsta verð í fiskveiðiheimildarnar með leppa sem skjöld og landi síðan aflanum, þar sem þeim sýnist ?  Það eru einfeldningar, sem halda, að hægt sé að hafa stjórn á þeim öflum, sem úr læðingi sleppa, þegar slík óþurftar tilraunastarfsemi með grunnatvinnuveg er sett í gang.

Hjörtur ýjar að sjúkdómseinkenni krata og sósíalista, þegar að veiðigjaldaumræðu kemur:

"Það virðist æ algengara, að stjórnmálamenn reyni að afla sér vinsælda með loforðum um að taka enn meira frá sjávarútveginum og nota til ýmissa verkefna.  En hafa verður í huga, að sjávarútvegurinn gerir nú þegar mikið fyrir þjóðarhag með beinum og óbeinum störfum, og tíðkast nánast hvergi annars staðar í heiminum, að útgerðir greiði auðlindagjald.  Þvert á móti skekkir það samkeppnisstöðu íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja, að keppinautar þeirra í öðrum löndum njóta styrkja frá hinu opinbera."

Skipum, sem úthlutað er veiðiheimildum við Íslandsstrendur, fer fækkandi með hverju árinu og útgerðum fækkar einnig.  Hvort tveggja er vísbending um hagræðingu í kerfinu.  Hins vegar leikur ekki á tveimur tungum, að núverandi veiðigjaldakerfi flýtir fyrir þessari þróun, og yfirvöld stuðla þannig með ósanngjörnum gjörðum sínum að hraðari samþjöppun í greininni en ella, alveg sérstaklega við núverandi aðstæður mikils tekjusamdráttar í sjávarútvegi. 

Alþingi samþykkti í óráði árið 2012 reglur, sem hafa afleiðingar, sem enginn stjórnmálaflokkur vill gangast við sem sinni stefnu.  Samt lemur núverandi sjávarútvegsráðherra hausnum við steininn, af því að hún gengur með steinbarn í maganum, sem hefur fengið nafnið "uppboðsleið".  

Orkulindir landsins eru líka takmörkuð auðlind, þótt takmörkunin sé annars eðlis en í sjávarútveginum.  Yfirvöld úthluta fyrirtækjum virkjanaleyfum, og ekki fá þau öll leyfi til að virkja, þar sem þau hafa hug á og hafa jafnvel rannsakað virkjanasvæði, eins og niðurstaða Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun er órækt vitni um. 

Þar að auki hefur Hæstiréttur dæmt sveitarfélagi í vil um, að það mætti leggja fasteignaskatt á vatnsréttindi í fljóti, sem rennur um sveitarfélagið, í hlutfalli við lengd fljótsins í viðkomandi sveitarfélagi (Fljótsdalshreppi).  Eina útistandandi ágreiningsefnið við eiganda virkjunarinnar, Landsvirkjun, er, hvaða gjaldflokk megi nota. 

Fulltrúar sveitarstjórna í sveitarfélögum, þar sem virkjuð á rennur um, en fáar eða engar fasteignir virkjunarinnar eru staðsettar, berja lóminn og kvarta undan því, að lítið af auðlindarentunni verði eftir í héraðinu.  Hvers vegna láta þau ekki meta vatnsréttindin til fjár og leggja síðan á fasteignagjald, sem þau hafa nú réttarheimild til samkvæmt dómafordæmi Hæstaréttar ?  Verðmætamatið þarf að vera samkvæmt viðurkenndri reikniaðferð um núvirðingu framtíðarframlegðar allra virkjana í ánni. Fyrir t.d. Þjórsá er ekki um neinar smáupphæðir að ræða og fara vaxandi.

Harðar deilur geisa um laxeldi í sjókvíum hér við land.  Sumpart eiga þær deilur rót að rekja til liðins tíma horfinna vinnubragða við þessa atvinnugrein.  Undanfarar ákvarðanatöku um starfsleyfi og rekstrarleyfi laxeldisstöðva eru tvíþættir.  Í fyrsta lagi burðarþolsmat Hafró á líklegri getu viðkomandi fjarðar til að hreinsa sig af úrgangi og aðskotaefnum frá fiskeldinu og í öðru lagi áhættugreining, þar sem metnar eru líkur á neikvæðum atburðum á borð við eldislaxastrok alla leið upp í nærliggjandi ár, sem leiði til meira en 4 % af eldislaxi í einni á. 

Til að reka endahnútinn á áhættugreininguna þarf hins vegar að meta líklegt fjárhagstjón af neikvæðum fylgifiskum laxeldis á móti samfélagslegum fjárhagsávinningi af laxeldinu. Bæði fólk og náttúra verða að fá að njóta vafans til lengdar.  Einnig má líta svo á, að íbúarnir séu hluti af náttúrunni á viðkomandi svæði. Sé þetta gert, t.d. fyrir Ísafjarðardjúp, mun koma í ljós, ef lausleg athugun blekbónda er rétt, að hámarkstjónið er vel innan við 5 % af líklegum fjárhagsávinningi samfélagsins (verðmætasköpun) á hverju ári.  Slíkt verður að telja, að réttlæti 30 kt/ár leyfisveitingu í Ísafjarðardjúpi, enda sé skaðabótaskylda eldisfyrirtækjanna niður njörvuð.

Í síðari hluta ágústmánaðar 2017 skilaði "Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi" skýrslu sinni til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.  Þar var lagt til að bjóða út starfsleyfi til sjókvíaeldis, og fer nú fram vinna við útfærslu þeirra tillagna.  Fyrirtækin eiga að fá 6 ára tímabil frá upphafsslátrun úr kvíunum að fyrstu greiðslu auðlindagjalds.

Hér er farið offari í gjaldtöku af atvinnustarfsemi, sem mun koma niður á fjárfestingum og nýsköpun í greininni og klárlega veikja samkeppnishæfni fyrirtækjanna á erlendum mörkuðum, því að þessi hegðun yfirvalda þekkist ekki annars staðar. Annaðhvort bjóða menn upp eða leggja á árlegt auðlindagjald, en alls ekki hvort tveggja. 

Verðmætamat á laxeldisauðlindinni gæti numið 4,0 MISK/t.  Reksturinn stendur ekki undir svo háu kaupverði, en e.t.v. má vænta tilboðs, sem nær 0,5 MISK/t. Til samanburðar hefur gangverð á þorskkvóta numið 2,5 MISK/t, en þar er yfirleitt um að ræða jaðarverð, þar sem útgerðir eru að bæta við sig kvóta. Ef þessi (0,5 MISK/t) yrði raunin í útboðum, mun kostnaður af leyfiskaupunum, jafnaður á 20 fyrstu rekstrarárin, nema um 6 % af framlegð.  Þetta er hátt og skýrir, hvers vegna hámark árlegs auðlindargjalds var í skýrslu téðs starfshóps sett föst upphæð, 15 ISK/kg af sláturlaxi.  Í heildina verða leyfisgjöld og auðlindargjald þungur baggi á starfseminni fyrstu árin, jafnvel 10 % af framlegð.  Undir núverandi sjávarútvegsráðherra má þó sjávarútvegurinn búa við enn verri kjör, þar sem veiðileyfagjöldin munu nema um miaISK 11 í heildina fiskveiðiárið 2017/2018 samkvæmt reglugerð hennar frá í sumar.  Þetta gæti að meðaltali numið 30 % af framlegð, sem er glórulaus gjaldtaka ríkisins.  

Til að gera sér í hugarlund, hversu gríðarlegar upphæðir kunna að verða greiddar fyrir laxeldisleyfin, er hægt að taka dæmi af Ísafjarðardjúpi, þar sem burðarþolsmatið hljóðar upp á 30 kt.  Ef þetta magn yrði boðið upp, gæti andvirðið numið miaISK 15.  Hvert á það að renna ?  Réttast væri að stofna sjóð, sem veitir fé til uppbyggingar innviða, sem tengjast fiskeldinu beint.  

Ályktunin af öllu þessu er, að það stefnir í ringulreið í auðlindastjórnun landsmanna.  Í sjávarútveginum er við lýði ofurgjaldtaka.  Veiðileyfagjaldið raskar samkeppnisstöðu íslenzkra útgerða við útlönd og við aðrar atvinnugreinar hérlendis.  Samþjöppun í greininni verður svo hröð, að sumar byggðir munu vart fá svigrúm til aðlögunar.  Veiðileyfagjaldið á sjávarútveginn er miskunnarlaus rányrkja ríkisins, sem má ekki standa.

Í orku- og fjarskiptageiranum fer ekki fram útboð á virkjanaleyfum eða fjarskiptarásum.  Gjald fyrir leyfisveitingar er mjög lágt, og ekkert auðlindargjald er innheimt.  

Þetta ósamræmi er óviðunandi og ber vott um afleita stjórnsýslu.  Hóflegt gjald ber að taka fyrir aðgang að náttúruauðlind "í sameign þjóðarinnar" eða afnotaréttinn, en það á ekki að refsa fyrirtækjum fyrir þessa nýtingu með því að rukka fyrir hvort tveggja.  Heildarkostnaður fyrirtækis af aðgangs- og/eða afnotarétti ætti aldrei að fara yfir 5 % af framlegð þess árið á undan.

Uppboðsleiðin er stórgölluð.  Hún getur aldrei farið fram óheft, nema menn sætti sig við, að allur aðgangurinn geti lent hjá öflugasta fyrirtækinu.  Að hafa öll eggin í einni körfu er of áhættusamt fyrir yfirvöldin. Á keyptur aðgangur að vera framseljanlegur hverjum sem er ? Það verður að leggja ýmsar hömlur á bjóðendur.  Það er mun eðlilegra, að raða fyrirtækjunum landfræðilega rökrétt niður á strandsvæðin og leggja síðan á þau hóflegt árlegt auðlindargjald, t.d. 20 ISK/kg, þó að hámarki 5,0 % af framlegð síðasta árs.      

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband