3.9.2018 | 20:26
Hvers konar stríð er þetta ?
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sérfræðilæknar hafa ekki fengið samning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um að veita eigin stofuþjónustu með kostnaðarþátttöku SÍ. Það er jafnframt ljóst, að læknarnir uppfylla öll skilyrði, sem hingað til hafa verið sett að hálfu SÍ fyrir samningi, og SÍ hafa verið fúsar til að semja, en heilbrigðisráðherra hefur með gerræðislegum hætti komið í veg fyrir samninga í hátt í tvö ár.
Hér skal draga stórlega í efa, að núverandi ríkisstjórn styðji þetta fáheyrða stríð Svandísar Svavarsdóttur við læknastéttina í landinu, heldur er ástandið birtingarmynd á öngþveiti, sem hugmyndafræðileg slagsíða við stjórnun heilbrigðiskerfisins hefur í för með sér. Afleiðing hennar verður dýrari og verri þjónusta við skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins, allt of hæg endurnýjun í læknastétt og stöðnun þekkingarþróunar í greininni, sem þá þýðir hlutfallslega afturför m.v. nágrannalöndin.
Það er ömurlegt, að þessi staða skuli vera uppi á Íslandi 2018, en hún er afleiðing ríkjandi stöðu ríkisvaldsins við veitingu heilbrigðisþjónustu í landinu. Við því verður væntanlega lítið gert á næstunni, en það verður að sníða verstu agnúana af kommúnístísku kerfi, til að það virki almennilega (eins og kínversku kommúnistarnir vita og framkvæma daglega), og til þess þarf líklega atbeina Alþingis.
Til merkis um alvarleika málsins er heilsíðugrein í Morgunblaðinu 4. ágúst 2018 eftir kunnan og mikils metinn lækni, Sigurð Björnsson,
" Heilbrigðisþjónusta á Íslandi-hver er staðan og hvert stefnir ?".
Þetta var yfirlitsgrein um þróun og skipulag heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Hún var afar fróðleg og málefnaleg, en ekki fór á milli mála, að höfundurinn hafði miklar áhyggjur af núverandi stöðu, sem virðist stafa af steinbarni rökþrota ráðherra. Verður nú gripið niður í greinina:
"Nýjasta ráðstöfun heilbrigðisyfirvalda er sú að bregða fæti fyrir unga lækna, sem lokið hafa sérnámi og hyggjast koma til starfa á Íslandi með nýjustu þekkingu, og hefja störf innan heilbrigðisþjónustunnar með sama hætti og forverar þeirra hafa gert til þessa.
Þeir fá ekki að starfa eftir samningi við Sjúkratryggingar Íslands, eins og þeir, sem fyrir eru, þannig að sjúklingar, sem til þeirra leita, þurfa að bera allan kostnaðinn af læknisheimsókninni sjálfir og eru þannig sviptir sjúkratryggingum, sem þeir hafa greitt iðgjöld fyrir frá unglingsaldri.
Með þessu eru yfirvöld að innleiða mismunun, þar eð Tryggingarnar taka þátt í greiðslu fyrir þjónustu hjá sumum læknum, en ekki fyrir sömu þjónustu hjá öðrum læknum. Þetta eru nýmæli, sem ganga þvert á vinnureglur Trygginganna og yfirlýsta stefnu yfirvalda til þessa.
Ég fæ mig ekki til að rökræða þessa aðför yfirvalda að heilbrigðisþjónustunni; ég trúi því einfaldlega ekki, að við þessa ákvörðun verði staðið."
Hér er um siðlaust og kolólöglegt athæfi ráðherrans að ræða, sem ríkissjóður tapar stórfé á, eins og síðar verður sýnt fram á. Ef hvorki ríkisstjórn né Alþingi taka fram fyrir hendur hins ofstækisfulla ráðherra, verður að reka málið fyrir dómstólum, því að framferðið er kolólöglegt. Það er ráðizt gegn atvinnufrelsi lækna, sem varið er í Stjórnarskrá, eins og atvinnufrelsi annarra stétta. Það er brot gegn lögum um heilbrigðiskerfið, þar sem öllum sjúklingum er tryggður jafn réttur, en hér er um fjárhagslega mismunun að hálfu ríkisins að ræða eftir vali sjúklings á lækni. Hvernig er hugarheimur stjórnanda, sem hagar sér svona ?
"Því er ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda, ef áfram á að hindra íslenzka lækna með sérfræðimenntun frá erlendum þekkingarsetrum í því að snúa heim og halda áfram að tryggja hér á landi heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki. Þjóðin á það ekki skilið af stjórnmálamönnum eða embættismönnum, sem allir eru í starfi og á launaskrá hjá íslenzku þjóðinni.
Samtök lækna og aðrir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar eru sem fyrr reiðubúnir að starfa með yfirvöldum að því að bæta þjónustuna og laga hana að breyttum ytri aðstæðum. Þá þyrfti fyrst að skilgreina vandamálin og leggja síðan fram samstilltar tillögur til lausnar."
Vandamálið er of lítil samkeppni þeirra, sem þjónustuna veita, af því að ríkið er yfir og allt um kring í þessum geira. Þess vegna hefur hann logað í illdeilum um kaup og kjör, af því að of lítil samkeppni er um vinnuaflið. Það þarf að breyta fjármögnun ríkisstofnana á borð við Landsspítalann frá því að vera tilgreind fjárhæð á fjárlögum í að verða greiðslur fyrir verk, sem verkkaupinn, Tryggingastofnun/Sjúkratryggingar getur þá í sumum tilvikum valið verktaka að.
Kostnaður við heilbrigðisgeirann vex stjórnlítið ár frá ári, og þessi þróun ógnar stöðugleika ríkisfjármálanna til lengdar litið. Þetta er sjúkleikamerki á kerfinu, því að Íslendingar ættu ekki að búa við lakari heilsu en aðrar vestrænar þjóðir, þar sem mengun er hér miklu minni, nóg af hreinu vatni og þjóðin yngri en aðrar, t.d. í Evrópu. Sigurður Björnsson reifaði þetta vandamál:
"Margir þættir hafa leitt til þess, að kostnaður við heilbrigðisþjónustu hefur vaxið gífurlega á síðustu áratugum; aukin þekking á orsökum og eðli sjúkdóma, þróun tækjabúnaðar, þróun og framleiðsla lyfja, flóknar byggingar fyrir heilbrigðisþjónustu, menntun heilbrigðisstétta, teymisvinna (aðkoma margra stétta að lækningu hvers sjúklings). Sumar þjóðir hafa ekki náð að tileinka sér framfarir í heilbrigðisþjónustu og þannig dregizt aftur úr þeim þjóðum, sem betur standa."
Það eru nútíma lifnaðarhættir, óhollt matarræði, hreyfingarleysi, mikið lyfjaát og notkun vímugjafa, sem eyðilagt hafa heilsu fjölmargra. Tækniþróunin hefur gert heilbrigðisstarfsfólki kleift að fást við sjúkdómana, sem af þessum lifnaðarháttum leiða, og sömu sögu er að segja af hrörnunareinkennum, sem verða stöðugt algengari vegna meira langlífis en áður. Almenningur er ekki nógu meðvitaður um gildi forvarna og mótvægisaðgerða upp á eigin spýtur án aðkomu heilbrigðiskerfisins, heldur reiðir sig á það, þegar allt er komið í óefni.
Samfélagið greiðir bróðurpart kostnaðar heilbrigðiskerfisins, og almenningur er jafnvel ómeðvitaður um kostnaðinn. Það er ekki kyn, þó að keraldið leki.
Sigurður Björnsson reifaði fjármögnunina:
"Síðar varð Tryggingastofnun ríkisins til, og iðgjöldin voru innheimt með annarri skattheimtu hins opinbera. Jafnframt voru sett lög og reglur um skipulag heilbrigðisþjónustunnar, þar sem gæta skyldi hagsmuna fólksins í landinu, og tíundaðar voru skyldur lækna og annarra starfsmanna. Þannig varð til hugtakið heilbrigðiskerfi, sem að miklu leyti hefur verið fært undir stjórn embættis- og stjórnmálamanna í skjóli þess, að kerfið sé að mestu leyti fjármagnað af ríkissjóði (iðgjöldum fólksins til sjúkratrygginga), en lítið horft til þess, að heilbrigðisstarfsmenn hafa sjálfir þróað heilbrigðisþjónustu á Íslandi, sem er meðal þess bezta, sem þekkist."
Þetta ægivald embættis- og stjórnmálamanna yfir heilbrigðisþjónustunni er jafnframt hennar helzti Akkilesarhæll. Það er engin ástæða til að viðhalda þessu stórgallaða fyrirkomulagi, þótt greiðslur séu að mestu úr sameiginlegum sjóðum, heldur ber brýna nauðsyn til að auka fjárhagslegt og faglegt sjálfstæði stofnananna.
Um fjórðungur af útgjöldum ríkisins eða miaISK 209 fer til heilbrigðismála. Þetta hlutfall verður að hemja, því að annars munu aðrir nauðsynlegir þjónustuþættir ríkisins endalaust sitja á hakanum, t.d. vegakerfið, sem þarf stóraukin framlög, sem fartækjakaupendur og -rekendur standa reyndar ríkulega undir.
Skipting kostnaðar er þannig:
- Sjúkrahús: miaISK 92 eða 44 %
- Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa: mia ISK 48 eða 23 %
- Hjúkrun og endurhæfing: miaISK 47 eða 22 %
- Lyf og lækningavörur: miaISK 22 eða 11 %
- Alls miaISK 209
Í liðnum "heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa" eru greiðslur til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna um miaISK 12,5 eða 6 % af heild. Þessi upphæð stendur undir útseldum kostnaði yfir 300 lækna, þ.e. launakostnaði þeirra og 300 annarra starfsmanna auk húsnæðiskostnaðar og tækjabúnaðar.Þessi kostnaður er við þjónustu í 500´000 heimsóknum sjúklinga, sem er svipaður fjöldi og hjá göngudeildum Landsspítalans og heilsugæzlum höfuðborgarsvæðisins til samans.
Er einhver glóra í þeim málflutningi heilbrigðisráðherra, að færa eigi þjónustuna, sem þessi einkarekna starfsemi veitir, á göngudeildirnar og heilsugæzlurnar ? Nei, það er brennt fyrir það. Í fyrsta lagi geta þessir aðilar ekki tekið við þessari hálfu milljón heimsókna vegna aðstöðuleysis og sumpart þekkingarskorts, og í öðru lagi yrði slíkt mjög óhagkvæmt. Þvert á móti mætti spara ríkissjóði fé með því að auka hlutdeild hinnar einkareknu starfsemi á kostnað hinnar opinberu, því að einingarkostnaðurinn er með eftirfarandi hætti hjá sérfræðingum í lyflækningum sem dæmi:
- Á stofu: 8900 ISK/koma
- Á heilsugæzlustöð: 9600 ISK/koma
- Á göngudeild Landssp.: 13400 ISK/koma
Af þessu sést, að heilbrigðisráðherra berst ekki hinni réttlátu baráttu fyrir málstað skattborgarans, og ráðherrann berst heldur ekki fyrir málstað skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins, því að Sigurður Björnsson rekur það í grein sinni, að á tvo alþjóðlega gæðamælikvarða trónir íslenzka kerfið á toppinum. Það er engum vafa undirorpið, að starfsfólk á sjálfstætt starfandi lækningastofum á sinn þátt í þessum háu einkunnum íslenzka heilbrigðiskerfisins.
Þrátt fyrir að fá hæstu gæðaeinkunn er íslenzka heilbrigðiskerfis engan veginn dýrast, heldur var það í 8. sæti árið 2014 með kostnaðinn 3882 USD/íb og 8,9 % af VLF.
Það er hægt að auka skilvirkni íslenzka kerfisins enn meira með því að efla þá starfsemi, sem skilvirkust er, á kostnað óskilvirkari starfsemi. Einkareksturinn þarf því að efla, en ekki að rífa hann niður, eins og ráðherrann reynir á hugmyndafræðilegum forsendum. Þetta er grafalvarleg brotalöm í embættisfærslu ráðherrans. Ráðherrann hefur ekki látið sér segjast, heldur forherðist hún við gagnrýni. Allt ber þetta að sama brunni og ber vott um, að Svandís Svavarsdóttir rekur annarlegt erindi með embættisfærslu sinni og á ekki erindi í heilbrigðisráðuneytið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.