Fiona Reilly og einpóla aflsæstrengur

Þann 14. júní 2018 birtist frétt í Viðskipta Mogganum um nýja viðskiptahugmynd fyrir aflsæstreng á milli Bretlands og Íslands. Þar var smáviðtal við Fionu Reilly, framkvæmdastjóra fyrirtækisins Atlantic Superconnection, sem kynnt hefur íslenzkum stjórnvöldum hugmynd starfsmanna fyrirtækisins um ódýrara sæstrengsverkefni með minni flutningsgetu en áður hefur verið í umræðunni. Þarna er óbein staðfesting á því, að fyrri sæstrengshugmyndir hafa ekki verið arðbærar. Er þessi útfærsla áhugaverðari frá íslenzkum sjónarhóli séð en fyrra fyrirkomulag ?

Fréttina bar að með undarlegum hætti.  Í stað þess að kynna þessa viðskiptahugmynd með formlegum hætti fyrir þjóðinni, læðist iðnaðarráðuneytið með veggjum og eftirlætur Bretum frumkynninguna í Viðskipta Mogganum.  Er það eftir öðru metnaðarleysi í þessu ráðuneyti, sem setti í maí 2018 á koppinn:

"starfshóp með aðkomu allra þingflokka til að vinna orkustefnu fyrir Ísland.  Er þess vænzt, að hópurinn leggi tillögur sínar fyrir ráðherra í byrjun árs 2020.  Meðal verkefna hópsins er að horfa til hugmynda um útflutning raforku frá Íslandi um sæstreng.  Morgunblaðið leitaði viðbragða ráðherra við hugmyndum Atlantic Superconnection um lagningu fyrrnefnds strengs, en engin viðbrögð komu frá ráðuneytinu."

Þetta stóð í baksviðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar, 15. júní 2018, í Morgunblaðinu, og sýnir, hversu rislágt þetta ráðuneyti er um þessar mundir, ráðuneyti, sem hvetur Alþingi til að kokgleypa Þriðja orkumarkaðslagabálk Evrópusambandsins (ESB) á þeim forsendum, að hann mundi hafa hér lítil sem engin áhrif hérlendis, svo lengi sem engin raftenging sé á milli Íslands og útlanda.  Þar er farið með rangt mál og litið framhjá þeirri staðreynd, að hlutverk téðs lagabálks er einmitt að færa ESB völd til að ryðja úr vegi hindrunum í einstökum löndum gegn nýjum og bættum raftengingum á milli landa.  "Oh, sancta simplicitas !"

Öll framganga iðnaðarráðuneytisins í sæstrengsmálum er óboðleg landsmönnum.  Ráðherrann getur í hvoruga löppina stigið og ætlar ekki að gera það fyrr en að tveimur árum liðnum. Einkafyrirtæki, sem stæði frammi fyrir brýnu úrlausnarefni um nýtingu náttúruauðlinda, sem það ætti afnotarétt á, mundi ekki geta varið slíkan seinagang fyrir hluthöfum sínum.  Liggur fiskur undir steini ?

Nú verður vitnað í téða frétt Viðskipta Moggans:

"Leggja til minni sæstreng":

"Strengurinn, sem AS hefur á teikniborðinu nú, er einpóla í stað tvípóla.  Sú útfærsla gerir því ráð fyrir einum streng í stað tveggja, sem er forsendan fyrir tvípóla tækni. Einpóla strengur yrði 60 % - 70 % ódýrari en strengur, sem byggði á tvípóla tækni."

Nafn fyrirtækisins, Atlantic Superconnection, gefur til kynna, að það þrói ofurleiðaratækni.  Sú tækni mundi vissulega koma sér vel á 1500 km leið frá Suð-Austur Íslandi til Norð-Austur Englands, þar sem fyrirtækið áformar landtöku sæstrengs og telur þá staðsetningu auka hagkvæmni þessa raforkuflutningsverkefnis m.v. landtöku á Skotlandi.  Ofurleiðni er þó ekki á dagskrá, en þó minni orkutöp en hefðbundið má búast við á svo langri leið, því að fyrirtækið býst við 5 % flutningstöpum, sem er helmingur af því, sem má vænta, að töpum í endamannvirkjum sæstrengsins meðtöldum. Kann þetta að stafa einvörðungu af hærri rekstrarspennu í streng AS en nokkur plasteinangrun hefur verið gerð fyrir hingað til.  Þar er þó komin aukin rekstraráhætta vegna óreyndrar tækni.

Að notast við aðeins einn leiðara virkar í hina áttina, þ.e. til aukinna tapa, en aukinn núvirtan tapskostnað í áranna rás af þessum sökum telur fyrirtækið greinilega munu verða lægri en núvirtan aukinn fjármagnskostnað af tveggja póla sæstreng.

Það eru fleiri meinbugir á einpóla útfærslunni.  Straumurinn til baka er leiddur um haf og jarðlög með því að grafa forskaut niður í hafsbotninn öðrum megin og bakskaut hinum megin.  Sæstrengur undir Eystrasalti á milli Svíþjóðar og Þýzkalands er 250 km að lengd á 450 kV spennu og getur flutt 600 MW, en aðeins frá Svíþjóð.  Forskautið er samsett af 40 títaníum möskvanetum, hvert um sig 20 m2, en bakskautið er óeinangraður koparhringur, 2,0 km í þvermál. Hættu af völdum rafstraums í náttúrunni þarf hér að meta og sömuleiðis truflanir af völdum segulsviðs á lífríki og búnað, t.d. siglingatæki.

Fiona Reilly hefur upplýst, að fyrirhugaður einpóla sæstrengur með endabúnaði eigi að geta flutt 600-700 MW og muni kosta miaGBP 2,0 eða miaISK 285 auk miaISK 50-80 fyrir flutningskerfi á Íslandi niður að lendingarstað sæstrengsins. Verða það engin smáræðis mannvirki. 

Án stórbilana er raunhæft að ætla, að slík mannvirki geti flutt 5000 GWh/ár af raforku.  M.v. 25 ára afskriftartíma og 8,0 %/ár ávöxtunarkröfu fjármagns í verkefninu, jafngildir þetta flutningskostnaði um 60 USD/MWh.  Þetta er 25 % lægri flutningskostnaður en með 1200 MW, tvípóla sæstreng, sem áður var í umræðunni.   

Fiona Reilly hefur upplýst, að hún geti selt þessa raforku í heildsölu á Englandi fyrir 65 GBP/MWh, sem samsvarar um 87 USD/MWh.  Þetta þýðir, að hún telur sig aðeins þurfa að borga 27 USD/MWh fyrir raforku inn á inntaksmannvirki sæstrengsins síns á Íslandi.  

Þetta yrðu hraksmánarleg viðskipti fyrir Íslendinga af eftirfarandi ástæðum:

  1. Sala raforku inn á sæstreng skapar engan virðisauka á Íslandi í mótsetningu við sölu raforku til t.d. álvera, þar sem um 40 % af veltu þeirra verður eftir í landinu að jafnaði. Ofangreint verð, 27 USD/MWh, er þar að auki aðeins rúmlega 70 % af núverandi verði til eins álversins hérlendis, sem samið var við um framlengingu raforkusamninga fyrir nokkrum árum, að flutningsgjaldi meðreiknuðu.
  2. Þvert á það, sem Fiona Reilly heldur fram í viðtali við Stefán E. Stefánsson, með fullri virðingu fyrir henni, munu raforkusamningar við sæstrengseiganda hækka raforkuverð til almennings á Íslandi.  Ástæðurnar eru í fyrsta lagi, að ætlunin er að þurrka alla ótryggða orku upp af markaðinum hér og senda hana til Englands.  Þetta er ódýrasta raforkan á markaðinum.  Samkvæmt Fionu er ætlunin að fá aðgang að 450 MW toppafli hér, en til þess þarf að bæta við yfir 400 MW af vélakosti, sem mun verða kostnaðarsamt og borgar sig varla, og víðast hvar þarf þá viðbótar fallgöng vatns, eins og í Búrfellsvirkjun 2. Í öðru lagi er ætlunin að bæta við einhverju lítilræði af virkjunum, 150-250 MW eru nefnd (um 30 % af heild í þessum viðskiptum) til orkuvinnslu.  Þetta lítilræði verður þá vafalaust fullnýtt í grunnorkusölu, sem þýðir, að almenningur fær engin afnot af þessum virkjunum.  Það er einmitt viðskiptahugmyndin með raforkusölu til stóriðju að byggja stærri virkjanir en hún þarf á að halda, svo að almenningur fái afnot af þeim virkjunum á hagkvæmum kjörum. Stóriðjan greiðir þannig niður raforkukostnað almennings með sanngjörnum hætti. Niðurlag viðtalsins við Fionu Reilly, sem birtist 14. júní 2018, bendir til, að hún hafi misskilið viðræðuaðila sína á Íslandi eða að þeir séu úti á þekju um þetta eðli íslenzka raforkukerfisins, sem er öðru vísi en hjá öðrum Evrópuþjóðum, nema Norðmönnum að nokkru leyti. Norðmenn búa hins vegar við mikið ónotað afl í sínum vatnsaflsvirkjunum utan hávetrartímans, þar sem þeir hita hús sín með raforku. Þessa vegna er út í hött hérlendis að benda til Noregs til að rökstyðja raforkusölu héðan um sæstreng.   
"Brezkur almenningur yrði stórnotandi að orku, sem annars myndi ekki nýtast hér á landi vegna eðlis hennar.  Því er engin ástæða til að halda, að þannig samningur um orku myndi hafa áhrif á verð á Íslandi frekar en samningar til annarra stórnotenda á Íslandi hafa gert í gegnum tíðina.", 
 
sagði Fiona Reilly í viðtalinu við Stefán. Þessi fullyrðing hennar stenzt sem sagt ekki skoðun.
 
Þetta einpóla sæstrengsmál, sem ber að með svo kyndugum hætti, ætti að verða hinni þverpólitísku nefnd, sem iðnaðarráðherra hefur skipað til að mynda landinu orkustefnu, ágætis sýnidæmi um það, að sæstrengslögn til útlanda, að undanskildum e.t.v. Færeyjum, er virkilega slæm viðskiptahugmynd fyrir íslenzka þjóðarbúið.
 
Það er löngu orðið tímabært af íslenzkum yfirvöldum að skrínleggja allar hugmyndir um orkusölu til útlanda um sæstreng og afskrifa þær sem þjóðhagslega óhagkvæmar.  Innlendar orkulindir ber að nýta til atvinnu- og verðmætasköpunar innanlands.  Slík stefnumörkun væri í góðu samræmi við þá stefnumörkun, sem vonandi verður ofan á, að Ísland gangi ekki í Orkusamband ESB og ACER til að verða einhvers konar "grænn rafgeymir" fyrir ESB-löndin, heldur varðveiti fullveldi sitt óskert á raforkumálasviði til að nýta auðlindina innanlands, m.a. til framleiðslu á útflutningsvörum til Bretlands og ESB-landanna.  
lv-kapall-kynning-april-2011
   

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Alþingi 22.3.2018 (eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins):

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði að "boðvald fyr­ir­hugaðrar eft­ir­lits­stofn­un­ar virkjaðist ekki fyrr en Ísland tengd­ist evr­ópska orku­markaðinum, líkt og yrði með sæ­streng, eins og Nor­eg­ur gerði.

Spurður hvort Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn styddi aðild Íslands að samn­ingn­um um Evrópska efnahagssvæðið sagði Bjarni svo vit­an­lega vera."

Þorsteinn Briem, 20.6.2018 kl. 15:12

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alþingi ræður að sjálfsögðu hvort Ísland tengist Bretlandi eða meginlandi Evrópu með sæstreng.

Evrópusambandsríkin geta ekki skipað einhverjum að virkja eitt og annað hér á Íslandi eða að leggja sæstreng á milli Íslands og Bretlands eða meginlands Evrópu.

Þorsteinn Briem, 20.6.2018 kl. 15:13

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á RÚV.is 17.4.2018:

"Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birti í dag minnisblað um áhrif orkupakkans frá Ólafi Jóhannesi Einarssyni lögmanni sem starfaði áður sem framkvæmdastjóri markaðssviðs ESA. Hans niðurstaða er að þriðji orkupakkinn breyti í engu heimildum íslenskra stjórnvalda að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindunum.

Ísland mun áfram hafa fullt ákvörðunarvald yfir með hvaða skilyrðum orkuauðlindir hér eru nýttar og hvaða orkugjafar eru nýttir.

ACER hefði engin áhrif á leyfisveitingar og stjórnsýslu hér á landi né heldur valdheimildir gagnvart einkaaðilum. Valdheimildirnar gagnvart EFTA löndunum verða hjá eftirlitsstofnun EFTA, ESA, en ekki hjá ACER.

Heimildir ACER að taka bindandi ákvarðanir ná einungis til orkumannvirkja sem ná yfir landamæri. Og þriðji orkupakkinn haggar ekki forræði Íslands að ákveða lagningu sæstrengs og að íslenska ríkið yrði eigandi hans."

Þorsteinn Briem, 20.6.2018 kl. 15:21

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég las einmitt þessa frétt í Viðskipta-Mogga og þótti grunsamleg.

Gef mér ekki tíma fyrr en seinna til að lesa og liggja yfir viðbrögðum þínum, Bjarni.

En á ESB-þjónustufúsa ekkifréttamanninum Steina Briem tekur enginn alvörumaður mark, að mér sé kunnugt um.

Jón Valur Jensson, 20.6.2018 kl. 17:56

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Steini Briem gerir því skóna hér að ofan með eigin orðum og tilvitnunum, að forysta ESB viti ekkert, hvað hún er að gera.  Hún vill, að öll aðildarríki Orkusambandsins og ACER séu tengd við "umheiminn" með flutningsgetu fyrir rafmagn, sem nemur minnst 15 % af uppsettu afli virkjana í viðkomandi landi.  Það er hvergi minnzt á það á um 600 bls. Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB, að hann virki alls ekki, ef flutningsgetan er 0 við inngöngu.  Þetta er hreinn tilbúningur búrókrata í iðnaðarráðuneytinu og þessa fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá ESA, sem Steini Briem ber svo mikla virðingu fyrir, að hann vitnar í hann hvað eftir annað.  Þetta er auðvitað tóm vitleysa, sem ætluð er auðtrúa mönnum á borð við Steina Briem.  Sannleikurinn er sá, að ACER hefur næg verkfæri í höndunum til að láta ágreining við íslenzk stjórnvöld um sæstreng til útlanda, t.d. Ice Link, sem er í Kerfisþróunaráætlun ACER á rannsóknarstigi, ganga til EFTA-dómstólsins, sem í þessu máli mun dæma eftir ESB-rétti, af því að fordæmi eru frá ESB-dómstólinum um úrskurði í ágreiningi við ríkisstjórnir um orkuflutninga.  Þá þarf ekki að efast um málalyktir.

Bjarni Jónsson, 20.6.2018 kl. 19:41

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Málið er vill einhver leggja streng yfir hafið annar en slendingarnir? Ef  sá aðili finnast þá mætti hann kaupa umfram raforku en Island a ekki að leggja strenginn period.

Valdimar Samúelsson, 21.6.2018 kl. 06:41

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Fiona Reilly og fyrirtæki hennar vill leggja einpóla sæstreng á milli Íslands og sæstrengs.  Sá strengur mun aðeins flytja orku í aðra áttina.  Það er engin og verður engin varanleg umframraforka á Íslandi, sem skapi grundvöll til útflutnings um sæstreng.  Ný frétt var í dag um, að RARIK verðleggur raforkuna svo hátt, að garðyrkjubóndi einn, sem fjárfest hefur MISK 30 í ljósabúnaði fyrir gróðurhús sín, verður að hætta við lýsinguna.  Þetta er vegna skorts á ótryggðri raforku að vetrarlagi og okurs dreififyrirtækisins á þjónustu við dreifbýlisstaði undir 50 manns.  Hið síðar nefnda á Alþingi að girða fyrir strax, og yfirvöld ættu að setja reglur um lágmarksorkuforða í landinu að vetrarlagi, sem mundi auka framboð ótryggðrar orku.  

Bjarni Jónsson, 21.6.2018 kl. 10:57

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

... á milli Íslands og Englands. (Fyrsta málsgrein í athugasemd nr 7.)

Bjarni Jónsson, 21.6.2018 kl. 21:55

9 Smámynd: Elías B Elíasson

Sæll Bjarni.

Atlantic Superconnection (ASC) ætlar að reisa verksmiðju í Englandi og framleiða stenginn sjálft, samanber frétt.

https://www.gazettelive.co.uk/news/teesside-news/huge-icelandic-underwater-cable-project-1ml811743

Það var athyglisverð grein breska sendiherrans í Mogganum nýlega, þar sem hann sagði "Bretar eru á leið út úr ESB, ekki Evrópu". Þetta gæti verið svar við grein sendiherra ESB á Íslandi í Fréttablaðinu fyrir stuttu, þetta gæti líka verið stuðningur við sæstrenginn, eða hvort tveggja. 

Á heimasíðu sinni talar ASC um yfirfljótandi orku á Íslandi. Ennig segja þeir aðspurðir um hvað íslensk stjórnvöld þurfi að gera, að Landsnet þurfi að tryggja að það sé í lagi að tengja sæstrenginn við neið, svona eins og þett aé ekki mál stjórnvalda. Það kann að vra þeirra álit, að þar sem þetta sé á skrá yfir Projects of Common Intrest að tillögu Landsnets þá sé samþykki stjórnvalda gefið. Þeir virðast líka telja enkaframkvæmd vænlegri en opinbera í þessu máli samkvæmt heimasíðunni. (Skoðaðu FAQ hjá þeim) 

ASC virðist hafa eitthvað losarlegar upplýsingar um orkumál hér, eða þá stuðning sem fyrirtækið telur óbrygðulann.     / Kveðja Elías.

Elías B Elíasson, 23.6.2018 kl. 12:39

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Fiona Reilly vinnur fyrir brezka kjarnorkuiðnaðinn, en mér þykir fyrirtækið Atlantic Superconnection vera fremur dularfullt.  Fiona hefur greinilega sambönd innan brezku stjórnsýslunnar, og grein brezka sendiherrans var engin tilviljun.  Við sjáum hér nýja birtingarmynd af átökum um Atlantshafið á milli meginlands Evrópu og Bretlands.  

Það er áhyggjuefni, hvers konar upplýsingar Fiona hefur fengið um orkumál á Íslandi.  Hún lætur, eins og hvorki Rammaáætlun né lögformlegt umhverfismat séu á leiksviðinu.

Ég var að senda henni nokkrar spurningar varðandi þennan einpóla streng.  

Með góðri kveðju / 

Bjarni Jónsson, 23.6.2018 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband