26.10.2017 | 10:44
Bábiljurnar ríða ekki við einteyming
Sýnt hefur verið fram á, að kosningabarátta vinstri grænna hefur snúizt um fullyrðingar, sem eru algerlega úr lausu lofti gripnar. Það er klifað á lygum, sem eiga að réttlæta bylgju skattahækkana, ef/þegar vinstri flokkarnir ná tangarhaldi á ríkisvaldinu. Ómerkilegheitin ganga svo langt, að reynt er að telja fólki trú um, að almenningur muni ekki verða var við neinar skattahækkanir.
"Hliðrun" byrða er bara kjaftæði. Hátekjuskattur á laun yfir 25 MISK/ár, eignaskattur á hreina eign yfir MISK 150 og eyðileggjandi hækkandi veiðileyfagjald mun tímabundið auka árlegar skatttekjur ríkissjóðs um minna en miaISK 20, sem er aðeins 10 % af fjármagninu, sem þarf í loforðaflaum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Þar eru hreinræktaðir loddarar og lýðskrumarar á ferð, sem munu ekki vita sitt rjúkandi ráð í ríkisstjórn. Nú er Katrín Jakobsdóttir farin að masa um samráð við stjórnarandstöðu á Alþingi og samráð við aðila vinnumarkaðarins, en það verður ekkert samráð um heimskupör hennar. Þetta fjas er aðeins yfirbreiðsla á ákvarðanafælni hennar sjálfrar.
Bábiljurnar, sem hraktar hafa verið með vísun til OECD-Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París og Credit Suisse eru um, að á Íslandi sé meiri tekju- og eignaójöfnuður en annars staðar í norðanverðri Evrópu og að þetta þurfi að leiðrétta með tekjuskattshækkunum bæði á launatekjur og fjármagnstekjur, endurupptöku eignaskatts, og hver veit, nema hækkun erfðafjárskatts fái að fljóta með annarri tvísköttun. Skattborgarans bíður ógnarstjórn villuráfandi sauða, sem vita ekkert í sinn haus. Niðurstaðan verða hrossakaup a la Reykjavík, öll í boði skattborgaranna.
Það er dæmigert siðleysi að hálfu sossanna að reisa kosningabaráttu sína og væntanlega ríkisstjórnarstefnu á lygum. Þegar hallað hefur á þá í rökræðunum, hafa þeir síðan sett mykjudreifarana í gang. Það er lýsandi fyrir innrætið, því að í þeim ranni hefur jafnan gilt, að tilgangurinn helgi meðalið. Þar sem þannig háttar til, skiptir siðferði og heiðarleiki engu máli.
Fyrir utan siðleysið þá er furðufávíslegt að leita sér ekki haldbærra upplýsinga um það, sem ætlunin er að láta kosningabaráttuna snúast um. Hjá OECD hafa komið fram óyggjandi gögn, sem sýna svart á hvítu, að tekjujöfnuður er mestur á Íslandi af öllum ríkjum OECD, og hjá Credit Suisse hafa birzt gögn, sem sýna, að eignajöfnuður á Norðurlöndunum er mestur á Íslandi og jafnframt mestur á meðal auðugra ríkja í heiminum.
Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur, benti jafnframt á þriðju bábilju hinna rakalausu og berstrípuðu vinstri flokka í Morgunblaðsgrein á bls. 29 þann 14. október 2017. Hún er sú, "að laun og auður séu með lægsta móti á Íslandi, og þar með séu lífskjör í mun verra horfi en í nágrannalöndunum. Fyrst örlítið um ríkidæmi Íslendinga. Samkvæmt rannsókn Credit Suisse eru auðæfi fullorðinna Íslendinga þau næstmestu að meðaltali á eftir Sviss af öllum þjóðum heims. Ekki meira um það.
Annað - ef landsframleiðsla á mann á meðal ríkja heims er skoðuð, kemur í ljós, að áætlað er, að hún verði sú fimmta hæsta í heiminum [á Íslandi] á þessu ári. Einungis Lúxemborg, Sviss, Noregur og Makaó búa við meira ríkidæmi á þennan mælikvarða en Ísland. Þetta má lesa úr gögnum frá Alþjóða gjaldaeyrissjóðinum."
Það er alveg sama, hvar borið er niður. Það stendur hvergi steinn yfir steini í málflutningi þessa lágkúrulega og brenglaða fólks, sem heldur dauðahaldi í kenningar sínar um, að íslenzka þjóðfélagið sé einhvers konar eymdarsamfélag, sem sé ekki við bjargandi án stórfelldra inngripa stjórnmálamanna til að bæta kjör alþýðunnar. Öllum ætti að vera orðið ljóst, að þetta eru einfeldningsleg öfugmæli, sem engan veginn eiga við raunverulegar þjóðfélagsaðstæður á Íslandi, heldur ímyndað þjóðfélag slagorðaglamrarans Katrínar Jakobsdóttur og sósíalistískra fylgifiska hennar.
Sveimhugar og grillupúkar af þessu tagi eru ófærir um að stjórna heilu þjóðfélagi. Þess vegna mun illa fara með þetta fólk í Stjórnarráðinu. Það mun beita röngum ráðum, sem skapa munu fleiri vandamál en þau leysa. Það er vegna þess, að sýn sósíalista á viðfangsefnin er röng og forgangsröðunin brengluð.
Það er enda eins víst og nótt fylgir degi, að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna mun minnka fljótlega eftir að áhrifa fíflagangs þeirra með tekjur og gjöld ríkissjóðs fer að gæta.
Það er jafnframt víst, að landsmenn væru ekki í sinni frábæru stöðu nú, ef undirmálsliðið hefði vermt ríkisstjórnarstólana eftir kosningarnar 2013 og hingað til. Nægir að nefna "skuldaleiðréttingu heimilanna", uppgjör ríkissjóðs við þrotabú bankanna með stórfelldum stöðugleikaframlögum í ríkissjóð og afnám gjaldeyrishaftanna (enn eru þó hömlur á innflæði). Fjórar marktækar einkunnagjafir eru hækkun alþjóðlegs lánshæfismats á ríkissjóði, mikil skuldalækkun hans, lækkun vaxta Seðlabankans og lág verðbólga, sem þó hefur verið mæld óþarflega há vegna of mikils vægis húsnæðisliðarins.
Einn af þeim sköttum, sem Katrín Jakobsdóttir ætlar að hækka, ef/þegar hún kemst aftur til valda, er fjármagnstekjuskattur. Sumir hagfræðingar telja, að sú skattlagning hafi neikvæðust áhrif á hagvöxtinn. Flokksmenn Katrínar hafa margir hverjir horn í síðu hagvaxtar, sem þeir tengja við ósjálfbæra neyzlu og ofneyzlu, og þess vegna má búast við mikilli hækkun þessarar skaðlegu skattheimtu, sem þó er áætlað, að afli ríkissjóði aðeins 3,4 % skatttekna árið 2018. Þessi skattstofn skreppur auðveldlega saman við hærri skattheimtu og stækkar að sama skapi við lægri skattheimtu. Er til of mikils mælzt, að vinstri menn hugsi einhvern tíma málið til enda, en gösslist ekki áfram að afloknum hrossakaupum í samsteypustjórninni ?
Um víðtækar og slæmar afleiðingar þessarar skattheimtu ritaði Vilhjálmur Bjarnason, Alþingismaður, í Morgunblaðið, 13. október 2017:
"Frjáls sparnaður með frjálsri þjóð":
Því miður er það svo, að allir hvatar í þessu samfélagi, sér í lagi skattalegir, eru til að auka skuldsetningu og draga úr sparnaði. Raunar er það svo, að slíkir hvatar leiða að lokum til erlendrar skuldsetningar, greiðsluhalla við útlönd og þeirra meina, sem af slíkum halla leiða, sem eru gengisfellingar og kjaraskerðingar, sem fylgja gengisfellingum. Þeir, sem vilja draga úr peningalegum sparnaði, eru landsölumenn."
Það eru álög á veruleikafirrtum vinstri mönnum, að þeir virðast enga grein gera sér fyrir afleiðingum skattahækkana sinna á hegðun skattborgaranna. Hún getur þó hæglega leitt til landflótta og samdráttar í atvinnulífinu, sérstaklega við núverandi aðstæður, þar sem hagkerfið er takið að hægja á sér. Að láta skattheimtuna ráðast af geðþótta stjórnmálamanna og pólitískum kennisetningum í stað skýrra hagfræðilegra raka er ótrúlega frumstætt og kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum á 21. öld. Katrín Jakobsdóttir hefur ekki enn aflað sér grundvallar þekkingar í hagfræði og á efnahagsmálum Íslands. Ætlar hún að læra með því að fara sársaukafullu leiðina ? Er það ekki of mikil leti ?
Þótt skattheimtan sé að forminu til 20 % núna af fjármagnstekjum, er hún í raun miklu hærra hlutfall af raunvöxtum, sem er hið eðlilega skattaandlag, en alls ekki verðbótaþátturinn. Ef t.d. verðbótaþátturinn er 2 % og vextir 3 % af sparifjárupphæð, þá verður skattheimtan af raunávöxtuninni 33 %. Þetta er svo mikil skattheimta, að hún letur til sparnaðar, samfélaginu til stórtjóns. Þessa skattheimtu ætti að lækka niður í 10 % af raunávöxtun einvörðungu. Slík aðgerð fæli í sér jákvæðan hvata til aukins sparnaðar, og mikill sparnaður einstaklinga er undirstaða heilbrigðs hagkerfis. Samkvæmt lögmáli Lafflers munu tekjur ríkisins af fjármagnstekjuskatti hækka við slíka skattheimtulækkun, en þær eru áætlaðar miaISK 28,5 árið 2018.
Um þetta skrifaði Vilhjálmur Bjarnason:
"Sparnaður er aldrei hættulegur. Sparnaður er forsenda framfara og nýsköpunar. Í öllu tali um skattlagningu fjáreigna er hvatinn sá að gera útlendinga ríka. Auðvitað á markmiðið að vera að gera Íslendinga frjálsa."
Þetta er umhugsunarvert hjá Vilhjálmi. Frjáls er einvörðungu sá, sem nýtur fjárhagslegs sjálfstæðis. Margir Íslendingar hafa þurft að fórna fjárhagslegu frelsi sínu tímabundið á fyrri hluta ævinnar til að öðlast slíkt frelsi síðar á ævinni. Hægri og vinstri stjórnmálaflokka greinir aðallega á um það, hvort almenningi eigi að gefast kostur á að safna eigin fé um dagana eða hvort hið opinbera eigi jafnóðum að gera upptækt allt, sem aflögu er. Vinstri flokkarnir hérlendis hafa skrúfað skattheimtuna upp í rjáfur, en samt boða þeir skattahækkanir eftir kosningar 28. október 2017. Útgjaldaloforðin eru samt margföld á við þær skattahækkanir, sem nefndar hafa verið, svo að engu er líkara en vinstri flokkarnir hyggist í raun halda enn út í skuldsetningarfyllerí, þ.e. hætta að grynnka á skuldasúpu ríkissjóðs, en dýpka hana þess í stað. Að senda börnunum reikninginn með þessum hætti væri eftir öðru hjá vinstri mönnum. Það er hámark ábyrgðarleysis glámskyggnra stjórnmálamanna.
Að lokum þessi tilvitnun í Vilhjálm Bjarnason um þjóðhagslegt mikilvægi sparnaðar:
"Það er nefnilega þannig, að almannatryggingakerfi, sem hér hefur verið byggt upp, greiðir einungis lágmarksbætur. Til þess að treysta það þurfa einstaklingar að byggja upp sinn viðbótar lífeyrissparnað og að eiga frjálsan sparnað því til viðbótar. Til þess þarf að vera hvati, en ekki, að sparnaðurinn sé einungis skattaandlag.
Hinn frjálsi sparnaður byggir upp velferð allra í samfélaginu, ekki aðeins þeirra, sem eiga, þótt þeir njóti síðar.
Með þeirri aldursskiptingu, sem er með þjóðinni, geta bætur almannatrygginga aldrei orðið grundvöllur ellilífeyris. Frjáls sparnaður og hvatar hans geta einungis bætt úr vanda almannatrygginga og lífeyriskerfis."
Lækkum skattheimtu af fjármagnstekjum niður í 10 % af raunávöxtun.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Veit einhver forkólfa VG hvert auðlindagjaldið er, af einu kílói þorsks?
Halldór Egill Guðnason, 27.10.2017 kl. 04:27
Ekki skal ég um það segja, Halldór Egill, en talnaglöggir eru þeir ekki, blessaðir, svo mikið er víst, og lætur betur froðusnakk um "selvfölgeligheder" eða innantómar klisjur, sem eiga fremur við sýndarveruleikann þeirra en raunveruleikann.
Það, sem máli skiptir fyrir útgerðirnar varðandi "auðlindagjaldið" er hlutfall þess af framlegð hverrar útgerðar. Þetta hefur verið svo hátt að undanförnu, að jafngildir tvöföldun á tekjuskatti útgerðanna að meðaltali. Til að steindrepa ekki minni útgerðirnar má hins vegar ekki brúka meðaltöl við þessa skattheimtu, heldur tel ég, að miða eigi við ákveðið hlutfall af framlegð síðasta árs hjá hverju fyrirtæki. Hlutfallið má alls ekki fara yfir 5 % af framlegð hvers fyrirtækis, tel ég, annars hefur það mjög skaðleg áhrif á fjárfestingargetu þess og samkeppnishæfni. Ef framlegð síðasta árs var undir 20 %, var engin auðlindarenta í fyrirtækinu, og þar með er enginn grundvöllur fyrir auðlindagjald á næsta "fiskveiðiári".
Bjarni Jónsson, 27.10.2017 kl. 09:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.