Viðhorf hagsmunasamtaka til ACER

Í Noregi hafa sveitarfélög og fylkisstjórnir auk fjölda landshlutafélaga stjórnmálaflokkanna og verkalýðsfélaga um Noreg endilangan ályktað gegn því að afhenda orkustofnun ESB ráðstöfunarrétt yfir raforkunni. Nú síðast samþykkti "Landsorganisasjonen"-LO, þ.e. norska Alþýðusambandið eindregna hvatningu til þingmanna Stórþingsins, ekki sízt Verkamannaflokksins, um að greiða atkvæði gegn stjórnarfrumvarpi 22. marz 2018 um að innleiða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB í EES-samninginn.

Norðmenn fara í blysfarir og halda fundi um allt land gegn því að afhenda ACER-orkustofnun ESB ráðstöfunarréttinn yfir raforkunni, en um það snýst nýjasta dæmið um miðstýringaráráttu ESB. Þetta ómak gera fjölmargir Norðmenn sér, af því að þeir telja, réttilega, stórfellda þjóðarhagsmuni vera í húfi. Hérlendis ríkti doði og ládeyða gagnvart aðsteðjandi hættu frá valdatöku ESB á þjóðhagslega mikilvægu sviði, raforkuflutningum innanlands og til útlanda, þar til flokksþing framsóknarmanna samþykkti einróma 11.03.2018, að standa beri vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnaði upptöku lagaverks um aukna miðstýringu orkumála í EES-samninginn.

  Hin sameiginlega EES-nefnd hefur þegar samþykkt valdaframsal til orkustofnunar ESB, og nú er beðið eftir að sjá, hvaða Stórþingsmenn og Alþingismenn hafa geð í sér til að kyssa á vöndinn. Vonandi aðeins minnihluti þeirra.  Landsfundur sjálfstæðismanna um næstu helgi hefur í hendi sér að stöðva þetta óþurftarmál, sem borizt hefur atvinnuvegaráðuneytinu frá hinni sameiginlegu EES-nefnd EFTA og ESB. Fari málið fyrir Alþingi, eiga þingmenn hiklaust að beita neitunarvaldinu, sem fólgið er í EES-samninginum. Eftirlitsstofnun EFTA-ESA mun mótmæla, og hugsanlega mun falla EFTA-dómur um brot á EES-samningi, en hann verður aðeins ráðgefandi og ekki aðfararhæfur hér.  

Fjöldi Norðmanna er réttilega þeirrar skoðunar, að sú stjórnkerfisbreyting, að meginstarfsemi orkustofnunar Noregs, NVE, færist undan stjórn ráðuneytis, sem er undir eftirliti og yfirstjórn Stórþingsins, og undir stjórn orkustofnunar ESB, skammstöfuð ACER, sem stendur fyrir Agency for the Cooperation of Energy Regulators, ógni starfsöryggi í orkusæknum iðnaði í dreifbýli landsins.  Þá blasir líka við, að raforkuverð til almennings mun hækka umtalsvert. Allar áhyggjur Norðmanna út af þessu máli eiga í raun við hérlendis líka.  Aðstæður eru mjög keimlíkar, og að halda því fram, að okkur sé vörn í núverandi rafmagnslegri einangrun landsins (enginn millilandastrengur enn), er haldlaus, því að ACER fær einmitt völd til að ákveða slíka millilandatengingu, og Ice Link er nú þegar kominn á forgangslista ACER

Hér að neðan er þýðing á frásögn af úrdrætti ályktunar verkalýðssambands starfsmanna í iðnaði og orkufyrirtækjum, "Industri Energi", IE, Íslendingum til glöggvunar á umræðunni í Noregi, en hana má líka sjá undir tengli norsku andófssamtakanna, "Nei til EU", hér á vefsetrinu:  

"Niðurstaða greiningar IE er, að væntanlegir aflsæstrengir til Þýzkalands og Bretlands geti hækkað Smásöluverð rafmagns í Noregi um 0,1-0,4 NOK/kWh (1,3-5,2 ISK/kWh).  Þetta er reist á því, að rafmagnsverðið (smásöluverð til almennings) er um þessar mundir u.þ.b. tvöfalt hærra á Bretlandi en í Noregi, u.þ.b. 0,6 NOK/kWh m.v. á Bretlandi 0,3 NOK/kWh í Noregi. (Bretland: 8,0 ISK/kWh, Ísland: 5,9 ISK/kWh, Noregur: 4,0 ISK/kWh, íslenzk stóriðja: 2,5-3,5 ISK/kWh (heildsöluverð).  Varðandi raforkuverð til norsks almennings ber að hafa í huga, að hann kyndir að mestu húsnæði sitt með rafmagni, oftast þilofnum, og meðalheimili þar kaupir þar af leiðandi um 20 MWh/ár, sem er ferfalt á við meðalheimili hérlendis, og sólarhringsálagið er jafnara.  Þar af leiðandi er vinnslukostnaður fyrir norskan almenning tiltölulega lægri en fyrir íslenzkan almenning. Bæði norskur og íslenzkur almenningur nýtur góðs af mikilli raforkusölu til orkusækins iðnaðar.  Ofan á þessi raforkuverð bætast flutningsgjald, dreifingargjald, jöfnunargjald og virðisaukaskattur.

Vegna sæstrengjanna þarf að fjárfesta í flutningskerfi að landtökustað þeirra.  Statnett hefur áætlað að þurfa þannig að fjárfesta fyrir miaNOK 2 vegna hvors  sæstrengjanna tveggja til Þýzkalands og Bretlands (jafngildi miaISK 26) og þessi kostnaður mun knýja á um hækkun flutningsgjaldsins innanlands í Noregi, sem raforkunotendur innanlands verða að bera samkvæmt reglum ACER.  Hvernig kostnaður millilandatenginga mun verða skipt á milli flutningsfyrirtækja viðkomandi landa, er samkomulagsatriði þeirra á milli, og ef þau ná ekki samkomulagi, sker ACER úr.  Fjárhagur Landsnets og íslenzkra raforkunotenda verður í uppnámi af þessum sökum.  Við blasir stjórnarskrárbrot, þar sem yfirþjóðleg stofnun, þar sem hvorki Ísland né Noregur eru fullgildir aðilar, er farin að leggja fjárhagslegar álögur á alla landsmenn.    

Þar eð norska raforkukerfið er lítið í samanburði við brezka kerfið, mun viðskiptakerfi með frjálsu flæði leiða til, að raforkuverðlagið í Noregi nálgast hið brezka og ekki öfugt.  Yfirleitt er raforkuverðlagið á meginlandi Evrópu enn hærra en á Bretlandi, sem leiða mun til enn meiri raforkuverðhækkana í Noregi en að ofan getur vegna Þýzkalandsstrengsins.  Norðmenn munu flytja út rafmagn, sem gæti annars haldið rafmagnsverðinu niðri og atvinnustarfsemi uppi í Noregi, en flytja síðan hærra rafmagnsverð til baka. Þetta er slæm þjóðhagfræði, en orkuvinnslufyrirtækin hagnast til skamms tíma.    

Hjá stéttarfélaginu IE í Noregi eru menn þeirrar skoðunar, að fylgjendur aukinna raforkuviðskipta yfir landamæri vanmeti neikvæðar afleiðingar af hærra rafmagnsverði í Noregi.  Það getur tortímt orkusæknum iðnaði, og það mun hækka kostnað norskra neytenda og fyrirtækja í bæði einka- og opinbera geiranum.  Gert er ráð fyrir, að hækkun um 0,1 NOK/kWh (1,3 ISK/kWh) hækki rafmagnsreikning sveitarfélaganna um u.þ.b. 4,0 miaNOK/ár, sem umreiknað eftir íbúafjölda landanna gerir 3,6 miaISK/ár.  

Á hinn bóginn telja menn í IE, að fylgjendurnir ofmeti jákvæðu loftslagsáhrifin.  Heildarraforkuvinnslan í Noregi, u.þ.b. 133 TWh/ár, jafngildir 3 %-4 % af heildarraforkunotkun í EES.  Útflutningsgetan er mun minni (0,5 %) og verður varla merkjanleg í samanburði við þörf ESB-landanna fyrir endurnýjanlega orku eða í samanburði við þörf þeirra fyrir jöfnunarorku með þeirra eigin raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum lindum (sól og vindi). Þá má ekki gleyma miklum orkutöpum í sæstrengjum, sem jafngilda orkusóun. 

Aftur á móti eru skaðleg áhrif á náttúru og umhverfi vanmetin.  Möguleikinn á að græða meira fé á opnum evrópskum markaði, með hærri og breytilegum verðum, mun virka hvetjandi á raforkuvinnslufyrirtækin til að auka álag virkjananna.  Vinnslan er aukin (aflaukning), þegar eftirspurnin er mikil og verðið hátt, og dregið er úr vinnslunni, þegar verðið er lágt.  Þetta þýðir, að lækkað er og hækkað (með útflutningi og innflutningi rafmagns) í miðlunarlónunum með stuttum millibilum.  Rannsóknir sýna, að slíkur rekstur virkjananna hefur afar neikvæð áhrif á fisk og aðrar lífverur í ám og lónum og veldur tjóni á náttúrunni í grennd.  Í umræðum um þetta og um heildaráhrif fleiri sæstrengja hefur IE einkum gagnrýnt, að ekki eru gerðar vandaðar áhættugreiningar áður en leyfi eru veitt til slíkra rekstrarhátta í samræmi við norskar og alþjóðlegar forskriftir.  

Andstaða IE við tengingu við ACER er þess vegna að miklu leyti vegna ótta um, að Noregur missi stjórn á stefnumörkun fyrir rafmagnsviðskipti yfir landamæri sín.  Menn eru þeirrar skoðunar, að verði stjórnun  innlendra yfirvalda leyst af hólmi með erlendri (ACER),muni slíkt leiða til fleiri sæstrengja, hærra rafmagnsverðs, hærri kostnaðar atvinnulífsins og glataðra starfa í Noregi.  

 Norsku verkalýðssamtökin, LO (Landsorganisasjonen), þ.e. norska ASÍ, og landshlutadeildir þar innanborðs, hafa tekið drjúgan þátt í umræðunni í Noregi og vara Stórþingið við alvarlegum þjóðhagslegum afleiðingum þess að samþykkja valdatöku ACER yfir raforkuflutningsmálum Noregs.  Samtökin eru tortryggin út í að hleypa öðrum en Statnett (í eigu ríkisins) að eignarhaldi á utanlandssæstrengjunum. Í umsögn um frumvarpsdrög í marz 2017 stóð þetta m.a. frá LO:
"LO er mjög ósammála samþykktinni um að veita öðrum en Statnett kost á að leggja, eiga og reka utanlandsstrengi frá Noregi."  Aldrei hefur nein viðlíka ályktun verið gerð á Íslandi, enda hefur alls ekki verið í umræðunni, að Landsnet ætti eða ræki millilandaaflstreng.  

"LO á Þelamörk fer þess á leit við ríkisstjórn og Stórþing að forða Noregi frá fullveldisafsali til orkustofnunar ESB, ACER.  ACER hefur að stefnumiði að skapa evrópskt stofnkerfi fyrir bæði gas og rafmagn án tillits til hagsmuna einstakra þjóða.  Núverandi samstarf er ráðgefandi, en ACER á hins vegar að taka bindandi meirihlutaákvarðanir.  Í raun er lagt til, að ACER skuli semja reglurnar um það, hvernig straumstefnu skal hátta hverju sinni um útflutningsstrengina. [Það er mun meira en reglur um straumstefnuna, sem felast mun í forskriftum ACER. Það er t.d. nýting strengjanna, hlutfall jöfnunarorku með sólarhringsfyrirvara pöntunar og augnabliksorkuafhendingar - innsk. BJo.]  Í Noregi er orkusækinn efnaferlaiðnaður [t.d. álver og kísilver-innsk. BJo] lykilstarfsemi í mörgum byggðum.  Það er rík ástæða til að óttast, að Noregur missi sitt mikilvægasta samkeppnisforskot, ef mikill hluti norsks rafmagns verður flutt beint út."

Allt, sem hér stendur um Noreg, getur átt við um Ísland að breyttu breytanda.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband