Engin ógn við Ísland ?

Sendiherra Evrópusambandsins (ESB) á Íslandi, herra Michael Mann, hefur fundizt þörf á að hlaupa undir bagga með þeim hérlendum mönnum, sem eru málsvarar þess, að Íslendingar gangi Orkusambandi ESB á hönd með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB. Óþarfi er að kveinka sér undan slíku, heldu fagna því að fá innsýn í hugarheim sendiherrans.

Í ávarpi sínu til Íslendinga um Orkusamband ESB nefnir sendiherrann sérstaklega til sögunnar ráðgjafa iðnaðarráðherra í þessu máli, en hún virðist því miður hafa gert skoðanir þessa ráðgjafa síns í þessu máli að sínum, þótt þær stangist á við staðreyndir máls í veigamiklum atriðum. Öll atriðin í málflutningi þessa ráðgjafa, sem þýðingu hafa fyrir fullveldisframsal, sem af samþykki þessa orkulagabálks mundi leiða, hafa verið hrakin í pistlum á þessu vefsetri. Þá hefur hér og víðar verið sýnt fram á, að sjónarmiðið um lítil áhrif innleiðingar bálksins á framkvæmd raforkumála á Íslandi án sæstrengs er haldlaust. Um niðurstöður téðs ráðgjafa, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, skrifaði sendiherrann í grein sinni í Fréttablaðinu 7. júní 2018,

"Orkupakkinn er engin ógn við Ísland":

"Það var okkur [stjórnendum ESB-innsk. BJo] ánægjuefni, að óháður ráðgjafi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skyldi komast að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar þurfi ekki að óttast þessar nýjustu breytingar."

Ráðherrann, sem hér um ræðir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur á opinberum vettvangi varið afstöðu sína með því að gera á allan hátt lítið úr áhrifum Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á mótun orkustefnu Íslands, þótt Alþingi mundi staðfesta innleiðingu hans í EES-samninginn.  Þá má spyrja, hvort þessi gjörð séu mistök að hálfu ESB, því að henni var vissulega ætlað það hlutverk að verða brimbrjótur ESB við öfluga samtengingu raforkukerfa allra ESB-landanna og alveg sérstaklega, þar sem tæknilegar og/eða stjórnmálalegar aðstæður hafa hagað því þannig, að litlar eða engar slíkar tengingar hafa verið við önnur lönd hingað til. 

Það er hámark barnaskaparins og/eða blekkingarleiks í þessu ACER-máli, að núverandi einangrun íslenzka raforkukerfisins frá öðrum löndum valdi því, að téð löggjöf muni nánast engu breyta á Íslandi.  Á þessu vefsetri hefur verið sýnt fram á, að hún getur gjörbreytt þróun íslenzkra orkumála með fullkomlega ólýðræðislegum hætti.

Hér skal þess vegna fullyrða, að téð afstaða ráðherrans stríðir gegn ályktun Atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var einróma á Landsfundi flokksins í marz 2018:

"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Ef ráðherrann ætlar að halda áfram að vinna að því að yfirfæra ráðstöfunarrétt á raforku Íslands til raforkumarkaðar ESB, sem starfar undir eftirliti Orkustofnunar ESB-ACER, þá grefur hún þar með undan trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins gagnvart þjóðinni og grefur jafnframt undan stöðu sinni innan flokksins, því að hér er um stórmál að ræða, sem ekki er hægt að gera lítið úr.  

Nú skal vitna frekar til herra Michaels Mann:

"Þriðji orkupakkinn, svokallaði, sem Íslendingum er skylt að innleiða samkvæmt EES-samninginum [1], er rökrétt framhald fyrri orkupakkanna tveggja, sem hafa verið innleiddir á Íslandi án vandkvæða. [2]

Megintilgangurinn með orkupakkanum er að veita neytendum ódýra og örugga orku með tilstilli markaðsafla, og hann er ekki nokkur ógn við framkvæmd íslenzkrar orkustefnu.[3] Þar sem Ísland er eyja, einangruð frá öðrum orkumörkuðum, mun landið njóta víðtækra undanþága frá flestum helztu skyldum, sem fylgja nýju löggjöfinni."[4]

  1. Það, sem einkennir EES-samninginn og var óspart hampað á sínum tíma (1992-1993) af málsvörum hans, og gerir hann frábrugðinn beinni aðild að ESB, er einmitt rétturinn til að hafna ESB-reglum á leið þeirra inn í EES-samninginn.  Það er rangt hjá sendiherranum, að Alþingi beri einhver skylda til að skrifa upp á allt, sem frá Sameiginlegu EES-nefndinni kemur.  Þjóðþingum EFTA-landanna í EES er tryggður synjunarréttur í EES-samninginum.  Á þeim grundvelli hefur fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tjáð þá skoðun sína í pontu Alþingis, að enginn geti á fundi í Brüssel (aðsetur Sameiginlegu EES-nefndarinnar) bundið hendur Alþingis.  Slíkt væri í blóra við Stjórnarskrá Íslands, enda væri þá fullveldi Íslands farið fyrir lítið. Sendiherra ESB verður að gæta orða sinna, þegar hann ávarpar Íslendinga í blaðagrein.  Að skrifa, að "Íslendingum [sé] skylt að innleiða [Þriðja orkupakkann] samkvæmt EES-samninginum" má líta á sem ögrun að hálfu ESB.  Ef ESB ætlar út í einhvers konar refsiaðgerðir gegn Íslandi í kjölfar synjunar Alþingis, verður slíkt skýlaust brot á EES-samninginum og ber að kæra fyrir EFTA-dómstólinum.
  2. Það er ekki rétt, að Annar orkumarkaðslagabálkur ESB hafi verið innleiddur á Íslandi "án vandkvæða".  Margir hérlendis eru þeirrar skoðunar, að vegna smæðar íslenzka raforkumarkaðarins henti fjórskipting hans að hætti ESB illa hérlendis.  Hún hefur tekið langan tíma, og nú, 14 árum eftir innleiðinguna, er henni enn ólokið. T.d. er eignarhald Landsnets enn mjög afbrigðilegt og fjarri því að vera, eins og fyrirskrifað er af ESB.  Hitt er vafalaust rétt hjá sendiherranum, að Þriðji bálkurinn er "rökrétt framhald" hinna tveggja, og þessum útgáfum er alls ekki lokið enn.  Með útgáfu Fjórða bálksins, sem er í bígerð, er talið, að völd ACER verði aukin enn meir. Hin dæmigerða aðferðarfræði ESB er kennd við spægipylsu. ESB færir sig stöðugt upp á skaptið. 
  3. Með öflugum samtengingum á milli aðildarlandanna ætlar ESB að jafna orkuverðið innan sambandsins og tryggja, að engir flöskuhálsar komi í veg fyrir gjörnýtingu á virkjunum endurnýjanlegrar orku.  Viðmiðun ESB er, að þar sem verðmismunur á milli landa er meiri en 2,0 EUR/MWh (0,25 ISK/kWh), þar skuli auka flutningsgetuna á milli.  Verðmunur raforku á Íslandi og ESB er miklu meiri en þetta, og þess vegna mun ESB/ACER beita öllum tiltækum ráðum til að raungera sæstrenginn "Ice Link".
  4. Þarna veður sendiherrann reyk.  Samkvæmt Þriðja bálkinum verður stofnuð Ný orkustofnun á Íslandi, NOS, einnig nefnd Landsreglarinn.  Hún á að verða algerlega óháð íslenzkum yfirvöldum og hagsmunaaðilum hérlendum, en mun lúta stjórn ACER með ESA sem millilið. Þetta er einstætt fyrirkomulag, ólýðræðislegt og andstætt Stjórnarskrá Íslands.   Meginhlutverk NOS verður að fylgjast með því, að Ísland fylgi eftir Kerfisþróunaráætlun ESB, en þar er einmitt Skotlandsstrengurinn "Ice Link" eitt skráðra verkefna.  Með innleiðingu Þriðja bálksins hefur Ísland skuldbundið sig til að hlýða Kerfisþróunaráætluninni, og það verður staðfest með stofnun NOS, sem verður á íslenzku fjárlögunum. Af þessum ástæðum mun Ísland engra undanþágna njóta, sem máli skipta.
Sendiherrann hélt í greininni áfram að kasta ryki í augu lesenda Fréttablaðsins:
 
"Þar sem EES er tveggja stoða kerfi, munu þær valdheimildir, sem ACER fer með í aðildarríkjum EFTA, verða á vegum ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, á Íslandi, en Ísland er eitt aðildarríkja ESA."
 
Að láta ESA leika Orkustofnun EFTA er skrípaleikur, enda er afar takmörkuð þekking á orkumálum innan ESA.  ESA hefur engar heimildir til að breyta fyrirmælum ACER til NOS og mun sem milliliður ACER og NOS virka sem ljósritunarstofa.  Það er hreinræktuð blekking að nota ESA til að draga dul á þá staðreynd, að þetta fyrirkomulag felur í raun í sér valdaframsal frá íslenzkum orkuyfirvöldum og dómstólum til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER, og EFTA-dómstólsins, sem leggur ESB-réttinn til grundvallar í dómum sínum.
 
Sendiherrann er á hálum ísi, þegar hann tínir til BREXIT til að rökstyðja mál sitt:
"Jafnvel þótt sæstrengur til Bretlands verði einhvern tíma að veruleika [forgangsverkefnalisti ACER tilgreinir árið 2027 sem ár gangsetningar], myndi það ekki tengja Ísland við ESB-markaðinn, þar sem Bretland gengur úr Evrópusambandinu frá og með marz á næsta ári."
Það er enn óráðið, hvort Bretland gengur úr Orkusambandi ESB.  Báðir aðilar kunna að sjá hag sínum bezt borgið með óbreyttu ástandi þar.  Þótt Bretar gangi úr Orkusambandinu, munu rafmagnsviðskipti þeirra við ESB-löndin að sjálfsögðu halda áfram, og þeir mundu geta þjónað sem milliliður viðskipta á milli Íslands og ESB um "Ice Link".
 
Að lokum skal hér vitna í lokakafla greinar Michaels Mann, sem bregður ljósi á tvískinnunginn, sem einkennir málflutning embættismanna ESB:
 
"Evrópusambandið fagnar alltaf heilbrigðum skoðanaskiptum um stefnur og lög sambandsins og leggur sig fram um að tryggja, að EES-ríki, utan ESB, svo sem Ísland, geti sætt sig við reglubreytingar.  Það er þess vegna, sem Ísland fékk svo margar varanlegar undanþágur frá þriðja orkupakkanum."
EFTA-löndin fengu engar undanþágur frá Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, sem máli skipta. Sendiherrann vísar til hreins sparðatínings, enda er það nú meginstefna ESB við útgáfu gjörða, að ein stærð henti öllum ("one size fits all").  Það er óneitanlega holur hljómur í þessum orðum sendiherrans, þegar þess er gætt, að meginumkvörtunarefni EFTA- landanna er þvergirðingsháttur ESB gagnvart samningamönnum EFTA-ríkjanna, þegar hinir síðar nefndu fara fram á, að tveggja stoða fyrirkomulagið sé haldið í heiðri.  Formaður Sjálfstæðisflokksins kvartaði tvívegis undan þessu í þingræðum í vetur. 
Valdramsal til stofnana ESB á sviði orkumála, ACER, og á sviði persónuverndar, "Evrópska persónuverndarráðið", EDPB, eru dæmi um skýrt stjórnlagabrot á Íslandi og í Noregi, sem ESB þverskallast við að taka tillit til, en heimtar í æ ríkari mæli, að EFTA-ríkin þrjú lúti í einu og öllu sömu reglum og ESB-ríkin.  Þess vegna var margra ára þóf í Sameiginlegu EES-nefndinni um ACER-málið, og þess vegna er hún enn ekki búin að afgreiða nýju persónuverndarlöggjöfina frá sér.
Mjúkmæli sendiherra Evrópusambandsins um, að ESB leggi sig fram um, að EFTA-ríkin geti sætt sig við reglubreytingar frá ESB, horfir þveröfugt við Íslandi og Noregi.  Vilji ESB til að laga sig að sérkröfum EFTA-ríkjanna er sama og enginn núna, og þetta mun leiða til þess, að fyrr en síðar skilja leiðir, enda er nóg af öðrum valkostum á boðstólum.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ráðgjafi ráðherra hefur nú heldur betur komið að Evrópusambandinu og tekur fullan þátt í blekkingum þess. Íslendingar mega þakka þér Bjarni fyrir varðstöðu þína í þessu máli við fylgjumst vel með frábærum pistlum þínum með kærum kveðjum.  

Helga Kristjánsdóttir, 28.6.2018 kl. 15:39

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega fyrir, Helga Kristjánsdóttir.  Eigi skal láta deigan síga, enda mikið í húfi, og hjörðin andspænis ófrýnileg. Mikill meirihluti landsmanna er þó vel með á nótunum í þessu máli, og mun bregðast ókvæða við, ef svik verða í tafli. 

Bjarni Jónsson, 28.6.2018 kl. 18:46

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Það er vargur í véum. Ekki gat mér dottið í hug að Sjlálfstæðisflokkurinn væri sá vargur helstur, gegn eigin þjóð! Svona getur maður verið blindur fyrir fagurgalanum í uppstrílaðri elítu launráðamanna og kvenna. Forysta Sjálfstæðisflokksins í dag er kratískt skítasamansafn af jáurum og aulum. Hugsunarlausum amlóðum sem eru svo auðteymdir af bulluselsviðbjóðnum að liggur við að manni sundli og þarfnist uppsölu. Risastórri og ógeðslega sveittri, með matseðil síðustu viku "on display", hverjum þeim er kærir sig um slíkt útsýni á móðurjörðina. Forysta flokksina hefur ælt yfir allt það helsta sem samþykkt var á síðasta landsfundi, láti hún undan þessu rugli. Ælu sem er ekki tilkomin af slæmum eða skemmdum mat, heldur þægindum sem bjóðast, láti forystan undan. 

 Hafi kratasleikjur þessar skömm fyrir að vita ekki einu sinni í hvaða flokki þeir ættu helst að halda sig. Verst að ekki skuli enn hafa verið stofnaður égflokkurinn. Þar sæmdi þetta lið sér sennilega best, innan um dagsóbermið og annað nostalgíulið. Helst gangandi, hjólandi eða í stræ-dó.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan. (Arrrrrg)

Halldór Egill Guðnason, 29.6.2018 kl. 06:36

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þakka góðan pistil, að vanda.;-)

Halldór Egill Guðnason, 29.6.2018 kl. 06:38

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég get bara sagt, að það verður örlagaríkt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, ef ráðherrar hans og aðrir Alþingismenn munu ekki standa á rétti sínum og hafna Þriðja orkumarkaðslagabálkinum við atkvæðagreiðslu á Alþingi, líkt og veganesti þeirra frá síðasta Landsfundi kvað á um.  Hið sama á við um ráðherra og aðra þingmenn Framsóknarflokksins.  Miðflokkurinn mun væntanlega verða á móti, svo að það verða hæg heimatökin fyrir þá stuðningsmenn stjórnarflokkanna, sem ekki fella sig við, að flokkar þeirra greiði götu ESB inn á gafl orkumálanna hérlendis.  

Bjarni Jónsson, 29.6.2018 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband