22.10.2017 | 09:39
Eymdarvísitalan
Eymdarvísitala er einfaldur mælikvarði á lífskjör í einu landi. Höfundur hennar er Arthur Okun, hagfræðingur, sem nefndi hana á ensku "The misery index", en sumir kalla hana "The economic discomfort index".
Hún er reiknuð þannig út, að tekin er verðbólga síðustu 12 mánuðina, vb %, og meðaltals atvinnuleysi á sama tímabili, al %, og lagt saman:
EV = vb % + al %.
Síðan 1991 hefur EV yfirleitt verið á bilinu 5-10, en árin 2016-2017 bregður svo við, að hún er undir 5 og er um þessar mundir í sínu sögulega lægsta gildi, 4,2. Eymdarvísitalan hefur ekki farið undir 5 síðan árið 1998. Hún náði hámarki í árslok 2008 og hefur nánast samfellt verið á niðurleið síðan. Eymdarvísitalan er núna einna lægst á Íslandi af öllum löndum heims, enda er kaupmáttur launa hvergi hærri, nema í Sviss. Íslendingar hafa skriðið fram úr Norðmönnum, Dönum og Lúxemborgurum, hvað kaupmáttinn varðar. Það ríkir hins vegar óvissa um framhaldið, og nokkurrar svartsýni er tekið að gæta um, að takast muni að varðveita þennan tiltölulega háa kaupmátt.
Um þá, sem hæst hafa skorað í Eymdarvísitölu, skrifar Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA Capital Management, í Markaði Fréttablaðsins, 4. október 2017:
"Í samanburði á eymdarvísitölunni við erlend ríki má sjá, að þau, sem skora verst í eymdarvísitölunni, eru þau, þar sem efnahagsleg óstjórn og óstöðugleiki er mestur, og þar ríkir raunveruleg eymd."
Það er mikil hætta á því, að eftir kosningarnar 28. október 2017 stigi hér Eymdarvísitalan. Ástæðan er sú, að þá er líklegast, að fylgi vinstri flokkanna og miðjumoðsins dugi til að mynda sams konar meirihluta um landsstjórnina og nú ríkir í Ráðhúsi Reykjavíkur, þ.e. vinstri grænir, samfylkingar og píratar, eða miðjumoð í stað hinna ókræsilegu pírata. Í Reykjavík hafa verið mikil lausatök á fjármálum og skuldum verið safnað upp í rjáfur þrátt fyrir hámarks skattheimtu á nánast öllum sviðum. Skuldastaða Reykjavíkur-samstæðunnar, þ.e. borgarsjóðs og dótturfyrirtækja, er ósjálfbær, þannig að nú stefnir í, að yfir Reykjavík verði settur tilsjónarmaður snemma á næsta áratugi. Er það hrikaleg lítillækkun fyrir eina höfuðborg.
Í stuttu máli má telja ástæður árangursleysis vinstri manna við stjórnun opinberra málefna þær, að þá skortir bæði þekkingu og áhuga á fjármálum og áhrifum breytinga á opinberum gjöldum á hag og hegðun almennings, og tilhneigingu þeirra til að þenja út opinber umsvif og stjórnkerfi hins opinbera auk dómgreindarleysis, sem leiðir til, að þeir sjá ekki skóginn fyrir trjánum og fara á flot með glórulaus gæluverkefni.
Nú hægir á hjólum efnahagslífsins á Íslandi. Því til sannindamerkis lækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti sína um 0,25 % í byrjun október 2017 , og eru þeir þá 4,25 %. Það má þá búast við, að atvinnulausum fjölgi í vetur frá núverandi gildi, 2,8 %, þótt engar íþyngjandi kvaðir verði lagðar á fólk og fyrirtæki. Þess vegna er rétta ráðið nú að halda áfram á braut skattalækkana. Hækkun skatta skapar skilyrði brotlendingar hagkerfisins við núverandi aðstæður.
Vinstri græn lögðu í vor fram hugmyndir um auknar tekjur ríkissjóðs við umræður um fjármálaáætlun ríkisstjóðs 2018-2022 upp á um miaISK 333, stighækkandi frá 53 miaISK/ár til 75 miaISK/ár. Þetta var til að fjármagna heldur minni útgjaldahugmyndir. VG útfærði ekki hugmyndir sínar um aukna fjáröflun fyrir ríkissjóð. Katrín Jakobsdóttir hefur í umræðum um þetta sýnt, að hún ber mjög takmarkað skynbragð á fjármál ríkisins, því að hún hefur gert tilraun til að telja fólki trú um, að þessi tekjuöflun sé möguleg með því einvörðungu að auka skattheimtu á efstu tekjutíunduna, auðugustu heimilin og sjávarútveginn. Þetta hefur verið hrakið rækilega, en málflutningurinn afhjúpar téða Katrínu sem loddara af ósvífnustu gerð gagnvart þjóð sinni. Hún er þar með orðin fullkomlega ótrúverðug og í engu treystandi. Að kaupa af henni notaðan bíl væri glapræði.
Ef ný ríkisstjórn fjármagnar þetta með aukinni skattheimtu á almenning, sem þeim ber að gera í stað þess að senda framtíðinni reikninginn, er hér um svo gríðarlegar viðbótar álögur á fólk og fyrirtæki (um 1,0 MISK/íb) að ræða, að atvinnuleysið mun örugglega vaxa mun hraðar en ella.
Aukið peningamagn í umferð verður fylgifiskur þess að hægja á uppgreiðslu ríkisskulda, en verja auknu fé þess í stað til rekstrar og fjárfestinga á vegum ríkisins. Aukið peningamagn í umferð mun leiða til vaxandi verðbólgu, sem grefur undan lífskjörum almennings og þyngir skuldabyrði flestra húsnæðislána. Hætt er við, að þetta nýja, en gamalkunnuga ástand, skapi ólgu á vinnumarkaði. Eymdarvísitalan nær þá örugglega tveggja stafa tölu. Vitleysan í vinstri grænum getur orðið þjóðinni dýrkeypt.
Aukin skattheimta af fyrirtækjum á tímum minnkandi hagvaxtar mun neyða þau til að draga saman seglin í mannahaldi, enda mun hækkun tekjuskatts leiða til minni eftirspurnar vöru og þjónustu.
Þetta saman lagt mun óhjákvæmilega leiða til þess, að þessi ágæti mælikvarði á stjórnarfar í landinu, Eymdarvísitalan, mun taka stökk upp á við, þegar áhrifa nýrrar vinstri stjórnar tekur að gæta. Miðað við hefðbundið getuleysi vinstri manna til að stjórna landinu, hirðuleysi um efnahagslögmálin og andúð á hagvexti, þá er ástæða til að óttast hækkun Eymdarvísitölunnar um 2,0/ár, þannig að hún verði komin yfir 10,0, ef vinstri stjórn endist út fullt kjörtímabil, en það er sögulega séð óvenjuhá Eymdarvísitala á Íslandi. Það verður spennandi að fylgjast með þessu og hafa þá ríkulega í huga, að borgaralegum ríkisstjórnum hefur tekizt svo vel upp að undanförnu, að Eymdarvísitalan árið 2017 náði niður í 4,2 og var á niðurleið í október 2017.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Kjaramál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.