9.8.2018 | 13:33
Evrópa er í losti - hvað svo ?
Framkoma Donalds Trump gagnvart leiðtogum hefðbundinna bandamanna Bandaríkjamanna í Evrópu er einsdæmi á okkar tímum og gerist e.t.v. einu sinni á 200 ára fresti, nema einhver skaðvænleg þróun eigi sér nú stað í framkomu ríkja í millum. Hvað sem í skerst á næstunni, jafnvel þótt bandaríska þingið taki fram fyrir hendur forsetanum, hefur þegar orðið trúnaðarbrestur yfir Atlantshafið, og kalt stríð virðist hafið yfir Kyrrahafið. Á þetta horfa Rússar og núa saman höndum af ánægju. Fundur Trumps og Putins í Helsinki í júlí 2018 olli miklu fjaðrafoki í Washington DC, sem vonlegt er, og sennilega angist í Berlín, Brüssel og París. Þjóðverjar hafa nú gert sér grein fyrir, að ekki dugir lengur að hafa varnir landsins í algerum ólestri, eins og reyndin hefur verið á þessari öld.
Ef einhvers konar söguleg þróun endurspeglast í gjörðum Bandaríkjamanna undanfarið, þá er hún helzt sú á viðskiptasviðinu, að dagar tollabandalaga eru taldir, en tími tvíhliða viðskiptasamninga er runninn upp. Hvaða skjól hafa Þjóðverjar af ESB, ef vera þeirra þar veldur álagningu hárra tolla á bílaútflutning þeirra til Bandaríkjanna, BNA, eins og Bandaríkjaforseti hefur hótað, en nú dregið í land með um sinn ?
Atburðirnir ýta eindregið undir það, að Ísland segi upp EES-samninginum, en bindi ekki trúss sitt við tæknilegar viðskiptahömlur hins pólitíska tollabandalags ESB, sem er auðvitað líka stjórnmálabandalag með löngun til að verða sambandsríki á heimsmælikvarða, sem forseti Bandaríkjanna hefur lýst yfir, að sé versti andstæðingur Bandaríkjanna á viðskiptasviðinu. Þá er nú langt til jafnað, þegar viðskipti Bandaríkjanna og Kína eru höfð í huga.
Hvaða áhrif hefur þetta ástand á ESB ? Það aukast líkur á, að enn meir kvarnist úr bandalaginu, þegar einhver mynd kemst loksins á viðskilnað Breta, en nú er allt upp í loft í þeim viðræðum, enda ríkisstjórn Bretlands stórlöskuð. Verður því samt ekki trúað, að Bretar fari með hálfvelgju út úr ESB, verði í tollabandalagi áfram, jafnvel á Innri markaðinum með fjórfrelsin í einhverri mynd virk og Evrópudómstólinn sem úrskurðaraðila í þrætum þeirra við ESB. Þá er líklegt, að lífi verði blásið í UKIP, sem nái svo miklu fylgi af hægri væng, að Verkamannaflokkurinn nái völdum með erkisósíalistann og þjóðnýtingarsinnann Corbyn sem húsbónda í nr 10 (Downing Street). Það yrði afturhvarf til fortíðar fyrir Breta, þegar þeim hins vegar ríður á leiðtoga með framtíðarsýn fyrir öflugt Bretland utan ESB, sem stendur frjálst að gerð viðskiptasamninga við hvern sem er, og verður í fylkingarbrjósti frjálsra alþjóða viðskipta innan vébanda WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, sem Bandaríkjamenn leika svo grátt um þessar mundir. Þeir neita m.a. að samþykkja dómara í 7 manna úrskurðarteymi, en allar aðildarþjóðirnar, rúmlega 130, verða að samþykkja dómaraskipunina. Þar með lama Bandaríkjamenn þessa mikilvægu alþjóðastofnun. Vonir standa til, að þeir sjái sig um hönd.
Það er ekki síður áhugavert, hvernig Þjóðverjar taka nú á málaum. Munu þeir stökkva inn í tómarúmið, sem Bandaríkjamenn skilja eftir sig á alþjóðavettvangi ? Þar er mikil gerjun í gangi. AfD (Alternative für Deutschland) togar miðju stjórnmálanna til hægri þar í landi. Þetta sést mjög greinilega í Bæjaralandi núna í aðdraganda þingkosninga í október 2018, þar sem AfD getur kostað valdaflokkinn CSU ríkjandi stöðu í fylkinu. Ef stjórnmál Þýzkalands hnikast til hægri, jafngildir það sjálfstæðari stefnumörkun innanlands og í utanríkismálum. Þetta gæti aukið enn á innbyrðis vanda ESB, en þar rekast Austur-Evrópuríkin mjög illa. Þau hafa t.d. neitað að taka við nokkrum flóttamanni, en Þjóðverjar sitja uppi með 1-2 milljónir slíkra og fyrirséð, að fólkið á erfitt með að fá vinnu, aðlagast þar með seint og illa og verður að skjólstæðingum almannatrygginga fyrir vikið. Þetta er undirrót óánægjunnar.
Frá því að Gústaf 2. Adolf, Svíakonungur, tók þátt í 30 ára stríðinu með mótmælendum, sem var borgarastyrjöld í Þýzkalandi 1618-1648, og kannski lengur, hafa sterk og fjölþætt tengsl verið á milli Svía og Þjóðverja. Þetta kom berlega í ljós í báðum heimsstyrjöldunum á 20. öld.
Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra Svíþjóðar, fylgist vel með stjórnmálum Þýzkalands og skrifaði grein um þau, sem birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2018 undir fyrirsögninni:
"Orrustan um sál Þýzkalands".
Orrusta um sama málefni hefur áður verið háð. Niðurstaðan ræður jafnan örlögum Evrópu. Fyrirsögnin hefur þess vegna djúpa og áhrifamikla skírskotun. Carl Bildt skrifaði m.a.:
"Á yfirborðinu er umræðan, sem nú heltekur Þýzkaland, um, hvort það eigi að senda hælisleitendur, sem þegar hafa verið skrásettir í öðrum ESB-ríkjum, til baka, eins og innanríkisráðherrann, Horst Seehofer, leiðtogi kristilegra í Bæjaralandi (CSU), hefur talað fyrir. En þegar kafað er dýpra, er spurningin fyrir Þýzkaland, hvort landið ætti að fara sínar eigin leiðir eða halda áfram að leita sameiginlegra lausna."
Varðandi hælisleitendur er þegar þrautreynt, að það finnast engar sameiginlegar lausnir innan ESB eða innan Evrópu. Mörg ríki ESB hafa harðneitað að taka við flóttamönnum, þannig að Þýzkaland situr enn uppi með yfir eina milljón flóttamanna frá 2015, sem ætlunin var að dreifa á ESB-ríkin. Nú er ósköpunum eitthvað að linna í Sýrlandi, þannig að ætla mætti, að margir Sýrlendinganna gætu snúið heim til að taka þátt í uppbyggingunni. Það er einboðið að fylgja reglunum og senda þá, sem eru skráðir inn í Evrópu annars staðar, þangað.
Evrópa hvorki getur né vill taka við efnahagsflóttamönnum, sem margir hverjir eru hvorki læsir né skrifandi á latneskt letur, en uppfullir af fornaldargrillum Múhameðs úr Kóraninum og hafa engan vilja til að laga sig að vestrænum hugsunarhætti og lifnaðarháttum. Velferðarkerfi Vesturlanda fara á hliðina, ef slíkum byrðum verður hlaðið á þau. Þess vegna má víða greina sterk varnarviðbrögð á meðal almennings, og Svíþjóðardemókratarnir gætu t.d. fengið meira en fjórðungsfylgi í þingkosningum í Svíþjóð í september 2018 og þar með orðið stærsti flokkurinn í Riksdagen.
Síðar í grein sinni skrifar Carl Bildt:
"Árás þjóðernissinnaðra afla á sýn Kohls [Helmut Kohl var kanzlari Þýzkalands í 16 ár, þ.á.m. þegar Austur-Þýzkaland var innlimað í Sambandslýðveldið Þýzkaland-BRD árin 1989-1990, 40 árum eftir stofnun BRD úr rústum hluta Þriðja ríkisins-innsk. BJo.] gæti haft afleiðingar í för með sér, sem næðu langt umfram deiluna um innflytjendamál. Það er ekki bara hlutverk Þýzkalands í Evrópu, sem er í húfi, heldur einnig framtíð samrunaferlis Evrópu. Þýzkaland, sem varpar af sér arfleifð Kohls, myndi allt í einu verða uppspretta mikillar óvissu, frekar en brjóstvörn stöðugleikans í hjarta Evrópu. Þar sem Vesturveldin eiga þegar undir högg að sækja frá mönnum eins og Vladimír Pútín, Rússlandsforseta, og Donald Trump, Bandaríkjaforseta, væri það hið síðasta, sem Evrópa þarfnaðist."
Þetta er að nokkru úrelt greining á stöðunni. Þjóðverjar kæra sig ekki um meiri samruna Evrópuríkjanna, af því að þeir vita sem er, að ekkert ríki ESB hefur áhuga á meiri samruna, nema hann auðveldi þeim að krækja í þýzka peninga, sem alþýða Þýzkalands hefur unnið fyrir og sparað til elliáranna, en hið sama verður ekki sagt um rómönsku þjóðirnar, og slavarnir berjast enn við spillingarhít kommúnistastjórna Kalda stríðsins.
Bandaríkjamenn hafa kastað pólitískum sprengjum inn í ESB-samstarfið og NATO. Donald Trump hefur úthúðað kanzlara Þýzkalands, heimtað 70 % aukningu strax á framlögum Þjóðverja til varnarmála og hótað háum tollum á bíla, sem ESB-ríkin flytja út til BNA. Þetta mun hrista ærlega upp í stjórnendum Þýzkalands og færa þeim heim sanninn um, að þeir verða að setja hagsmuni síns eigin lands í forgrunn stjórnmálastefnu sinnar, þótt slíkt verði á kostnað samstarfsins innan ESB og þó að afturkippur komi jafnvel í samrunaferlið. Þýzkur almenningur er þarna á undan leiðtogunum í Berlín, eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum undanfarið og mun sýna sig í næstu fylkiskosningum, sem haldnar verða í Bæjaralandi í október 2018.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Heimspeki, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Ég vil benda á, að allt talið um "Rússa" í þessu sambandi er bara ... þvaður. Kanski sterkt til orða tekið, en mér er ekki vel til laga orðin. Rússar viðurkenna sjálfir þá hörmunga sem aðgerðir bandaríkjanna hafa haft á landið. Og hatur manna gegn Rússum, má hreinlega líkja við "gyðingahatur" ... svo langt gengur þetta. Rússar hafa ekki gert neitt, sem USA sjálft hefur ekki gert tíu sinnum meir. Saudi Arabia "krossfestir" fólk, árið 2018 ... og teljast "vinir" okkar hér. Rússar horfa á eigur sína rýrna ... meðan EU og USA núa saman höndum af gleði. EU og USA komust að "samkomulagi" þannig að ekkert verður stríðið á milli þeirra ... en olía og gas hefur hækkað svo í verði að USA mun græði, þrátt fyrir geigvænlegan kostnað við framleiðsluna.
Bandaríkjamenn eru "harðsvíraðir" og andskotanum klókari. Evrópubúar eru "heimskari" en heimskasti sauður ... Íslandi væri best að halda sér hlutlausum, en hefur ekki vit til þess.
Örn Einar Hansen, 9.8.2018 kl. 19:01
Er sammála Bjarne, íslendingar eiga að halda sér hlutlausum og segja upp EES samningnum, sem dregur landið inní hagsmunadeilur stórveldanna. Smáþorp á hjara veraldar á ekkert erindi í þær milliríkjadeilur.
Kolbrún Hilmars, 10.8.2018 kl. 15:22
Það á að halda sér frá viðskipti við ESB.
Merry, 10.8.2018 kl. 18:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.