6.11.2017 | 10:57
Stöðnun jafngildir hnignun
Innviðauppbygging í landinu hefur verið í umræðunni, einnig í nýafstaðinni kosningabaráttu, en ekki verið varpað nægilega skýru ljósi á það, hvers vegna hún er nauðsynleg. Bent hefur verið á bágborið ástand samgöngumála, t.d. þjóðveganna og einnig "þjóðvega raforkunnar", flutningskerfis raforku á milli landshluta, en það eru miklu dýpri og afdrifaríkari skýringar á nauðsyninni en þægindatilfinning notendanna.
Sannleikurinn er sá, að margir umræddra innviða eru nauðsynlegir fyrir útflutningsatvinnuvegi landsins, og þeir standa undir verðmætasköpuninni. Áframhaldandi velmegun landsmanna hvílir á aukinni útflutningsstarfsemi. Af núverandi vaxtarbroddum þar má nefna laxeldi og ferðaþjónustu, og innviðir, sem þessi starfsemi þarf á að halda, að sé í góðu lagi, eru vegir, flugvellir, hafnir, raforkukerfi, vatnsveitur, hitaveitur, fráveitur og sorpeyðing.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, rak "endahnútinn" á Viðskiptablaðið 2. nóvember 2017, og var sá endahnútur vandaður og áhugaverður, eins og allt, sem frá henni kemur:
"Á síðasta ári var hér einn mesti vöxtur kaupmáttar í heiminum, fjórtánfaldur á við kaupmáttarvöxt ESB-ríkja. Íslenzkar hagtölur tala sínu máli. Árangurinn er ótrúlegur í ljósi þess, að fyrir aðeins nokkrum árum blasti hér við alvarlegur skuldavandi eftir framúrkeyrslu síðustu uppsveiflu.
Útflutningsgreinar standa nú undir verðmætasköpun hagkerfisins, og hvílir áframhaldandi velgengni okkar á því, að vöxtur þeirra sé tryggður. Eigi íslenzka hagkerfið að vaxa áfram á sama hraða og að meðaltali síðustu áratugi, og útflutningsgreinar að halda sínu vægi, þá þurfa útflutningsverðmæti að vaxa um 1´000 mia [ISK] á næstu 20 árum, um 50 mia [ISK)/ár eða 1 mia [ISK]/vika. Hin Norðurlöndin þekkja þetta samband, og er óumdeilt, að efnahagsleg velsæld byggir á vexti útflutningsgreina. Þar er það staða útflutningsgreina, sem ákvarðar svigrúm til launahækkana. Á Íslandi er það hið opinbera."
Undirstrikun er frá BJo.
Samtök iðnaðarins, SI, birtu 5. október 2017 skýrslu sína "um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi". Þar kemur fram, að heildarfjárfestingarþörf innviða sé nú um mia ISK 370, um 11 % af endurstofnvirði þeirra og 15 % af VLF. Þetta er ekkert til að fallast hendur út af, enda getur ríkissjóður fjármagnað þetta með því að selja hluti í Keflavíkurflugvelli, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og í bönkunum. Vilji er allt, sem þarf.
Fjárfestingarþörf í ofangreindum innviðum fyrir útflutningsatvinnugreinarnar, sem njóta ættu forgangs við uppröðun í tíma, er sem hér segir í miaISK og % af heildarinnviðaþörf samkvæmt SI:
- Þjóð- og sveitarfélagavegir 120; 32 % Ath. 1
- Orkuflutningur og -dreifing 70; 19 % Ath. 2
- Vatnsveitur 15; 4 % Ath. 3
- Sorpeyðing 13; 4 % Ath. 4
- Hafnir 6; 2 % Ath. 5
- Flugvellir 3; 1 % Ath. 6
- Hitaveitur 2; 1 % Ath. 7
Ath. 1: Greiðar samgöngur á landi eru undirstaða öflugs athafnalífs um landið allt og eðlilegrar byggðaþróunar í landinu. Vegirnir þurfa að vera nægilega breiðir og burðarmiklir fyrir þá stærð ökutækja, sem hagkvæmur flutningarekstur krefst samkvæmt Evrópustaðli að teknu tilliti til væntanlegs ökutækjafjölda að aldarfjórðungi liðnum. Aðgreina þarf umferðarstefnur, þar sem meðalumferð fer yfir 8 þús. ökutæki á sólarhring og afnema allar einbreiðar brýr á þjóðvegum. Aðgreiningin kallar á a.m.k. 2+1 veg.
Fjármögnun með sölu eigna ríkisins, auknum fjárveitingum úr ríkissjóði til Vegagerðarinnar og einkaframkvæmd, t.d. á Sundabraut og annars staðar, þar sem ökumenn eiga val um aðra leið.
Ath. 2: Brýnast er að afnema raforkuskort, tímabundinn og stöðugan og að auka afhendingaröryggið, svo að óskipulagt straumleysi sé hvergi lengur en 6 mínútur á ári. Helztu verkþættir eru uppfærsla Byggðalínu úr 132 kV í 220 kV, samtenging Norður- og Suðurlands með jafnstraumsjarðstreng um Sprengisand, hringtenging Vestfjarða og tenging nýrrar 55 MW virkjunar þar við þessa hringtengingu, jarðsetning allra loftlína á 66 kV spennu og lægri og þrífösun sveitanna um leið.
Fjármögnun með sölu eigna ríkisins og með fjárfestingafé Landsnets, RARIK, OV o.fl. án gjaldskrárhækkunar. Nefnd er of lág fjárfestingarupphæð, og virðist fjárfestingarþörf fyrir orkuskiptin hafa verið vanmetin. Þannig nemur fjárfestingarþörf í Byggðalínu og öflugri samtengingu landshluta miaISK 64, sé miðað við áætlaða þörf Landsnets fyrir 555 km af loftlínum og jarðstrengjum. Þá er eftir að koma raforkukerfi Vestfjarða í skaplegt horf og setja dreifikerfi í jörðu samhliða þrífösun sveitanna. Nær lagi gætu verið miaISK 250 í þennan þátt að meðtalinni rafvæðingu hafnanna fyrir orkuskipti fiskveiðiflotans.
Ath. 3: Vatnslindir Íslands eru gríðarleg auðlind nú á tímum, þegar alvarlegs vatnsskorts er tekið að gæta í heiminum, jafnvel í Evrópu, s.s. á Ítalíu. Vatnsvernd er ein mikilvægasta umhverfisverndin og er grundvallaratriði fyrir heilsu þjóðarinnar. Þótt nóg sé af vatninu hér, ber okkur að fara vel með það, og vatnsveitur eru teknar að nýta nýja mælitækni til að staðsetja vatnsleka úr lögnum. Slíkar viðgerðir eru kostnaðarsamar, en ber að leggja í til að koma í veg fyrir sóun. Að hafa einvörðungu yfirborðsvatn er neyðarbrauð fyrir vatnsveitur, og allt þéttbýli ætti að hafa aðgang að vatni síuðu í gegnum jarðveginn. Ný tækni auðveldar leit að vatnslindum.
Fjármögnun úr sveitarsjóðum og sjóðum ríkisins til sérverkefna.
Ath. 4: Urðun sorps ætti að heyra sögunni til, og flytja ætti allt sorp í sorpeyðingarstöðvar, þar sem það er flokkað og því breytt í orku í fjarvarmaveitum eða í rafmagn og moltu.
Fjármögnun úr sveitarsjóðum og sjóðum ríkisins til sérverkefna.
Ath. 5: Í upphæðinni, miaISK 6, sem nefnd er í skýrslu SI til hafnarbóta, er rafvæðing hafnanna fyrir orkuskiptin ekki nefnd, en hún mun krefjast enn hærri upphæðar. Þar er um að ræða háspennta orkudreifingu um hafnirnar og samtímis landtengingu fyrir öll skip, sem legið geta samtímis í viðkomandi höfn.
Fjármögnun rafvæðingarinnar úr Orkusjóði, sem njóta ætti auðlindagjalds af orkufyrirtækjunum og hafnarbætur úr hafnarsjóðum, sem ætti að eyrnamerkja hluta af veiðigjöldunum.
Ath.6: Til að létta á vegaumferð þarf að efla flugsamgöngur innanlands. Nýlega var Húsavíkurflugvöllur enduropnaður, og má þakka það auknum umsvifum á Húsavík í tengslum við ferðaþjónustu og kísilver PCC, sem ræsa á í desember 2017 og mun vafalaust reynast kjölfestufyrirtæki fyrir byggðina við Skjálfanda, enda kunna menn þar til verka. Innanlandsflugið getur hjálpað til við að dreifa álagi ferðamanna um landið. Miðstöð innanlandsflugsins er og verður að vera á Reykjavíkurflugvelli. Hún verður aldrei í Hvassahrauni.
Fjármögnun til eflingar innanlandsflugi með fjárfestingum í núverandi flugvöllum og búnaði á þeim er sjálfsögð úr ríkissjóði.
Ath.7: Á nokkrum stöðum er tekið að draga niður í hitaveituholum og bora þarf nýjar. Bætta tækni við leit að heitu vatni þarf að nýta á nýjum svæðum, sem talin hafa verið "köld" hingað til, því að hitaveita er hagstæðari til hitunar húsnæðis en rafmagn, ef hitastig vatns úr jörðu er a.m.k. 70°C, og jafnvel lægra, ef það er í miklu magni. Hitaveitufyrirtæki ættu að leggja meiri áherzlu á jafnræði viðskiptavina með því að selja þeim orku í stað massa af vatni, því að nú sitja ekki allir við sama borð í þessum efnum hjá sömu hitaveitu. Þetta er eðlilegt, því að lagnir til notenda er mjög mislangar og jafnvel misvel einangraðar.
Fjármögnun úr sjóðum hitaveitufyrirtækjanna sjálfra og eigenda þeirra og úr Orkusjóði.
Katrín Jakobsdóttir vinnur nú að því að mynda ríkisstjórn með framsóknarmönnum, Samfylkingu og pírötum. Þetta er furðusamsetning að mörgu leyti og alls ekki samstæðasta samsetning, sem hægt er að hugsa sér. Hvernig geta t.d. framsóknarmenn, sem lofuðu því fyrir kosningar að hækka enga skatta, ljáð máls á ríkisstjórnarsamstarfi með flokkum, sem eru yfirlýstir skattahækkunarflokkar ?
Téð Katrín hefur nefnt, að "stóru málin" fyrir þennan "Hrunadans" verði loftslagsmál og innviðauppbygging. Þá verða nú mörg kosningamálanna útundan, og það eru eiginlega svik við kjósendur að bjóða þeim upp á þetta, því að það er rangtúlkun á kosningaúrslitum, að kjósendur hafi aðallega verið að biðja um vinstri stjórn.
Einn af mörgum göllum vinstri manna er, að þeir geta aðeins hugsað sér að fjárfesta í innviðum með því að þenja út ríkissjóð, annaðhvort með aukinni skattheimtu eða lántökum ríkissjóðs. Þeir hafa aldrei viljað minnka eignasafn ríkisins, jafnvel þótt þar lægi mikið fé aðgerðalítið, þ.e. með sáralítilli ávöxtun. Þetta mun girða fyrir verulegt uppbyggingarátak innviða að hálfu vinstri stjórnar, nema með slæmum þensluvaldandi afleiðingum. Það er brennt fyrir það, að vinstri menn geti fundið beztu lausnirnar fyrir hag almennings.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.