14.8.2018 | 13:44
ACER, halelúja
Á vegum Lagadeildar Háskólans í Reykjavík, HR, var að morgni 13. ágúst 2018 haldin þriggja klst ráðstefna með yfirskriftinni,
"Orkumál og EES-samningurinn-Hver eru áhrif þriðja orkupakkans ?"
Nærtækast er að skilja fyrirsögnina þannig, að ráðstefnan hafi átt að svara því, hver yrðu áhrif "þriðja orkupakkans" á orkumál Íslands og EES-samninginn. Þrátt fyrir fjölbreytt úrval fyrirlesara, sem voru 5 talsins, erlendir og innlendir, yfirgáfu áhugasamir gestir Lagadeildar fyrirlestrasalinn upp úr hádeginu án þess að fá skýr svör við þessu. Málið var ekki krufið til mergjar. Það er synd, því að salurinn var fullsetinn af ungum og gömlum og með örlítið gagnrýnni fyrirlesurum bæði á EES-samninginn og á Orkusamband ESB, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB snýst um, hefði verið varpað skýrara ljósi á áhrif innleiðingar þessa lagabálks í íslenzka lagasafnið á fullveldi Íslendinga yfir orkumálunum og EES-samninginn m.t.t. grunnreglunnar um tveggja stoða nálgun EFTA- og ESB-ríkjanna á ný viðfangsefni, sem nánast undantekningarlaust eiga uppruna sinn innan vébanda ESB.
Ef einhver gestanna hefur velt spurningunni í heiti ráðstefnunnar fyrir sér, þegar hann gekk út úr salnum í lokin, er ekki ólíklegt, að niðurstaða hans/hennar hafi orðið sú, að áhrifin verði engin, sem máli skipti. Þarna var hellt yfir gestina miklu magni upplýsinga, en þess var rækilega gætt að segja ekki alla söguna, og þess vegna varð niðurstaðan hættulega villandi.
Tökum aðeins tvö, dæmi: tveggja stoða kerfi EES og fullveldi lýðveldisins.
Stofnað verður embætti Landsreglara, sem yfirtekur raforkumarkaðseftirlitshlutverk Orkustofnunar, OS, og ráðuneytis, gefur út reglugerðir um Landsnet og yfirfer og samþykkir netmála og gjaldskrá Landsnets, ef Alþingi samþykkir þennan viðamikla lagabálk, sem vissulega er ekki saminn til einskis. Þetta embætti verður algerlega óháð íslenzkum yfirvöldum, þ.e. ráðuneytum, Alþingi og dómstólum. Ágreiningsefnum varðandi störf Landsreglara verður skotið til EFTA-dómstólsins.
Hver hefur eftirlit með og stjórnar Landsreglaranum ? Í ESB-löndunum er það Orkustofnun ESB, ACER, sem er samráðsvettvangur allra Landsreglaranna og jafnframt stofnun með forstjóra, sem er framlengdur armur "orkukommissara" framkvæmdastjórnar ESB. Hlutverk ACER er að sjá til þess, að "Evrópugjörðum" um orkumál sé framfylgt í öllum ESB-löndunum og að Kerfisþróunaráætlun ESB sé framfylgt, en á meðal verkefna þar er "Icelink", aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands, sem taka á í gagnið árið 2027. Ef ACER verður vör við misfellur í framkvæmd stefnunnar, eru þær tilkynntar til Framkvæmdastjórnarinnar, sem þá hamrar á aðildarríkinu, og hægt er að leggja ESB-sektir á einstök fyrirtæki fyrir brot á reglum. ACER getur þar af leiðandi orðið býsna íþyngjandi fyrir íbúana.
Það væri skýlaust brot á tveggja stoða reglunni og fullveldi EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands og Noregs, að láta sama fyrirkomulag gilda um þau. Þá var gripið til þess málamyndagjörnings að fela ESA-Eftirlitsstofnun EFTA hlutverk ACER EFTA-megin, þ.e. að vera Orkustofnun EFTA. Þetta er blekkingarleikur, umbúðir án innihalds, því að Landsreglarar EFTA-ríkjanna eiga ekki að setjast niður til skrafs og ráðagerða um tillögur og úrskurði ACER, og innan ESA verður engin orkuskrifstofa, sem fær það hlutverk að laga Evrópugjörðir frá ESB/ACER að hagsmunum EFTA-ríkjanna. ESB hefur enda alfarið hafnað slíkum valdheimildum til handa ESA, sem þýðir, að Evrópugjörðir á sviði orkumála og úrskurðir ACER, þar sem EFTA-ríkin munu hafa áheyrnarrétt án atkvæðisréttar, ef úr verður, munu verða endurskrifaðar orðrétt eða hreinlega ljósritaðar á bréfhaus ESA.
ESA sem milliliður á milli ACER og Landsreglarans hefur þar af leiðandi ekkert stjórnskipulegt gildi, og stjórnlagalega stendur eftir, að Orkustofnun ESB fær íhlutunarrétt um mikilvæga almannahagsmuni á Íslandi um embætti Landsreglarans. Þetta er skýlaust stjórnlagabrot og brot á upphaflegum EES-samningi. Alþingi verður að beita synjunarvaldi sínu í þessu máli, þegar það fær málið til afgreiðslu, enda er það örugglega í samræmi við þjóðarviljann samkvæmt skoðanakönnun, sem framkvæmd var sumarið 2018. Þá komast tveir stjórnarflokkanna ekki upp með að hundsa nýlegar, skýrar Landsfundar- og Flokksþingsályktanir í þessu mikilvæga máli án flokkslegs uppnáms og hrakfara í næstu kosningum, enda býður Miðflokkurinn nýja stuðningsmenn velkomna á forsendum varðveizlu fullveldis í orkumálum og á öðrum sviðum.
Auk þeirra málefna, sem hér hefur verið fjallað um, skipta fjárhagslegu hagsmunirnir í þessu máli mestu. Þeim voru ekki gerð verðug skil á umræddri ráðstefnu. Fyrst er að geta hræðsluáróðurs ACER-fylgjenda á Íslandi gegn því að fella þingsályktunartillögu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Íslandi. Jafnvel ráðherra mun hafa gert svo lítið úr sér í kaffihléi á téðri ráðstefnu að fullyrða, að Norðmenn yrðu fyrir stórtjóni, ef þeir kæmust ekki inn í Orkusamband ESB (vegna höfnunar Íslands). Tveir þingmenn á norska Stórþinginu komu hingað í vor gagngert til að segja við íslenzka þingmenn, að þeir skyldu ekki hugsa um norska hagsmuni, heldur ákveða sig á grundvelli íslenzkrar Stjórnarskrár og íslenzkra hagsmuna.
Norðmenn munu auðvitað áfram eiga viðskipti við ESB með gas, olíu og rafmagn, eins og hingað til, enda má benda á, að stærsti orkubirgir ESB, Rússar, eru ekki á leiðinni inn í ESB, og Bretar eru á leiðinni þaðan út. Það yrði norsku þjóðinni vafalaust þóknanlegt, að Íslendingar höfnuðu ESB/ACER yfirráðum hér, enda var mikill meirihluti norsku þjóðarinnar á öndverðum meiði við meirihluta Stórþingsins í vetur um afstöðuna til ACER. Það er algerlega óboðlegt, að ráðherra endurómi hræðsluáróður ráðuneytisfólks, sem andlega er gengið í björg og ESB á hönd hér, eins og í Noregi.
Verður íslenzka raforkukerfinu betur stjórnað undir reglusetningu og eftirliti Landsreglarans en undir núverandi stjórnskipan ? Á ráðstefnunni voru engin rök færð fyrir því, hvers vegna svo ætti að vera. Þó hafa heyrzt hjáróma raddir í þá veru hérlendis, en það er eiginlega af og frá. Landsreglarinn mun koma hér á fót markaðskerfi um raforkuviðskipti í anda Evrópugjörða, því að það er hlutverk hans. Sýnt hefur verið fram á, að slíkt kerfi leysir engin vandamál hér, en getur valdið stórvandræðum og jafnvel raforkuskorti. Lausn á öllum þeim vanda verður síðan boðuð á formi aflsæstrengs til útlanda, sem fella myndi hið nýja markaðskerfi á Íslandi inn í orkumarkað ESB (EES). Það þýðir, að iðnrekandi í Mið-Evrópu getur boðið í raforku á íslenzka markaðnum. Mun þá ýmsum kotbóndanum hérlendis þykja tekið að þrengjast um fyrir dyrum sínum. Hver einasti raforkunotandi á Íslandi mun til lengdar ganga með skertan hlut frá borði á þessum markaði. Það þýðir óhjákvæmilega lakari lífskjör á Íslandi en ella og minni samkeppnishæfni landsins um fólk og fyrirtæki.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:25 | Facebook
Athugasemdir
Jú, það er eitt af úrræðunum, sem andstæðingum aðildar Íslands að Orkusambandi ESB stendur til boða. Þingmenn stjórnarinnar ættu að gera sér grein fyrir þessu, því að samkvæmt þingræðisreglu er ríkisstjórn ekki sætt lengur, ef þjóðin hafnar stjórnarfrumvarpi, sem þingið samþykkti, í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Bjarni Jónsson, 14.8.2018 kl. 14:39
Frábær ertu, Bjarni, í þessari grein sem og í þínum fyrri um Acermálið.
Allir menn með viti, sem láta sig hag landsmanna varða, þurfa að kynna sér skrif þín.
Jón Valur Jensson, 14.8.2018 kl. 15:37
Tek undir með síðasta ræðumanni, en óttast að enginn ráðamaður sé að hlusta - eða hugsa!
Kolbrún Hilmars, 14.8.2018 kl. 18:22
Góð málefnaleg skilgreining Bjarni. Verður að stöðva þetta rán á orku landsmanna.
Gústaf Adolf Skúlason, 14.8.2018 kl. 18:29
Acer-málið er fullveldismál málanna á komandi hausti. Stöðva þarf Sjálfstæðisflokkinn í því að leyfa nokkrum ráðherra sínum að leggja því lið að gefa Evrópusambandsstofnun vald í okkar orkumálum, um sölu og dreifingu raforku. Svívirða væri að slíku á sama tíma og við minnumst 100 ára sjálfstæðis og fullveldis um okkar mál.
Krumlurnar burt, ESB!
Tökum sem flest þátt í því að efna til þjóðarsamstöðu gegn þessu fráleita, yfirvofandi þingmáli, eins og við gerðum svo mörg í Icesave-málinu. https://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/2221402/
Jón Valur Jensson, 14.8.2018 kl. 20:09
Kolbrún: við þá ráðamenn, sem ekki hlusta á varnaðarorð flokksmanna sinna og annarra, vil ég einfaldlega segja þetta: "það er of seint að iðrast eftir dauðann", og þá á ég við pólitískan dauðdaga. Það er nefnilega hárrétt, sem JVJ skrifar hér að ofan um, að ACER-málið verður aðalfullveldismálið haustið 2018. Hvorki ég né margir aðrir sjálfstæðismenn læt bjóða mér þvælu um, að skýr Landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins frá í vetur gegn ítökum ESB/ACER á orkumálasviði á Íslandi eigi bara alls ekki við innleiðingu á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB í íslenzka lagasafnið, af því að sá bálkur breyti engu á Íslandi. Slíku geta aðeins falsspámenn haldið fram.
Bjarni Jónsson, 14.8.2018 kl. 20:50
Þakka þér kærlega fyrir, Jón Valur Jensson, pistilinn þinn, sem þú gefur upp tengil að hér að ofan. Ég er einfaldlega sammála öllu, sem þar kemur fram, enda fæ ég ekki betur séð en við séum "bræður í andanum", hvað þetta Orkusamband ESB varðar.
Flokksforysta, sem ætlar að lítilsvirða ályktanir æðstu stofnunar flokks síns, er ekki á vetur setjandi. Það er óskandi, að stjórnarflokkarnir fari nú að taka af skarið um, hvaða afstöðu þeir og þingmenn þeirra ætla að taka til innleiðingar Þriðja orkubálksins. Guðlaugur Þór þykist vera bundinn af ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar og verði að leggja þingsályktun fram. Gott og vel, en aðrir Alþingismenn eru alveg áreiðanlega ekki bundnir af því að styðja þá þingsályktunartillögu, því að þá væri búið að afnema þingræðislegt lýðræði á Íslandi.
Bjarni Jónsson, 14.8.2018 kl. 21:13
Heill og sæll Bjarni og megir þú fá góðar þakkir fyrir fróðleg skrif um ACER málið. Hér er rætt af skynsemi.
Ég var staddur á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins þegar samþykkt var ályktun þess efnis að fundurinn hafnaði fullveldisafsali í orkumálum til erlendra stofnana.
Ef þingmenn og forysta flokksins ætlar að hunsa þessa samþykkt, er illa komið fyrir flokknum. Ég sendi ráðherra orkumálatölvupóst en hef ekkert svar fengið.
Ég tek undir orð ykkar Jóns Vals. Við sjálfstæðissinnar þurfum að standa saman gegn þessari ósvinnu, sama í hvaða flokki við stöndum.
Með góðum kveðjum,
Valur Arnarson, 15.8.2018 kl. 00:29
Almennir flokksmenn eiga ekki að þurfa að brýna forustuna til að fara að samþykktum landsfundar.
Ragnhildur Kolka, 15.8.2018 kl. 08:02
Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður til að verða sverð og skjöldur almennings í landinu í lífsbaráttu hans fyrir fjárhagslegu og stjórnmálalegu frelsi. Að fella landið undir sameiginlega stefnu ríkjasambands í Evrópu um orkumál samrýmist einfaldlega ekki grunngildum Sjálfstæðisflokksins. Margir sjálfstæðismenn eru orðnir órólegir yfir því, að þingflokkur flokksins hefur enn ekki gefið reykmerki til merkis um, að hann hafi mótað afstöðu sína til afgreiðslu þingsályktunar um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í lagasafn Íslands. Þingmenn hafa þó alls konar vörður til að fylgja á þeirri vegferð: Stjórnarskrá lýðveldisins, ályktanir síðasta Landsfundar og grundvallarstefnu flokks síns.
Bjarni Jónsson, 15.8.2018 kl. 11:05
Heyr, heyr vel mælt. Formaður Heimssýnar segir í viðtali við útvarp Sögu að það sé lítið frelsi í þeim viðskiptum þar sem einum aðila er gert að afhenda löggjafarvaldið til að fá að gera viðskipti. Nei við ESB vitnar í skrifin hér og er með á nótunum. https://www.facebook.com/SegjumNEIvidESB/
Gústaf Adolf Skúlason, 15.8.2018 kl. 11:19
Þetta er hárrétt athugað hjá formanni Heimssýnar. Ég hygg, að þetta fyrirkomulag viðskipta sé einsdæmi í heiminum, enda var þetta hugsað sem aðlögun að fullri aðild að ESB. EES-samningurinn er í eðli sínu bráðabirgða fyrirkomulag, sem nú er komið á leiðarenda, því að Ísland verður ekki að öllu óbreyttu aðili að ESB. Tvíhliða fríverzlunarsamningar eru það, sem koma skal.
Bjarni Jónsson, 15.8.2018 kl. 13:24
Tek undir öll orð ykkar, Bjarni, Gústaf og Haraldur, landvarnarmenn Íslands; og þakkir líka, aðrir hér.
Jón Valur Jensson, 17.8.2018 kl. 14:12
En Björn Bjarnason, fyrrv. ráðherra, hleypur út undan sér í þessu máli, óraveg raunar frá samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins um málið: "Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Um þetta hef ég því lent í langri ritdeilu við Björn á Facebók minni (eður Snjáldurskinnu :) ) þar sem Þorkell Ásgeir Jóhannsson flugmaður, Sigurður Þórðarson í Ginseng o.fl. koma einnig að umræðunni, auk flóttaraka ráðherrans fyrrverandi, en hér er þetta (og komnar nær 60 athugasemdir): https://www.facebook.com/jonvalur.jensson/posts/2246485142091738
Jón Valur Jensson, 17.8.2018 kl. 14:20
Bjarni Jónsson, 17.8.2018 kl. 15:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.