Fyrir hverja er raforkukerfið ?

Raforkukerfið er undirstaða nútímalífs á heimilum landsins og undirstaða allrar atvinnustarfsemi og þar af leiðandi verðmætasköpunar í landinu, þótt það leiki misveigamikið hlutverk eftir tækjabúnaði og starfsemi.

Því miður hefur Alþingi enn ekki mótað landinu orkustefnu, og sumpart þess vegna hefur leiðandi fyrirtæki landsins á sviði raforkumála, ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, leiðzt inn á ankannalegar brautir í stefnumótun.  Þar hefur síðan 2010 setið á forstjórastóli maður, sem boðað hefur hámörkun arðs af auðlindum, þar sem Landsvirkjun á nýtingarrétt.  Sú stefna hefur aldrei verið rædd, hvað þá samþykkt af fulltrúum eigandans á Alþingi.   Forstjórinn hefur boðað 10-20 miaISK/ár arð f.o.m. 2019, en fyrirtækið greiðir þó enn aðeins 1,5 miaISK í arð á ári.  Virðist hann í sjálfbirgingshætti hafa tekið of mikið upp í sig og þá horft framhjá óskrifuðum skyldum langstærsta virkjunarfyrirtækis landsins um að anna lunganum af nýrri raforkuþörf á hverjum tíma. Til slíkra fjárfestinga er rétt að nota drjúgan hluta hagnaðarins í stað þess að slá lán og gera þannig vinnslukostnað virkjananna hærri.   

Stjórn Landsvirkjunar virðist túlka raforkulögin frá 2003, sem kveða á um frjálsa samkeppni á sviði raforkuvinnslu og sölu rafmagns, þannig, að ætlazt sé til hámörkunar arðs til eigendanna.  Þetta er órökstudd og skrýtin túlkun ríkisfyrirtækis og í raun algerlega óþörf stefnubreyting, sem virðist eiga rætur að rekja til sérvizku forstjórans um "evrópskt" orkuverð á Islandi í stað þess að lágmarka orkuverð til almennings, eins og var upprunalegt stefnumið Landsvirkjunar. 

Miklu nær er að móta fyrirtækinu þá eigandastefnu, að hagnaður fyrirtækisins skuli ganga til nýfjárfestinga og lækkunar á raforkuverði til almennings, ef afgangur verður.  Jafnframt verði Landsvirkjun lagðar þær skyldur á herðar að tryggja, að aldrei verði forgangsorkuskortur á landinu.  Það gæti skert samkeppnishæfni fyrirtækisins og þess vegna brotið í bág við Annan orkumarkaðslagabálk ESB, sem er hluti EES-samningsins.  Þetta er eitt dæmið um óhagræðið, sem hlýzt hérlendis af að innleiða reglur meginlandsins í lög hérlendis.  

Þetta síðasta atriði hefur óneitanlega kostnaðarauka í för með sér, en er þjóðhagslega nauðsynlegt, því að forgangsorkuskortur er 10-1000 sinnum dýrari per kWh en vinnslukostnaður raforkunnar, háð starfseminni, sem fyrir barðinu verður á orkuskortinum.

Landsvirkjun kýs fremur að leysa öryggismálið með sæstreng til Bretlands.  Það er mjög slæm lausn af eftirtöldum ástæðum:

  1. Rekstur slíks sæstrengs felur í sér orkusóun og þar með auðlinda- og fjársóun.  Það má hiklaust reikna með 10 % töpum frá virkjunum á Íslandi og inn á flutningskerfi í Skotlandi, þaðan sem reyndar er flöskuháls til Englands.  M.v. 1200 MW Ice Link, verða afltöpin 120 MW og orkutöpin tæplega 1,0 TWh/ár.  Þetta er svipað og varaafl og varaorka þyrftu að vera til að girða fyrir afl- og orkuskort, ef ófyrirséðir atburðir verða.  
  2. Sæstrengur upp á 1200 MW getur fyrirvaralaust bilað, og bilanatíðni sæstrengja og tengibúnaðar þeirra virðist vera talsvert hærri en gengur og gerist með virkjanir, aðveitustöðvar og línur á landi.  Fyrir heilt landskerfi er algert óráð að reiða sig á slíkt.  Ef 1200 MW álag fellur skyndilega brott af landskerfinu íslenzka, verða gríðarlegar spennu- og tíðnisveiflur.  Til að draga úr tjóni af þeirra völdum, jafnvel víðtæku straumleysi, hugsanlega altæku hruni stofnkerfisins ("black-out"), þarf rándýran búnað hjá Landsneti. Hver borgar hann ?  Samkvæmt Orkusambandi ESB lendir kostnaðurinn á innlendum viðskiptavinum Landsnets.  
  3. Sæstrengur þessi mundi taka land fjarri þeim stöðum, þar sem stofnkerfið er sterkt.  Þar af leiðandi mundi þurfa að styrkja flutningskerfið verulega vegna sæstrengs, líklega með 400 kV loftlínum frá helztu virkjunum landsins.  Andstæðingar þessara framkvæmda verða miklu fleiri (og argvítugri) en andstæðingar bráðnauðsynlegra línulagna til héraða á landinu, sem eru í orkusvelti.  Það gæti þurft að skipta um þjóð í landinu til að fá þessa framkvæmd samþykkta af þjóðinni.  Framkvæmdin er þess vegna óraunhæf án einhvers konar ólýðræðislegrar valdbeitingar yfirþjóðlegs valds.
  4. Ice Link, 1200 MW, útheimtir líklega nýjar virkjanir að vinnslugetu 6,0 TWh/ár, en flutningsgeta strengsins nemur um 9,0 GWh/ár. Tal um bætta nýtingu orkukerfisins um 2,0 TWh/ár vegna sæstrengs er út í loftið. Þannig væri hægt að flytja inn 3,0 TWh/ár, og það er líklegt, að svo yrði gert til að mæta þörfum landsmanna fyrir aukna raforku, þ.m.t. orkuskiptanna fyrirhuguðu, en það yrðu  þá sýndarorkuskipti að leysa hér jarðolíueldsneyti af hólmi með rafmagni, sem framleitt er með jarðefnaeldsneyti niðri í Evrópu og flutt hingað með ærnum tilkostnaði.  Þannig mundi raforkuverðið stórhækka hérlendis og orkuskiptin verða tafsamari, enda varla hagkvæm lengur fyrir þá, sem að þeim standa.

Vilja landsmenn þessi býti ?  Nei, það er nánast öruggt, að mikill meirihluti þeirra yrði hundóánægður, jafnvel miður sín, með þessi býti, enda er engin vitglóra í þeim.  Heilbrigð skynsemi hefur verið gerð útlæg úr landinu, ef þessi ósköp verða ofan á.  Raforkukerfi Íslands er ætlað landsmönnum sjálfum til hagsbóta, en ekki ríkissjóði eða öðrum sjóðum til að græða á í viðskiptum með rafmagn, hvað þá til að framleiða og flytja rafmagn til útlanda til að flýta örlítið fyrir orkuskiptum þar.  Af þessum sökum er landsmönnum hollast að viðhalda óskertum yfirráðarétti yfir raforkunni og óskertu ákvarðanavaldi um það, hvort sæstrengur verður lagður frá Íslandi til útlanda eða ekki.  

Íslenzka raforkukerfið er vel rekið, en við þurfum fleiri virkjanir, öflugra flutningskerfi, styrkt og endurnýjað dreifikerfi, til aukinnar verðmætasköpunar innanlands, sem staðið getur undir a.m.k. 3,0 % hagvexti á ári og 50 miaISK/ár auknum útflutningstekjum.  

Raforkuvinnslan árið 2017 nam um 18,7 TWh, og var hlutur Landsvirkjunar 75 %.  Aukið rennsli í ám gaf metvinnslu í stærstu virkjun landsins, Fljótsdalsstöð, ásamt í þremur virkjunum á Þjórsár/Tungnaársvæðinu, Sigöldu, Búðarhálsi og Sultartanga og í Steingrímsstöð í Soginu.  Aukin orkuvinnsla án fjárfestinga bætir auðvitað nýtingu virkjananna; framhaldi á því má búast við á næstu árum. 

Til að nýta yfirfall á stíflu miðlunarlóns þarf hins vegar að fjárfesta, og það gerir Landsvirkjun nú með Búrfelli 2.  Þegar hún verður tekin í rekstur síðar á þessu ári, 2018, verður hægt að draga úr vinnslu jarðgufuvera og taka þær í viðhald á meðan gnótt er vatns í lónum.  Oft er það hins vegar þannig, að ekki er gott vatnsár samtímis um allt land, og þá er nauðsynlegt að geta flutt mikið afl á milli landshluta til að koma í veg fyrir staðbundinn orkuskort.  Til að sæstrengur mundi nýtast sem varaaflgjafi, þarf að sjálfsögðu að afnema alla flöskuhálsa í flutningskerfinu innanlands.

Hæsti klukkustundartoppur Landsvirkjunar í fyrra var 1831 MW þann 15. desember 2017.  Þá var tiltækt afl í virkjunum fyrirtækisins 1881 MW.  Mismunurinn er aðeins 50 MW eða 2,7 %.  Þetta er allt of lítið varaafl, til að fullnægjandi afhendingaröryggis sé gætt, og þarf a.m.k. að tvöfalda.  Það er ljóst af þessu, að Landsvirkjun má ekki láta deigan síga, heldur verður strax að ráðast í nýja virkjun eftir Búrfell 2 og Þeistareyki, en hún hefur dregið lappirnar og virðist ætla að gera virkjanahlé og bíða aflskorts.  

Nokkuð hefur verið litið til Vindorkugarða til að bæta úr fyrirsjáanlegum orkuskorti.  Engin reynsla er af slíkum hérlendis.  Það er annars konar áreiti af þeim en fallvatns- og jarðgufuvirkjunum.  Sjónmengun er talsverð, og hljóðmengunin er algerlega ný af nálinni. Af þessum sökum ætti leyfisveiting fyrir vindorkugarð ekki að koma til greina innan 10 km frá byggðu bóli.

Litlum og meðalstórum vatnsvirkjunum mun örugglega fjölga talsvert á næstu áratugum, eins og nú á sér stað í Noregi.  Slíkar virkjanir geta malað eigendum sínum gull, er frá líður, og aukið staðbundna orkulega sjálfbærni.  Slíkt dregur úr orkuflutningsþörf inn á svæðið, en útrýmir henni aldrei.  Dæmi um þetta er fyrirhuguð 55 MW Hvalárvirkjun á Ströndum.  Virkjunin er gríðarlegt hagsmunamál fyrir Vestfirðinga og þar með landið allt.  Hún veitir Vestfirðingum möguleika á sambærilegu afhendingaröryggi raforku og flestir aðrir landsmenn njóta, ef Vestfirðir verða samtímis hringtengdir um nýja aðveitustöð á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi.  Með þessu móti yrði skotið traustri stoð undir byggðir Vestfjarða og öfluga atvinnustarfsemi á sviði fiskeldis, ferðaþjónustu, sjávarútvegs og landbúnaðar.  Fyrst um sinn yrðu Vestfirðingar aflögufærir um raforku inn á landskerfið um Vesturlínu, og veitir ekki af, en fljótlega mun þurfa að bæta við virkjunum á Vestfjörðum til að anna þörfum orkuskiptanna og vaxandi mannafla.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvalárvirkjun ein og sér breytir engu um afhendingaröryggi fyrir Vestfirði. Nær væri að setja núverandi Vesturlínu í jörð á þeim stöðum, þar sem bilanir hafa orðið vegna illviðra. 

Ómar Ragnarsson, 29.4.2018 kl. 14:05

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Til þess að eitthvert vit sé í hringtengingu, eins og minnzt er á í pistlinum, verður að vera mötunarmöguleiki úr tveimur áttum hið minnsta.  Staðsetning Hvalárvirkjunar gerir hana kjörna til að auka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, sem allt of lengi hefur dankazt og er til háborinnar skammar á okkar tímum.

Bjarni Jónsson, 29.4.2018 kl. 18:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband