Ísland á öðru róli

Af skoðanakönnunum að dæma og af atburðum og umræðum á Alþingi má ætla, að hérlendis stefni í fjölflokka stjórn til vinstri í hinu pólitíska litrófi.  Það yrði þá sannkölluð óreiðustjórn frá upphafi til enda, sem litast mundi af vandræðagangi stórra egóa, með lítið vit á fjármálum og atvinnumálum, en hafa komizt upp með ábyrgðarlaust gaspur. 

Það er engum vafa undirorpið, að fjárfestar munu hræðast slíka stjórn, og landsmenn munu sjá undir iljar þeirra með fé úr landi.  Þetta mun hægja á hagvexti, veikja krónuna, ISK, og leiða til kjaraskerðingar með einum eða öðrum hætti. Lánshæfismat ríkisins mun fljótt lækka, þegar hætt verður að borga niður skuldir ríkissjóðs og jafnvel tekið til við að safna skuldum á ný.  Vextir í landinu munu þá óhjákvæmilega hækka og rekstur heimila og fyrirtækja verða erfiðari.

Allt er þetta uppskera smáflokksins, sem sleit stjórnarsamstarfinu aðfararnótt 15. september 2017 í flaustri, æsingi og misskilningi, enda algerlega að óathuguðu máli. Að einhver hafi reynt að hylma yfir eitt eða annað, er ímyndun ein og rangtúlkun á þeirri staðreynd, að dómsmálaráðuneytið hefur alltaf talið sig bundið þagnarskyldu að lögum, en benti í þetta skiptið fréttamanni, sem leitaði upplýsinga, á að fá úrskurð "Urskurðarnefndar upplýsingamála" um, hvað væri löglegt að birta.  Samkvæmt úrskurðinum má birta sumt, en annað ekki.  Eftir úrskurðinn var forsætisráðherra ekki lengur bundinn þagnarskyldu og sagði formönnum samstarfsflokkanna í ríkisstjórn frá margumræddri undirskrift föður síns. 

Þetta tvíeyki smáflokkanna í ríkisstjórn gerði hins vegar ekkert með þessar upplýsingar mánudagsins 11.09.2017. Skýtur það rækilega skökku við það, sem gerðist téða örlaganótt. Þá tók fjallið jóðsótt, og fæddist lítil mús. 

Umboðsmaður Alþingis telur að sjálfsögðu enga ástæðu til að gera nokkurn skapaðan hlut með þann músagang.   Annaðhvort lá stjórn BF á því lúasagi að nota þetta mál sem tylliástæðu til að rjúfa bræðralag Óttars Proppés og Benedikts Jóhannessonar, sem hefur verið henni þyrnir í augum, eða þessi sama stjórn BF kann ekki skil á réttu og röngu.  Slíkt ástand er nefnt siðblinda og er viðsjárverð þeim, er fyrir henni verða. 

Upplausnarástand stjórnmálanna hérlendis er hins vegar ekki pólitíska staðan, sem við blasir annars staðar í Evrópu.  Í Noregi eru nýafstaðnar kosningar til Stórþingsins.  Þar héldu stjórnarflokkarnir, Hægri flokkurinn og Framfaraflokkurinn, sem er hægra megin við Hægri flokkinn, nokkurn veginn sínu, svo að þar heldur borgaraleg, tveggja flokka stjórn væntanlega  áfram störfum, hugsanlega með Frjálslynda flokkinum Venstre, innanborðs, þó að sá kristilegi dragi stuðning sinn við ríkisstjórnina til baka. 

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinnn, Verkamannaflokkurinn, hefðbundinn krataflokkur, tapaði töluverðu fylgi.  Það er í samræmi við þróunina annars staðar í Evrópu.  Fækkun verkamannastarfa og öldrun samfélaganna í Evrópu og víðar virðist valda því, að tími kratanna er liðinn.  Farið hefur fé betra.  Almenningur finnur, að hann hefur hreinlega ekki lengur efni á kratisma, þegar færra og færra vinnandi fólk þarf að framfleyta fleiri og fleiri heilbrigðum og sjúkum gamlingjum.  Þar er ekki lífeyrissjóðakerfi sambærilegt hinu íslenzka, heldur s.k. gegnumstreymiskerfi beint úr ríkissjóðunum.   

Franski jafnaðarmannaflokkurinn er ekki svipur hjá sjón eftir þingkosningar þar í landi í sumar.  Miðjumaður, bankamaður, var kosinn forseti Frakklands nokkrum vikum fyrr, og tók hann við af hinum kvensama jafnaðarmanni, Francois Hollande.  Þótt frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar, frönsku, Marine Le Pen, gengi ekki vel í forsetakosningunum, varð samt hægri sveifla í Frakklandi. Þjóðfylkingin veitir forsetanum aðhald og standi hann sig illa, getur Marine Le Pen fellt forsetann í næstu forsetakosningum.  

Í Þýzkalandi var kosið til Sambandsþingsins, sem aðsetur hefur í Reichstag, gamla þinghúsinu í Berlín, þann 24. september 2017.  Úrslitin má túlka sem ótvíræða hægri sveiflu í þýzkum stjórnmálum, þótt CDU/CSU tapaði 8,5 % og fengi aðeins 33 % atkvæðanna.  Fylgistapið var sérstakt áfall fyrir Bæjarana í CSU, sem ráðið hafa lögum og lofum í Bæjaralandi frá endurreisn Þýzkalands á rústum Þriðja ríkisins 1949.  Tap CDU og CSU var aðallega til Alternative für Deutschland, AfD, sem er flokkur evruandstæðinga og fólks, sem geldur mikinn varhug við flaumi flóttamanna úr framandi menningarheimum til Þýzkalands, en einnig gengu FDP, Frjálsir demókratar, í endurnýjun lífdaganna.  Þótt AfD þyki ekki stjórntækur, sem orkar tvímælis út frá lýðræðissjónarmiðum, mun 90 manna þingflokkur þeirra í Reichstag hafa áhrif á stjórnarstefnuna, hvaða stjórn, sem að lokum tekst að berja saman í Berlín.  

Þýzkir jafnaðarmenn, SPD, guldu afhroð og fengu minnsta fylgi í aldarlangri sögu flokksins.  Stefna jafnaðarmanna um háskattastefnu og gríðarlegar millifærslur til alls konar hópa, sem eru þeim þóknanlegir, fellur ekki lengur evrópskum kjósendum í geð.  Þá gæti hrifning jafnaðarmanna í Evrópu af Evrópusambandinu, ESB, átt þátt í minnkandi stuðningi við þá, en mörgum geðjast illa að yfirþjóðlegu valdi í Evrópu, sbr BREXIT.  Það fjarar víðast hvar undan þeim, og það gæti verið óafturkræf atburðarás.  

 

 

Björn Jón Bragason, lögfræðingur og sagnfræðingur, er áhugamaður um þýzk stjórnmál.  Sumarið 2017 var hann staddur í Berlín og kynnti sér starfsemi og kosningabaráttu CDU (Christlich Demokratische Union), sem hann nefnir systurflokk Sjálfstæðisflokksins.  Þann 11. september 2017 ritaði hann grein í Morgunblaðið,

"Frú Merkel og Sjálfstæðisflokkurinn".

Þar kvað hann megininntakið í tali starfsfólks CDU hafa verið eftirfarandi:

""Við erum flokkur allra stétta; við erum flokkur verkamannsins í bifreiðaverksmiðjunni í Stuttgart og kaupsýslumannsins í Hamborg, vínbóndans í Rínardölum og kennarans í Berlín."

Flokkurinn hefur á að skipa öflugum launþegasamtökum, CDA, og þá er innan vébanda hans starfandi hreyfing lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en bæði þessi aðildarsamtök hafa mikil áhrif á mótun stefnu flokksins og framkvæmd mála."

Í ljósi þess, að CDU er talinn vera einn af systurflokkum Sjálfstæðisflokksins í Evrópu og að CDU ásamt bandalagsflokki sínum í Bæjaralandi, CSU, hefur tekizt að halda fylgi sínu lengst af frá stofnun á rústum Þriðja ríkisins á bilinu 35 %-45 % í kosningum til neðri deildar þýzka sambandsþingsins, og CSU hefur haft meirihluta í Bæjaralandi, þá er fróðlegt að kynnast megindráttum skipulags og stefnumörkunar CDU.  Í tíð Angelu Merkel hefur reyndar verið uppi óvenjumikill ágreiningur á milli CDU og CSU, sem bendir til, að hún hafi fært CDU til vinstri,  t.d. varðandi lágmarkslaun, kjarnorkuver og flóttamenn, en einnig endurspeglast þar menningarmunur á milli Lúthersmanna norðursins og kaþólikka suðursins. 

Undir lok greinar sinnar dregur Björn Jón eftirfarandi ályktanir um það, hvað sjálfstæðismenn þurfa að gera eftir að hafa leitað í smiðju stjórnmálaflokks, sem stöðugt höfðar til 30 % - 40 % Þjóðverja (utan Bæjaralands).  Það er hægt að taka heils hugar undir með Birni Jóni:

"Eigi Sjálfstæðisflokkurinn að öðlast aftur fyrri stöðu sem 40 % flokkur, er nauðsynlegt að líta til þeirra grundvallaratriða, sem hér eru nefnd.  Flokkurinn hefur fyrir löngu glatað öllum tengslum við verkalýðshreyfinguna og fátt verið gert til að bæta rekstrarstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Eiginfjármyndun almennings og fyrirtækja eru settar alltof þröngar skorður með óhóflegri skattheimtu og íþyngjandi regluverki. Þá hefur á mörgum sviðum atvinnulífsins orðið óeðlilega mikil samþjöppun og litlir atvinnurekendur átt í vök að verjast."

Til að undirstrika það, hversu hóflaus útþensla ríkisbáknsins hefur verið, er rétt að rifja upp nokkrar staðreyndir, sem annar mikill baráttumaður fyrir kjölfestu borgaralegs samfélags, litla framkvæmdamanninn, og í mörgum tilvikum frumkvöðulinn, Óli Björn Kárason, Alþingismaður, tíundaði í Moggagrein 30. ágúst 2017:

Skatttekjur ríkissjóðs 2016 voru um miaISK 229 hærri að raunvirði en árið 2000 [ÓBK-annað hér á eftir er frá BJo].  Það er MISK 2,7 meira á hverja fjögurra manna fjölskyldu m.v. íbúafjölda í árslok 2016.  Meginskýringarnar á þessari svakalegu hækkun eru meiri vaxtakostnaður og aukin útgjöld til heilbrigðis- og almannatryggingamála.  Vegna öldrunar þjóðarinnar mun mikil aukning ríkisútgjalda rýra lífskjör vinnandi fólks hratt, ef hækkunum er ekki andæft. 

Andófið felst í að greiða niður skuldir, auka skilvirkni heilbrigðiskerfisins með fjölbreytilegum rekstrarformum, sem keppa um fjárveitingar ríkisins (fé fylgir sjúklingi), efla lýðheilsuna með námsefni í skólum um skaðsemi óheilbrigðs lífernis og hækkun lífeyrisaldurs.  Vinstri flokkarnir hafa engan áhuga á að setja ríkisútgjöldum skorður, hvorki í bráð né lengd.  Óráðsstefna þeirra mun leiða ríkissjóð og hag þjóðarinnar í fullkomið óefni, ef hún verður ofan á við ríkisstjórnarborðið.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband