Landsnet og "Ice Link"

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Landsnet og Landsvirkjun ásamt "National Grid Interconnector Holdings Ltd" eru skráð á lista orkustofnunar ESB, ACER, um forgangsverkefni ESB til hnökralausra og greiðra orkuflutninga landa á milli innan EES. Verkefnið heitir þar "Ice Link" og er aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands. Téð fyrirtæki eru skráð sem aðstandendur verkefnisins.  

Þetta er dæmalaust og spyrja verður, hver hafi veitt þessum tveimur íslenzku fyrirtækjum heimild til að samþykkja slíkt án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu í landinu um jafnviðurhlutamikið mál og hér um ræðir ? Umfjöllun Landsnets hefur nánast engin verið um téðan sæstreng, enda hefur ekki verið í umræðunni, að flutningsfyrirtækið ætti hlut að þessum sæstreng.  Annað virðist á döfinni, enda er það venjan innan ESB, og einnig í Noregi, að raforkuflutningsfyrirtækin eiga hlut í millilandatengingum. Í Noregi er Statnett, systurfyrirtæki Landsnets, eini eigandinn, og Verkamannaflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir stuðningi sínum við ACER-frumvarp ríkisstjórnarinnar, að svo yrði áfram.

Umfjöllun Landsvirkjunarmanna hefur verið yfirborðsleg og bernsk, og aldrei hefur verið minnzt á, að verkefnið yrði undir stjórn orkustofnunar ESB, ACER, þótt Landsvirkjun hafi rekið áróður fyrir þessum sæstreng síðan 2010, en stofnað var til ACER 2009.  Það er reginhneyksli, hvernig staðið hefur verið að kynningu á "Ice Link" hérlendis, líklegu eignarhaldi opinberra fyrirtækja á honum, t.d. einokunarfyrirtækisins Landsnets, ásamt líklegum fjárhagsskuldbindingum fyrirtækisins vegna styrkingar raforkuflutningskerfisins innanlands vegna tengingar íslenzka stofnkerfisins við risasæstreng á íslenzkan mælikvarða (1200 MW). 

Af þessu má ráða, að ACER sér tækifæri með flutningi raforku ofan af Íslandi til að auka hlutdeild stöðugrar og "grænnar" orku í raforkunotkun ESB, þ.e. endurnýjanlegrar raforku, sem nota má til að fylla upp í eyður sólar- og vindorku, sem koma oftast í hverri viku á álagstíma á meginlandinu.  Hefur iðulega legið þar við aflskorti á háálagstíma, sem sýnir í hnotskurn ógöngurnar, sem raforkumál ESB-ríkjanna hafa ratað í. Tvö af hlutverkum ACER er einmitt að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku í raforkukerfi ESB og að auka afhendingaröryggi orku, bæði raforku og eldsneytisgass. Aðferðin í báðum tilvikum er að fjölga flutningslínum í lofti og í jörðu.

Það má ganga út frá því sem vísu, að ACER muni hefjast handa um sæstreng á milli Íslands og Bretlands, hugsanlega með flutningi um brezka kerfið til meginlandsins, fljótlega eftir samþykki Alþingis á lögleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, sem ESB ætlast til, að Alþingi afgreiði á færibandi í vor, enda hefur ACER þar með öðlazt vald yfir Orkustofnun Íslands, OS, og íslenzk yfirvöld misst sín ítök þar.  Ennfremur verður þá búið að flytja allt reglusetningarvald og eftirlitshlutverk til OS.  Vonandi ofbýður nógu mörgum Alþingismönnum ofríki ESB gagnvart EFTA-löndunum í EES til að stöðva þetta hrapallega mál, enda er fimmta frelsið (frjálsir orkuflutningar) ekki hluti af EES-samninginum um fjórfrelsi Innri markaðarins. Samþykktin í Sameiginlegu EES-nefndinni 5. maí 2017 voru þess vegna mistök.    

Landsneti mun samkvæmt reglum ACER og téðri verkefnaskrá stofnunarinnar ætlað að leika stórt hlutverk í þessu sæstrengsverkefni.  Sú kúvending hefur þó ekki hlotið neina lýðræðislega umfjöllun hérlendis.  Eftirlit með fyrirtækinu verður þá alfarið komið í hendur Orkustofnunar, OS, samkvæmt frumvarpi, sem nú liggur fyrir Alþingi. Þar með setur sami aðili leikreglurnar á raforkumarkaðinum og hefur eftirlit með, að þeim sé fylgt. Látum það vera.  Verra er, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, sem bíður umfjöllunar Alþingis, felur í sér, að OS verður gerð óháð íslenzkum stjórnvöldum og hagsmunaaðilum og tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER gegnum ESA (Eftirlitsstofnun EFTA). Þannig getur ACER hleypt Ice Link af stokkunum í samvinnu Landsnets og National Grid Interconnector Holdings Ltd. óháð því, hvaða skoðun rétt kjörin stjórnvöld landsins hafa á málinu.  Að kippa lýðræðislegu ákvarðanavaldi út af vellinum og setja undirstofnun sína þar í staðinn er aðferð ESB við við að fjarlægja allar þjóðlegar hindranir úr vegi stefnu sinnar og markmiða.  "Tilgangurinn helgar meðalið - Der Erfolg berechtigt den Mittel)".   

Komi upp ágreiningur flutningsfyrirtækjanna á milli um kostnaðarskiptingu vegna millilandatengingar, úrskurðar ACER um hana.  Sjá nú allir í hendi sér, hversu gríðarlegar fjárhagsbyrðar yfirþjóðleg stofnun án aðildar Íslands með atkvæðisrétti getur lagt á einokunarfyrirtækið Landsnet. Í hnotskurn blasir þar við gildi fullveldisins.  Ætla menn í einfeldni sinni að fórna því ?  Það er glópska, því að ávinningurinn er enginn fyrir Ísland.

Í Noregi sáu ESB-sinnaðir stjórnarflokkar á Stórþinginu til, að ACER-frumvarp ríkisstjórnarinnar var samþykkt 22. marz 2018.  Engin raunveruleg rök voru lögð á borðið fyrir inngöngu Noregs í Orkusamband ESB.  Samþykkt þingsins átti að verða eins og hver önnur færibandaafgreiðsla á gjörðum ESB inn í EES-samninginn og þar með lagasafn Noregs.  Reyndin varð önnur.  Há mótmælaalda reis um allan Noreg og náði til verkalýðsfélaga, sveitarstjórna og fylkisstjórna.  Jafnvel Alþýðusamband Noregs, LO, sem venjulega leggur miðstjórn (landsstyre) Verkamannaflokksins línurnar, ályktaði og hvatti þingflokkinn til að hafna frumvarpinu.  Skoðanakönnun í marz 2018 benti til, að yfirgnæfandi meirihluti Norðmanna væri andvígur því, að land þeirra gengi Orkusambandi ESB á hönd, því að 52 % voru á móti, 9 % meðmælt og 39 % óákveðin.  Hlutverk Alþingis er auðvitað að gæta hagsmuna Íslands og virða íslenzku Stjórnarskrána, en með höfnun Alþingis á sams konar frumvarpi má ganga út frá því sem vísu, að drjúgur meirihluti Norðmanna muni kætast.

  

Hver á Landsnet ?  Ríkið stofnsetti Landsnet með lögum 2003, og upphaflega var ætlunin, að fyrirtækið væri í eigu ríkissjóðs.  Samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB, sem lögleiddur var 2003 hérlendis, á raforkuflutningsfyrirtækið, hér Landsnet, að vera óháð öllum aðilum á raforkumarkaði og öðrum hagsmunaaðilum, nema ríkisvaldinu. Sú krafa var gerð til að ýta undir frjálsa samkeppni um raforkuvinnslu og raforkusölu, og hún tryggir hæfi fyrirtækisins til hlutlægni í viðskiptum eftir föngum.  

Það var þó fjarri því, að málin þróuðust með þeim hætti hérlendis, því að þáverandi eigendur flutningskerfisins lögðu eignir sínar inn í fyrirtækið og yfirtóku eignarhlut ríkisins. Landsnet er þannig bullandi vanhæft til að fara með raforkuflutningshlutverkið af hlutlægni, enda hefur fyrirtækið legið undir ámæli.  Nú eru eigendur Landsnets 4 talsins:

  1. Landsvirkjun:      64,7 %
  2. RARIK:             22,5 %
  3. OR:                 6,8 %
  4. OV:(Orkubú Vfj):    6,0 %

Þetta er ótækt, og Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, 2009/72/EB, ítrekar, að fullur aðskilnaður verði að eiga sér stað á milli flutningsfyrirtækis og hagsmunaaðila á raforkumarkaði.  Af einhverjum ástæðum sóttu íslenzk stjórnvöld um undanþágu frá þessu til ESA og fengu hana.  Það er hins vegar útilokað m.v. samþykktir ESB, að ESA samþykki eignarhald Landsvirkjunar á "Ice Link" að hluta, og þess vegna er óskiljanlegt, að Landsvirkjun skuli vera á téðum lista um aðstandendur verkefnisins.  

Í frumvarpi til laga um Landsnet, sem nú liggur fyrir Alþingi, hefur verið tekið út ákvæði um ríkiseign á Landsneti.  Þá vaknar spurningin um það, hvers konar eignarhald ríkisstjórnin sér fyrir sér í framtíðinni.  Um er að ræða einokunarfyrirtæki samkvæmt lögum, og einkavæðing þess er mjög miklum annmörkum háð vegna stöðu þess á markaði. Því er heldur ekki ætlað að græða peninga, heldur setur Orkustofnun fyrirtækinu þröng tekjumörk og sjálfsagt er, að það lækki gjaldskrá sína, ef rekstrarafgangur verður eftir eðlilegar afskriftir. Hvers vegna er ekki frekar undinn bráður bugur að því að færa Landsnet úr eignarhaldi orkufyrirtækjanna og til ríkissjóðs ?   

Til að tryggja óháða stöðu Landsnets á raforkumarkaði verður ekki annað séð en ríkiseign að fullu sé eina raunhæfa úrræðið, enda er sú raunin víðast annars staðar, t.d. í Noregi (Statnett). Að taka ákvæðið um ríkiseign á Landsneti úr lögum um fyrirtækið er vanreifað í frumvarpinu.   

Einfaldast er, að fjármálaráðuneytið og atvinnuvegaráðuneytið semji við núverandi eigendur um kaupin á Landsneti og gefi út skuldabréf til um 20 ára til staðfestingar.  Þetta er eðlilegasta fyrirkomulagið, óháð afgreiðslu Alþingis á bálki 2009/72/EB, ef menn á annað borð vilja halda í heiðri þeirri fjórskiptingu raforkumarkaðarins, sem komin er frá ESB, þ.e.:

  1. Virkjanafyrirtæki (raforkuheildsalar á samkeppnismarkaði)
  2. Flutningsfyrirtæki (Landsnet í einokunaraðstöðu)
  3. Dreifingarfyrirtæki (veitur með sérleyfi á tilgreindum svæðum, einokun á sama svæði) 
  4. Sölufyrirtæki (smásalar í samkeppni)

Landsnet hefur átt undir högg að sækja frá stofnun.  Það er skylda Alþingis að gera sitt til að skapa fyrirtækinu þá umgjörð, sem líklegust sé til sátta í landinu.  Það verður hvorki gert með því að viðhalda núverandi eignarfyrirkomulagi né með því að færa raunverulega stjórnun þess undir Orkustofnun ESB.  

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband