Líkleg sýn stjórnmálaflokkanna á ACER

ACER er orkustofnun ESB.  Hlutverk hennar er að taka við stjórn orkuflutningsmála, rafmagns og gass, af hverju ríki, bæði innan aðildarlandanna og á milli þeirra.  Ætlunin er að bæta nýtingu orkuveranna og ráðstöfun orkunnar innan ESB, sérstaklega þeirra orkuvera, sem vinna raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og að jafna orkuverðið alls staðar á ESB-svæðinu. 

Tveimur meginráðum er beitt að hálfu ESB í þessu viðfangi. Annað er að fela orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), mikil og vaxandi völd á sviði orkuflutningsmála, sem áður voru í höndum hvers ríkis um sig.  Þar með missa kjörnir fulltrúar á þjóðþingunum úrræði til að móta orkustefnuna. Hitt úrræði ESB er að setja á laggirnar sameiginlegan orkumarkað, sem spannar orkuseljendur og orkukaupendur í öllum ESB-ríkjunum.  Þetta kerfi á og mun leiða til útrýmingar allra flöskuhálsa í orkuflutningskerfunum og til minni orkuverðsmunar en nemur 0,25 ISK/kWh á milli svæða. 

Hugmyndafræðin á bak við þetta er, að markaðurinn sé bezt til þess fallinn að beina orkunni til hagkvæmastra nota, þ.e. hámarks verðmætasköpunar. Á Íslandi og í Noregi eru hins vegar önnur sjónarmið uppi, sem vegast á við þetta hreinræktaða markaðsviðhorf til raforku.  Þar er átt við samkeppnishæfni atvinnuveganna, sem er m.a. háð tiltölulega lágu raforkuverði, byggðasjónarmið, innlenda verðmætasköpun úr náttúruauðlindunum o.fl.  Sértæk orkunýting á borð við orkusækna framleiðslu í krafti langtímasamninga um raforku á samkeppnishæfu verði fyrir hákostnaðarlönd fjarri markaði á ekki lengur upp á pallborðið í Noregi og á Íslandi, verði þessi stefna ESB ofan á.   

Hin sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB samþykkti í fyrra (2017) eftir margra ára þref, að EFTA-ríkin í EES, Ísland, Noregur og Liechtenstein, skyldu innleiða þetta ESB-kerfi hjá sér líka með því að fella Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn með samþykkt þjóðþinga sinna og gefa þessu fyrirkomulagi þar með lagagildi í 3 EFTA-löndum af 4.  Verður þetta þá ríkjandi réttur í löndunum, og innlent dómskerfi getur ekki einu sinni hnekkt ákvörðunum ACER og útibús þess í einstökum löndum, heldur fara ágreiningsmál innanlands fyrir úrskurðarnefnd á vegum útibús ACER í hverju landi, og millilandadeilur verða útkljáðar af ACER.

Hvernig samræmist þetta meginstefnu íslenzkra stjórnmálaflokka ?

Ríkisstjórnarflokkarnir þrír eru allir á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu, ESB.  Getur verið, að þeir séu samt fylgjandi aðild að hluta, og er þá ekki átt við EES (Evrópska efnahagssvæðið) aðild í upphaflegri mynd, þ.e. þar sem tveggja stoða samkomulagsgrundvöllur EFTA og ESB var að fullu virtur.  Átt er við sneiðingaraðferðina (salami), þar sem eitt málefnasvið í einu er fært undir yfirráð ESB, eins og fjármálaeftirlit og orkuflutningssviðið, sem fært verður undir orkustofnun ESB, ACER. Það er gert hérlendis með því fyrst að færa allt eftirlit með Landsneti undir OS, og er frumvarp um það þegar komið fram, og síðan að færa OS undir ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem tekur tekur við samþykktum og skipunum frá ACER og flytur OS boðskapinn.  OS verður ekki lengur undir stjórn atvinnuvegaráðuneytisins (iðnaðar).  Þetta er dæmigert fullveldisframsal með sneiðingaraðferð.    

Staða EFTA-ríkjanna er þó hér sýnu verri en ESB-ríkjanna, því að hvert hinna síðarnefndu á einn fulltrúa í ACER með atkvæðisrétti, en fulltrúar EFTA-ríkjanna hafa ekki atkvæðisrétt.  Staða þeirra verður þrælsleg, og það verður engin leið fyrir ríkisstjórnarflokkana hérlendis að réttlæta slíka lagasetningu með vísun til stefnuskráa sinna.  Þeir munu þá í einu vetfangi glata öllum trúverðugleika, a.m.k. á þessu sviði utanríkismálanna, enda má þá tala um svik við kjósendur þessara stjórnmálaflokka. 

Tveir ríkisstjórnarflokkanna íslenzku af þremur eiga sér systurflokka í Noregi, sem berjast gegn samþykki Stórþingsins á lögleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.  Hér er um að ræða Senterpartiet, sem Framsóknarflokkurinn hefur lengi átt samleið með, og SV, hvers stjórnmálastefna er keimlík stefnu VG.  Því verður ekki trúað, að þessir íslenzku stjórnmálaflokkar séu kærulausari gagnvart fullveldisframsali síns ríkisvalds til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem hvorki Ísland né Noregur eru aðilar, en systurflokkar þeirra eru í Noregi. Þetta mál snýst um að fórna sjálfsákvörðunarrétti á tilteknu sviði og öðlast ekkert, nema vandræði, í staðinn.  

Systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í Noregi er einna helzt Hægri flokkurinn þar á bæ, og hann situr í ríkisstjórn, en er nú að verða eini stjórnmálaflokkurinn í Noregi, sem hefur ESB-aðild landsins á stefnuskrá sinni. Að þessu leyti svipar honum nú orðið meir til "Viðreisnar" hérlendis.  Þessi afstaða greinir Hægri algerlega frá Sjálfstæðisflokkinum, þótt stefnu flokkanna svipi saman í efnahagsmálum og öðrum utanríkismálum. Þetta kom greinilega fram með viðbrögðum Hægri-ráðherra við frægri ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi 6. febrúar 2018, þar sem hann lýsti andstöðu sinni við "sneiðaraðferð" ESB við innlimun Íslands í ESB, bakdyramegin um EES. Það verður erfitt eða ógjörningur að útskýra ESB-andstöðu Sjálfstæðisflokksins, ef þingflokkur hans samþykkir aðild að ESB í sneiðum.  Þetta EES-mál hefur þannig stórpólitíska þýðingu fyrir íslenzku ríkisstjórnarflokkana. Þess vegna vappa þingmenn í kringum málið, eins og kettir í kringum heitan graut, og bíða úrslitanna í Stórþinginu norska þann 22. marz 2018. 

Systurflokkur Samfylkingarinnar í Noregi er Verkamannaflokkurinn.  Hann barðist áður, t.d. 1972 og 1994, fyrir inngöngu Noregs í ESB, en hefur nú gefið þá baráttu upp á bátinn.  Flokksforystan er þó enn gagnrýnislítil á það, að hver ESB-stofnunin á fætur annarri fái úrslitaáhrif um norsk málefni og hagsmuni á sínu sviði, eins og Noregur væri innanborðs í ESB. Þann 8. marz 2018 urðu vatnaskil í ACER-málinu í Noregi, því að þá sendu um 100 oddvitar norskra sveitarstjórna úr Verkamannaflokkinum flokksforystunni sameiginlega yfirlýsingu, þar sem þeir lýstu eindreginni andstöðu við inngöngu Noregs í orkusamband EES og hvöttu þingmenn Verkamannaflokksins til að endurspegla afstöðu meirihluta grasrótar flokksins, t.d. í verkalýðsfélögunum, með því að hafna ACER.  Hérlendis hefur enn ekki orðið vart neinnar félagslegrar virkni í verkalýðsfélögunum í þessa átt, enda eiga þau ekki lengur nein ítök í þingflokkunum, eins og áður.  

Félagsmenn verkalýðsfélaganna um allan Noreg hafa sýnt og sannað undanfarnar vikur í aðdraganda umfjöllunar Stórþingsins um ACER-málið, að þeir eru algerlega á öndverðum meiði við flokksforystuna að þessu leyti og sætta sig alls ekki við það, að atvinnuöryggi þeirra verði sett í uppnám með hugarfóstri "búrókratanna í Brüssel" um 5. frelsið á Innri markaði ESB, frjálst flæði orku, ekki sízt raforku, um allt EES-svæðið.  

Það er ekki við öðru að búast af þeim, sem vilja, að Ísland verði ríki í ríkjasambandi ESB, en þeir muni greiða atkvæði með því að fella Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn, svo að bálkurinn öðlist lagagildi á Íslandi, og ESB fái þar með óskoruð völd yfir flutningsmálum raforku  innanlands og til útlanda, þrátt fyrir að landið geti ekki haft nein teljandi áhrif á mótun stefnunnar, sem ACER framfylgir.  

Verði innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins ofan á á Alþingi, svo fráleitt sem það hljómar, er líklegt, að það verði Phyrrosarsigur ESB-fylgjenda og muni leiða til háværra krafna um uppsögn EES-samningsins.  Í ljósi þeirra vatnaskila, sem verða hjá ESB og EFTA við útgöngu Breta úr ESB, er fullkomlega tímabært að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn, uppsögn eða áframhaldandi aðild.  Það er líka krafa samtakanna "Nei til EU" í Noregi gagnvart norskum yfirvöldum.  

  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband