Utanríkismál í uppnámi eina ferðina enn

Fyrir Alþingiskosningar 28. október 2017 hafa utanríkismálin legið í láginni.  Það er óheppilegt, því að vinstri flokkarnir búast til að svíkjast aftan að þjóðinni í þeim efnum rétt einu sinni.  Þeim er á engan hátt treystandi til að halda af ábyrgð og festu á hagsmunamálum Íslands gagnvart erlendum þjóðum, eins og dæmin frá 2009-2013 sanna.

Afturganga síðustu ríkisstjórnar, umsóknin um aðild að Evrópusambandinu, ESB, hefur t.d. ekki verið kveðin niður, og utanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar, Össur Skarphéðinsson, hefur haft á orði, að eftir kosningar verði Samfylkingin "í dauðafæri" að blása til nýrrar sóknar um aðalhugðarefni sitt, inngöngu í ESB og upptöku evru. 

Forsætisráðherraefni vinstri grænna, hin vingulslega Katrín Jakobsdóttir, mun eiga auðvelt með aftur að kyngja öllum heitstrengingum sínum í nafni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, um að standa vörð um fullveldi Íslands, enda mun skoðunarkönnun hafa sýnt, að drjúgur hluti stuðningsmanna VG styður nú aðild Íslands að ESB, svo furðulegt sem það hljómar í samanburði við opinbera stefnuskrá VG, þar sem varað er við því, að stórauðvaldið noti fríverzlunarsamninga til að læsa klónum í auðlindir (smá) ríkja.  ESB er ekki nefnt þar á nafn.  

Undir "verkstjórn" Katrínar Jakobsdóttur má telja víst, að stjórnarskrárkapall verði lagður, þar sem leitazt verður við að lækka þröskuld fullveldisframsals til að greiða leið aðildar landsins að ESB.  Það verður gert undir þeim formerkjum, að greiða þurfi fyrir þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, og það verður vísað til vafa um lögmæti EES-aðildar.  Tíminn mun fara í tóma vitleysu, eins og hjá síðustu ríkisstjórn vinstri flokkanna, 2009-2013, og landið fyrir vikið reka af leið stöðugleika og til upplausnar, eins og vant er undir vinstri stjórn, en vinstri forkólfarnir eru hreinlega ekki nægir bógar til að standa í ístaðinu.  Þar ber mest á lyddum og landeyðum. Þar vantar festu og myndugleika höfðingja Sunnlendinga á sinni tíð, Jóns Loftssonar í Odda, sem stóð gegn ásælni kaþólsku kirkjunnar í kirkjujarðir, þrátt fyrir bannfæringu biskups, og stóð á rétti jarðeigenda til eignarhalds með vísun til frelsis forfeðranna. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þennan myndugleika til að bera, enda ber hann höfuð og herðar yfir aðra formenn stjórnmálaflokka, sama hvernig á hann er litið. 

Hann lýsti því yfir á fundi SES (Samband eldri sjálfstæðismanna) í Valhöll, 25.10.2017, að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita öllu afli sínu gegn endurnýjun aðildarumsóknar og berjast gegn samþykkt hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hugsanleg vinstri stjórn eftir kosningarnar, 28.10.2017, mun væntanlega setja á. Hann lýsti því jafnframt yfir, að sér þætti ekki mikið koma til stjórnmálamanna, sem kasta ágreiningsmálum á sínum vettvangi í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að taka sjálfir afstöðu.  Slíkir hafa gefið pólitíska sannfæringu upp á bátinn fyrir völdin, en eru fyrir vikið engir leiðtogar.  Þetta taldi Bjarni Benediktsson vera misnotkun á þjóðaratkvæðagreiðslum.  Þær ætti að nota til fá staðfestingu eða höfnun þjóðar á gjörningi eða ákvörðun ríkisstjórnar, og stjórnmálaleiðtogar yrðu að standa eða falla með afstöðu sinni, líkt og gerðist í Brexit-atkvæðagreiðslu Bretanna, þar sem David Cameron, forsætisráðherra Breta, sagði af sér eftir að málstað hans var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þessari skýru afstöðu Bjarna Benediktssonar var fagnað með drynjandi lófataki á téðum fundi.  Katrín Jakobsdóttir kýs hins vegar að ganga til kosninga, "opin í báða enda enda".   

Hætt er við deilum á næsta kjörtímabili um aðild Íslands að NATO, sem landinu getur ekki orðið til framdráttar, því að okkur er nauðsyn á skjóli varnarsamtaka vestrænna ríkja nú sem fyrr.  Vinstri grænir eru á móti aðild Íslands að NATO.  Það mun ekki fara fram hjá helztu bandamönnum okkar, ef forysta ríkisstjórnar Íslands lendir í höndum slíks flokks, sem að þessu leyti sker sig úr í Evrópu og myndar skálkabandalag með "Die Linke"-vinstri sinnum í Þýzkalandi, sem eru arftakar SED-hins austur þýzka kommúnistaflokks Walters Ulbricht og félaga.  Það getur orðið örlagaríkt eftir kosningar, að skessur kasti á milli sín fjöreggi þjóðarinnar.

Samkvæmt stefnuskrá vinstri grænna verða ekki gerðir neinir nýir fríverzlunarsamningar við erlend ríki undir forsjá VG.  Ástæðan mun vera ótti um, að einhver græði.  Það er banvæn meinloka hjá vinstri grænum, að enginn megi græða.  Allt okkar samfélag er þó reist á því, að einstaklingar og fyrirtæki græði.  Að hafna gróða er ávísun á eymd og fátækt eins samfélags.  Slíkur flokkur er í raun ekki stjórntækur í lýðræðissamfélagi, enda eru "Die Linke" ekki taldir stjórntækir í Berlín.  Sannleikurinn er sá, að allir landsmenn græða á greiðum og hömlulitlum viðskiptum.  Það er nauðsynlegt að ná fríverzlunarsamningi á næstu misserum við okkar helztu viðskiptaþjóð, Breta.  Það er glapræði að standa á sama tíma í aðildarviðræðum við framkvæmdastjórn ESB.  Að berjast samtímis á tveimur vígstöðvum er ávísun á vandræði og að lokum algert tap.

Þá má ekki gleyma flóttamannavandamálinu, en þar reka vinstri flokkarnir óheillastefnu, sem einkennist af algeru virðingarleysi í meðferð skattfjár, hreinræktaða sóun, sem engum gagnast, nema fólkssmyglurum og lögfræðingum, sem reyna að tefja fyrir brottvísun tilhæfulausra hælisumsækjenda og vilja nú fá tryggar og auknar greiðslur fyrir þennan gjörning úr ríkissjóði, eins og lögfræðingur á framboðslista Samfylkingar í Reykjavík svo ósmekklega hefur lagt til. 

Á sama tíma og allar Evrópuþjóðir hækka þröskuldinn fyrir hælisleitendur, ætla vinstri flokkarnir að lækka hann.  Það þýðir bara eitt: smyglarar munu beina straumi flóttafólks hingað í meiri mæli, eins og gerðist með Albani, eftir misráðna ákvörðun Alþingis um málefni albanskra hælisleitenda.  Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir, að hann vilji taka upp norsku regluna um brottvísun tilhæfulausra hælisumsækjenda á innan við 48 klst.  Útlendingastofnun er nú komin niður í nokkrar vikur, og við þann árangur fækkaði hælisleitendum, sem gera út á heimsku og barnaskap Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í útlendingamálum okkar. 

Það er sjálfsagt mál að verja landið gegn afætum frá útlöndum með tilhæfulausar hælisumsóknir.  Það er engum greiði gerður með félagslegu dekri við hælisumsækjendur frá löndum, sem skilgreind eru örugg, í lengri tíma.  Vinstri grænir, samfylkingar og píratar munu örugglega klúðra þessum málum í barnaskap sínum og einfeldni með 10-20 milljarða ISK/ár kostnaði fyrir skattborgara.

Á sama tíma og að þessu rituðu er rétt að gera sér grein fyrir því, að atvinnulífinu hérlendis er um þessar mundir haldið uppi af hörkuduglegum útlendingum, líka frá löndum utan EES, þ.á.m. (kristnum) Georgíumönnum, sem halda uppi hagvexti og halda verðbólgu í skefjum, öllum til hagsbóta. Að stemma stigu við erlendum afætum á félagslega kerfinu hér á ekkert skylt við ímigust á útlendingum.  

Stærsta utanríkismálið í höndum nýrrar vinstri stjórnar verður án vafa umræða um að endurvekja strandaðar aðildarviðræður frá ársbyrjun 2013, sem höfðu reyndar steytt á skeri löngu áður, þegar ESB neitaði að opinbera rýniskýrslu sína um stöðu íslenzkra sjávarútvegsmála.  Sú neitun jafngilti þeirri niðurstöðu ESB, að íslenzk sjávarútvegsstefna væri ósamrýmanleg hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB.  

Í forystugrein Morgunblaðsins 17. október 2017,

"Engin fyrirstaða hjá VG",

eru leiddar að því líkur, að VG-forystan verði Samfylkingunni enn leiðitamari í næsta ESB-leiðangri en í þeim síðasta, og þótti þó flestum nóg um undirlægjuhátt flokksforystu VG þá.  Stefna Sjálfstæðisflokksins er hins vegar kýrskýr.  Engar aðildarviðræður, nema þjóðin samþykki fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu að hefja þær að nýju. Þeir valdsmenn, sem leggi slíkt mál fyrir þjóðina, verði síðan að standa og falla með skýrri afstöðu sinni. Sjálfstæðisflokkurinn mun tvímælalaust berjast hatrammlega fyrir höfnun þjóðarinnar á slíkri beiðni vinstri flokkanna og til vara, að þær hefjist ekki fyrr en fríverzlunarsamningur við Breta hefur verið til lykta leiddur. 

Höfnun felur í sér vantraust á þá ráðherra, sem fyrir aðildarviðræðum berjast, og þeim er þá ekki lengur til setunnar boðið, heldur verða að taka hatt sinn og staf. Ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs munu bera kápuna á báðum öxlum, svo óheiðarleg sem sú framkoma er gagnvart kjósendum, en þetta óhreinlyndi þeirra stafar af valdagræðgi.  Ráðherrar vinstri grænna munu vilja halda völdum óháð niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.  Þar kemur afstaða sósíalistans til lýðræðisins berlega í ljós.  Hann ber hvorki virðingu fyrir vilja, sjálfsaflafé né eignarrétti kjósandans.  Kjósandinn í huga sósíalistans er verkfæri hans til að framkvæma sósíalismann, eins og sósíalistanum þóknast að túlka hann á hverjum tíma.  Kjósandinn getur ekki treyst vinstri grænum fyrir horn.  

Úr téðri forystugrein:

"Nú er öldin önnur.  Þeir flokksmenn [VG], sem voru eindregið á móti Evrópusambandsaðild, eru horfnir á braut, og eftir sitja þeir, sem annaðhvort eru hlynntir aðild eða láta sig litlu varða, hvort fullveldið verður framselt til Brüssel.

Formaður flokksins er einn þessara, eins og sást glöggt í vinstri stjórninni, sem sótti um aðild og naut í einu og öllu stuðnings núverandi formanns. 

Fleira bendir til, að Vinstri græn verði létt í taumi að þessu sinni.  Í kosningaáherzlum flokksins fyrir kosningarnar 28. október 2017 er t.a.m. ekki minnzt á andstöðu flokksins við aðild að Evrópusambandinu.  Þeirri stefnu hefur einfaldlega verið stungið undir stól til að undirbúa stjórnarsamstarfið við Samfylkinguna."

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mótað þá skýru stefnu til nýrra aðildarviðræðna við ESB, að þær skuli alls ekki hefja, nema samþykki fáist fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrst og síðan á Alþingi. Stjórnarflokkunum ber þá að taka lýðræðislegum afleiðingum úrslitanna, en þeir eiga ekki að hanga áfram við völd, eins og vinstri stjórnin 2009-2013 gerði svo skammarlega eftir þjóðaratkvæðagreiðslur um "Icesave-samningana".  Ef á að endurtaka sama leikinn og árið 2009 að gösslast í viðræður án umboðs frá þjóðinni beint, mun hins vegar hitna illilega í kolunum, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu.  Það eru gjörólíkar tímar nú gengnir í garð.   

 

 

 Tifandi tímasprengja


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Óttast að þú hafir rétt fyrir þér, Bjarni.  Grunsamlegt hvað ESB aðildarhyggjan fer hljótt í þessari kosningabaráttu; skattlagningaráformum er beitt til þess að beina athygli kjósenda að því málefni.  Einhver mun vakna upp við vondan draum á næstu vikum ef svo fer sem stefnir í.  

Kolbrún Hilmars, 27.10.2017 kl. 15:14

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

"Ef á að endurtaka sama leikinn og 2009"  Þá mun niðurbæld geðshræring blossa upp um allt þjóðfélag.Minnug játninga þeirra sem sáu Íslands einu brjóstvörn 2009 í VG og kusu þá. 

Helga Kristjánsdóttir, 27.10.2017 kl. 17:22

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Til hvers eru refirnir skornir að taka ESB út úr stefnuskrá VG ?  Augljósa svarið er, að ESB eigi ekki að þvælast fyrir formanninum í samningaviðræðum hennar við aðra flokka um ríkisstjórnarmyndun.  Það er síðan ótrúlega lítilsiglt af henni að ætla að henda málinu í þjóðaratkvæði án þess að taka afstöðu og jafnvel að fara fyrir ríkisstjórn, sem stendur í aðlögunarviðræðum, þótt hún hafi lýst yfir andstöðu sinni við aðild Íslands að ESB.  Þetta er meiriháttar pólitískur tvískinnungur, sem grefur algerlega undan leiðtogahlutverki Katrínar Jakobsdóttur.

Ég er sannfærður um, að andstæðingar aðlögunar Íslands sem forleiks að aðild að ESB muni bera sigur úr býtum í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Hún mun þá verða mikill álitshnekkir fyrir viðkomandi vinstri stjórn innanlands sem utan, svo að hún mun ekki bera sitt barr.   

Bjarni Jónsson, 27.10.2017 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband