Dýr eru Dagur & Co. á fóðrum

 

Í vefpistlinum, "Úreltar skipulagshugmyndir baka bara vandræði" á þessu vefsetri var komizt að þeirri niðurstöðu, að landsmenn þyrftu að nota 2 % af vinnutíma sínum í óeðlilegar umferðartafir.  Alvarlegastar eru tafirnir kvölds og morgna á höfuðborgarsvæðinu, og þar eru þær talsvert yfir þessu landsmeðaltali. Með rangri stefnumörkun hafa stjórnmálamenn rænt fólk þessum tíma, sem jafna má til lífkjaraskerðingar. Stjórnmálamenn hafa ekki leyfi til að nota þegnana sem tilraunadýr í þjóðfélagstilraun, sem kostar þegnana stórfé, algerlega að óþörfu, þegar nánar er að gáð. 

Það er alræmt, að stjórnmálamenn á vinstri vængnum líta á tekjur fólks sem eign hins opinbera.  (Hver á þá launþegann ?)  Þetta má marka af því, að í hvert sinn, sem hin frjálslyndari öfl stjórnmálanna leggja til lækkun á skattheimtu, kveður við spangól sósíalista um, að ófært sé við núverandi aðstæður að afsala hinu opinbera tekjum sínum.  

Nú kveður svo rammt að forræðishyggjunni, að hún leggur purkunarlaust og markvisst hald á sífellt meira af tíma fólks.  Dagur, borgarstjóri, og meðreiðarsveinar og -meyjar hans, munu á næsta kjörtímabili halda áfram að lengja ferðatíma fólks í Reykjavík, og vandamálið hefur nú náð til allra nágrannasveitarfélaga hennar á annatímum.  Undandarin 6 ár hefur ferðatíminn úr Grafarvogi til miðborgarinnar lengzt um 40 %.  Á næstu 4 árum, 2018-2021, má ætla, að hann aukist enn um 30 %, og mun ferðatíminn þá á 10 árum (árið 2021) hafa aukizt um 82 %.  Það þýðir, að með sama áframhaldi meirihluta borgarstjórnar um að gera ekkert til úrbóta, en halda áfram með fáránlegar breytingar á borð við þrengingar umferðaræða til að tefja fyrir umferð, verða tafirnar tvöfalt meiri árið 2021 en árið 2017 m.v. árið 2011.  Þessa óheillaþróun er auðvelt og hagkvæmt að stöðva.  Vilji er allt, sem þarf. Það er reynt að bera í bætifláka fyrir vitleysuna með því að bera við auknu öryggi gangandi, sem þurfa að þvera akstursleiðina.  Til að auka öryggið við þær aðstæður byggja menn brú yfir götuna eða grafa undirgöng.  Hálfkák á borð við tiltektir Hjálmars Sveinssonar og Dags er engum til sóma.  

Skipulagsstefna Dags og Hjálmars snýst um að halda úthverfamyndun í skefjum, en beina nýjum íbúðarhúsum inn á svæði sitt hvorum megin við væntanlega Borgarlínu.  Afleiðing af þessari stefnumörkun sósíalistanna í borgarstjórn er allt of lítið framboð byggingarlóða, langur byggingartími og dýrt húsnæði. Þessi stefna hefur, eins og oft gerist með sósíalismann, virkað þveröfugt við það, sem höfundar hennar ráðgerðu.  Hún átti að minnka ferðatíma, draga úr akstri, lækka ferðakostnað og draga úr losun koltvíildis. 

Fólkið hefur hins vegar leitað lóða og húsnæðis út fyrir borgarmörkin, allt austur til Selfoss og suður til Reykjanesbæjar.  Þetta hefur margfaldað akstursþörf margra og ferðatímann, stórhækkað ferðakostnaðinn og margfaldað losun koltvíildis, nema hjá þeim, sem fengið hafa sér tengiltvinnbíl eða rafbíl vegna aukinnar akstursþarfar.  Þeir hrósa nú happi á tímum verðhækkunar eldsneytis.    

Þetta ástand hefur sprengt upp húsnæðiskostnað á "stórhöfuðborgarsvæðinu", og nemur verð á íbúðum "fyrir fyrstu kaup" nú um MISK 40.  Leiguverðið fylgir húsnæðisverði, og eru nú 50 m2 íbúðir í Reykjavík leigðar fyrir a.m.k. 200 kISK/mán.  Síðan 2012 hefur leiguverðið á höfuðborgarsvæðinu hækkað um a.m.k. 50 % í boði Dags og fylgdarliðs hans í borgarstjórn.  Kjaraskerðing hjóna eða sambýlinga, sem leigja ofannefnda 50 m2 íbúð, er 67 kISK/mán, ef reiknað er með 50 % hækkun, sem rekja má til gerræðislegrar hugmyndafræði sósíalistanna til að framkalla ástand sér að skapi.  Ef ráðstöfunartekjur parsins nema 500 kISK/mán, þá er þar um 13 % kjaraskerðingu að ræða.  

Slæm stjórnvöld eru dýr á fóðrum fyrir kjósendur.  Þegar kostnaðurinn af skipulagsstefnu Dags & Co. á sviði umferðar og húsnæðis, sem eru tvær hliðar á sama peningi, eru lagðar saman, nemur lífskjaraskerðingin fyrir Reykvíkinga í húsnæðishraki að lágmarki 15 %  f.o.m. 2012, að öðru óbreyttu. Af þessu hefur auðvitað leitt fjölgun húsnæðislausra í Reykjavík, og eru þau nú yfir 600 talsins, sem óstaðsett eru í hús.  

Að fátækt skuli þannig aukast í blússandi góðæri virkar sem mótsögn, en þegar framfærslukostnaður hækkar meira en laun og/eða styrkir/bætur frá hinu opinbera, þá er aukin fátækt niðurstaðan.  Þetta minnir óneitanlega á Venezúela og er ekki huggun harmi gegn. Venezúela var eitt efnaðasta land Suður-Ameríku um síðustu aldamót vegna olíuvinnslu og álvinnslu.  Upp úr aldamótunum komst þar sósíalistaflokkur Hugos Chavez til valda, og eftir andlát hans hékk sósíalistaflokkurinn enn áfram við völd undir forystu Nicholas Maduro.  Er nú svo komið fyrir Venezúela, að þjóðin sveltur heilu hungri, velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið eru hrunin, hagkerfið er hrunið, bólívarinn einskis virði og ríkissjóður gjaldþrota.

  Þannig hefur farið fyrir öllum, sem dýrkað hafa Karl Marx, Friedrich Engels, lærisveina þeirra og kenningar um afnám einkaeignarréttar, stéttastríð og að lokum alræði öreiganna, sem þýðir opinberan rekstur á öllu, stóru sem smáu.  Undantekning er kínverska útgáfan af kommúnisma, þar sem hagkerfinu var bjargað frá hruni með því að leyfa einkarekstri að starfa í hagkerfi undir stjórn Kommúnistaflokksins.  Hvort sú tilraun heppnast í Kína, er enn ekki til lykta leitt.  

Daufari útgáfu af kenningunum, s.k. lýðræðissósíalisma (socialdemocracy) eða jafnaðarstefnu, hefur líka rekið upp á sker, t.d. í Svíþjóð um 1990, en um það leyti söðluðu Svíar algerlega um, enda hafði skattaáþjánin kyrkt allan hagöxt, atvinnuleysi fór vaxandi og skuldir ríkissjóðs voru orðnar þungbærar.  Alls staðar í Evrópu fjarar undan jafnaðarmönnum í kosningum um þessar mundir.  Þeir, sem virða fyrir sér verk jafnaðarmanna á Íslandi, skilja hvers vegna.    

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Dýr yrði Dagur, ef allur

drægi fram lífið þar

sem Ráðhússins ræðupallur

í reynd væri Samfylkingar

vettvangur lyga hans verstu 

og vonlaust að skipta' um í brúnni.

Samt eflaust þá, Bjarni, enn berstu,

bilandi aldrei í trúnni !

Jón Valur Jensson, 25.5.2018 kl. 04:58

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

og vonlaust að skipta´ um í brúnni.

Jón Valur Jensson, 25.5.2018 kl. 04:59

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Slímsetumanninn slynga

slordóna tel ég í reynd;                                                   .

fyrir axarsköft Íslendinga

ótugtin mörg var flengd !

 

Jón Valur Jensson, 25.5.2018 kl. 05:22

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vá, þú ert rosalegur, Bjarni!

Fyrst nú gaf ég mér tímann til að lesa þetta.

Þú jarðar sósíalismann gersamlega!

Og það setur að manni hroll að sjá þann íslenzka hér í borginni óneitanlega eiga sína hlutdeild í því hnignunar- og stöðnunarfyrirbæri eins og þú með þínum hætti dregur hér svo ljóslega upp.

Vale, sapiens!

Jón Valur Jensson, 25.5.2018 kl. 08:04

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega, Jón Valur, fyrir innlegg þín hér að ofan.  Greina má, að andi þinn hefur komizt á flug við lesturinn, og er það ánægjulegt.  Þegar aðalatriði hugmyndabaráttunnar í höfuðborginni eru skoðuð, má greina átök á milli stækrar forræðishyggju valfrelsisstefnu.  Sósíalistísk forræðishyggja  vill ráða því, hvernig fólk fer á milli staða, og hún vill svipta fólk opnum og grænum svæðum og hrúga því sem flestu "á upptökusvæði" Borgarlínu.  Sá fjöldi verður þó aldrei meiri en 40 þúsund.  Þá eru hin 180 þúsundin á höfuðborgarsvæðinu m.v. núverandi mannfjölda.  Hvernig eiga þau að komast leiðar sinnar ?  Forræðishyggjan telur tímasóun og peningasóun léttvægan fórnarkostnað við að raungera hugmyndir, sem í raun eru mannfjandsamlegar.  Það verður að afleggja þessa sérvizku, liðka fyrir umferðinni með raunhæfum úrbótum og hefja stórfellda lóðaúthlutun á nýju byggingarlandi í öllum sveitarfélögum, þar sem land og eftirspurn eru fyrir hendi. 

Bjarni Jónsson, 25.5.2018 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband