Nú eru nýir tímar

Gríðarleg umræða varð í Noregi um aðild landsins að Orkusambandi ESB í febrúar og fram til 22. marz 2018, er atkvæðagreiðsla fór fram í Stórþinginu um málefnið.  Úrslit hennar urðu 72 atkvæði með (43 %) og 23 atkvæði á móti (14 %), en 74 þingmenn tóku ekki afstöðu (43 %).

Ef gert er ráð fyrir, að Liechtenstein samþykki, þá velta örlög þessa stórmáls á Alþingi Íslendinga.  Á Stórþinginu virtist afstaða þingmanna að mestu ráðast af því, hvort þeir eru fylgjendur aðildar Noregs að ESB eða andstæðingar slíkrar aðildar.  Norska þjóðin er allt annars sinnis en þessi úrslit gefa til kynna, og ekki er ólíklegt, að þessi afstöðumunur kjósenda og fulltrúa þeirra á Stórþinginu muni hafa pólitískar afleiðingar. Með þessari vefgrein er tengill yfir í yfirlýsingu, sem Trúnaðarráð "Nei til EU" sendi frá sér 8. apríl 2018.  

Ef afstaða Alþingismanna til þess, hvort leiða á Orkustofnun ESB til valda yfir raforkuflutningsmálum á Íslandi, ræðst af afstöðu þeirra til aðildar Íslands að ESB, þá munu þeir fella frumvarpið um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.

Fyrrverandi ráðherra og Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, valdi föstudagsgrein sinni í Morgunblaðinu, 23. marz 2018, eftirfarandi fyrirsögn:

"Sjálfstæðisflokkurinn krefst fullveldis í orkumálum".

Þar vísar hann til Landsfundarályktana 18.03.2018, en krafan í fyrirsögninni gæti jafnframt verið höfundarins af efni greinarinnar að dæma.  Er slíkt mikið ánægjuefni þeim, sem tjáð hafa sig með eindregnum hætti  gegn því að brjóta Stjórnarskrána og hleypa yfirþjóðlegri stofnun inn á gafl hér.  Verður nú vitnað til merkrar greinar Björns:

"Aðild að ESB-stofnuninni ACER (Agency for the Cooperation of energy regulators-Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði) var tekin upp í EES-samninginn 5. maí 2017.  Alþingi hefur ekki enn fjallað um aðild Íslands að ACER, en hart hefur verið barizt um málið í Noregi.  Innan ESB kalla menn stefnu sambandsins og framkvæmd hennar í orkumálum "orkusamband Evrópu", og innan þess ramma gegnir ACER vaxandi hlutverki. [Þetta vaxandi hlutverk mun halda "endalaust" áfram.  Nú er í smíðum 1000 blaðsíðna viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem er um 600 síður.  Búizt er við útvíkkun á verkefnasviði ACER með viðbótinni, en það er nú bundið við markaðsfyrirkomulag og flutninga á raforku og eldsneytisgasi.  Með þessu hefur ACER þegar verið tryggður ráðstöfunarréttur yfir allri tiltækri raforku og gasi - innsk. BJo.]  Að stefnan sé kennd við "orkusamband", sýnir, hvert er stefnt: ESB vill ná tökum á orkuauðlindinni. [Rétt ályktun, enda var orkusviðið skilgreint öryggislega mikilvægt árið 2009 fyrir ESB, eftir að orkuskortur hrjáði sum bandalagsríkin 2008 - innsk. BJo.]

Það var misráðið undir lok 20. aldarinnar að láta undir höfuð leggjast af Íslands hálfu að gera fyrirvara um aðild að því, sem nú er kallað "orkusamband Evrópu", fyrirvara, sem tæki mið af þeirri staðreynd, að Ísland á vegna legu sinnar ekki aðild að sameiginlegu orkudreifingarkerfi ESB-landanna og Noregs.  Hagsmunir Norðmanna eru allt aðrir en Íslendinga í þessu efni vegna margra tenginga norsks raforkumarkaðar við ESB-svæðið.  [Það er of djúpt í árinni tekið, að hagsmunir Íslendinga og Norðmanna séu ólíkir varðandi raforkuna.  Bæði löndin njóta sérstöðu í Evrópu fyrir hátt hlutfall, næstum 100 %, raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og í báðum löndum er umtalsverður hluti raforkunnar bundinn langtímasamningum við iðjuver, t.d. álver. Ef öll EFTA-löndin í EES samþykkja að ganga í Orkusambandið, þá munu lýðræðislega kjörin stjórnvöld í löndunum missa forræðið yfir orkustofnunum sínum og þar með raforkuflutningsfyrirtækjunum til ACER.  Hlutverki sínu um aukna millilandaflutninga trú mun þá ACER hefjast handa við að fjölga millilandatengingum með fyrsta sæstrengnum frá Íslandi, Ice Link, og fjölgun sæstrengja frá Noregi, t.d. NorthConnect til Skotlands.  Þannig er enginn grundvallarmunur á aðstöðu Íslands og Noregs í þessum efnum, en áhrifin munu þó fyrr koma fram í Noregi, af því að eftirspurnarhlið raforkumarkaðarins mun aukast gríðarlega, séð frá Noregi.  Þetta mun tvímælalaust valda raforkuverðshækkun í Noregi, sem ríða mun samkeppnishæfni sumra fyrirtækja að fullu, t.d. stóriðjufyrirtækja, sem að hluta eru á skammtímamarkaði fyrir raforku - innsk. BJo.]

Verði Ísland aðili að ACER, tekur þessi ESB-stofnun að líkindum við eftirlitshlutverki Orkustofnunar, t.d. með Landsneti, og fær þar með lokaorð um ákvörðun flutningsgjalds raforku til almennings og stóriðju á Íslandi.  [Ráðuneytið býr nú í haginn fyrir þessa valdatöku ESB með lagafrumvarpi um að færa hluta eftirlitsins, sem er nú hjá því, til Orkustofnunar - innsk. BJo.]

Að andstæðingar yfirþjóðlegs valds í orkumálum skuli hafa flutt mál sitt með þeim árangri, sem við blasir á landsfundi sjálfstæðismanna, verður vonandi til þess, að þingmenn flokksins stigi ekkert skref í þessu máli, sem sviptir Íslendinga fullveldisréttinum yfir orkuauðlindunum."

Sú staðreynd, að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, 16.-18. marz 2018, mótaði flokkinum einarða stefnu gegn téðu valdaframsali til yfirþjóðlegrar stofnunar, sýnir, að sú andstaða hlaut hljómgrunn á meðal sjálfstæðismanna, og hér skal fullyrða, að yfirlýsingar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins og Flokksþings Framsóknarflokksins 11.03.2108 njóta víðtæks stuðnings á meðal íslenzku þjóðarinnar.  Í raun verður það táknmynd um sigur lýðræðisins yfir embættismannakerfi ESB/EES og tilætlunarsemi þess um gagnrýnislausa færibandaafgreiðslu örlagamála umræðulítið, ef Alþingi hafnar frumvarpi ráðuneytisins um umrædda viðbót við EES-samninginn.  

Í umræðum um sama mál í Noregi, komu engin rök fram um gagnsemi þess fyrir Noreg að samþykkja sams konar ríkisstjórnarfrumvarp þar.  Þar var haldið uppi hræðsluáróðri um refsiaðgerðir ESB gegn Noregi, ef ESB fengi ekki vilja sínum framgengt. Sá áróður er gjörsamlega tilhæfulaus, því að samkvæmt EES-samninginum hefur ESB ekki heimild til annars en að fella úr gildi ákvæði í núverandi orkukafla samningsins, og þar sem ESB hagnast ekkert á því, nema síður sé, er afar ólíklegt, að til þess verði gripið.  Það, sem réð afstöðu meirihluta Stórþingsmanna við afgreiðslu ACER-málsins 22. marz 2018 var löngun þeirra til að hnýta Noreg enn nánari böndum við stjórnkerfi ESB.  Málið snerist í þeirra huga ekki um neitt annað en aðlögun Noregs að stjórnkerfi ESB á ímyndaðri leið Noregs inn í ESB.  Ef þjóðarviljinn fær að ráða í Noregi, og hann hefur þegar ráðið tvisvar í þeim efnum, er landið alls ekki á leið inn í ESB.  

Munurinn á stjórnmálastöðunni á Íslandi og í Noregi er aðallega sá, að á Íslandi er meiri samhljómur með afstöðu þingmanna og þjóðarinnar en í Noregi.  Þar af leiðandi má segja, að lýðræðið sé virkara á Íslandi. 

 

 

 

  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Það hefur ekkert breyst og ítrekað í síðastliðnum mánuði af til að mynda formmanni Vinstri grænna með Angelu Merkel í Þýskalandi og formanni Sjálfstæðisflokksins eftir landsfund flokksins.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, fyrrverandi félagsmálaráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu í dag:

"Við Íslendingar getum ferðast, búið, starfað og lært án hindrana í öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

EES hefur fært okkur Íslendingum mikið frelsi og aukin lífsgæði."

Þorsteinn Briem, 10.4.2018 kl. 13:45

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

19.3.2018:

"Ég lagði mikla áherslu á að við mynd­um bæði vilja vinna öt­ul­lega að halda áfram að vera virk í EES-samn­ingn­um en um leið að við mynd­um auðvitað áfram eiga góð sam­skipti við Bret­land.

Síðan rædd­um við stöðuna inn­an Evr­ópu og á alþjóðasviðinu, þannig að það var eig­in­lega allt und­ir á þess­um ágæta fundi," seg­ir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Gagnlegur og góður fundur með Angelu Merkel, segir formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra

Þorsteinn Briem, 10.4.2018 kl. 14:37

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

16.10.2017:

"Alls segj­ast 51% stuðn­ings­manna Vinstri grænna vera fylgj­andi því að Ísland fái aðild að Evr­ópu­sam­bandinu í nýlegri könnun sem
Gallup gerði fyrir sam­tökin Já Ísland."

Þorsteinn Briem, 10.4.2018 kl. 14:46

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Alþingi 22.3.2018 (eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins):

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði að "boðvald fyr­ir­hugaðrar eft­ir­lits­stofn­un­ar virkjaðist ekki fyrr en Ísland tengd­ist evr­ópska orku­markaðinum, líkt og yrði með sæ­streng, eins og Nor­eg­ur gerði.

Spurður hvort Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn styddi aðild Íslands að EES-samn­ingn­um sagði Bjarni svo vit­an­lega vera."

Og íslenska ríkið ræður því að sjálfsögðu hvort Ísland tengist meginlandi Evrópu með sæstreng.

Þorsteinn Briem, 10.4.2018 kl. 15:34

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Steini veit allt.  Beini því að honum þeirri spurningu hvort pappírssala á hreinni orku landsins í skiptum fyrir kola- og kjarnorkuframleiðslu, svona rétt eins og skilgreint er á orkuveitureikningum almennings, sé síðan reiknuð inní mengunarstuðul landsins á heimsvísu?

Kolbrún Hilmars, 10.4.2018 kl. 15:38

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er draumsýn, að Íslendingar geti tekið virkan þátt í undirbúningi mála hjá ESB, sem síðar munu falla undir EES-samninginn.  Fyrir því eru 2 meginástæður.  Við höfum ekki atkvæðisrétt á neinu stigi undirbúnings, og við höfum engan mannskap í málið.  Við mundum þurfa 50 diplómata til að fylgjast með öllu, og við viljum fremur eyða ríkisfé í annað en fjölga diplómötum utanríkisþjónustunnar svo gríðarlega. 

Það er ekkert sjálfsagt í sambandi við völd íslenzka ríkisins yfir raforkuflutningskerfinu innanlands og að og frá landinu, ef Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn verður samþykktur.  Þar með skuldbindum við okkur til að styðja við framkvæmd kerfisþróunaáætlunar ESB á raforkusviðinu, og þar er Ice Link á forgangsskrá.  Útibú ACER á Íslandi mun fá það verkefni að semja tæknilega og viðskiptalega skilmála fyrir sæstrenginn.  Eigandi verkefnisins mun sækja um leyfi til að leggja strenginn og reka hann til Orkustofnunar (OS).  Ef eigandinn fullnægir kröfum um alla skilmála strengsins, er OS ekki stætt á að synja eigandanum um leyfi.  Ef OS gerir það samt, mun ESB ásaka yfirvöld um brot á EES-samninginum og málið fer sennilega fyrir ESA og EFTA-dómstólinn.  Langlíklegast er, að hann dæmi ESB/ACER í vil.  Valdið hverfur þannig úr höndum íslenzka ríkisins.  Þeir, sem kynna sér málið, hljóta að komast að þessari niðurstöðu.  Það er algert ábyrgðarleysi að vera með einhvern innantóman gjallanda á opinberum vettvangi um eitthvað annað.

Bjarni Jónsson, 10.4.2018 kl. 21:07

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

   Enn sannast það áþreifanlega, hve mikils verður greinarhöfundur hér, Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur, reynist Íslandi í þessu grundvallandi  mikilvæga ACER-máli. Með enn einnig grein sinni varpar hann skýru ljósi á þá stöðu mála, sem við stöndum frammi fyrir, og umfram allt á það, hve afgerandi brýnt er, að Alþingi hafni þessum Þriðja  orkumarkaðslagabálki ESB, þ.e. ACER-málinu sem slíku.

    Allar greinar Bjarna um málið, bæði hér og í Morgunblaðinu og nú síðast á undan: í þessari grein á Fullveldisvaktinni 9. þ.m.:

Húsbóndinn og þrællinn

hafa sennilega verið það mest upplýsandi sem sézt hefur um málið í heild á vettvangi íslenzkra fjölmiðla.

    Morgunblaðsgrein Björns Bjarnasonar, fyrrv. ráðherra, er einnig gulls ígildi í þessu þjóðhagsnauðsynjar- og fullveldismáli fyrir okkur Íslendinga. Það verður seint eða aldrei metið til fjár, að formleg stefna flokksþinga tveggja ríkisstjórnarflokka í málinu, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, nái fram að ganga á yfirstandi þingi hjá lögjafarsamkundu þjóðarinnar, fyrir þinglok í vor.

    Þið, Bjarni og Björn, eruð þar baráttumenn íslenzks fullveldis, og ættu nú sem flestir að vakna af doðanum og tjá sig um þetta mál, í þágu ykkar vel rökstudda málstaðar og okkar allra, sem þetta land byggjum.

    Með hjartans þakklæti fyrir þessa grein og allar þínar, Bjarni,

Jón Valur Jensson, 11.4.2018 kl. 04:08

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

   Vanhugsuð eða illa hugsuð innlegg hins vafasama penna "Steina Briem" um þetta mál hér á undan eru öll í takti við Evrópusambands-þjónustu hans hingað til, hvort heldur í sambandi við Icesave-málið, Evrópusambands-umsóknarmál þeirra Össurar Skarphéðinssonar og viðhlæjenda hans eða EES-málið. Ævinlega reynist "Steini" í öllum skrifum sínum standa með erlendum hagsmunum gegn íslenzkum: með brezkum og hollenzkum í Icesave-málinu og með ólögmætum afskiptum ESB af því máli frá upphafi,* sem og í öllum ágreiningsmálum Íslands og ESB.

     Predikað hefur "Steini" endalaust í þágu hagsmuna Evrópusambandsins og er því mjög líklega, að mínu áliti, útsendari eða leigupenni á vegum Brussel-manna, og þurfa menn ekki að undrast það, að stórveldi hafi slíka á snærum sínum; það er öllum ráðum beitt, þegar slíkar valdstofnanir hafa ekki bein valdbeitingarúrræði á færi sínu.

    Bjarni hefur hér á undan rökstutt það nógsamlega skýrt, hvernig atsókn "Steina" þessa í málinu fellur um sjálfa sig og reynist gera það eitt að gefa einhverjum falsvonir um, að  við fengjum að ráða því sjálfir Íslendingar hvort við þyrftum að selja nokkra raforku úr landi og leggja til þess sæstreng til Skotlands. Einnig þar sýnir og sannar Bjarni það, í grein sinni og sérstaklega í innleggi sínu hér kl. 21.07, að innlegg "Steina" um þetta standast alls ekki, heldur falla um sjálf sig í ljósi staðreynda.

* Í Icesave-málinu beitti ESB sér af miklum þunga 1) með þrýstingi bak við tjöldin á ríkisstjórn Steingríms J. og Jóhönnu að leggja fram frumvarp um að ríkissjóður Íslands skyldi greiða Icesave-kröfur Bretlands og Hollands, 2) með því að greiða atkvæði í "gerðardómi" haustið 2008 (þ.e. með atkvæðum fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB, fulltrúa Seðlabanka Evrópu, sem er ESB-stofnun, og með atkvæði ESB-dómstólsins í Lúxemborg) um að Ísland sem slíkt (ríkið) bæri sök í Icesave-reikninga-máli Lansbankans (einkabanka!) og væri því greiðsluskylt til Breta og Hollendinga; allt reyndist það byggt á falsrökum og í beinu trássi við jafnvel ESB-löggjöf, eins og sannaðist fyrir EFTA-dómstólnum snemma árs 2013, þar sem Ísland var hreinsað af öllum ásökunum UK, Hollands og ESB í þessu máli.**  Og 3) Evrópusambandið gerðist jafnvel meðaðili að Icesave-málssókn Breta og Hollendinga gegn Íslendingum í EFTA-dómstóls-réttarhöldunum! ---Svo eindregið beitti Evrópusambandið sér gegn Íslandi í Icesave-málinu og gerði það svo einnig í makríl-málinu, gegn veiðirétti Íslendinga og Færeyinga, með makalaust mikilli valdfrekju. Hér sést því, hve stórlega varasamt það er fyrir Íslendinga að treysta þessu Brussel-valdi gamalla evrópskra stórvelda út í bláinn, eins og ESB-sinnar hafa þó margir gert, þ.m.t. málpípur ESB á borð við "Steina Briem". 

** Eini stjórnmálaflokkurinn á Alþingi, sem vann sem slíkur gegn öllum Icesave-frumvörpum vikadrengja og þjónustumeyja ESB á Alþingi, var Framsóknarflokkurinn, og er sennilegt, að formaður þess flokks, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi þar með orðið persona non grata í hugum og útfærðri stefnu ESB-manna og þjóna þeirra upp frá því.

Jón Valur Jensson, 11.4.2018 kl. 04:49

9 Smámynd: Halldór Jónsson

Steini Briem er bara leiguþý ESB og alþjóðlegur krati og þar með óþjóðhollur íslendingur  sem gefur skít í Ísland sem fullvalda ríki. Ég hef aldei fengið neinn vitrænan botn í skrif hans sen nér þykja einhvers virði

Halldór Jónsson, 11.4.2018 kl. 21:17

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Af reynslunni get ég ekki verið ósammála þér um þetta, kollega Halldór, en með samanburðinum við lágkúruna fá skrif okkar glæsilegan blæ.

Bjarni Jónsson, 12.4.2018 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband