Henta ESB-reglur íslenzka raforkumarkaðinum ?

Á opinberum vettvangi, í aðsendum greinum til Morgunblaðsins og víðar, hefur skilmerkilega verið gerð grein fyrir því, að íslenzkum almenningi og fyrirtækjum í landinu, sem sagt raforkunotendum hérlendis, hentar illa fyrirkomulag Evrópusambandsins, ESB, á raforkumarkaði, en þar er um að ræða eins konar uppboðsmarkað, þar sem verðið ræðst af framboði og eftirspurn.

Meginástæða þess, að markaðskerfi ESB hentar ekki hér, er, að rekstrarkostnaður virkjana hér er óháður kostnaði frumorkunnar, vatns og jarðgufu, en kostnaður við þessa þætti getur hins vegar komið fram í stofnkostnaði, t.d. við öflun vatns- eða gufuréttinda.  Í ESB endurspeglast eldsneytiskostnaður hins vegar í raforkuverði hvers tíma, og samkeppni á milli orkuvinnslufyrirtækja er aðallega fólgin í að ná lágum fastakostnaði, sem fæst t.d. með því að reisa ný og hagkvæmari raforkuver en þau, sem fyrir eru í rekstri.  

Á Íslandi og í Noregi er þessu öfugt farið.  Nýjar virkjanir eru dýrari í stofnkostnaði per MW talið en hinar eldri.  Hver er þá hvatinn til að reisa ný raforkuver við slíkar aðstæður ?  Hugsanlega að auka markaðshlutdeild sína, en það er erfitt, ef selja þarf orku undir kostnaðarverði.  Lausn á þessu gæti verið sú að leggja auðlindargjald á orku frá eldri virkjunum, t.d. 20 ára og eldri.

Nú vill svo til, að við höfum lifandi dæmi um vandamál vatnsorkukerfis, sem starfar á raforkumarkaði eftir forskrift ESB, fyrir augunum.  Það er í Noregi.  Nú er þurrkaár þar, og miðlunarlón voru aðeins um 60 % full þann 12. ágúst 2018, en eru þá að jafnaði 75 % full.  Norðmenn verðleggja vatn miðlunarlónanna eftir magni og árstíma. Þegar allur miðlunartíminn er framundan, en lónin aðeins 60 % full, verður vatnið og þar með rafmagnið dýrt. Þess vegna hafa virkjunarfyrirtækin hækkað raforkuverðið, og verð til almennings hefur hækkað úr um 11,3 cEUR/kWh (evrusent á kWh) í yfir 20 cEUR/kWh eða meira en 77 % og fer enn hækkandi.  Þetta getur orðið almenningi mjög þungbært í vetur, því að hann kyndir hús sín með rafmagni, en svona virkar frjáls raforkumarkaður í hnotskurn.  

Virkjanafyrirtækin halda þó áfram að flytja raforku út, því að raforkuverð í Evrópu hefur fylgt olíuverði að miklu leyti og er hátt núna. Í ár hafa virkjanafyrirtækin norsku flutt út nettó 3,7 TWh (terawattstundir), tæplega 3 % af raforkuvinnslugetu Noregs, um sæstrengi til útlanda, og sá gjörningur veldur enn lægri stöðu miðlunarlóna og þar með hærra verði til almennings en ella.  

Ástæðan fyrir því, að raforkuútflutningur hefur ekki hækkað raforkuverðið í Noregi á undanförnum misserum er, að þess hefur verið gætt að halda hárri miðlunarstöðu, sem svarar til 10 TWh/ár af raforku.  Hérlendis er miðlunargetan miklu minni en í Noregi, og þess vegna mun fyrsti sæstrengurinn þegar hafa neikvæð áhrif á stöðu miðlunarlóna og hækka verðið til landsmanna, ef þá verður búið að taka upp markaðskerfi ESB.

Það er sjálfsagt hérlendis að verðleggja miðlunarforðann til að stjórna hæð allra lónanna og til að ákvarða verð á ótryggðri raforku, en það á ekki að láta lága miðlunarstöðu varpast yfir í verð á forgangsorku.  Almenningur á ekki að bera allar byrðarnar, eins og markaðskerfi ESB hefur í för með sér.  

Viljum við markaðskerfi raforku á Íslandi ?  Ef Alþingi hleypir Trójuhesti ESB/ACER, Landsreglaranum, inn fyrir "borgarmúrana" til að stjórna hér orkumarkaðsmálum, þá verðum við ekki spurð, ekki virt viðlits, því að Alþingi hefur þá leitt Evrópurétt inn á gafl á orkumálasviði, og það verður meginhlutverk Landsreglarans að innleiða hér markaðskerfi að forskrift ESB, og það mun hann geta gert án þess að spyrja kóng eða prest hér innanlands. Þeir eru þess vegna undarlega borubrattir, sem fullyrða út í loftið, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sé meinlaus og skerði ekki sjálfstæði landsmanna í orkumálum. 

Munu Landsreglarinn og ACER telja það samrýmast Evrópugjörðum um frjálsa samkeppni á raforkumarkaði, að einn aðilinn þar, Landsvirkjun, sé með yfir 80 % markaðshlutdeild ?  Það verður að telja harla ólíklegt, að 100 % ríkisfyrirtæki með algerlega ríkjandi stöðu á markaði fái að starfa þar í skjóli ESB-samkeppnislaga, sem þýðir, að Landsreglaranum ber að krefjast breytinga á eignarhaldi Landsvirkjunar og jafnvel uppskiptingar.  Um þetta munu rísa deilur í landinu, sem ekki munu enda fyrir íslenzkum dómstólum, heldur hjá EFTA-dómstólinum, og hann dæmir samkvæmt s.k. Evrópurétti, sem Ísland hefur þá undirgengizt með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  Forhertustu fylgjendur EES geta ekki haldið því fram, að forræði Íslendinga yfir samkeppnismálum á raforkumarkaði standi óskert eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins. 

Landsreglarinn mun hafa sitt fram í krafti innleiðingar Alþingis, og við höfum ekki hugmynd um í hverra höndum gullmyllan Landsvirkjun lendir.  Þetta mun valda gríðarlegri óánægju hérlendis og ekki síður verðsveiflurnar á rafmagni, sem af markaðsvæðingunni leiðir.  Hér skal vitna í Elías Bjarna Elíasson, verkfræðing, á Fésbók 15.08.2018 um þessi mál:

"Lögin segja, að hér skuli koma á fót frjálsum markaði, og fagleg athugun leiðir í ljós, að sá markaður ræður ekki við að útvega landsmönnum orku, sem er bæði örugg og ódýr."

Hér er komið svar við spurningunni í fyrirsögninni.  ESB-reglur henta íslenzka raforkumarkaðinum engan veginn. Það er svo bara túður út í loftið, að þær muni engin áhrif hafa hér fyrr en sæstrengstenging er komin á, og að þá tengingu höfum við í okkar höndum.  Það er ótrúlegt fleipur, sem veltur út úr blindum EES- og ESB-sinnum.

Ekki bætir úr skák, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB fylgir enginn kostur, nema í augum þeirra, sem telja aflsæstrengslögn til útlanda til ávinnings.  Þeir, sem kanna það mál, sjá þó fljótlega, að með Ísland inni á sameiginlegum raforkumarkaði ESB mundi almenningur og allur atvinnurekstur í landinu verða fyrir áfalli, því að eitt helzta samkeppnisforskot Íslands væri horfið.  Góðum lífskjörum á Íslandi hefði verið fórnað á altari ESB.

Stuðningsmenn innleiðingar téðs orkubálks halda því blákalt fram, að Íslendingar muni hafa í hendi sér leyfisveitingarvaldið vegna "Icelinks".  Þeir hinir sömu hafa ekki unnið heimavinnuna sína og hafa sennilega aldrei gert.  Það verður Landsreglarinn, sem semur öll viðskiptaleg og tæknileg skilyrði, sem umsækjandi um lagnarleyfi og rekstrarleyfi verður að uppfylla, og hann hefur auðvitað Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og Kerfisáætlun Landsnets, sem hann stjórnar í raun og veru, til hliðsjónar.  Ef umsækjandinn uppfyllir öll umsóknarskilyrðin, á hvaða forsendum ætlar Orkustofnun sem leyfisveitandi þá að hafna umsókninni ?

Setjum svo, að OS hafni af einhverjum ástæðum.  Þá mun umsækjandinn örugglega kæra höfnunina, og ágreiningurinn endar hjá EFTA-dómstólinum.  Hann dæmir málið einfaldlega eftir Evrópurétti, svo að ekki þarf að spyrja að leikslokum.  Það verður óbjörgulegt upplitið á þeim, sem lapið hafa vitleysuna upp hver eftir öðrum, að Íslendingar muni hafa leyfisveitingarvaldið í höndum sér.  Síðan eru dæmi um, að menn kóróni vitleysuna og haldi því fram opinberlega, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sé "meinlaus" !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Mun nokkuð reyna á ESB-reglur á Íslandi

nema að það verði komið upp sæstreng

á milli Íslands og einhverra ESB-landanna?

Jón Þórhallsson, 17.8.2018 kl. 18:03

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, svo sannarlega Jón Þórhallsson.  ESB-embættið, Landsreglari, verður stofnað strax eftir innleiðingu Þriðja orkulagabálksins.  Embættið verður óháð íslenzkum stjórnvöldum og reyndar engum háð, nema ESB/ACER (ESA er bara stimpilstofnun í þessu viðfangi).  Hlutverk Landsreglarans verður að breyta íslenzka raforkumarkaðinum, svo að hann starfi samkvæmt Þriðja bálkinum og samkeppnisreglum ESB.  Þetta jafngildir uppboðsmarkaði fyrir raforku á Íslandi og felur auðvitað í sér gjörbyltingu á þessu sviði.  Þar sem þetta er fákeppnismarkaður á Íslandi, er hætt við hækkun á meðalverði, og ef hillir undir afl- eða orkuskort, þá mun verðið rjúka upp.  Í stuttu máli mun þetta þýða lakari lífskjör og verri samkeppnisstöðu fyrirtækja á útflutningsmörkuðum.  

Bjarni Jónsson, 17.8.2018 kl. 19:58

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þannig að ef að þú þyrftir að velja á milli tveggja slæmra kosta

værir þú alveg með það á hreinu hvorn kostinn þú myndir velja?

1.Að segja upp öllum EES-samningnum?

2.Að vera áfram í EES og innleiða 3 orkumálapakkann.

Jón Þórhallsson, 18.8.2018 kl. 11:42

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð grein Bjarni. Jón stundum má hugsa dæmið á annan hátt hvap borgar sig eða ekki. Við erum sjálfstæð þjóð og eigum að koma okkur út úr þessu EES og ESB batteri en það eru ótal lög sem átti að vera í lagi að innleiða og var gert án nokkurs samráðs við neinn nema ráðuneytin fengu að ráða. Ég man skerstaklega eftir Össur þegar hann las upp mörg lög fyrir tómum sal á alþingi og sagði svo ráðuneytin taka þetta til sín. 

Valdimar Samúelsson, 18.8.2018 kl. 20:33

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það eru margir aðrir kostir í viðskiptalegum efnum, Jón Þórhallsson, EES, meingallaður EES-samningur, og þar á ég við tvíhliða fríverzlunarsamninga.  Það yrði engin eftirsjá að EES-samninginum, nema síður sé, enda brýtur hann í bága við Stjórnarskrána, og allar kvaðirnar, sem hann hefur í för með sér, henta ekki okkar litla samfélagi eða eru einfaldlega alltof dýrar í innleiðingu og í rekstri. 

Bjarni Jónsson, 19.8.2018 kl. 13:41

6 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þá er það spurningin hvort að þú náir að sannfæra sitjandi ríkisstjórn um kosti 

tvíhliða fríverzlunarsamnings.  

Jón Þórhallsson, 19.8.2018 kl. 16:05

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég lít svo á, að um þetta mál eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla.  

Bjarni Jónsson, 19.8.2018 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband