15.10.2017 | 14:32
Röng ráð við vitlausu stöðumati
Meginviðhorf vinstri grænna í þessari kosningabaráttu eru fallin um koll. Með öðrum orðum er undirstaða áróðurs Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, fyrir Alþingiskosningarnar 28. október 2017 reist á ósannindum. Það er mikið áhyggjuefni, ef vinstri grænum tekst að tæla fólk um hríð til stuðnings við sig á fölskum forsendum á öld upplýsinganna. Enn meira áhyggjuefni er, að í sjálfsblekkingu sinni um stöðu samfélagsins mun VG í ríkisstjórn framkvæma, eins og sýndarveruleiki flokksbroddanna sé sannleikur. Landsmenn eru þá í stöðu skipverja undir stjórn blinds skipstjóra með bilaðan áttavita. Hvað má verða slíkum til bjargar ?
Katrín Jakobsdóttir hefur ásamt öðrum frambjóðendum VG verið eins og biluð plata, sem í síbylju fer með utan að lærðar staðleysur um óréttlætið í íslenzku samfélagi, sem stafi af mjög ójafnri tekjuskiptingu og ójafnri eignadreifingu á meðal íbúanna. Nú er ekki lengur hægt að hækka skattana undir klisjunni: "Hér varð hrun", heldur sé nú þjóðarnauðsyn að hækka skatta til að jafna tekjuskiptingu og eignadreifingu í íslenzka samfélaginu. Þessi málflutningur vinstri grænna er illa þefjandi "bolaskítur", hreinræktað bull, reist á samfélagslegum bábiljum vindmylluriddara.
Það er nákvæmlega engin þörf á að hækka neina skatta núna. Þvert á móti eru slík heimskupör stórhættuleg við núverandi efnahagsaðstæður og geta framkallað hér "harða lendingu" með "stagflation", þ.e. efnahagslega stöðnun með verðbólgu og atvinnuleysi. Skipið er dauðadæmt með blindan skipstjóra og biluð siglingatæki í brúnni.
Bábilja VG #1: Það er svo mikill tekjuójöfnuður á Íslandi, að nauðsynlegt er að þrepskipta tekjuskattinum enn meir og hækka jaðarskattheimtuna:
Þetta er gjörsamlega úr lausu lofti gripið hjá VG, sem sýnir, að meginmálflutningur flokksins eru lygar einar, og ráðstafanirnar verða þess vegna stórskaðlegar fyrir hagkerfið. Flokkurinn er algerlega ótrúverðugur, því að hann reisir ekki málflutning sinn á staðreyndum, heldur hugarórum, og flokksmenn VG stunda hreint lýðskrum.
Samkvæmt nýjustu gögnum frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, er Ísland í langneðsta sæti ójafnaðarlistans, GINI, um ójafna tekjuskiptingu, þar sem efst tróna Síle - með 47 stig, Mexíkó-46 og Bandaríkin-39, en neðst eru Ísland-23, Noregur-25 og Danmörk-25. Það er 10 % munur á Íslandi og Noregi. Þetta er heilbrigðisvottorð fyrir íslenzka þjóðfélagið, og því ber að fagna, að jöfnuðurinn hefur farið vaxandi á undanförnum árum vegna þeirrar stefnu í kjarasamningum að hækka lægstu laun tiltölulega mest. Það er hins vegar hægt að ganga svo langt í jöfnun ráðstöfunartekna, að nauðsynlegur hvati til að klífa upp tekjustigann verði of veikur. Þá tapar allt samfélagið, af því að slíkt kemur niður á landsframleiðslunni.
Bábilja VG #2: Eignadreifingin er svo ójöfn á Íslandi, að nauðsynlegt er að taka upp eignaskatt, sem lygalaupar VG nefna auðlegðarskatt:
Samkvæmt gögnum frá Credit Suisse, sem Halldór Benjamín Þorbergsson vitnar til í ágætri Morgunblaðsgrein sinni 12. október 2017:
"Bábiljur og staðreyndir um ójöfnuð tekna og eigna á Íslandi":
"Þar kemur fram, að eignajöfnuður á Norðurlöndum er hvergi meiri en á Íslandi. Í heildarsamanburði Credit Suisse er fjöldi ríkja með minni eignaójöfnuð en Ísland, en þau eiga það sammerkt að vera mun fátækari ríki. Það er jákvæð fylgni á milli eignaójöfnuðar ríkja og ríkidæmis þeirra. Lægra menntunarstig dregur úr [eigna] ójöfnuði. Aukið ríkidæmi þjóða eykur hlutfallslegan [eigna] ójöfnuð vegna dreifingar fjármagns og framleiðslutækja. Jöfn dreifing fjármagns og fjármuna hefur verið reynd; sú tilraun gekk ekki vel."
Blautlegir draumar VG-forkólfa fjalla um þetta síðast nefnda, þ.e. að ná fram hérlendis á endanum jafnri dreifingu fjármagns og fjármuna, en það er ekki hægt, nema skapa hér fátæktarríki, alræði öreiganna. Vinstri grænir eru úlfar í sauðargæru. Þeir koma óheiðarlega fram, breiðandi yfir nafn og númer.
Það er þess vegna ákveðið hagstjórnarlegt afrek á Íslandi að ná einu mesta ríkidæmi heims sem þjóð og á sama tíma að vera með mesta eignajöfnuð ríkra þjóða.
Loddarar vinstrisins halda því líka fram í þessari kosningabaráttu, þar sem hvorki er skeytt um skömm né heiður, að eignaójöfnuður fari vaxandi á Íslandi. Þetta er rétt ein bábiljan, fullyrðing, sem er algerlega úr lausu lofti gripin. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands voru 62 % eigin fjár á Íslandi í eigu þeirra 10 % heimila, sem mest áttu eigið fé árið 2016. Á velmektardögum Samfylkingar og VG, var hlutfallið hæst og náði þá 86 %, en hefur farið stöðugt lækkandi síðan. Að meðaltali tímabilið 1997-2016, 20 ára skeið, er hlutfall 10 % heimila með mest eigið fé 64 % af heildar eiginfé, svo að hlutfallið er núna undir meðaltali.
Hvaðan hafa bullustampar Samfylkingar og VG þá vizku sína, að eignaójöfnuður á Íslandi hafi farið vaxandi að undanförnu ? Þetta er fullkomlega ómarktækt fólk. Málflutningur þess er reistur á sandi !
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Annað hvort fara frambjóðendur VG og SF og reyndar fleiri flokka, með rangt mál, nú eða OECD, Credit Suisse, íslenska Hagstofan og reyndar allir sem skoða gögn um málið, vita ekki hvað þeir segja.
Fólk verður svo bara að velta fyrir sér hvorir eru trúverðugri!
Gunnar Heiðarsson, 15.10.2017 kl. 23:28
Sæll, Gunnar Heiðarsson;
Frambjóðendur eru margir hverjir með fyrirfram gefna niðurstöðu í mörgum málum, og hún verður að passa við heimsmynd þeirra og þjóðfélagsskoðun. Þegar fólk er með brenglað veruleikaskyn til að réttlæta steinrunna og löngu úrelta hugmyndafræði, þá er nú ekki von á góðu, þegar kemur að meðhöndlun staðreynda á talnaformi, enda er hún "í skötulíki".
Bjarni Jónsson, 16.10.2017 kl. 11:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.