Fundur í Valhöll um ACER-málið 10.04.2018

Sjálfstæðisflokkurinn lætur ekki embættismannakerfið mata sig á upplýsingum um flókin mál, til þess síðan að gleypa þær hráar, þótt þær séu ættaðar innan úr EES-samstarfinu. Af málflutningi utanríkisráðuneytisins er þó ljóst, að ráðuneytið ætlaðist til, að þingsályktunartillaga þess rynni gagnrýnislítið gegnum Alþingi.  Embættismönnum verður þó ekki kápan úr því klæðinu, og þeir komast ekki upp með að dreifa hálfsannleika um "óbreytt ástand", sem við nánari skoðun er í raun formið eitt, því að inntak valdaframsals ESB/EES landanna til Framkvæmdastjórnarinnar og stofnana hennar er einmitt að miðstýra ákvarðanatöku um hvern málaflokkinn á fætur öðrum. Dæmi um stórgallaða upplýsingagjöf embættismannakerfisins er minnisblað fyrrverandi framkvæmdastjóra Eftirlitsstofnunar EFTA-ESA til iðnaðarráðherra, dags. 12. apríl 2018, en útdráttur ráðherra úr því hefur verið veginn og léttvægur fundinn á þessu vefsetri.   

Ef embættismenn í þessum tveimur íslenzku ráðuneytum hefðu haft örlítið víðara sjónarhorn, hefðu þeir lagt saman 2+2 og áttað sig á, út frá látunum, sem urðu út af þessu máli í Noregi, og afstöðu meirihluta Alþingismanna til ESB, að ekki mundi duga að beita hér blekkingum og hálfsannleika.  Þeir bitu höfuðið af skömminni með hræðsluáróðri um tjón Norðmanna, ef þeir kæmust ekki í Orkusamband ESB.  Embættismennirnir virðast vera ólesnir um það, sem nákvæmlega er fyrirskrifað í EES-samninginum, að við taki eftir synjun þjóðþings.  Þar eru viðskiptalegar refsiaðgerðir sannarlega ekki á dagskrá.  

Landsmálafélagið Vörður og Atvinnuveganefnd Sjálfstæðisflokksins héldu fróðlegan fund um Orkusamband og Orkustofnun ESB, ACER, 10. apríl 2018.  Fundarstjóri var formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Birgir Ármannsson, og frummælendur voru Óli Björn Kárason (ÓBK), Alþingismaður, Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við HÍ, og Elías B. Elíasson, fyrrverandi sérfræðingur hjá Landsvirkjun. 

Það er næsta víst, að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur sig í framkróka við að komast til botns í því, hvort hagsmunum Íslands muni verða betur borgið innan eða utan Orkusambands ESB. Var ekki annað á ÓBK að heyra en hann hefði gert upp hug sinn um það, að Íslendingar ættu ekkert erindi inn í þetta Orkusamband, enda snertir það ekki "frelsin fjögur" á Innri markaði EES, sem EES-samningurinn upphaflega var gerður til að þjóna.  Verður að vona, að sú verði niðurstaða þingflokksins af frekari umræðum um málefnið þar. Er einkar hrósvert, hvernig þingmenn sjálfstæðismanna hafa fengizt við þetta viðfangsefni.

  ÓBK taldi ennfremur, að orkumálin hefðu ekkert erindi átt inn í EES-samninginn, enda voru þau utan hans í fyrstu.  Hann er meira en nógu viðamikill og þunglamalegur að fylgja honum, þótt þar séu aðeins málefni, er varða frelsin fjögur.  Blekbónda dettur í hug, að hin EFTA-ríkin í EES-samstarfinu hafi verið þess fýsandi að taka orkumálin með, þegar ESB þrýsti á um það, og íslenzk yfirvöld á sínum tíma látið það eftir þeim, enda hafa Noregur og Liechtenstein nú samþykkt innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn, en ýmislegt bendir til, að Alþingi muni snúa þeirri ákvörðun við, þótt blikur séu á lofti. 

Stefán Már Stefánsson var annar frummælenda.  Hann benti á fjölmörg atriði varðandi EES-samninginn frá upphafi og þó einkum við þróun hans, sem orka tvímælis m.t.t. Stjórnarskrár lýðveldisins.  Hann benti á, að enginn hefði getað séð þróun EES-samningsins fyrir og að enn sé þróun hans algerlega ófyrirsjáanleg. Það vantar s.k. gagnsæi, sem þýðir, að menn vita ekkert, hvað þeir eru að samþykkja.  Þetta á t.d. við um Orkusamband ESB, en málsvarar þess, t.d. í Noregi, vilja auka völd Orkustofnunar ESB, ACER, enn, og nú er í bígerð hjá ESB Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn upp á 4000 blaðsíður, þannig að þetta er sagan endalausa.  Fyrir þjóð, sem stendur utan ESB, er þessi ófyrirsjáanleiki um þróun EES-samningsins  óásættanlegur. Hann gengur fyrir þjóðir, sem gengið hafa í ESB, þannig samþykkt framsal fullveldis og taka þátt í þróun "gerðanna" og undirbúningi tilskipana og lagasetningar, þótt ekki sé hægt að tala um jafnræðisgrundvöll þar heldur.  

Tveggja stoða fyrirkomulagið er stjórnlagalega mikilvægt, sagði Stefán Már, "en bjargar ekki öllu". Þegar það er hins vegar þverbrotið, eins og ESB ætlast til, að EFTA-löndin láti yfir sig ganga ganga í ACER-málinu og öðrum stórmálum, þar sem alls engin EFTA-stofnun svarar til stofnana ESB á borð við Orkustofnunina, ACER, þá er skörin tekin að færast upp í bekkinn, svo að staða EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands, verður óviðunandi. Í Noregi er staðan dálítið önnur, því að Stórþingið samþykkti EES-samninginn með auknum meirihluta 1992, yfir 75 % viðstaddra þingmanna. ESB-sinnar á norska Stórþinginu segja síðan, að allar breytingar á EES-samninginum séu svo lítilfjörlegar, að einfaldur meirihluti Stórþingsins nægi til að leiða þær í lög.  Þessi afstaða meirihluta Stórþingsins veldur hatrömmum deilum um allt norska þjóðfélagið.  Fjölmargir norskir lagaprófessorar töldu nauðsynlegt að afgreiða ACER-frumvarpið með auknum meirihluta.

Hér á Íslandi var sett á laggirnar nefnd þriggja stjórnlagafræðinga 1992 til að leggja mat á það, hvort upphaflegi EES-samningurinn stæðist kröfur Stjórnarskrár um varðveizlu fullveldis.  Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að það væri á mörkunum, en slyppi.  Síðan þá hefur mjög sigið á ógæfuhlið í þessum efnum, svo að telja má fullvíst, að hunzun ESB á jafnréttiskröfunni (tvær jafnréttháar stoðir) geri EES-samstarfið kolólöglegt hérlendis.  Þetta er háalvarlegt, og Alþingismenn verða á þessum grundvelli að setja ESB-gerningum skorður.  

Stefán Már sagði, að ósambærilegt væri talið, hvort stjórnvald ESB-stofnunarinnar næði aðeins til viðkomandi ríkisvalds eða til lögaðila og lögpersóna, þ.e. fyrirtækja og einstaklinga.  Í tilviki ACER nær hið erlenda vald til útibús stofnunarinnar í viðkomandi landi, sem er algerlega óháð ríkisvaldinu og öðrum hagsmunaaðilum.  

Hin stjórnlagalega staða ACER-málsins er svo slæm, að hún ein og sér dugir fyrir Alþingi til að synja málinu brautargengis að mati blekbónda.  Þá breytir engu, þótt reynt sé að fegra fullveldisframsalið með því að láta samskipti ACER og útibús þess í viðkomandi EFTA-landi fara um hendur ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA.  Hún getur ekkert annað gert en að framsenda fyrirmælin óbreytt til útibúsins, því að ESA hefur ekki þegið neitt vald til að breyta eða hafna ákvörðunum ACER, og það er ekkert svigrúm veitt fyrir sáttafundi á milli EFTA og ESB.  

Þriðji og síðasti framsögumaðurinn, Elías B. Elíasson, taldi íslenzka raforkumarkaðinn og raforkumarkað ESB vera ósamrýmanlega, því að eðli þeirra væri ólíkt.  Á Íslandi er meginhluti raforkuvinnslukostnaðar fólginn í uppsettu afli, en orkan, stöðuorka vatns í miðlunarlónum, jarðgufa og vindur, eru mun minni kostnaðarþættir.  Þessu er öfugt farið í ESB, þar sem enn er mest notazt við jarðefnaeldsneyti.  Elías varaði sterklega við skaðlegum áhrifum aflsæstrengs á raforkumarkaðinn á Íslandi.  

Ekki var að heyra annað á öllum fyrirspyrjendum á fundinum en þeir hefðu áhyggjur af skaðlegum áhrifum þess á íslenzka hagkerfið og íslenzka stjórnsýslu að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Ekki varð blekbóndi þess var, að nokkur fundarmanna væri hlynntur inngöngu Íslands í Orkusamband ESB eða aflsæstrengstengingu við útlönd.  

Það er áreiðanlegt, að sá póll, sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að taka í ACER-málinu á meirihlutafylgi að fagna á Íslandi, enda virðast allir ríkisstjórnarflokkarnir vera sama sinnis í málinu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband