16.11.2017 | 14:43
Þjóðernisjafnaðarstefnan
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að vinstri flokkarnir íslenzku háðu misheppnaða kosningabaráttu sína fyrir Alþingiskosningarnar 28.10.2017 undir formerkjum meiri jafnaðar. Þessi áróður stóð á brauðfótum andspænis þeim alþjóðlega viðurkenndu staðreyndum, að um þessar mundir er hvergi meiri tekjujöfnuður en á Íslandi og eignajöfnuðurinn á Íslandi er sá mesti á Norðurlöndum, og jafnframt sá mesti á meðal auðugra þjóða.
Þegar félagshyggjumaður er spurður, hversu langt hann vilji ganga við að jafna lífskjör þegnanna, vefst honum skiljanlega tunga um tönn, því að það er jafnframt vel þekkt, að of mikil jöfnun dregur áberandi mikið úr hvata fólks til að bæta lífskjör sín, og þar með gerir hið opinbera þá skyssu að verða valdur að stöðnun hagkerfisins vegna minna vinnuframlags og minni nýsköpunar og frumkvæðis í atvinnulífinu.
Félagshyggjumaðurinn svarar þess vegna spurningunni gjarna á loðinn hátt, t.d. að hann vilji enn auka jöfnuð. Þetta er mergurinn málsins, og sannazt hefur á vinstri stjórnum um allan heim, að þær streða stöðugt við að auka jöfnuð, en verðmætaskapandi hvatar verða algerlega útundan. Þær hafa stöðugt aukið við skattheimtuna, þar til hún varð hreinræktuð eignaupptaka og að lokum þjóðnýting atvinnutækjanna, eins og umheimurinn hefur undanfarin ár haft fyrir augunum í Venezúela. Á kaldastríðsárunum fram að valdatíma Margrétar Thatcher var það segin saga, þegar Verkamannaflokkurinn brezki komst til valda, þá þjóðnýtti hann nokkur stór fyrirtæki.
Þegar þessar ríkisreknu gripdeildir eru komnar upp á visst stig, þ.e.a.s. ekki hefur tekizt að velta vinstri stjórnum úr sessi í tæka tíð, verður ríkisvaldið að verjast óánægju almúgans með jöfnun lífskjara, sem alltaf er niður á við, með harðýðgi og harðstjórn. Jafnaðarstefnan hefur þá breytzt í einræðis sósíalisma, kommúnisma, sem Karl Marx nefnir "alræði öreiganna".
Lýsingu á þessu ferli mótmæla félagshyggjumenn stundum á ódýran hátt með vísun í bábilju, sem ættuð er frá grimmdarsegginum frá Georgíu, Jósef Stalín, arftaka Vladimirs Lenín sem einræðisherra Sovétríkjanna til 1953, og hann setti fram eftir upphaf "Rauðskeggsaðgerðar" Þriðja ríkisins, 22. júní 1941, sem var dulnefni þýzka herráðsins á innrásinni í Sovétríkin, sem endaði með ósköpum fyrir Þjóðverja, m.a. vegna þess, að Japansstjórn efndi ekki samkomulag við valdhafana í Berlín um að ráðast á Rússa úr austri. "Rauðskeggsaðgerðin" átti að tryggja Þriðja ríkinu aðgang að miklum náttúruauðlindum og útrýma kommúnismanum, sem vissulega keppti þá víða við nazismann um hylli almúgans.
Lífseig villukenning Stalíns var á þá lund, að lokastig lýðræðislegs auðvaldskerfis, kapítalismans, væri valdataka einræðissinnaðra og þjóðernissinnaðra hægri afla í samfélaginu á borð við "Þjóðernissósíalistíska þýzka verkamannaflokkinn" - NSDAP - "Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei", að undirlagi auðvaldsins.
Hindenburg, þáverandi forseti Weimarlýðveldisins, skipaði Adolf Hitler, formann þessa þýzka nazistaflokks, kanzlara Þýzkalands í janúarlok 1933 eftir nokkra velgengni flokksins í kosningum til Reichstag skömmu áður, þar sem flokkurinn hlaut um þriðjung atkvæða. Sami Hindenburg, frægur hershöfðingi úr Fyrri heimsstyrjöldinni 1914-1918, hafði áður sagt, að téður Hitler væri svo litlum hæfileikum búinn, að hann myndi ekki einu sinni gera hann að póstmálaráðherra Weimarlýðveldisins. Hann varð að éta þetta ofan í sig og lézt árið eftir. Þá sölsaði Adolf Hitler öll völd til sín í kjölfar brunans í Reichstag, sem sennilega var sviðsettur af honum sjálfum.
Villan í téðri kenningasmíði Stalíns, sem heimur í styrjaldarástandi gleypti við og vinstri menn hafa haldið dauðahaldi í æ síðan til að hylja skyldleika þessara tveggja "sósíalisma", er sú, að téður þýzki nazistaflokkur var alla tíð sósíalistaflokkur, eins og nafngiftin tjáir raunar greinilega. Það var þó blæbrigðamunur á þýzkum og rússneskum sósíalisma, eins og pistlahöfundurinn Óðinn útskýrði með sögulegum tilvísunum í Viðskiptablaðinu, 9. nóvember 2017, en alræði ríkisins yfir framleiðslutækjunum undir þjóðernissósíalisma var þó sambærilegt við alræði rússneska kommúnistaflokksins, þegar hann hafði náð völdunum í sínar hendur í Ráðstjórnarríkjunum. Það er þetta efnahagslega og atvinnulega alræði ríkisins, sem greinir vinstri flokka frá hægri flokkum. Hinir síðar nefndu leggja áherzlu á valddreifingu, einkaframtak, jöfn tækifæri og frjálsa samkeppni.
Verður nú vitnað ótæpilega í Óðin, mönnum til glöggvunar um félagshyggjueðli þjóðernisjafnaðarmanna:
"Ein slík lygi, þrautseig og útsmogin, er enn á harðahlaupum. Hún gengur í einfaldri mynd út á það, að þýzkir nazistar hafi verið kapítalistar og hægri menn og séu því um margt líkari íhalds- og frjálslyndisflokkum nútímans en jafnaðarmönnum og sósíalistum. Þetta er ekki eingöngu sagnfræðileg "kúríósa" [sérvizka], heldur er nazista- og fasistakylfan reglulega látin dynja á hægrimönnum dagsins í dag. Hitler var andsnúinn sovétkommúnismanum, og því hlýtur sá, sem agnúst út í sósíalisma nútímans að eiga eitthvað sameiginlegt með Hitler."
Þessi einfalda röksemdafærsla hefur gengið eins og rauður þráður gegnum málflutning félagshyggjufólks öll kaldastríðsárin og einnig eftir fall Ráðstjórnarríkjanna 1991, þótt hún sé afar yfirborðsleg og standist ekki skoðun. Austurríski hagfræðingurinn, Ludwig von Mises, skrifaði t.d. um sósíalistískt eðli nazismans í ritgerðinni,
"Skipulögð óreiða", sem út kom árið 1951.
"Þegar sósíalisminn var að ná vinsældum í Evrópu á 19. öldinni, var ekki gerður neinn greinarmunur á sósíalisma og kommúnisma. Vissulega voru til mismunandi útgáfur af sósíalisma, en sama kenniheitið var notað yfir þær allar.
Í Þýzkalandi voru menn farnir að skilgreina og skrifa um ríkissósíalisma áður en Marx og Engels rituðu sínar frægu bækur. Johann Karl Rodbertus hafnaði til að mynda mörgum kenningum sósíalisma þess tíma og sagði þær óraunhæfar. Eina leiðin til að ná fram raunverulegum sósíalisma væri með því, að ríkið tæki yfir bæði framleiðslu og dreifingu á vörum og þjónustu."
Þar með hafnaði Rodbertus í raun leið sósíaldemókrata-jafnaðarmanna sem sósíalisma, en jafnaðarstefnan er þó vissulega leið til sósíalisma, ef menn fylgja trúaratriðinu um æ meiri jöfnuð. Margir halda, að Karl Marx hafi verið fyrstur til að setja fram kenningar um kommúnisma, en þarna kemur fram, að Rodbertus var á undan þeim kumpánum með boðun sæluríkis sósíalismans, þar sem hver fær eftir þörfum og lætur af höndum eftir getu. Í mannlegu samfélagi gengur þessi draumsýn letingjans ekki upp.
Austurríski hagfræðingurinn Mises gerði þá grundvallargreiningu í sambandi við kommúnisma í anda Marx, Leníns og Stalíns annars vegar og hins vegar þjóðernisjafnaðarstefnuna, að til væri sósíalismi þýzkrar gerðar og sósíalismi rússneskrar gerðar:
"Samkvæmt þýzkri gerð sósíalismans var einkaeignarrétturinn ekki afnuminn að nafninu til. Verksmiðjur áttu í þessu samfélagi enn að vera í eigu einstaklinga, en öllu skipulagi hagkerfisins var stýrt af ríkinu. Í rússnesku gerðinni var aðeins gengið einu skrefi lengra, og ríkið tók verksmiðjurnar eignarnámi."
Dæmi um þennan mun er, að í Þriðja ríkinu héldu bændur áfram jörðum sínum, en lutu agavaldi ríkisins um framleiðslu og verð. Markaðsbúskapur var afnuminn, en einkaeignarrétturinn hélzt. Í Rússlandi (og Kína Maós) var hins vegar tekinn upp samyrkjubúskapur með skelfilegum afleiðingum fyrir bændur og verkamenn vegna grimmdarlegrar innleiðingar og framleiðsluhraps í kjölfarið, sem leiddi til hungursneyðar.
Þýzki þjóðernissósíalisminn minnir óneitanlega um atvinnulífsstefnuna nokkuð á hina kínversku útfærslu kommúnismans eftir daga Maos. Deng Hsiao Ping og arftakar skiluðu jarðnæðinu til bænda, og þá fóru Kínverjar að brauðfæða sig að nýju eftir árvissa hungursneyð. Kínverska ríkið leggur línuna um fjárfestingar og framleiðslu undir handleiðslu alls ráðandi kommúnistaflokks, en einkaframtakið fær að spreyta sig í samkeppni við ríkisfyrirtæki. Þetta kerfi hefur alið af sér mikinn, en skuldsettan hagvöxt, lyft hálfum milljarði manna úr örbirgð til bjargálna, skapað mikinn ójöfnuð og valdið ofboðslegri mengun lands, lofts og lagar.
Áfram með Óðin:
"Nazistaflokkurinn var gegnsósa af þessum þýzka sósíalisma. Í Þýzkalandi Hitlers voru eigendur kallaðir verksmiðjustjórar. Ríkið gaf skipanir um það, hvað þeir ættu að framleiða, hverjir birgjar þeirra ættu að vera, til hverra þeir ættu að selja og á hvaða verði. Laun verkafólks voru ákveðin af ríkinu, og það var ríkisins að ákveða, hvernig "kapítalistarnir" ættu að ávaxta arð sinn."
Af þessari lýsingu á framkvæmd þjóðernisjafnaðarstefnunnar er eins ljóst og verða má, að markaðsöflin voru algerlega aftengd og hugsanlegur gróði af starfseminni svo gott sem þjóðnýttur. Að halda því fram, að auðvaldið hafi afnumið lýðræðið í Weimarlýðveldinu, tekið völdin og leikið lausum hala í Þriðja ríkinu, er hrein fásinna. Þjóðernisjafnaðarstefnan var hreinræktaður sósíalismi, sem stóð á gömlum merg þýzkrar hugmyndafræði um ríkissósíalisma. Þjóðernisjafnaðarstefnan er þess vegna ekki lengst til hægri í hinu pólitíska litrófi, eins og haldið hefur verið lengi fram og er helber sögufölsun, heldur yzt til vinstri á svipuðum slóðum og kommúnistaflokkar heimsins eru. Nazistaflokkurinn átti ekkert sameiginlegt með borgaralegum hægri flokkum fortíðar og markaðssinnuðum hægri flokkum nútímans, heldur var hann náskyldur öðrum sósíalistískum flokkum.
Útlistanir Ludwigs von Mises á hagkerfi nazismans voru t.d. eftirfarandi:
"Viðskipti á markaði eru óraunveruleg við þessar aðstæður. Þar sem öll verðlagning, laun og vaxtastig eru ákveðin af hinu opinbera, eru þau aðeins að nafninu til verð, laun og vextir. ... Þetta er sósíalismi í gervi kapítalisma. Sum hugtök auðhyggju- markaðshagkerfis eru notuð áfram, en merking þeirra hefur breytzt í grundvallaratriðum."
Með þessu benti Mises á, að með stjórnun í anda þjóðernisjafnaðarstefnunnar, eins og að ofan var lýst, ákvarðar ríkið tekjur, neyzlu og lífskjör hvers einasta þegns. Ríkið, ekki neytendur, stjórnar framleiðslunni, eins og í öðrum sósíalistískum samfélögum.
Óðinn skrifaði áfram um nazismann:
"Nazistaflokkurinn leit enn þá [eftir valdatökuna] á sig sem sósíalistískan flokk og stjórnaði þýzka hagkerfinu sem slíkur. Hatur Hitlers á sovétkommúnismanum var afsprengi kynþáttahaturs hans. Hann var haldinn sjúklegu Gyðingahatri og leit á slava sem kynþátt, sem ætti að hneppa í þrældóm og útrýma með tíð og tíma. Rússneskur kommúnismi var, í hans huga, hugmyndafræði slavneskra Gyðinga og hættulegur sem slíkur. Hatrið var með öðrum orðum ekki hugmyndafræðilegt [,heldur reist á kynþáttafordómum-innsk. BJo]."
"Þegar þýzki herinn réðist inn í Sovétríkin árið 1941 [Operation Barbarossa-innsk. BJo], lenti margur sósíalistinn í samvizkukrísu. Þarna voru í raun tvö sósíalistísk ríki að takast á. Þeir tóku því fagnandi söguskýringu Jósefs Stalín um, að þjóðernissósíalismi Hitlers, sem vissulega átti ekki rætur sínar í kenningum Marx, væri í raun ekki sósíalismi, heldur kapítalismi [auðhyggja] á lokastigi."
Að lokum kemur tilvitnun í Óðin, sem skírskotar til öfugsnúinnar umfjöllunar vinstri sinnaðra fréttamanna og annarra blaðamanna, sem túlka atburði líðandi stundar sífellt með hagsmuni pólitískra samherja sinna í stjórnmálabaráttunni í huga. Blaðamenn í öllum löndum kalla þess vegna pólitísk fyrirbrigði ekki sínum réttu nöfnum, heldur reyna að klína óæskilegum stimpli á sína helztu stjórnmálaandstæðinga í leiðinni.
"Það er stórmerkilegt í raun, að þessi sögufölsun hafi tekizt svo vel sem raun ber vitni. Nýnazistar eru reglulega kallaðir "öfgahægrimenn" í vestrænum fjölmiðlum og í hvert sinn, sem upp sprettur þjóðernissinnaður flokkur, sem ber út boðskap um hatur á öðru fólki, þá er sá hinn sami stimplaður hægri flokkur, hversu vinstri sinnuð, sem stefna hans að öðru leyti kann að vera."
Þegar staða nýrra flokka í hinu pólitíska litrófi er greind, er sem sagt ófullnægjandi að fullyrða, að þjóðernissinnaður stjórnmálaflokkur sé hægra megin á ásnum. Hann er þar einvörðungu réttilega staðsettur, ef hann jafnframt aðhyllist borgaraleg gildi, þ.e. lýðræði, mannréttindi, einstaklingshyggju og markaðshyggju með mismiklu félagslegu ívafi.
Þjóðernissinnaðir stjórnmálaflokkar, sem aðhyllast mikil og vaxandi ríkisafskipti, eru vissulega vinstra megin á stjórnmálaásnum. Vladimir Putin hefur t.d. slegið mjög á þjóðernisstrengi Rússa, og hann hefur eflt ríkisvaldið gríðarlega, og forsetaembættið rússneska hefur mjög víðtæk völd. Það má jafnvel halda því fram, að ríkisvaldið segi einkaframtakinu rússneska að einhverju leyti fyrir verkum.
Ef stefnuskrá Þjóðfylkingarinnar frönsku er grannt skoðuð, kemur í ljós, að hún sé býsna sósíalistísk, og það er ekki einleikið, hversu miklir kærleikar eru á milli Pútín-stjórnarinnar í Rússlandi og hinna ýmsu þjóðernishreyfinga í Evrópu. Sækjast sér um líkir.
Það er misskilningur, reistur á fáfræði um söguna og vanþekkingu á eðli stjórnmálanna, að skilgreina þjóðernissinnaða stjórnmálaflokka sjálfvirkt sem hægri flokka og þá oftar en ekki "öfgahægriflokka". Oftast er stefna þessara flokka í atvinnumálum og efnahagsmálum langt til vinstri, og væri þá nær að kalla þá "öfga vinstri flokka". Sannleikurinn er sá, að höfuðeinkenni hægri flokka er varðstaða um borgaralegar dyggðir, umburðarlyndi, lýðræði, jafnræði, frjálsa samkeppni, frjálsa verzlun og einstaklingsframtak.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.