1.9.2018 | 17:00
Grasrótin er á tánum
Þeim, sem sóttu fund nokkurra hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í Valhöll síðdegis 30. ágúst 2018, blandast ekki hugur um, að grasrót Sjálfstæðisflokksins hefur þungar áhyggjur út af því, að þingmenn flokksins tala í véfréttastíl um afstöðu sína til Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB. Kjósendur flokksins eiga heimtingu á því, að þingmenn hans geri hreint fyrir sínum dyrum og segi hug sinn í þessum efnum. Þá kemur næst að kjósendunum að gera upp hug sinn til viðkomandi þingmanna. Margir munu ekki láta bjóða sér upp á þá afskræmingu lýðræðis, að þingmenn haldi í gagnstæða átt við vilja kjósenda í þessu stórmáli. Þá er komin upp gjá á milli þings og þjóðar, eins og gerðist í Noregi út af Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.
Sumir þingmenn segjast ekki eiga val við innleiðingu stórra Evrópugerða. Það er algerlega óboðlegur málflutningur í þessu "orkupakkamáli". Þingmenn eiga frjálst val. Það mun ekkert markvert gerast að hálfu ESB eða EFTA, þótt Alþingismenn hafni Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Norðmenn og Liechtensteinar munu einfaldlega gera sérsamning við ESB/ACER-Orkustofnun ESB um sín orkumarkaðsmál, enda báðar þjóðirnar vel tengdar við orkukerfi Evrópusambandsins.
ESB fær við synjun Alþingis heimild til að fella úr gildi fyrsta og annan orkumarkaðslagabálk sinn gagnvart EFTA. Það breytir engu fyrir Íslendinga og aðra, og þess vegna verður það líklega látið ógert. ESB hefur nóg á sinni könnu núna með viðskiptastríð við BNA og BREXIT í uppnámi.
Þingmenn mega fyrir alla muni ekki láta einfeldningslegan hræðsluáróður embættismanna heima og heiman, svo og erlendra ráðherra, hræða sig til að fremja óhæfuverk á Stjórnarskrá og innlendum raforkumarkaði. Kjósendur munu trauðla fyrirgefa það. Utanríkisráðherra ætti að spara sér köpuryrði á borð við, "að umræðan sé á villigötum" án þess að láta nokkrar útskýringar fylgja. Slík lágkúra er ekki ráðherra sæmandi.
Það er líka óboðlegt af ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gera hugmyndafræði ESB um viðskipti með raforku að sinni. ESB skilgreinir rafmagn sem vöru, og slíkt getur alveg gengið upp hjá þeim, en þegar "heilaþvegnir" Íslendingar, jafnvel ráðherrar, tönnlast umhugsunarlaust á þessu, og japla á, að þeir vilji gera greinarmun á auðlind og afurð, þá er of langt seilzt með rafmagnið.
Þeir segja jafnframt, að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur frjálsra viðskipta með vörur. Það er hverju orði sannara, en þar sem rafmagn er ekki vara hérlendis, heldur þessi röksemd ekki vatni.
Hvað er þá rafmagn ? Hefðbundin viðhorf til rafmagns á Íslandi og í Noregi er, að rafmagn sé afurð náttúruauðlinda, sem nýta ber allri þjóðinni til hagsbóta og öllum atvinnugreinum til verðmætasköpunar í öllum byggðum landsins. Með öðrum orðum ber að nýta hina endurnýjanlegu orku þessara landa til að efla samkeppnishæfni atvinnurekstrar í þessum löndum og til eflingar samkeppnishæfni þessara landa um fólk og fyrirtæki. Í stuttu máli á samkvæmt þessu hefðbundna viðhorfi á Íslandi og í Noregi að nota orkulindirnar til að bæta lífsgæðin í öllum byggðum þessara landa.
Þetta sjónarmið er algerlega ósamrýmanlegt viðhorfi ESB-forystunnar til rafmagns. Samkvæmt því viðhorfi á rafmagnið einfaldlega að fara til hæstbjóðanda. Ef þetta fyrirkomulag verður innleitt hér og hingað verður lagður aflsæstrengur, svo að við þurfum að keppa við útlendinga um "okkar eigin" orku, þá hrynur undirstaðan undan samkeppnisstöðu íslenzks atvinnurekstrar með tilheyrandi hruni lífskjara um allt land.
Þeir, sem af undarlegum undirlægjuhætti vilja þóknast vilja erlendra ráðamanna um, að Ísland gangi Orkusambandi ESB á hönd, halda því fram, að íslenzk stjórnvöld muni hafa síðasta orðið um það, hvort aflsæstrengur frá útlöndum verði tengdur íslenzku raforkukerfi. Þeir hinir sömu hafa illa kynnt sér málavexti eða tala sér þvert um geð. Það verður fulltrúi ACER á Íslandi, Landsreglarinn, sem setur alla skilmála fyrir slíkri tengingu. Ef umsækjandi um leyfi til slíkrar tengingar uppfyllir skilmálana, skortir Orkustofnun allar forsendur til höfnunar.
Hafni Orkustofnun samt, ber Landsreglara að tilkynna yfirboðurum sínum hjá ACER-Orkustofnun ESB þá höfnun sem brot gegn Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, sem Ísland verður skuldbundið til að fylgja með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB og innleiðingu hans í EES-samninginn, sbr Evrópugjörð nr 714/2009. Ennfremur er næstum öruggt, að umsækjandinn mun kæra þennan úrskurð beint til ESA, sem mun úrskurða honum í vil á grundvelli téðs orkulagabálks. Þverskallist íslenzk yfirvöld, kærir ESA íslenzka ríkið fyrir EFTA-dómstólinum, sem mun dæma á sama veg og ESA. Annaðhvort verður Orkustofnun þá að gefa sig eða ríkisstjórnin að segja EES-samninginum upp. Þá mun stefna í "harða útgöngu", sbr "hard BREXIT", sem varla er ákjósanleg staða. Þess vegna má halda því fram, að þeir, sem samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn séu þar með að leggja drögin fyrir markaðssetningu íslenzkrar raforku í erlendri raforkukauphöll, t.d. Nord Pool.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Bjarni, endar þetta kannski með því að taka verður Icesave á þetta og nýta málskotsrétt Forseta?
Hrossabrestur, 2.9.2018 kl. 11:51
Já, Hrossabrestur, það gæti orðið þrautalendingin.
Bjarni Jónsson, 2.9.2018 kl. 15:10
Þakka þér Bjarni fyrir baráttuþrek þitt fyrir okkar hönd. Þú átt heiður skilinn.
Ég hef það sterklega á tilfinningunni að íslenskir ráðamenn séu undir gífurlegri pressu, loforðum og/eða hótunum fari þeir ekki að vilja ESB. Nú reynir á að þeir standi með íslensku þjóðinni og það er gott til þess að vita að grasrót Sjálfstæðisflokksins er að vakna til lífsins. Nú þarf sú grasrót að herja á formann flokksins og ráðherra og stöðva þessa undanlátsemi við ESB. Ég hef aldrei haft þá fullvissu innra með mér að Bjarni formaður væri andvígur inngöngu okkar í ESB, mér sýnist á viðbrögðum hans að hann sé harður Evrópusinni innst inni.
Tómas Ibsen Halldórsson, 2.9.2018 kl. 17:09
Sæll Bjarni, þakkir fyrir góð skrif og greiningu málsins. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með skrifum þínum sem eru staðreyndum byggðar og mynda trúverðuga heild. Sjálfstæðistefnunni er vel komið með manni eins og þér. KKv
Gústaf Adolf Skúlason, 2.9.2018 kl. 19:24
Sömuleiðis Bjarni frábær grein og það er engum orðið treystandi lengur en þetta er allt á vegum Icelandic Deep state
Valdimar Samúelsson, 2.9.2018 kl. 20:10
Sæll, Tómas Ibsen;
Ég held það sé rétt hjá þér, að íslenzkir ráðamenn séu undir miklum og margvíslegum þrýstingi frá Evrópu um að berjast fyrir framgangi Þriðja orkumarkaðslagabálksins, svo að sömu reglur gildi á öllu EES-svæðinu. Þar af leiðandi eru þeir núna á milli steins og sleggju. Að mínu mati er þó valið einfalt. Því fylgir engin áhætta fyrir viðskiptatengsl landsins að afþakka þennan pakka. Eitthvað umfram ógildingu 1. og 2. orkupakkans er brot á EES-samninginum. Norðmenn hafa hafnað innleiðingu Evrópugjörða án þess, að fjöður hreyfðist í Brüssel, hvað þá í Berlín. Á Alþingi í vetur var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mjög gagnrýninn í garð ESB vegna brota þess á tveggja stoða kerfi EES og vaxandi óbilgirni í garð EFTA. Sú óbilgirni mun magnast við brotthvarf Breta úr ESB.
Bjarni Jónsson, 2.9.2018 kl. 20:58
Sælir, Gústaf Adolf og Valdimar;
Það á eftir að heyrast miklu meira frá aðildarfélögum Sjálfstæðisflokksins um allt land. Ef nauðsyn krefur verður hávaði, svo að drynur í fjöllunum.
Bjarni Jónsson, 2.9.2018 kl. 21:02
Ég vona að það drynji vel í fjöllunum Bjarni.Ég vona líka að þú sendir greinar þínar á Alþingismennina. Ég er með allar addressurnar
Valdimar Samúelsson, 2.9.2018 kl. 21:55
Þar sem getur drunið í fjöllum eru tiltölulega fáir Frónbúar. Það væri gáfulegra og skilvirkara að yfirgnæfa umferðina og hávaðann í höfuðborginni. Við í fjallakyrrðinni erum löngu búin að sjá í hverskonar óefni amlóðapólitík nútímans stefnir. Sammála þér Björn, sem og oftast.
Það verður alvarlegur trúnaðarbrestur innan Sjálfstæðisflokksins ef svo mikið sem tálgað verður af nögl í kringum þennan orkupakka.
Sindri Karl Sigurðsson, 2.9.2018 kl. 22:33
Þar kom að því að ég gæti tekið þátt í umræðunni um mitt hjartans mál framtíð Íslands;-sökum anna! Ég væri annars einöngruð því engin af kellingafansinum sem ég hitti reglulega nennir slíkum umræðum. Og hvað er fólk sem komið er í framlengingu í þessum lífsleik að pæla,? -- Bjarni,ég held að ég muni það rétt að fyrstu bloggfærslur um væntanlega þingsályktunartillögu að Ísland gangi Orkusambandi ESB á hönd,hafi komið frá þér. Hvar værum við stödd ef við ættum ekki menn eins og þig að.? Hvernig sem það atvikaðist þá er aðdáunarvert hve þú ert fylginn þér og heldur þessu máli gangandi.Þú hefur vakið risann landvætt Suðurlands sem mun vekja hina þrjá. Takk fyrir allt.
Helga Kristjánsdóttir, 3.9.2018 kl. 03:42
Sæll, Sindri Karl;
Nokkur hverfafélög Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík riðu á vaðið með myndarlegum hætti á fimmtudaginn. Ég efast ekki um eindregna afstöðu sjálfstæðismanna í öllum byggðum landsins gegn því, að Ísland gangi í Orkusamband ESB með innleiðingu orkulöggjafar sambandsins, sem er sniðin fyrir aðra hagsmuni en okkar. Ég bíð spenntur eftir ályktunum frá fleiri félögum sjálfstæðismanna.
Sæl, Helga: ég held það sé rétt hjá þér, að ég hafi fyrstur hérlendra manna í rituðu máli á vefnum bent á hætturnar, sem Íslendingum stafar af innleiðingu þessa 3. orkupakka. Athygli mín á málinu var vakin með Morgunblaðsgrein Norðmannsins Mortens Harper í október 2017. Umræðan var þá á fullu í Noregi að tilstuðlan norsku verkalýðshreyfingarinnar, sem óttaðist um afkomu félagsmanna sinna. Engin slík umræða var hér, og verkalýðshreyfingin tekur enn engan þátt hér. Þegar ég kynnti mér málið, sá ég strax, að um stórmál er að ræða hér líka.
Bjarni Jónsson, 3.9.2018 kl. 10:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.