Íslenzk matvælaframleiðsla

Það er rétt, sem haldið er fram, gagnstætt úrtöluröddum, að vaxandi viðskiptatækifæri bíða íslenzks landbúnaðar.  Hann mun hvorki keppa á magni né verði, heldur á gæðum, vottuðum gæðum, á öllum sviðum ræktunar og eldis.  Ástæðurnar fyrir tiltölulega björtum horfum eru hlýnandi loftslag og vaxandi meðvitund neytenda um mikilvægi matvælagæða fyrir heilsufar og vellíðan. Grundvöllur gæðanna er takmarkalítið hreint vatn, lítil loftmengun utan þéttbýlis, hreinn jarðvegur og sæmilega hrein strandlengja og sjór næst landi, þótt mikið verk sé óunnið hérlendis til að koma skolphreinsun í bezta mögulega horf.  Hreinsun þess er ábótavant og ekki nóg að dæla óþverranum út fyrir stórstraumsfjöru.

Innan íslenzka landbúnaðarins er almenn vitund um styrkleika og veikleika, tækifæri og áhættur innan þessarar margbreytilegu atvinnugreinar.  Sem dæmi hafa sauðfjárbændur sett sér markmið um, að kolefnisfótspor lambakjötsins hverfi árið 2022, en það nemur nú 28,6 kg CO2eq/kg lambakjöts.  Þetta markmið er til mikillar fyrirmyndar, mun skipa íslenzkri sauðfjárrækt í fremstu röð í umhverfisvernd og mun styrkja samkeppnishæfni hennar innanlands og utan. 

Um framtíð íslenzks landbúnaðar tjáði dr Sæmundur Sveinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, LbhÍ, sig í viðtali við Sigurð Boga Sævarsson í Morgunblaðinu, 2. október 2017, undir fyrirsögninni,

"Styrkist sem matvælaland":

"Hlýnun andrúmsloftsins af völdum gróðurhúsalofttegunda gæti skapað nýjan veruleika og aðstæður í landbúnaði á Íslandi.  Viðbúið er, að hlýnun raski öllum skilyrðum til jarð- og kornyrkju ytra, en aftur gætu þau orðið hagfelldari á Íslandi."

Þetta þýðir, að framleiðni í íslenzkum landbúnaði mun vaxa á þessari öld, og á sama tíma mun verð á matvælum fara hækkandi.  Alþjóðleg samkeppnishæfni íslenzks landbúnaðar mun þar af leiðandi batna.  Þessar viðskiptalega góðu horfur hans ásamt lífsnauðsynlegu hlutverki við fæðuöflun handa landsmönnum, bæði við venjulegar og óvenjulegar ytri aðstæður, leggur yfirvöldum hérlendis þær skyldur á herðar að styðja við landbúnaðinn, þegar á móti blæs, og efla viðgang hans og vöxt.  Ísland er matvælaframleiðsluland og getur orðið enn meira framleiðsluland á lífmassa jurta og dýra, þegar fram í sækir, ef skynsamlega er haldið á spilunum. Að mati blekbónda er grænmeti hvergi betra en frá íslenzkum bændum og svo má lengi telja.

Áfram með dr Sæmund:

"Þá vitum við líka, að, ef tekst með ræktun og friðun að koma gróðurhulu á íslenzkan eldfjallajarðveg, sem er mjög algeng jarðvegsgerð hér á landi, getur hann bundið mjög mikið af koltvísýringi í sig, og það væri mótvægi við loftslagsbreytingarnar.  Í þessum verkefnum hafa íslenzkir bændur hlutverki að gegna, enda eru þeir mikilvægir vörzlumenn landsins."

Hér er komið að efnilegri nýsköpun innan íslenzks landbúnaðar, sem yfirvöldum ber að stuðla að, að hefjist strax, svo að ávinningur mótvægisaðgerða fari að gera sig gildandi innan 5 ára.  Það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir slagsmál við ESB út af tugmilljarða ISK greiðslum þangað frá íslenzkum fyrirtækjum og ríkissjóði eftir CO2 losunaruppgjör 2031 í tengslum við skuldbindingar Íslands á Parísarráðstefnunni í desember 2015 og aðild Íslands að sameiginlegri markmiðasetningu EES um losun frá stóriðjunni, millilandaflugi og millilandasiglingum.

  Á skal að ósi stemma, og það jafngildir því að kasta atvinnutækifærum og viðskiptatækifærum á glæ að láta hjá líða að nýta mikið tiltækt landrými á Íslandi til að binda koltvíildi.  Einkar athyglisvert, að íslenzkur eldfjallajarðvegur getur bundið óvenjumikið koltvíildi.  Meðalbinding með skógrækt hérlendis mun nú nema 7,7 t CO2/ha á ári.  Koltvíildisbindingin getur verið sameiginlegt verkefni bænda, stjórnvalda og fyrirtækja, sem sjá fram á, að þau muni vanta koltvíildiskvóta á næsta áratugi og e.t.v. síðar í stað þess að greiða svipaðar eða hærri upphæðir til erlendra aðila fyrir koltvíildiskvóta. Sem dæmi munu álverin þurfa að kaupa sér sívaxandi koltvíildiskvóta, sem gæti numið 1,0 Mt árið 2030.  Hann er hægt að útjafna hér með skógrækt á 130 kha lands.  Þetta landrými er fyrir hendi, sem sýnir gríðarlega möguleika íslenzkra bænda að sækja fram í atvinnulegum efnum.  Það er þjóðhagslega hagkvæmt að útjafna CO2 hérlendis í stað þess að senda fúlgur fjár utan.  Ríkissjóður er eigandi mikilla landareigna, sem leggja má undir þessa starfsemi, og ábyrgðarmenn hans eiga að sýna frumkvæði við að ýta þessari starfsemi úr vör.

Í þessu ljósi er s.k. "eyðibýlastefna", sem fráfarandi landbúnaðarráðherra hefur verið sökuð um að reka gagnvart sauðfjárbændum í nauðum, algert glapræði og eins skammsýn og mest getur verið.  Það á ekki að kaupa bændur til að hætta búskap vegna tímabundinna markaðserfiðleika í tiltekinni grein, heldur að aðstoða þá við að koma fleiri stoðum undir starfsemina, eins og hér hefur verið gert að umræðuefni.  Stærsta umhverfisvá Íslands er uppblástur lands, og öll landgræðsla er vörn gegn þeirri vá, og í henni felst mikil umhverfisvernd, þótt hún feli í sér byltingarkennda breytingu á gróðurfari.  

"Við [LbhÍ] þurfum klárlega að styrkja tengslin við bændur.  Því vil ég, að nú verði farið í stefnumótunarvinnu með bændum, fulltrúum hagsmunafélaga þeirra og afurðastöðva og leitað eftir sjónarmiðum fólks um, hver þróunin í landbúnaðinum verði á næstu árum - sú vinna verður gríðarlega þýðingarmikil fyrir mótun á áherzlum skólans til næstu ára."

Þetta er skynsamlega mælt hjá Sæmundi, rektor.  Afrakstur þessarar vinnu verður vafalaust tekinn saman í skýrslu, sem stjórnvöld landbúnaðarmála geta notfært sér og fellt inn í sína stefnumörkun.  Að lokum sagði Sæmundur í þessu viðtali:

"Við þurfum líka að horfa til þess, hvernig megi auka virði framleiðslu landbúnaðarafurða frekar en magn.  Enn fremur verður að tryggja sjálfbærni í framleiðslu þessara afurða.  Hér innanlands þarf ekki endilega að auka framleiðsluna, en hún þarf klárlega að verða virðismeiri og til þess þarf þekkingu, og þar gegnir LbhÍ lykilhlutverki."  

Vegna verðfalls erlendis blasir við fjárhagsvandi sauðfjárbænda, vegna þess að 35 % framleiðslunnar eru flutt utan um þessar mundir.  Það er engin ástæða fyrir ríkissjóð að greiða með útflutningsvöru, en það er full ástæða til að viðhalda lambakjötsframleiðslu í landinu, m.a. til að draga úr líkum á fæðuskorti við hættuaðstæður innanlands eða utan. Þá þarf að styðja við framleiðslu fyrir innanlandsmarkaðinn, þegar verð erlendis eru undir kostnaði við framleiðsluna hér. Þetta verður líklega bezt gert með beingreiðslum, t.d. á 90 % af innanlandsneyzlunni, sem þá nemur um 5900 t.  Til að jafna verðsveiflur niður á við má t.d. miða við afurðaverð til bænda síðustu 9 ár á núvirði.  Það nemur 582 ISK/kg, en afurðaverð í ár er 369 ISK/kg.  Mismunurinn er 213 ISK/kg, og uppbótin verður þá 213 kISK/t x 5900 t/ár = 1,3 miaISK/ár.  Þessu fé er betur varið til að viðhalda byggð og atvinnustarfsemi í dreifbýli en til að leggja niður búskap, sem með því að aðlaga sig markaðsaðstæðum er líkleg til bættrar afkomu og arðsemi í framtíðinni, eins og rektorinn benti á.

Ein er sú grein landbúnaðarins, sem meiri opinbera umfjöllun hefur hlotið en sauðfjárræktin, og það er fiskeldið, sem ýmist er stundað sem strandeldi eða landeldi, en verður í framtíðinni e.t.v. stundað í stórkvíum fyrir utan firðina, eins og Norðmenn eru að hefja tilraunir með núna.  Mestur vöxtur hérlendis er í laxeldi, en þar hefur ásteytingarsteinninn verið strok eldislaxa úr strandkvíum, og síðan ganga þeirra upp í nærliggjandi ár og hrygning þeirra þar.  

Hnífurinn stendur í kúnni með það, hvort áhættan sé nú orðin ásættanlega lítil til að leyfa umtalsvert laxeldi í Ísafjarðardjúpi, a.m.k. 15 kt/ár í fyrsta áfanga.  Laxeldisfyrirtækin á Íslandi, sem sjókvíaeldi stunda, hafa nú innleitt nýja og traustari gerð eldiskvía og tileinkað sér ný og stranglega skjalfest vinnubögð samkvæmt norskum gæðastaðli.  Fyrsta reynslan af þessari nýju tækni er svo jákvæð, að af henni má draga þá ályktun, að strokhlutfallið úr eldiskvíunum sé svo lágt, að m.v. 30 kt/ár í Ísafjarðardjúpi þurfi ekki að búast við hærra hlutfalli eldislax í ám Ísafjarðardjúps en 4 % af villtum laxi þar, sem er leyfilegt hámark samkvæmt Hafrannsóknarstofnun.  

Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir þróun byggðar og atvinnustarfsemi á Vestfjörðum, að yfirvöld dragi ekki lappirnar við að opna á þessa starfsemi í Ísafjarðardjúpi, svo að einhverju nemi.  Það hangir reyndar svo mikið á spýtunni, að varðar þjóðarhag, því að laxeldið er svo öflug grein, að framtíðar starfsemi hennar í Ísafjarðardjúpi getur haft mælanleg áhrif á landsframleiðsluna.  Þess vegna væri engin goðgá, að Alþingi mundi setja sérlög um laxeldi þar, sem mundi þá verða fordæmisgefandi rammi fyrir sjókvíaeldi almennt.

Geldlax hefur verið nefndur sem valkostur, en geldingin verið bæði ómannúðleg og dýr og fiskurinn þrifizt illa í kjölfarið.  Sú aðferð hefur ekki verið vænleg, en nú berast tíðindi frá Noregi um líffræðilega aðferð, sem hindrar myndun kynkirtla í fiskinum.  Aðferðin þykir lofa góðu, og hún snýst ekki um erfðabreytingu.  Fiskifréttir sögðu frá þessu 19. október 2017 í greininni:

"Risaskref í áttina að eldi á geldlaxi":

"Í fréttatilkynningu frá Nofima [rannsóknarstofnun norska matvælaiðnaðarins] segir, að fiskurinn, sem um ræðir, líti eins út og hegði sér rétt eins og frjór lax.  Hins vegar mætti hugmyndin, sem þessi niðurstaða byggir á, mikilli tortryggni, þegar hún var upphaflega kynnt, en aðferðin byggir á því, að fiskurinn er ekki erfðabreyttur, heldur átt við myndun ákveðinna boðefna, svo að kynkirtlamyndun verður fiskinum ómöguleg."

Mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en eldi geldfisks hefst á Íslandi, þar sem téð aðferð er ný af nálinni, miklar rannsóknir eftir í Noregi og síðan leyfisferli á Íslandi.  Að bíða eftir geldfiski er ekki gild afsökun stjórnvalda fyrir því að draga lappirnar í þessu leyfismáli fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Það er ekki eftir neinu að bíða fyrir Hafró að endurskoða afstöðu sína á grundvelli nýrra upplýsinga eða ella fyrir Alþingi að setja sérlög um þessa starfsemi.  

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband