Vinstra öngþveiti yfirvofandi

Hlutabréfamarkaður og gjaldeyrismarkaður hérlendis tóku fréttum af stjórnaslitum aðfararnótt 15. september 2017 ekki vel.  Um  miaISK 40 af markaðsvirði fyrirtækja hvarf út í buskann fyrstu vikuna eftir stjórnarslitin og miaISK 20 hafa bætzt við tapið síðan. Það er skiljanlegt, og ekki verður útlitið björgulegra fyrir þjóðarhag í kjölfar skoðanakannana, sem birtust 19. september 2017 og benda til, að næsta ríkisstjórn geti orðið fjölflokkastjórn undir forsæti formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Katrínar Jakobsdóttur, litlu stúlkunnar með eldspýturnar og púðurtunnuna, sem hún ætlar að setja undir ríkiskassann, ef marka má boðskap hennar við gerð fjárlagaáætlunar vorið 2017.   

Það, sem sameinað getur flokkana, sem nú eru á þingi, gegn Sjálfstæðisflokkinum, er eindregin ósk þeirra allra um að auka enn við skattabyrði almennings.  Ríkisútgjöld og ríkisafskipti verða þanin út, komist þeir til valda, eins og téð Katrín boðaði í vor við gerð ríkisfjármálaáætlunar. Sjálfstæðisflokkurinn einn stendur gegn skaðlegum ofvexti ríkisumsvifa, og það auk heilbrigðrar þróunar atvinnulífsins til nauðsynlegrar verðmætasköpunar alþýðu til heilla er meginhlutverk hans í íslenzkum stjórnmálum. Hinir flokkarnir hafa miklu meiri áhuga á eyðslu fjármuna og skattheimtu en eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun.

Eftir kosningar mun almenningur sitja vonsvikinn með afleiðingarnar, fái Sjálfstæðisflokkurinn laka útkomu, sem verða veruleg rýrnun kaupmáttar vegna verðminni króna (ISK) af völdum mikillar gengisveikingar og verðbólgu, sem er óumflýjanlegur fylgifiskur efnahagsstefnu vinstri grænna

Katrín Jakobsdóttir þykist geta lofað öllum öllu, eins og ríkisfjárhirzlurnar séu ótæmandi hít, en því fer víðs fjarri í raun. Auðveldast af öllu er að breyta rekstrarafgangi ríkissjóðs Íslands í rekstrarhalla, hækka skatta og samtímis að safna skuldum.  Allt er það ávísun á stöðnun hagkerfisins, atvinnuleysi og lakari lífskjör þorra fólks, einkum hinna lakast settu, eins og dæmin sanna.

Sjálfstæðisflokkurinn, einn flokka á Alþingi, berst fyrir hagsmunum skattgreiðenda.  Annars væru skattgreiðendur algerlega berskjaldaðir.  Þessir hagsmunir eru fólgnir í því, að stjórnmálamenn séu gætnir í meðferð ríkisfjár og gæti þess, að ríkisútgjöld vaxi ekki umfram almennan hagvöxt í landinu.  Meðulin, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill beita í þessu skyni, eru, að eignum ríkisins verði ráðstafað á arðsamari hátt en nú er raunin, peningarnir látnir vinna og að styrkur frjálsrar samkeppni verði nýttur til að veita betri og ódýrari opinbera þjónustu, t.d. á sviðum lækninga og kennslu.

  Óli Björn Kárason er einn ötulasti talsmaður einkaframtaks á Alþingi nú um stundir og verður að vona, að hann verði það einnig á næsta þingi.  Hann skrifaði hugvekju í Morgunblaðið 30. ágúst 2017:

"Áskoranir ríkisstjórnir: útgjaldavandi og nýting eigna" . 

Ríkisstjórnin, sem hann skoraði á, var felld með lúalegum hætti aðfararnótt 15. september 2017 af einum samstarfsflokkanna, en áskorunin er í fullu gildi fyrir næstu ríkisstjórn, hvernig sem sú mun nú líta út:

"Í félagi við Brynjar Níelsson og Harald Benediktsson lagði ég í janúar síðastliðnum fram þingsályktunartillögu um sölu ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.  Tillagan náði ekki fram að ganga, en í greinargerð var m.a. bent á, að með nokkurri einföldun megi segja, að Íslendingar standi frammi fyrir tveimur kostum:

"Annars vegar getur ríkið áfram átt fyrirtæki, hús, jarðir og fleira og búið við þungar vaxtagreiðslur á komandi árum með tilheyrandi lakari þjónustu og hærri sköttum.  Hins vegar er hægt að selja hluta eigna ríkisins og greiða niður skuldir.  Þar með lækka vaxtagreiðslur, og fjármunina, sem sparast, má nýta til að byggja upp heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfi og lækka skatta."

Í greinargerðinni er því haldið fram, að lækkun skulda ríkisins sé eitt brýnasta verkefni samtímans og mikilvæg forsenda bættra lífskjara.  Það sé ekki eftirsóknarvert fyrir almenning að eiga hlut í bönkum eða öðrum fyrirtækjum með sameiginlegu eignarhaldi ríkisins, ef greitt er fyrir eignarhaldið í formi verri lífskjara með hærri sköttum og verri þjónustu hins opinbera."

Hér er í raun bara verið að halda heilbrigðri skynsemi á lofti, og það er alveg dæmigert fyrir núverandi samsetningu Alþingis, að þingmenn skyldu ekki vilja veita þessari tillögu brautargengi.  Hún vísar þó veginn til að bæta nýtingu á fjármunum ríkisins almenningi öllum til hagsbóta.  Sjálfstæðisflokkurinn, einn flokka á Alþingi, er fús til að leyfa heilbrigðri skynsemi að ráða við ráðstöfun ríkiseigna, en pólitískar kreddur hindra aðra flokka í að hoppa á vagninn með Sjálfstæðisflokkinum, og vinstri grænir eru svo gaddfreðnir ríkisafskiptasinnar, að þeir mega ekki heyra minnzt á neitt annað en skattahækkanir til auka þjónustu við almenning.  Í landi einna skattpíndustu þjóðar heims mun skattahækkun ekki skapa neina sjálfbæra tekjuaukningu fyrir ríkissjóð, heldur aðeins rýra lífskjörin og hægja á hagvexti.  

Nú hefur Framsóknarmaddaman tekið til við að snyrta á sér vinstri vangann.  Lilja Alfreðsdóttir Þorsteinssonar lagði 19. september 2017 fram þá tillögu í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, yrði sviptur formennsku, Viðreisnarmaður flyttist úr varaformennsku í formennsku og Svandís Svavarsdóttir yrði varaformaður.  Tillagan var samþykkt, enda stjórnarmeirihlutinn fallinn, og þar með er hafið samstarf Framsóknarflokksins við vinstri glundroðaöflin að hætti ólánsams R-lista í höfuðborginni, sem gefa mun tóninn í kosningabaráttunni og í viðræðum um myndun ríkisstjórnar að kosningum afloknum 28. október 2017. Síðar gerðist það hins vegar, að Framsóknarflokkurinn klofnaði, og Samvinnuflokkur (?) og Framsóknarflokkur munu eiga erfitt um samstarf á hvaða vettvangi sem er. Þetta mun bæta vígstöðu Sjálfstæðisflokksins í ýmsum kjördæmum og á Alþingi.  

Kjósendur sjá nú skriftina á veggnum.  Það er verið að leggja drögin að harðsvíraðri vinstri stjórn, sem á eftir að koma okkur á kaldan klaka og sennilega að flýta fyrir hruni lífskjaranna í landinu.  Kjósendur geta aðeins andæft hættunni af vinstri stjórn með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.  Það er sami botninn undir öllu hinu pakkinu; hann er reyndar hjá Bakkabræðrum suður í Borgarfirði og skyldi engan undra.  

 sovetislandh_my_pictures_falkinn

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Áfram kommonistar???

Höfundur er rafmagnsverkfræðingur og starfaði í tæplega 35 ár við að breyta raforku í útflutningsvöru, en lét af þeim störfum 28. febrúar 2015.  Hann er fylgjandi einstaklingsfrelsi til orðs og æðis, þjóðfrelsi og markaðsbúskap með félagslegu ívafi (Sozial-Marktwirtschaft). 

Jón Þórhallsson, 28.9.2017 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband