Samflot Íslands með ESB í loftslagsmálum

Yfirvöld á Íslandi hafa ekki útskýrt með viðhlítandi hætti fyrir almenningi, hvaða kostir felast í því fyrir Ísland að hafa samflot með Evrópusambandinu, ESB, í loftslagsmálum.  ESB naut góðs af viðmiðunar árinu 1990, en þá voru margar eiturspúandi verksmiðjur án mengunarvarna og brúnkolaorkuver vítt og breitt um Austur-Evrópu, sem lokað var fljótlega eftir fall Járntjaldsins. 

ESB-löndin eru hins vegar í vondum málum núna, því að hvorki hefur gengið né rekið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda undanfarinn áratug, og orkuskipti Þjóðverja, "die Energiewende", eru hreinn harmleikur. Hér er enn eitt málefnasviðið, þar sem EFTA-löndin taka auðmjúk við stefnunni frá ESB, þegar hún loks hefur verið mótuð, án þess að hafa af henni nokkurt gagn, en aftur á móti ýmislegt ógagn og óhagræði vegna ólíkra aðstæðna.

Íslendingar eiga fjölmargra kosta völ til að fást við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda upp á eigin spýtur, sem fólgnir eru í miklu og gróðurvana landrými. Í þessu sambandi er skemmst að minnast merks framtaks Landgræðslunnar við að græða upp Hólasand o.fl. eyðimerkur með seyru.  Það hefur og verið bent á mikil flæmi uppþurrkaðs lands, sem ekki eru í ræktun, og að með þeirri einföldu aðgerð að moka ofan í skurði í óræktuðu landi megi draga úr losuninni um:

DL=19,5 t/haár x 357 kha = 7,0 Mt/ár af CO2ígildi

Þetta jafngildir 56 % af allri losun af Íslendinga, 12,4 Mt/ár (án framræsts lands).

Hér er þó nauðsynlegt að gæta varúðar og huga vel að vísindalegri þekkingu, sem aflað hefur verið á þessu sviði.  Dr Guðni Þorvaldsson og dr Þorsteinn Guðmundsson, sérfræðingar í jarðrækt og jarðvegsfræði, rituðu grein um þetta efni í Bændablaðið, 22. febrúar 2018,

"Meira um losun gróðurhúsalofttegunda úr votlendi".

Þeir rökstyðja í greininni, "að þekkingu skorti til að hægt [sé] að fara út í jafnvíðtækar aðgerðir og stefnt er að án þess að meta betur, hverju þær [geta] skilað í raun og veru.", og eiga þar við endurbleytingu í landi.

Vísindamennirnir halda því fram, að til að stöðva losun koltvíildis þurfi að sökkva hinu þurrkaða landi algerlega, og þá getur hafizt losun metans, CH4, sem er yfir 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2.  Þannig er endurbleytingunni sjaldnast varið, og þá er ver farið en heima setið.  Þá halda þeir því fram, að í mólendi stöðvist losun CO2 tiltölulega fljótt eftir framræslu. Þessar niðurstöður eru nógu skýrar til að rökstyðja að leggja á hilluna alla stórfellda endurheimt votlendis til að draga úr losun.  Skal nú vitna í vísindamennina:

"Ef lokað er fyrir aðgang súrefnis að jarðveginum, verður mjög lítil losun á koltvísýringi vegna rotnunar á uppsöfnuðu lífrænu efni, en til að stöðva losunina þarf að hækka grunnvatnsstöðuna upp undir yfirborð.  Ýmsar rannsóknir hafa sýnt, að við grunnvatnsstöðu á 40-50 cm dýpi er full losun á koltvísýringi og hún eykst ekki endilega, þó að grunnvatnsstaða sé lækkuð og getur jafnvel minnkað.

Þetta þýðir, að ef grunnvatnsstaðan er ofan 40 cm, en nær ekki yfirborði jarðvegsins, getur orðið töluverð losun á koltvísýringi.  Hið sama á við um hláturgas, ef grunnvatnsstaða er há, en ekki við yfirborð.  Þá geta skapazt skilyrði fyrir myndun þess, en hláturgas [NO2] er mjög áhrifamikil gróðurhúsalofttegund.

Til að tryggja, að endurheimt votlendis dragi verulega úr losun á koltvísýsingi og hláturgasi, þarf því sem næst að sökkva landinu.  Losun á metani eykst hins vegar, þegar landi er sökkt.  Það er ekki alls staðar auðvelt að breyta þurrkuðu landi til fyrra horfs.

Víða hefur framræsla, byggingar, vegir og önnur mannvirki breytt vatnasviði landsvæða og skorið á vatnsrennsli úr hlíðum, sem áður rann óhindrað á land, sem lægra liggur. Við þessar aðstæður er ekki gefið, að lokun skurða leiði til þess, að grunnvatn hækki nægilega til að endurheimt hallamýra eða flóa takist.  Þá kemur að hinum þættinum í röksendafærslu tvímenninganna, sem er lítil sem engin losun frá vel þurrkuðu mólendi:

"Móajarðvegur inniheldur oft 10-15 % kolefni í efstu lögunum.  Það má því vel ímynda sér, að framræst votlendi nái smám saman jafnvægi í efstu lögum jarðvegsins, þegar kolefni er komið niður í það, sem gerist í móajarðvegi.  Í neðri jarðlögum getur þó enn verið mór, og það er spurning, hvort hægt sé að koma í veg fyrir, að hann rotni."

Ályktunin er sú, að í stað endurheimta votlendis eigi að beina kröftunum að landgræðslu, einkum með belgjurtum, og að skógrækt.  Varðandi hið síðar nefnda runnu þó tvær grímur á blekbónda við lestur greinar Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, í Bændablaðinu, 22. febrúar 2018.  Greinin bar yfirskriftina:

"Skógrækt - er hún rétta framlag Íslands til loftslagsmála ?"

Þar bendir hún t.d. á þátt endurkasts sólarljóssins, sem lítið hefur verið í umræðunni:

"Eðlisfræðilegu þættirnir eru aðallega endurkast sólarljóssins (kallast á fræðimáli albedo) og uppgufun/útgufun plantna og þar með vatnsbúskapur.  Hversu mikið hlutur endurkastar eða tekur upp af sólarljósi hefur gríðarleg áhrif á hitastig hans - svartur kassi hitnar mikið í sól, en hvítur helzt nokkuð kaldur.  Sama gildir um dökka skógarþekju barrskóga - skógur tekur mjög mikið upp af sólarorkunni, og hitinn helzt að landinu, en endurkastast ekki.  Snjór, aftur á móti, getur endurkastað nær öllu sólarljósinu - við finnum greinilega fyrir margföldum sólargeislunum á skíðum."

"Fjölmargar vísindagreinar hafa birzt á undanförnum árum, þar sem verið er að greina áhrif skóga á loftslag.  Þeim ber öllum saman um, að nauðsynlegt sé að vernda, viðhalda og auka umfang hitabeltisskóga og skóga á suðlægum breiddargráðum.  Á norðurslóðum eigi hins vegar alls ekki að planta skógi, því að hann hækki hitastig jarðar.  

Fjölmargar rannsóknir sýna nú, að það eru mörk, hvar skógrækt leiði til kólnunar - norðan við þau mörk leiði skógrækt til hlýnunar.  Mörkin hafa verið sett við 40°N breiddar - eða við Suður-Evrópu og jafnvel enn sunnar í Bandaríkjunum."

Halda mætti, að þessi grein Önnu Guðrúnar yrði rothögg á skógrækt hérlendis sem mótvægisaðgerð við losun gróðurhúsalofttegunda.  Öðru nær.  Kenningin var hrakin í næsta tölublaði Bændablaðsins m.v. ríkjandi aðstæður á Íslandi.  Það var gert með greininni:

"Skógrækt er mikilvægur hluti af framlagi Íslands til loftslagsmála", sem Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar, dr Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og dr Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, rituðu.  Þau benda á, að niðurstöður Önnu Guðrúnar séu úr hermilíkönum, en ekki raunverulegum mælingum, og forsendur hermilíkananna eigi ekki við á Íslandi.

"Hafrænt loftslag, stopul snjóþekja á láglendi og hlutfallslega lítil og dreifð snjóþekja benda ekki til þess, að hægt sé að yfirfæra forsendur umræddra hermilíkana beint á íslenzkar aðstæður."

"Þegar kolefnisbinding þessara svæða [ólíkra vistkerfa] er tekin með í dæmið, er greinilegt, að svartar sandauðnir á Íslandi bæði gleypa í sig mikinn hita yfir sumarið og þar verður engin kolefnisbinding.  Þær hafa því í raun tvöföld neikvæð áhrif á hlýnun jarðar, og það að láta þær standa óhreyfðar hefur sennilega "verstu" áhrifin á hlýnun jarðar.  Á öllum hinum svæðunum fer fram kolefnisbinding um vaxtartímann með jákvæðum loftslagsáhrifum."

Að græða sandana upp, fyrst með harðgerðum jarðvegsmyndandi jurtum og síðan með skógrækt, er stærsta tækifæri Íslendinga til mótvægisaðgerða við losun gróðurhúsalofttegunda.  Jafngildisbinding, að teknu tilliti til aukins endurkasts sólarljóss og CO2 bindingar í jarðvegi og viði, gæti numið 12 t/ha á ári.  Í niðurlagi greinar skrifa þremenningarnir:

"Í ljósi frumniðurstaðna endurskinsmælinga hérlendis er óhætt að fullyrða, að skógrækt á Íslandi sé góð og skilvirk leið til að vinna gegn loftslagsbreytingum.  Í raun ætti keppikefli okkar að vera, að breyta sem mestu af svörtu sandauðnunum okkar í skóg, bæði til að auka endurskin og kolefnisbindingu.  Um leið og við bindum kolefni, aukum endurskin og drögum úr sandfoki, byggjum við upp auðlind, sem getur með tímanum minnkað innflutning á timbri, olíu og ýmsum öðrum mengunarvöldum og bætt með því hagvarnir þjóðarinnar.  Svarið er því: já, skógrækt er rétt framlag Íslands til loftslagsmála."

Ekki verður séð, að slagtogið með ESB í loftslagsmálum sé til nokkurs annars en að auka skriffinnskuna óþarflega, gera aðgerðaáætlun Íslendinga ósveigjanlegri og auka kostnaðinn við mótvægisaðgerðirnar.  Að íslenzk fyrirtæki séu að kaupa koltvíildiskvóta af ESB, eins og hefur átt sér stað og mun fyrirsjáanlega verða í milljarða króna vís á næsta áratugi í stað þess að kaupa bindingu koltvíildis af íslenzkum skógarbændum, er slæm ráðstöfun fjár í nafni EES-samstarfsins og ekki sú eina.  

 

 

 

 

 

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mörlenskir bændur fengu styrki frá íslenska ríkinu til að grafa skurði en nú eiga þeir að fá styrki frá ríkinu til að moka ofan í skurðina. cool

2.8.2011
:

"Framræsla var ríkisstyrkt allt til ársins 1987."

"Einn þeirra sem bjóða fram skurði til að moka ofan í og endurheimta votlendi er bóndinn á Ytra-Lóni á Langanesi en hann segir að umræddir skurðir hafi aldrei verið til gagns."

Og Hlynur Óskarsson, vistfræðingur og stjórnarformaður Votlendissetursins, segir að "ávinningurinn af því að endurheimta votlendi sé margvíslegur, meðal annars fyrir fuglalíf og bindingu kolefnis.

Þá hafi frjósemi framræstra mýra sums staðar hrunið, enda skolist næringarefnin út.

Og einn helsti kosturinn sé að votlendi bæti mjög vatnafar."

Ræstu fram en lítill áhugi á að moka ofan í

Þorsteinn Briem, 9.4.2018 kl. 14:33

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útstreymi árið 2007 (CO2-ígildi í þúsundum tonna) og hlutfallsleg breyting frá árinu 1990:

Iðnaður og efnanotkun
1.845 +64%,

samgöngur
1.017 +67%,

sjávarútvegur
650 -18%,

landbúnaður
534 -7%,

úrgangur
254 +41%,

rafmagn og hiti
182 +48%,

samtals
4.482 +32%.

Ál:


"Útstreymi vegna álframleiðslu jókst úr 569 þúsund tonnum árið 1990 í 978 þúsund tonn árið 2007, eða um 72%."

Járnblendi:


Útstreymi vegna framleiðslu járnblendis jókst
úr 205 þúsund tonnum árið 1990 í 393 þúsund tonn árið 2007, eða um 91%."

Samgöngur:


"Útstreymi frá samgöngum árið 2007 skiptist í útstreymi vegna innanlandsflugs (2%), strandsiglinga (6%) og vegasamgangna (92%).

Í heildina jókst útstreymi frá samgöngum úr 608 þúsund tonnum árið 1990 í 1.017 þúsund tonn árið 2007, eða um 67%.

Útstreymi frá innanlandsflugi minnkaði
lítillega á tímabilinu en útstreymi vegna strandsiglinga jókst um 1%.

Útstreymi frá vegasamgöngum jókst
hins vegar um 81% frá 1990 til 2007 eða úr 517 þúsund tonnum í 934 þúsund tonn."

Sjávarútvegur:


"Útstreymi frá sjávarútvegi skiptist árið 2007 í útstreymi frá fiskiskipum (87%) og fiskimjölsverksmiðjum (12%).

Í heildina jókst útstreymi frá sjávarútvegi frá 1990 til 1996 en hefur farið minnkandi síðan. Útstreymið var mest árin 1996 og 1997 þegar mikil sókn var á fjarlæg mið."

Landbúnaður:


"Útstreymi frá landbúnaði minnkaði um 6,7% á milli 1990 og 2007. Rekja má þessa minnkun til fækkunar búfjár. Nokkur aukning varð árin 2006 og 2007 miðað við árin á undan og má rekja þá aukningu til aukinnar notkunar tilbúins áburðar."

Úrgangur:


"Útstreymi vegna meðferðar úrgangs skiptist í útstreymi vegna frárennslis og útstreymi vegna urðunar, brennslu og jarðgerðar úrgangs. Útstreymi jókst um 41% frá 1990 til 2007.

Sem hlutfall af heild innan geirans árið 2007 var útstreymi vegna urðunar um 80%, frárennslis um 9%, brennslu um 11% og jarðgerðar 1%."

Orkuframleiðsla:


"Útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna orkuframleiðslu árið 2007 skiptist í útstreymi vegna jarðhitavirkjana (83%) og útstreymi vegna notkunar eldsneytis til rafmagns- og hitaframleiðslu (17%).

Heildarútstreymi frá orkuframleiðslu jókst
úr 123 þúsund tonnum árið 1990 í 182 þúsund tonn árið 2007, eða um 48%.

Aukning frá jarðhitavirkjunum vegur þar mest
en útstreymi frá jarðhitavirkjunum jókst úr 67 þúsund tonnum í 152 þúsund tonn á tímabilinu."

Nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á Íslandi, bls. 30-36

Þorsteinn Briem, 9.4.2018 kl. 14:35

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fyrir okkur Íslendinga skiptir því langmestu máli hvað mengun snertir að reisa ekki fleiri stóriðjuver og rafvæða bílaflotann hér á Íslandi.

3.4.2017:

""Ég held að við þurfum ekki að reisa eina einustu virkjun.

Það sem rafbílar taka er mjög lítið og spá segir okkur að innan 15-20 ára verði komnir hundrað þúsund rafbílar í landinu.

Þessir bílar þurfa ekki nema 1,5% af því rafmagni sem framleitt er í landinu í dag og til að fullnægja því höfum við 10-15, jafnvel 20 ár.

Þannig að við þurfum í rauninni ekki að virkja neitt til að skipta yfir í rafmagn í umferðinni," segir Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur."

Þarf ekki nýjar virkjanir fyrir rafbílavæðinguna segir forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur

Þorsteinn Briem, 9.4.2018 kl. 15:00

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Um 200 þúsund bílar eru í íslenska bílaflotanum og þeir losa um 600 þúsund tonn af gróðurhúsalofttegundum á ári en til samanburðar losaði álver Alcoa á Reyðarfirði um 520 þúsund tonn árið 2012."

14.6.2015:

"Að raf­bíla­væða Ísland væri ör­verk­efni í sam­an­b­urði við stóriðju en með því væri hægt að svo gott sem kol­efnis­jafna landið.

Sam­drátt­ur­inn í los­un gróður­húsaloft­teg­unda sem næðist með notk­un raf­bíla jafnaðist á við heilt ál­ver og næg raf­orka er til í land­inu til að knýja raf­bíla­flota."

Með rafbílavæðingu Íslands væri hægt að kolefnisjafna landið

Þorsteinn Briem, 9.4.2018 kl. 15:27

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Steini. það var viðtal við held það hafi verið landgræðslustjóri en hann sagði bílar menguðu ekki meira en 5% á landsvísu og þessir skurðir væru ekki til ama. Ef þeir hinsvegar framleiða metan gas þá má bara nýta það.

Valdimar Samúelsson, 9.4.2018 kl. 17:40

6 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

ERU BÆNUR ÞJÓNAR innocentRIKISINS eða í vinnu þar ? ÁLVERIN eru ekki lengur leifð í Evropu- skiturinn sendur ÍSLESKUM LEPPUM ESB.

Erla Magna Alexandersdóttir, 9.4.2018 kl. 19:28

7 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Erla ég man þegar þú talar um ESB þá sagði Jose Barroso fyrrverandi Forseti ESB að það ætti að gera Island að Fanganýlendu fyrir Evrópu. 

Valdimar Samúelsson, 9.4.2018 kl. 21:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband