Dýr yrði Hafliði allur

Ætli nokkurs staðar í heiminum viðgangist, að ríki þurfi að leiða í lög hjá sér lög og reglugerðir annars ríkis eða ríkjasambands, til að geta selt þangað vörur og þjónustu án hárra innflutningsgjalda ?

Það er einmitt þessi staða, sem uppi er á milli EFTA-ríkjanna í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) og hefur verið í aldarfjórðung.  Hér er ekki um neitt smáræði að ræða, heldur hefur regluflóðið numið að jafnaði 460 reglugerðum eða lögum að jafnaði á ári hverju.  Þetta er mikil byrði á litlu samfélagi eins og okkar, og gefur strax til kynna, að landsmenn séu þarna á villigötum.

  Viðskiptaráð Íslands (VÍ) lagði í skýrslunni: 

"Vilji er ekki allt sem þarf-Aðgerðir til einföldunar regluverks"-útg. 7. október 2015, mat á kostnaðinn, sem af heildarregluverkinu leiðir fyrir þjóðfélagið.  Um er að ræða beinan kostnað og óbeinan kostnað fyrir ríki, sveitarfélög og fyrirtæki.  Mestur er óbeini kostnaðurinn, sem heldur aftur af eðlilegri framleiðniaukningu vegna íþyngjandi byrða af regluverkinu, og vex sá um 1 %/ár að mati VÍ.

Auðvitað þarf hvert þjóðfélag, sem ætlar að eiga í viðskiptum við efnaðan markað, eins og hinn evrópska og norður-ameríska, á regluverki að halda, en umfang regluverks og eftirlits með því þarf að sníða að stærð hvers þjóðfélags.  Einkenni íslenzks atvinnulífs eru lítil fyrirtæki með 0-9 starfsmönnum. Þau bera tvöfaldan regluverkskostnað á hvern starfsmann á við 10-49 manna fyrirtæki, ferfaldan á við 50-249 manna fyrirtæki og tífalda á við fyrirtæki 250 eða fleiri.

Starfsmenn eftirlitsstofnana eru hérlendis 15 sinnum fleiri á íbúa en á hinum Norðurlöndunum og 25 sinnum fleiri en í Þýzkalandi.  Þessar tölur gefa til kynna, að regluflóðið frá ESB, sem við erum neydd til að taka upp hér vegna EES-samningsins til að vera á Innri markaði ESB, sé okkur efnahagslega þungbært, miklu dýrkeyptara en fjölmennari þjóðum og að það sé dragbítur á lífskjarabata. Sem fámenn þjóð megum við ekki við þeim kostnaði, sem hlýzt af því að vera taglhnýtingar ESB. Það hefur verið gengið hér óvarlega um gleðinnar dyr, ekki gætt að gríðarlegum kostnaði smáríkis við að skuldbinda sig til að koma á ofvöxnu bákni m.v. íbúafjölda og alls ekki reynt að leita annarra og hagkvæmari lausna, heldur bara hjakkað í sama farinu, enda er ESB/EES draumaland búrókratans.  Halda menn, að það sé tilviljun, að Svisslendingar, sú kostnaðarmeðvitaða þjóð, höfnuðu EES-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu ? 

Við erum taglhnýtingar ríkjasambandsins í þeim skilningi, að við verðum að taka við því, sem að okkur er rétt, ef það varðar fjórfrelsið á Innri markaðinum, án þess að hafa haft nokkur teljandi áhrif á setningu þessara reglna. Þetta er þrælsleg staða, sem er orðin óþolandi, eftir að ESB færði sig upp á skaptið og tók að heimta það af EFTA-þjóðunum í EES, að þær tækju upp risaregluverk og gríðarlega íþyngjandi um atriði utan við fjórfrelsið, eins og t.d. um orkumál.  Þar keyrir um þverbak, því að Orkustofnun ESB, ACER, á að yfirtaka stjórnun Orkustofnunar Íslands og skera á á áhrif íslenzka ríkisvaldsins á alla þætti, er varða raforkuflutninga, innanlands sem og til og frá útlöndum.  Þessar staðreyndir ættu að duga til að sýna öllum Íslendingum, sem ekki vilja ólmir verða þegnar ESB, að EES-samstarfið er komið að leiðarlokum. 

Hver má þá ætla, að þessi umframkostnaður sé, þ.e. kostnaður af gildandi regluverki á Íslandi 2018 umfram þann kostnað, sem ætla má, að þjóðfélagið þyrfti að bera, ef landið væri utan EES, en hefði í staðinn fríverzlunarsamning við Bretland og ESB í anda nýs fríverzlunarsamnings Kanada við ESB ?

Viðskiptaráð Íslands (VÍ) áætlaði árið 2015 beinan og óbeinan kostnað atvinnulífsins af framkvæmd opinbers regluverks og eftirlits.  Á verðlagi 2018 jafngildir kostnaðurinn 175 miaISK/ár.  Ef reiknað er með, að 80 % af þessum kostnaði stafi af skylduinnleiðingu gerða ESB og að minnka megi að skaðlausu umfang þeirra hérlendis um 60 %, þá fæst hreinn kostnaður atvinnulífsins vegna EES-aðildarinnar 84 miaISK/ár.  

 Fallist Alþingi á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn að kröfu ESB, eru þingmenn með slíku samþykki ekki einvörðungu að færa núverandi völd ríkisins yfir raforkuflutningsmálum landsins til fjölþjóðlegrar stofnunar, ACER, í trássi við Stjórnarskrá landsins,gr.2, heldur eru þeir að framkalla umtalsverða hækkun á næstu árum á framfærslukostnaði heimilanna  og rekstrarkostnaði fyrirtækjanna vegna hækkunar á raforkukostnaði. 

Sú hækkun á rót að rekja til hækkunar á heildsöluverði frá virkjun vegna útflutnings um Ice Link á raforkumarkað með 2-3 földu núverandi verði hérlendis og til kostnaðar við eflingu flutningskerfisins að landtökustað Ice Link. Þá þarf auðvitað að slá í merina, hvað hvers konar virkjanaframkvæmdum líður til að hafa eitthvað að selja um 1200 MW sæstreng.  Samkvæmt reglum ACER leggst kostnaður við flutningskerfi innanlands vegna sæstrengs á notendur innanlands. 

Ef Landsnet verður mjög skuldsett út af fjárfestingu í Ice Link, þá versna lánskjör fyrirtækisins, sem kemur niður á framkvæmdakostnaði innanlands, en hér verður kostnaðarvangaveltum af því sleppt.  Vægt áætlað mun smásöluverð og flutningsgjald hækka um samtals 6 ISK/kWh eða um 75 % árið 2027 á núvirði m.v. 2018.  Þetta mun leiða til kostnaðarhækkana hjá almennum notendum um 24 miaISK/ár (allir án langtímasamninga).  Þessi breytti markaður mun ennfremur sennilega leiða til þess, að fleiri langtímasamningar verði ekki gerðir um raforkuviðskipti og eldri samningar ekki framlengdir. Þetta mun gjörbreyta verðmætasköpun og gjaldeyrisöflun landsins til hins verra, sem óhjákvæmilega mun ógna fjármálastöðugleika. Markaðsverð raforku mun hrynja, þegar gegnumbrot verður í vinnslu raforku með umhverfisvænum hætti, t.d. í þóríum kjarnorkuverum eða með samrunahverflum. Þá sitja flutningsfyrirtækin uppi með hundruði milljarða ISK í skuldir vegna fjárfestingar, sem engin not eru af, og innlendur iðnaður hefur goldið afhroð.  Menn verða að horfa niður fyrir sig til að aðgæta, hvar þeir stíga.  Að láta rigna upp í nefið á sér hefur aldrei þótt vera til vegsauka á Íslandi. 

Hér eru engar smáræðis kostnaðartölur á ferðinni vegna EES-aðildar, og ekki mundu þær lækka við inngöngu í ESB, því að einhvern hluta reglugerðafargansins frá ESB losna landsmenn við núna, og verandi í ESB væri Ísland nú þegar í orkusambandi ESB og Ice Link verkefnið væri vafalítið í gangi.  Lágmarkskostnaður af EES og ACER verður 110 miaISK/ár um 5 % af VLF til skamms tíma, en er frá líður verður kostnaðurinn svimandi hár, ef afleiðingarnar verða lokun verksmiðja orkukræfs iðnaðar og mun óhagkvæmari orkuskipti en annars.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Ég óttast að Alþingi muni samþykkja þriðja orkumarkaðsbálk ESB. Þó tveir af þrem stjórnarflokkum hafi samþykkt á sínum landsfundum að ekki skuli samþykkja þessa tilskipun og a.m.k. einn stjórnarandstöðuflokkur sé sama sinnis, er ótti minn lítt minni. Fjármálaráðherra talar alfarið gegn framsali orkuauðlindarinnar til ESB, en virðist þó ekki skilja alvarleik málsins til hlítar. Í viðtali við fréttastofu ruv hélt hann því fram að áhrif ACER myndu ekki gæta hér á landi nema því aðeins að lagður yrði strengur yfir hafið. Hann virðist líta á málið út frá þeirri forsendu að það muni verða í okkar valdi að ákveða hvort slíkur strengur verði lagður.

Eins og ég skil tilskipunina og þátt ACER, þá mun ACER strax taka yfir stjórnun orkumála í þeim löndum EES, samþykki þau öll tilskipunina og að ákvörðun um lagningu sæstrengs færast til þeirrar stofnunar. Einnig skilst mér að undirbúningur þessa strengs sé það langt á veg kominn og að ACER hafi það verkefni á sínum forgangslista, að hægt verði að hefja framkvæmdir við þann streng ótrúlega skömmu eftir að ACER hefur fengið vald yfir íslensku orkuauðlindunum.

Þessi misskilningur fjármálaráðherra er alls ekkert einsdæmi meðal stjórnarþingmanna og ekki bætir úr skálk að loks þegar fréttastofu ruv fjallar um málið, er þessum misskilning haldið vel á lofti, auk auðvita annars hræðsluáróðurs. Fyrirsögn þeirrar fréttar; "Höfnun gæti haft áhrif á EES samstarfið", segir þar flest sem segja þarf!

Því er langt í frá að ótti minn hafi eitthvað sefast, þrátt fyrir landsfundi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og þær ályktanir sem þar voru samþykktar. Ekki annað að sjá en að sumir stjórnarþingmanna og jafnvel ráðherra leiti nú dauðans ljósi að einhverju til að geta farið framhjá þeim samþykktum!

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 28.3.2018 kl. 23:43

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Eg deili áhyggjum þínum með þér, Gunnar. Það er uppi barnalegur málflutningur, sem felst í þeirri þversögn, að engin hætta sé á meðan enginn strengur er, en á sama tíma er vitað, að strengurinn er á forgangslista ACER, sem mun hafa lagningu hans í hendi sér. 

Bjarni Jónsson, 29.3.2018 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband