Stjórnarskráin og ACER

Á þessu vefsetri hefur verið bent á nokkur atriði varðandi Þriðja orkumarkaðslagabálkinn frá ESB, sem er á verkefnaskrá Alþingis að fjalla um vorið 2018, og orkar mjög tvímælis m.t.t. Stjórnarskráarinnar.  Sætir furðu, að íslenzkir stjórnlagafræðingar virðast ekki hafa gert tilraun til fræðilegrar greiningar á þessu  stórmáli enn þá, þótt að því hljóti að koma, enda hafa norskir starfsbræður þeirra ekki legið á liði sínu í þessum efnum.

Flestir fræðimenn á sviði lögfræði í Noregi, sem opinberlega hafa tjáð sig um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, telja, að innleiðing hans í norsk lög feli í sér Stjórnarskrárbrot og að lögleiðing bálksins sé þegar af þeirri ástæðu ótæk.  Ekkert bendir til annars en sömu röksemdir eigi við á Íslandi.

Helzti ásteytingarsteinninn er, að víðtæk völd yfir orkumálum á Íslandi, sem samþykkt Alþingis um að fella téðan orkumálabálk ESB inn í EES-samninginn, mundu falla í skaut ESB, yfirþjóðlegra samtaka, þar sem Ísland er ekki aðili.  Þetta brýtur í bága við helztu réttlætingu upphaflega EES-samningsins, sem var þannig, að samþykkt í ESB, lög eða reglugerð, átti ekki að fá réttarfarslegt gildi á Íslandi án sérstaks samþykkis Alþingis.  Nú er stefnt á, að stórar og smáar ákvarðanir orkustofnunar ESB (ACER) á sviði raforkuflutningsmála komi til framkvæmdar hérlendis án atbeina eða rýni nokkurra hefðbundinna íslenzkra stjórnvalda. Það er einfaldlega verið að innlima Ísland og Noreg í ESB á hverju málefnasviðinu á fætur öðru, sneið eftir sneið.  Lætur meirihluti þingheims bjóða sér annað eins ? 

Í frumvarpi ríkisstjórnar Noregs, og sjálfsagt Íslands líka, er téð grundvallar fullveldisregla brotin.  Samþykkt í orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), þar sem Ísland mun ekki fá atkvæðisrétt, mun hljóta stöðu stjórnvaldsákvörðunar á Íslandi við að fara um hendur starfsmanna ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem sendir ákvörðun ACER til orkustofnunar, OS, sem á að verða óháð yfirvöldum og hagsmunaaðilum á Íslandi.  OS staðfestir skipunina frá ESA, og þar með getur enginn stöðvað framkvæmd ákvörðunar ACER án þess að brjóta lögin hér (lög um EES-samninginn). Grundvallarregla EES-samningsins um "neyðarhemil", þar sem Alþingi getur hafnað samþykkt frá ESB, er tekin úr sambandi með valdatöku ESB-stofnunar á Íslandi.  Þetta mun gerast á sviði, sem gengur næst sjávarútveginum að þjóðhagslegu mikilvægi.

 Norskur prófessor í réttarfarsfræðum, Henrik Björnebye, skrifar m.a. þetta í grein 15. janúar 2018 í Klassekampen,

"All energi under en kam":

"Vinna ESB á síðustu árum við að koma orkusambandi á laggirnar er til vitnis um metnaðarfull markmið í orkumálum.  Þær 454 blaðsíður af markaðsreglum fyrir rafmagn, sem danska "EU-Tidende" hefur birt, fjalla svo nákvæmlega um tæknileg atriði, að maður verður helzt að vera verkfræðingur, hagfræðingur og lögfræðingur til að skilja umfangið.  Um er að ræða reglugerðir, og þar með verður að taka þær orðréttar upp í norskan rétt án aðlögunar, ef gjörningurinn verður felldur inn í EES-samninginn."

Augljóslega kallar þessi ESB-gjörningur á gríðarlega vinnu í íslenzka stjórnkerfinu, svo að ekki sé nú minnzt á þýðingarátakið.  Ekki verður annað séð en Íslandi væri vel borgið án allrar þessarar vinnu á kostnað skattborgaranna, enda eru þessir ESB-gjörningar samdir fyrir allt aðrar aðstæður en ríkja hér á eylandinu.  Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB verður einvörðungu til trafala og kostnaðarauka á Íslandi, þótt hingað verði engir aflsæstrengir lagðir, en þá fyrst mun nú steininn taka úr, og það mun þá ekki verða á færi íslenzkra stjórnvalda að hafa nokkur áhrif á ákvörun um aflsæstreng né framkvæmd verkefnisins.  Alþingismönnum er þess vegna ráðlagt að hafna þessu lagafrumvarpi, ef það verður lagt fram.

Orkusamband ESB, svo og ACER, eru í stöðugri þróun.  Þar með er dúkað fyrir "salami" aðferðina, þ.e. að Alþingi samþykki hverja breytingu fyrir sig sem "minni háttar" inngrip í stjórnsýsluna, en saman jafngildi breytingarnar meiri háttar fullveldisframsali. Valdaumfang ACER mun aðeins vaxa með tímanum og hugsanlega spanna allan orugeirann á endanum.  Það er mjög ósanngjarnt af ESB að biðja norska og íslenzka þingmenn um að samþykkja nokkuð, sem er vitað, að verður háð stöðugum breytingum í átt til meira fullveldisframsals, þar sem Norðmenn og Íslendingar verða aðeins með áheyrnarfulltrúa í ACER án atkvæðisréttar.    

Þegar fullveldisframsal til ACER er metið, kemur til skoðunar, hvort hvort ACER hafi einvörðungu boðvald yfir ríkisstofnun.  Hér er um að ræða, hvort væntanleg orkustjórnvaldsstofnun (OSS) á Íslandi, Orkustofnun eða sérstofnun, er ríkisstofnun eða ekki.  Í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum er skýrt ákvæði um, að OSS skuli vera öllum óháð, nema ESA, sem flytja á henni fyrirskipanir frá ACER, og OSS hefur engin tök á að andmæla ACER.  Fullnægir OSS þá skilgreiningu á ríkisstofnun ?  Auðvitað ekki, og þar með blasir klárlega við Stjórnarskrárbrot. Það er með eindæmum, að lagt skuli upp með lagatæknilegt örverpi á borð við þetta.  Það getur ekki staðizt vandaða lögfræðilega rýni.   

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Kannski Píratar og LANDRÁÐAFYLKINGIN hafi SMÁ tíma aflögu til að fjalla um ACER málið, núna þegar LANDSRÉTTARMÁLIÐ er búið en ég efast stórlega um að fyrrgreindir aðilar GETI nokkuð fjallað um málið af viti ÞEIR HAFA EINFALDLEGA HVORKI ÞEKKINGU NÉ VIT TIL ÞESS að mínu áliti......

Jóhann Elíasson, 8.3.2018 kl. 10:37

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það kæmi mjög á óvart, ef ESB-sinnar styðja ekki inngöngu Íslands í orkusamband ESB, enda enda er sú innganga liður í innlimun EFTA-ríkjanna (utan Sviss) í ESB með sneiðaðferðinni ("salami").  

Sneypuför þeirra, sem staðið hafa að aðförinni á hendur Sigríði, dómsmálaráðherra, hefur orðið öllum þeim, sem þátt hafa tekið, rækilega til skammar.  Umbal hætti við frumkvæðisathugun á verklagi hennar, en hóf rannsókn á einkunnagjöf Landsréttarnefndarinnar, og nú gerði Hæstiréttur Vilhjálm, lögfræðing, afturreka með vanhæfisbullið um dómarana, sem Sigríður skipaði í Landsrétt, þótt þeir væru ekki í hópi 15 útvalinna af nefndinni.  

Margur lögfræðingurinn hefur berað sig að óhæfni, ekki vanhæfni, í öllum þessum farsa. 

Bjarni Jónsson, 8.3.2018 kl. 13:12

3 Smámynd: Snorri Hansson

Hér er greinilega stórvarasamt risa mál að skella á okkur. Það sem ég hef séð um það er eingöngu hér í þínu bloggi. Sem er alveg með ólíkindum.

En það verður að viðurkenna að þingmenn hafa verið undir gríðarlegu álagi við að fletta í gegnu akstursskírslur hvers annars og andsk… út í dómsmálaráðherra fyrir að vinna vinnuna sína.

Síðan eru það þessar einkennilegu nefndir sem telja að verkið sem þær skila af sér til ráðherra sé heilagt og ósnertanlegt. Að ráðherra sem er yfir málaflokknum og réði þær til starfa hafi bara ekkert leifi til að hafa sjálfstæðar skoðanir.  

Snorri Hansson, 8.3.2018 kl. 18:24

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Snorri;

Það er alveg rétt hjá þér; umfjöllun um þetta mál er varla hafin að ráði.  Þó getur þú fundið umfjöllun á vefnum:

www.frjalstland.is .  Öðru vísi er frændum vorum í Noregi farið.  Þeir láta ekki taka sig í bólinu að þessu sinni.  Það er nánast uppreisnarástand í Verkamannaflokkinum norska, af því að þingmenn flokksins hafa ætlað að styðja innlimun Noregs í orkusamband ESB, en verkalýðsfélögin eru því flest algerlega andvíg.  Ef málinu verður hafnað í Noregi, er sigur unninn hérlendis um leið.

Með góðri kveðju / 

Bjarni Jónsson, 9.3.2018 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband