Goðsögnin um gagnsemi EES

Hér á landi étur hver upp eftir öðrum, að Íslendingar eigi velmegun sína nú um stundir aðild landsins að Evrópska efnahagssvæðinu að þakka. (Gleymist þá Hrunið, sem segja má, að sé því að kenna ?) Hér er heldur betur ruglað spilunum, og þessi áróður er til þess eins fallinn að draga úr sjálfstrausti og sjálfstæðisvitund landsmanna.  Það er reynt að koma því inn hjá þeim, að til að lifa í nútímalegu velferðarþjóðfélagi með tiltölulega góð lífskjör á evrópskan mælikvarða þurfum við að binda trúss okkar við stóra skonnortu, sem siglir undir bláum fána með 28 gulum stjörnum núna.  Þetta er rangtúlkun á staðreyndum málsins.  Það, sem Ísland þarf til velferðar, er viðskiptafrelsi og óskert fullveldi, og þetta samrýmist ekki vistinni í EES.

Sams konar sjónarmið um gallana við ESB hafa vafalaust legið að baki hjá mörgum þeirra, sem mynduðu meirihluta á Bretlandseyjum í júní 2016 fyrir úrsögn úr Evrópusambandinu, ESB.  Sannleikurinn er sá, að miðstýring ESB eykst hröðum skrefum, þ.e. að segja flutningur á hefðbundnu valdi þjóðríkjanna til framkvæmdastjórnar ESB, og þessi samrunaþróun sogar EFTA-ríkin til sín, eins og svarthol (samanhrunin sól) sogar til sín allt sólkerfið og allt, sem í grenndinni er, einnig ljósið, sem þó er massalaust, samkvæmt lögmáli Max Plancks, ef rétt er munað úr eðlisfræðinni forðum daga. 

Gott dæmi um þessa háskalegu þróun fyrir EFTA-löndin þrjú í EES-"samstarfinu", sem vilja halda sjálfstæði sínu í líkingu við fjórða EFTA-landið, Sviss, með sinn tvíhliða samninga við ESB, er Orkusamband ESB. Þegar þjóðþing EFTA-landanna þriggja samþykktu EES-samninginn 1992-1993, var ekkert í líkingu við núverandi stofnanavæðingu og flutning málefnasviða frá stjórnvöldum aðildarlandanna til Framkvæmdastjórnarinnar á döfinni. 

Allar þrjár æðstu stofnanir ESB samþykktu árið 2009 að setja á laggirnar Orkustofnun ESB, ACER. Þar var viðtekin skoðun, að stórbæta þyrfti samtengingar á milli rafkerfa og gaskerfa aðildarlandanna til að auka afhendingaröryggi orkunnar, til að flýta fyrir orkuskiptum (ná markmiðum ESB um koltvíildislosun) og til að jafna orkuverð á ESB-svæðinu.

Ekkert af þessu á við á Íslandi, og þar af leiðandi eigum við ekkert erindi í ACER.  Við mundum einskis ávinnings njóta, brjóta Stjórnarskrána og taka gríðarlega áhættu vegna ólýðræðislegrar ákvarðanatöku um raforkuflutningsmál landsins.  Þróun slíkrar aðildar er ennfremur algerlega í þoku, því að stöðugt bætir Framkvæmdastjórnin við gerðum.  Þannig er nú 4000 blaðsíðna viðbót í gerjun, sem mun kallast Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn.  Það er talið öruggt, að með honum munu völd ACER aukast enn. "Salami" eða sneiðaðferðin er hluti af stjórnlist ESB til sálrænnar aðlögunar aðildarþjóðanna að "hinni óhjákvæmilegu þróun" að "Sambandsríki Evrópu".  Í þessu samhengi gerir Framkvæmdastjórnin engan greinarmun á EFTA-ríki og ESB-ríki.  Þar stendur hnífurinn í kúnni.  Í Noregi og á Íslandi vita hins vegar margir, að ESB er hvorki upphaf né endir alls.  Það er ágætislíf utan við EES, eins og Bretar munu brátt komast að.  

Einkennandi fyrir málflutning stuðningsmanna inngöngu Íslands í Orkusamband ESB er að fimbulfamba um það, sem ekki skiptir máli, eða um aukaatriði eða hrein formsatriði, á meðan efnisatriði máls liggja óbætt hjá garði.  Dæmi um þetta eru öll 7 atriði iðnaðarráðuneytisins í samantekt þess á minnisblaði lögmannsins Ólafs Jóhannesar Einarssonar, dags. 12. apríl 2018, sem Heimssýn mótmælti kröftuglega 23. apríl 2018

  1. Eignarréttur orkuauðlinda skiptir engu máli í sambandi við ACER, því að ráðstöfunarréttur (Norðmenn kalla þetta "styringsretten".) raforkunnar fer til raforkumarkaðar ESB, sem mun geta boðið í alla raforku á markaði á Íslandi samkvæmt Þriðja orkubálkinum.
  2. "Þriðji orkupakkinn haggar í engu rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar, og hvaða orkugjafar eru nýttir hér á landi."  Það hefur varla nokkur haldið því fram, að Þriðji orkubálkurinn hefði áhrif á Rammaáætlun, en hitt er víst, að ásókn í íslenzkar orkulindir mundi vaxa mjög með tilkomu aflsæstrengs.  Það er jafnframt undir hælinn lagt, hvað úr þessu Orkusambandi verður, nema telja má öruggt, að valdsvið ACER víkki, jafnvel út fyrir orkuflutninga.
  3. Að "ACER myndi þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni [áheyrnaraðild] ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi", kemur efnisatriðum málsins ekki við, því að hið formlega vald OS verður án innihalds, og úrskurður getur aðeins orðið ACER þóknanlegur.  Annars fer málið til ESA/EFTA-dómstólsins.
  4. Það er beinlínis rangt, að ACER hafi aðeins valdheimildir gagnvart opinberum eftirlitsaðilum, því að útibú ACER á Íslandi verður ekki opinber stofnun, heldur óháð íslenzkum yfirvöldum og undir stjórn ACER um strengjabrúðuna ESA.  
  5. ESA er lögræðilegt skálkaskjól fyrir stjórnarskrárbrot á Íslandi og í Noregi, sem felst í völdum yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem löndin njóta ekki jafnstöðu á við ESB-löndin, yfir málefnum á Íslandi, sem spanna allt þjóðfélagið (raforkuflutningar).
  6. Það er gróf rangtúlkun, að valdheimildir ACER eigi ekki við á Íslandi "svo lengi sem hér eru engin slík orkumannvirki", þ.e. aflsæstrengir til útlanda.  Með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, mundi Alþingi skuldbinda Íslendinga til að aðlaga flutningskerfi raforku landsins að Kerfisþróunaráætlun ESB.  Þar er "Ice Link" eitt rúmlega 170 samtengiverkefna á milli landa.  Sjá menn ekki skriftina á veggnum ?
  7. "Þriðji orkupakkinn haggar því ekki, að það er á forræði Íslands að ákveða, hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs ...  ."Hvaða máli skiptir þetta, þegar aðrir ákveða, hvort og hvenær strengurinn verður lagður ?

Að þvílíku fyrirbrigði sem ACER-málinu skuli skola upp að ströndum Íslands sem afrakstri EES-"samvinnunnar" sýnir, hversu dýrkeyptur þessi EES-samningur er.  Upptaka um 500 ESB gerða hér á ári hverju veldur auk þess íslenzku atvinnulífi og stjórnsýslu miklum óþarfa erfiðleikum og þar af leiðandi óþarfa kostnaði, sem beint og óbeint gæti numið yfir 80 miaISK/ár.  Fjárfestingaþörf Landsnets vegna orkuflutninga að og frá fyrsta sæstreng, 1200 MW, gæti numið svipaðri upphæð.  Það má hiklaust draga þá ályktun af öllu þessu, að vist smáríkis langt norður í Atlantshafi með "stórveldum" meginlandsins henti alls ekki og verði alger tímaskekkja á tímum "BREXIT".  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örn Einar Hansen

Sammála ræðumanni ... heir heir

Örn Einar Hansen, 1.5.2018 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband