28.10.2017 | 08:26
Að ráða áhöfn á þjóðarskútuna
Með kosningum til Alþingis er þjóðin að velja sér stjórnendur til að fara með sameiginleg málefni sín til allt að næstu 4 ára. Hvað hefur fólk í höndunum núna til að taka afdrifaríka ákvörðun af þessu tagi ?
Það er hægt að nota 2 aðferðir til að komast að niðurstöðu. Í fyrsta lagi má skoða málflutning frambjóðendanna í kosningabaráttunni, og í öðru lagi má skoða feril þeirra stjórnmálaflokka, sem farið hafa með völdin síðasta áratuginn.
Vinstri flokkarnir, sem helzt eru orðaðir við stjórnarmyndun eftir kosningarnar í dag, 28.10.2017, Vinstri hreyfingin grænt framboð, Samfylking og Píratahreyfingin, hafa teflt fram fólki, sem farið hefur með hreint fleipur í kosningabaráttunni, svo að ekki sé nú minnzt á persónulegar dylgjur. Slíkt háttarlag frambjóðenda og fylgifiska þeirra lýsir óvirðingu í garð kjósenda og miklum vandræðagangi, enda er niðurstaða kosningabaráttunnar sú, að vinstri flokkarnir eru málefnavana, en vilja þó hækka skattana af gömlum vana, þótt engin þörf sé á því núna ríkisbúskaparins vegna.
Þau hafa haldið því fram, að á Íslandi ríki mikill tekjuójöfnuður, sem þau vilji leiðrétta og beita til þess skattkerfinu. Þessi ástæða skattahækkunar hefur verið hrakin með vísun til gagna frá Efnahags- og framfarastofnuninni í París, OECD, sem sýna, að tekjujöfnuður er mestur á Íslandi innan OECD. Að ganga lengra í tekjujöfnunarskyni getur orðið þjóðhagslega skaðlegt, því að þá verður hvatinn til að klifra upp tekjustigann of veikur. Slíkt hamlar framleiðni og hagvexti. Vinstri mönnum virðist mörgum vera fyrirmunað að skilja þessi einföldu sannindi um slæm þjóðhagsleg áhrif skattahækkana, sem allir á almenna vinnumarkaðinum átta sig þó á.
Vinstri græn og samfylkingar, t.d. Katrín Jakobsdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson (líklega hlufallslega auðugasti frambjóðandinn miðað við hæfileika), hafa fullyrt, að á Íslandi ríki óþolandi eignaójöfnuður, sem beri að leiðrétta með skattbreytingum, "auðlegðarskatti", hækkun erfðafjárskatts o.s.frv. Samkvæmt Hæstaréttardómi er eignaskattsálagning við núverandi efnahagsaðstæður Stjórnarskrárbrot, og samt boða Katrín, Logi, Ágúst Ólafur & Co. þessa skattheimtu nú, sem sýnir, að þessir vinstri forkólfar eru gjörsamlega úti að aka í þjóðmálunum.
Credit Suisse hefur með rannsókn komizt að því, að eignajöfnuður er mestur á Íslandi innan Norðurlandanna og sá mesti á meðal efnaðra þjóða, en í fátækari löndum er sums staðar meiri eignajöfnuður. Til að auka eignajöfnuð enn meir en orðinn er á Íslandi, þyrfti með öðrum orðum að draga úr meðalauðlegð í landinu. Þar með væri barninu kastað út með baðvatninu, en það er einmitt algengasta afbrot vinstri manna. Af einfeldningslegum, yfirborðslegum og ósönnum málflutningi þeirra í nýyfirstaðinni kosningabaráttu að dæma eru þeir þess einmitt albúnir að kasta barninu út með baðvatninu.
Það stendur sem sagt ekki steinn yfir steini í kjarnamálflutningi stjórnarandstöðunnar. Katrín Jakobsdóttir og aðrir vinstri sinnar eru orðin ber að því að fara með eintómt fleipur. Vinnubrögð þeirra eru svo óvönduð, að með öllu er óboðlegt almenningi þessa lands, og það er með öllu ógerlegt fyrir athugulan kjósanda að bera nokkurt traust til þeirra. Fólk af þessu sauðahúsi kann ekki að vinna, enda hafa sumir í þessari sauðahjörð aldrei gert neitt af viti. Hvernig geta slíkir leitt aðra ? Þeir hafa enga hæfileika til þess.
Þau hafa bitið hausinn af skömminni með því að halda því fram, að kjör almennings á Íslandi séu lakari en í nágrannalöndunum. Þetta er algerlega úr lausu lofti gripið og stenzt ekki skoðun Credit Suisse, sem hefur komizt að því, að kaupmáttur ráðstöfunartekna er nú orðinn hærri á Íslandi en í nokkru öðru landi innan OECD, nema Svisslandi. Þetta er í samræmi við þá staðreynd, að "Eymdarvísitalan" er lægst á Íslandi af öllum löndum, þar sem hún er mæld. Þetta sýnir, að á vinstri væng er nú við að etja vindmylluriddara, þ.e.a.s. fólk, sem málar skrattann á vegginn án þess, að fyrir því sé flugufótur. Þetta er annaðhvort ómerkilegt eða sjúklegt. Hvernig getur hvarflað að nokkrum manni með jarðsamband í þessu þjóðfélagi að fela vindmylluriddurum forsögn og forystu fyrir sameiginlegum málum þjóðfélagsins ? Það er eins víst og 2 x 2 = 4, að slíkt mun leiða til ófarnaðar.
Núverandi staða þjóðmála er rós í hnappagat Sjálfstæðisflokksins, sem fór með stjórn fjár- og efnahagsmála í ríkisstjórn 2013-2016 og leiddi ríkisstjórn 2017. Formaður Sjálfstæðisflokksins átti veg og vanda að uppgjöri ríkisins við slitabú föllnu bankanna og leiddi það til lykta með slíkum glæsibrag, að ríkissjóður rétti hlut sinn þannig, að hann og Seðlabankinn komu skaðlausir út úr Hruninu. Þetta afrek var á kostnað slitabúanna, enda stundar slitabú Glitnis nú rætna hatursherferð gegn forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni. Þar liggja hýenur vogunarsjóða á fleti fyrir, en munu ekki hafa erindi sem erfiði. Allur mun sá óþverraskapur snúast í höndum þeirra og ómerkilegra handbenda þeirra.
Sem fjármála- og efnahagsráðherra mótaði Bjarni Benediktsson skuldaleiðréttingu húsnæðiseigenda og kom því í kring, að bankarnir fjármögnuðu hana, þótt hugmyndin hafi vissulega komið frá núverandi formanni Miðflokksins.
Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, átti frumkvæði að lagasetningu um stöðugleikaákvæði fyrir rekstur ríkissjóðs, sem bindur hendur framkvæmdavaldsins varðandi þenslu ríkisútgjalda og rekstrarafgang hans. Þetta var tímabær lagasetning, sem getur bætt fjármálastjórnun ríkisins og orðið mikilvægur steinn í vörðu efnahagslegs stöðugleika á Íslandi.
Lokahnykkur umbótanna kom í hlut ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar, sem mynduð var í janúar 2017 og felld í september 2017 í múgæsingi og misskilningi. Þar er um að ræða afnám gjaldeyrishaftanna. Það er hægt að fullyrða með því að rýna sögu vinstri stjórnarinnar 2009-2013, að engu af þeim afrekum, sem hér hafa verið tíunduð, hefði hún komið í verk. Mistakaferill þeirrar ríkisstjórnar er alræmdur, sbr "Icesave samninga" og afhendingu tveggja ríkisbanka "hrægömmum", algerlega að þarflausu. Þar um borð kunnu menn ekkert til verka, og óþarfi að rekja það nánar.
Engin ástæða er til að búast við neinu af nýrri vinstri stjórn, nema fíflagangi í utanríkismálum, fjárhagslegri fásinnu með ríkisfé, lakari kaupmætti ráðstöfunartekna almennings vegna aukinnar og skaðlegrar skattheimtu og vaxandi verðbólgu.
Þarf þá frekari vitnana við um það, hverjir eru hæfir og hverjir eru óhæfir til að fara með stjórn landsins ? Með Sjálfstæðisflokkinn sem slíka kjölfestu á Alþingi, að framhjá honum verði ekki gengið, þegar þingið mótar framkvæmdavaldið, verður hér haldið áfram veginn og álögum létt af fyrirtækjum og fólki, svo að viðkvæm staða útflutningsgreinanna styrkist nóg til að treysta viðkvæmt atvinnuöryggið og kaupmáttinn í landinu, sem er fyrir mestu.
Atvinnuöryggið er viðkvæmt núna vegna mikilla kostnaðarhækkana fyrirtækjanna, og útflutningsfyrirtækin hafa jafnframt þurft að glíma við styrkingu ISK. Hið jákvæðasta fyrir alla er lág verðbólga (undir viðmiði Seðlabankans), sem aðeins næst með ríflegum afgangi á rekstri ríkissjóðs, sem síðan gengur til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Til að búa ríkið undir næsta efnahagsáfall má ekki hægja á uppgreiðslu skulda. Þær eru nú miaISK 900, sem þýðir, að enn er ekki nægt borð fyrir báru til að mæta áföllum.
Að velja þá til forystu, sem jafnan éta útsæðið, er ávísun á óstöðugleika og skort.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Reyndar er verið að kjósa fólk á þing- ekki til forustu. Það er síðan flokkanna að mynda ríkisstjórnir. Sjálfur er ég á móti þessu fyrirkomulagi. Ég myndi vilja að ráðherrar yrðu ráðnir rétt eins og annað starfsfólk ríkisins. En þeir myndu að sjálfsöðu hafa það hlutverk að framfylgja stefnu sem meirihluti þingsins ákveddi. Ég vil meina að stjórnkerfið yrði betra á þann hátt þar sem til starfa veldust hæfari menn/ konur.
Jósef Smári Ásmundsson, 28.10.2017 kl. 12:18
Forsetinn á að ráða og reka ráðherra og ráðuneytisstjóra, en þingið á að samþykkja það fólk sem er ráðið í stöðurnar.
Sem sagt að hafa aðskilið framkvæmdarvaldið frá löggjafarvaldinu.
Domsvaldið ætti að vera gert á svipaðan hátt, forsetinn á að ráða dómara og saksóknara og þingið á að samþykkja ráðningarnar.
Eins og stjórn skipulagið er í dag þá er þingið næstum því valdalaust.
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 28.10.2017 kl. 14:12
Ef þingið er valdalaust þá er það þingmönnum sjálfum að kenna. Þeir setja jú lögin - umferðarreglurnar sjálfar - fyrir þjóðina. En það er rétt að spyrja má hvort fari betur á því að framkvæmdavaldið sé ekki líka í þeirra höndum. Þjóðin er reyndar fámenn og eflaust er sparnaður að því að nýta sömu kjörnu fulltrúana á báðum sviðum.
Kolbrún Hilmars, 28.10.2017 kl. 14:25
Það er mikið til í því, sem þið skrifið hér að ofan, um þrískiptingu valdsins. Fyrirkomulagið hérlendis er svipað og á hinum Norðurlöndunum, Englandi, Þýzkalandi og víðar, þingbundin ríkisstjórn, en Frakkar eru með forsetaræði frá stofnun 5. lýðveldisins á valdadögum de Gaulle, hershöfðingja. Það getur verið, að aukinn pólitískur stöðugleiki fáist með forsetaræði, þar sem hin pólitísku völd skiptast á milli forseta lýðveldisins og þingsins, sem kosin eru í aðskildum kosningum. Hjá okkur geta einar kosningar til Alþingis umturnað stjórnarstefnunni. Allt hefur þetta kosti og galla, og nokkrir góðir stjórnlagafræðingar ættu að setjast niður saman og greina kosti og galla hvers fyrirkomulags fyrir íslenzkar aðstæður.
Bjarni Jónsson, 28.10.2017 kl. 15:01
Jóhamnn: í raun og veru sammála þér. Þingið á að ráða stjórnendur en það á að auglýsa eftir umsækjendum um starfið, gera kröfur um menntun og starfsreynslu og ráða síðan hæfasta einstaklinginn. Það er í mínum huga engin rök að þingmundnar ríkisstjórnir eru við lýði í öllum löndum hins vestræna heims. Ef við mundum fara þessa leið- það er að betrumbæta stjórnkerfið værum við einungis að fara framúr öðrum löndum. Vil að lokum segja að mín leið þarf ekkert endilega að vera sú besta. Aðrar hugmyndir er alveg eins hægt að skoða.
Jósef Smári Ásmundsson, 28.10.2017 kl. 15:31
Einmitt, Jósef Smári, við Íslendingar höfum nú þegar tekið frumkvæði á ýmsum sviðum, og þjóðfélag okkar er einstakt vegna stærðarinnar. Þess vegna er skynsamlegt að athuga, hvort líklegt sé til betri og skilvirkari stjórnunar samfélagsins að sérsníða því stjórnunarfyrirkomulag. Það þart samt að gæta varkárni og íhygli við breytingar á Stjórnlögunum.
Bjarni Jónsson, 28.10.2017 kl. 21:19
Rétt, Bjarni. Þessvegna á að prófa hlutina í skamman tíma og byggja svo á reynslunni. Væri það ekki kjörið núna í kjölfar niðurstöðu kosninganna . Ég sé ekki að það verði hægt að mynda starfshæfa þingstjórn. Þetta er einmitt einn af göllunum við þingbundnar ríkisstjórnir.
Jósef Smári Ásmundsson, 29.10.2017 kl. 09:27
Það má hugsa sér að auka skýrleika kosningaúrslita með ýmsu móti, t.d. með einmenningskjördæmum að hætti Breta og einfalda þannig mjög stöðuna á Alþingi. Það er hins vegar borin von, að Alþingi með núverandi skipan samþykki slíka stjórnlagabreytingu.
Bjarni Jónsson, 29.10.2017 kl. 10:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.