29.10.2017 | 10:32
Aukið andrými
Þeir eru nokkrir, einnig hérlendis, sem goldið hafa varhug við kenningum um hlýnun jarðar af völdum s.k. gróðurhúsalofttegunda, einkum lífsandans, CO2, sem kallaður hefur verið koltvíildi á íslenzku (ildi=súrefni). Efasemdarmenn töldu sig fá byr í seglin í sumar, er upplýst var um, að andrúmsloft jarðar hefði í raun hlýnað 0,3°C minna árið 2015 frá árinu 1870 en spáð hafði verið með því að bæta 2,0 trilljónum (trn) tonna (1 trilljón=1000 milljarðar) af koltvíildi inn í lofthjúp jarðar í líkönum IPCC (International Panel on Climate Change), eins og talið er, að bætzt hafi við í raun frá 1870-2015. Lofthjúpurinn hefur hingað til sýnt meiri tregðu til hlýnunar en reiknilíkön höfðu verið forrituð fyrir.
Þetta þýðir, að jarðarbúar fá aukið andrúm til að kljást við hlýnun jarðar, því að samkvæmt þessu eykst magn koltvíildisins, sem óhætt er að losa út í andrúmsloftið án hlýnunar um meir en 1,5°C, úr 2,25 trn t í 2,75 trn t CO2. Þetta þýðir, að "kvóti" andrúmsloftsins fyrir CO2 fylist ekki á 7 árum frá 2015, heldur á 21 ári, þ.e. árið 2036, m.v. losun ársins 2015. Þetta gefur von um, að unnt verði að halda afleiðingum hlýnunar í skefjum, en þá verður að bregðast við strax og draga úr losun um 1,2 mia t/ár til að ná núll nettó losun árið 2055. Þess má geta hér, að heildarlosun Íslands án tillits til þurrkaðs lands, en að stærsta losunarvaldinum, millilandafluginu, meðtöldum, nemur um þessar mundir tæplega 12 Mt/ár eða rúmlega 300 ppm (hlutar úr milljón) af heildarlosun í heiminum (án áhrifa breyttrar nýtingar lands).
Nú þegar virðist hámarkslosun hafa verið náð, um 38 mia t/ár, og þróun sjálfbærra orkulinda gengur vel. Ekki heyrist þó mikið af þróun kjarnorku eða samrunaorku, en þróun vindmyllna og sólarhlaðna gengur vel. Á orkuuppboði á Bretlandi í september 2017 tókust samningar um raforku frá vindmyllum úti fyrir ströndu á 57,50 GBP/MWh eða 76 USD/MWh (að vísu enn niðurgreidd af brezka ríkinu), og raforka frá sólarhlöðum á sólríkum stöðum er nú þegar samkeppnishæf við orku frá jarðefnaeldsneytisverum, þ.e. vinnslukostnaður er kominn undir 40 USD/MWh. Rannsóknarstofnun í Potsdam um áhrif loftslagsbreytinga áætlar, að raforka frá sólarhlöðum muni nema 30 %-50 % af raforkunotkun heimsins árið 2050, en hún nemur 2 % núna. Þetta kallar á framleiðslu gríðarlegs magns af sólarkísli, og þótt núverandi framleiðslutækni útheimti tiltölulega mikið magn af kolum í rafskaut ljósbogaofnanna, spara sólarhlöðurnar andrúmsloftinu miklu meira af CO2 á endingartíma sínum en losað er við framleiðsluna. Sama má segja um álið. Fullyrðingar um, að þessi efni, kísill og ál, hafi slæm áhrif á andrúmsloftið, eru úr lausu lofti gripnar, þegar minnkun losunar við notkun þessara efna er tekin með í reikninginn. Eina viðurkennda aðferðafræðin í þessum efnum er að horfa á allt ferli þessara efna frá öflun hráefna til endanlegrar förgunar.
Þann 12. október 2017 birtist í Morgunblaðinu fréttin: "Draga koltvíoxíð úr andrúmslofti":
Þar er sagt frá samstarfi ON-Orku náttúrunnar við svissneska fyrirtækið Climeworks um prófun koltvíildisgleypis við Hellisheiðarvirkjun. Christoph Gebald, annar stofnenda þessa frumkvöðlafyrirtækis, segir:
"Allar rannsóknir benda til þess, að við náum ekki markmiðum Parísarsamkomulagsins, þ.e. að stöðva aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og ná að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C, með því einu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við verðum líka að vinna að því að hreinsa andrúmsloftið."
Þessar fullyrðingar Svisslendingsins orka mjög tvímælis. Í fyrsta lagi hefur nú þegar tekizt að stöðva árlega aukningu losunar gróðurhúsalofttegunda, og í öðru lagi eru nú 66 % líkur á því að mati IPCC, að takast megi að halda hlýnun innan við 1,5 °C.
Það mun flýta fyrir því að ná núll nettó losun að draga koltvíildi úr andrúmsloftinu. Það eru hins vegar nú þegar til aðrar mun umhverfisvænni og ódýrari aðferðir til þess. Þar á blekbóndi við bindingu með landgræðslu og skógrækt. Slíkt útheimtir að vísu mikið landrými, en það er einmitt fyrir hendi á Íslandi, og þess vegna á þessi gleypir og niðurdæling uppleysts CO2 ekki erindi við íslenzkar aðstæður og er einvörðungu akademískt áhugaverð tilraun.
Gasgleypir Svisslendinganna vegur um 50 t, og þess vegna er ljóst, að framleiðsla hans skilur eftir sig talsvert kolefnisspor. Ferlið er orkukræft og þarfnast mikils heits vatns. Það er þess vegna rándýrt og kostar um 65 kISK/t CO2. Til samanburðar má ætla, að binding með skógrækt á Íslandi kosti innan við 4 kISK/t CO2. Gleypisaðgerðin er meira en 16 sinnum dýrari en hin íslenzka skógrækt, sem viðurkennd hefur verið af IPCC sem fullgild aðferð við bindingu. Afköst téðs gasgleypis og niðurdælingar eru sáralítil eða 50 t/ár CO2. Til samanburðar nást sömu afköst á 6,5 ha lands hérlendis að meðaltali með skógrækt.
Það væri miklu ódýrara og þjóðhagslega hagkvæmara fyrir ON og önnur CO2 myndandi fyrirtæki að semja við íslenzka skógarbændur um bindingu koltvíildis en að standa í þessum akademísku æfingum á Hellisheiði, sem eru e.t.v. PR-vænar, en hvorki sérlega umhverfisvænar né geta þær nokkru sinni orðið samkeppnishæfar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Umhverfismál, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta, Bjarni. Munur að heyra hreinar tölur heldur en eilífðar prósentuaukningar íslenskra stjórnmálamanna, sem líta miklar út en tölurnar hér eru svo litlar. Tækið á heiðinni er einmitt alveg fáránlegt dæmi um að eitthvað virki en borgar sig ekki á nokkurn hátt gagnvart náttúrunni eða þeim sem moka peningum í þá áttina.
Almennt séð þá eru íslensku tölurnar í loftslagmálum svo litlar að breytingar á þeim, með ærnum fórnarkostnaði og tilkostnaði þjóðarinnar geta aldrei náð að breyta nokkru varðandi loftslag á jörðinni, jafnvel sem framlag til heildarbreytingar. Þetta er einungis orðið táknrænt og PR eins og þú segir (um tækið). Svo völdu pólitíkusarnir að miða kvótann við gamla daga og að taka burt undanþágur í stað þess að skenkja okkur hraustlega kvóta sjálf vegna þess að hafa framkvæmt rétt í fjöldamörg ár. Niðurstaðan er því sú að kaupa kolakvóta og kjarnorkukvóta af öðrum.
Sumum finnst það þreytt umræða, en mér þykir enn áhugavert hve margar mínútur í næsta Kötlugosi þarf til að kolefnislosun landsins margfaldist. Þetta er allt sama kolefnið.
Ívar Pálsson, 30.10.2017 kl. 10:51
Takk fyrir athugasemdina, Ívar.
Sala á upprunavottorðum raforku frá Íslandi gengur ekki lengur. Þegar ég var rafmagnsstjóri hjá ISAL í Straumsvík og sýndi úttektarmönnum eigandans, Rio Tinto Alcan, rafmagnsreikningana, þurfti ég langan tíma til að útskýra fyrir þeim, að við keyptum einvörðungu sjálfbæra raforku, þótt á reikningunum stæði, að hún væri að miklu leyti upprunnin í kjarnorkuverum og kolakyntum orkuverum. Nú þurfa íslenzk fyrirtæki á því að halda við markaðssetningu sína að geta sýnt fram á, að þau kaupi einvörðungu umhverfisvæna raforku. Raforkuvinnslufyrirtækin verða að fara að hætta að selja upprunavottorð, því að þau gera innlendum viðskiptavinum sínum óleik með því.
Gasgleypirinn á Hellisheiðinni er svo óskilvirkur, að hann á sér enga framtíð, orkukræfur, vatnsfrekur og dýr, og hann er lengi að vinna upp eigið kolefnisfótspor. Ekkert einkafyrirtæki mun kaupa hann, því að hann er algerlega ósamkeppnishæfur við koltvíildisbindingu. Hann er einvörðungu gagnlegur til að fanga H2S, en ON hefur þróað aðra aðferð til þess.
Bendi þér á að lesa grein mína í hausthefti Þjóðmála 2017 um loftslagsmál. Þar fletti ég ofan af villandi umræðu um þessi mál og sýni fram á, hversu mikið þarf að virkja fyrir orkuskiptin. Það er mikið þveröfugt við bábiljuna, sem forstjóri OR heldur opinberlega að almenningi, að lítið sem ekkert þurfi að virkja fyrir orkuskiptin.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 30.10.2017 kl. 18:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.