19.9.2018 | 18:53
Er vit í að banna sæstrengslögn til útlanda ?
Nú er leitað logandi ljósi að ráðum til að fá meirihlutastuðning á Alþingi við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Það er mikið haft við, því að sumir embættismenn trúa því og dreifa þeim hræðsluáróðri til stjórnmálamanna og annarra, að sjálfur EES-samningurinn sé í húfi og þar með snurðulaust aðgengi að Innri markaði ESB/EFTA (nema Sviss). Hvergi er þó stafkrókur, sem styður martraðarkenndan söguburð af þessu tagi. Þvert á móti er gert ráð fyrir þeim möguleika í EES-samninginum, að þetta geti gerzt, enda talinn nauðsynlegur neyðarhemill, þegar Alþingi samþykkti samninginn árið 1993. Fyrirvarar við samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálksins eru að öllum líkindum vita haldlausir, eins og sjá má í viðhengjum með þessari færslu.
Þótt Alþingi kunni á nefndarfundi árið 2016 að hafa gefið leyfi til að halda áfram með Þriðja orkumarkaðslagabálkinn á vettvangi EES, þá var málið fullkomlega vanreifað á þeim tíma, og Alþingiskosningar hafa farið fram síðan. Núverandi þing er algerlega óbundið, þegar það tekur afstöðu til Þriðja orkumarkaðslagabálksins.
Það skal þó taka fram, að í utanríkismálanefnd hreyfði einn maður andmælum og hafði uppi varnaðarorð á þessum tíma. Sá var Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og kveikti hann manna fyrstur hérlendis á hættunum, sem þessu máli eru samfara. Mikilsverðir vanreifaðir þættir voru t.d., hvort innleiðingin færi yfir mörk leyfilegs framsals ríkisvalds, og hvaða áhrif uppboðskerfi raforku að hætti ESB hefði á auðlindastjórnun Íslendinga, raforkuverð í landinu og afhendingaröryggi raforku. Það er hægt að rústa gersamlega íslenzka raforkumarkaðinum, sem er einstakur í Evrópu, með því að beita á hann aðferðarfræði, sem sniðin er við gjörólíkar aðstæður að öllu leyti. Hér er of mikið í húfi, til að flaustursleg málsmeðferð eða einvörðungu lögfræðilegt mat sé landsmönnum boðleg. Það er ekki með réttu hægt að halda því fram, að við lokaafgreiðslu málsins verði Alþingi bundið af fyrri ákvörðun um að leyfa Sameiginlegu EES-nefndinni að halda áfram með málið, en auðvitað hefði verið betra, að þingið á þessum tíma hefði gert sínar athugasemdar og sett sín skilyrði. Það var ekki gert þrátt fyrir viðvörunarorð Frosta, og er það mjög ámælisvert.
Samkvæmt ákvæðum EES-samningsins hafa þjóðþing EFTA-landanna í EES fulla heimild til að grípa í neyðarhemil við lokaafgreiðslu málsins, ef þeim býður svo við að horfa, og synja tilskipunum og lagabálkum ESB-staðfestingar. Hefst þá samningaferli, og samkvæmt EES-samninginum má ESB ekki grípa til annarra gagnráðstafana en ógildingar samkynja gerða og hafnað var, þ.e.a.s. í þessu tilviki 1. og 2. orkumarkaðslagabálksins. Nú er nauðsynlegt að spyrna við fótum, og áhættan af því er hverfandi m.v. tjónið, sem hlýzt af því að leggja núverandi auðlindastjórnun fyrir róða og taka upp hreinræktaða spákaupmennsku með raforkuna, sem leiðir til slæmrar auðlindanýtingar, sveiflukennds raforkuverðs og aukinnar hættu á orkuskorti í landinu.
Iðnaðarráðherra hefur nú tilkynnt, að lagt verði fram á Alþingi í október 2018 frumvarp til laga um, að Alþingi skuli hafa síðasta orðið um lagningu sæstrengs frá útlöndum og tengingu hans við íslenzka raforkukerfið. Þetta mun vera hugsað sem ráð til að gera Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB heldur kræsilegri í augum Alþingis og almennings, en hér skal vara við svo ótraustri girðingu. Hún mun ekki halda túnrollum ESB réttum megin.
Þessi gjörningur er ekki til annars hæfur en að slá ryki í augu landsmanna. Bæði er óvíst, að þessi lagasetning verði nokkur vörn gegn sæstreng, er fram í sækir, vegna samsetningar þingsins og hins vegar mun umsækjandi um leyfi fyrir sæstreng vafalítið kæra höfnun þingsins fyrir ESA og ágreiningurinn hafna hjá EFTA-dómstólinum. Þá er það órökrétt, að löggjafarsamkoman troði sér með þessum hætti inn á verksvið framkvæmdavaldsins, en leyfisveitingar eiga skilyrðislaust þar heima.
Þá skellir iðnaðarráðherra skollaeyrum við vel ígrunduðum röksemdum um alvarlegar afleiðingar markaðsvæðingar raforkugerans á Íslandi án sæstrengs. Almenningur skynjar hættuna, framkvæmdavaldið er úti á þekju, einblínir á lögfræðileg formsatriði, en hugar lítt að raunverulegu innihaldi eða geigvænlegum fjárhagsafleiðingum, sem af rústun raforkumarkaðarins leiða. Hvort löggjafinn er með á nótunum, veit enginn enn.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð, iðnaðarráðherra, er þeirrar hyggju, eins og höfundar allra orkumarkaðslagabálkanna þriggja og þess fjórða, sem er á leiðinni, að rafmagn sé vara, sem ganga eigi kaupum og sölum til hæstbjóðanda á uppboðsmarkaði. Þetta er öndvert við viðtekin sjónarmið á Íslandi og í Noregi um, að raforkan sé afurð náttúruauðlindar og að viðskipti með afurðina verði ekki aðgreind frá nýtingu náttúruauðlindarinnar. Með öðrum orðum verða viðskipti með rafmagn á Íslandi að tengjast auðlindastjórnun, ef ekki á illa að fara. Þetta á við íslenzkar og norskar endurnýjanlegar orkulindir, en hins vegar ekki eldsneytisorkuverin í ESB-löndunum. Á Íslandi er uppi alveg einstök staða í Evrópu, þar sem er viðkvæmt samspil vatnsorkuvera og jarðgufuvera. Það þarf að stjórna þessu samspili af natni, og uppboðsmarkaður raforku í anda ESB er ófær um það, af því að kostnaðarmynztur þessara orkuvera er ólíkt. Ráðuneytisfólk og þingmenn verða að íhuga þann reginmun, sem er á sjálfbæru raforkukerfi Íslands og ósjálfbæru raforkukerfi ESB-landanna. Ætla þingmenn að fórna íslenzkri auðlindastjórnun á altari vezlunarhugmyndar ESB um rafmagn sem vöru. Rafmagn er ekki vara á Íslandi, og þess vegna á frjáls samkeppnismarkaður ekki við rafmagn hérlendis. Ef iðnaðarráðherra ekki viðurkennir þessa staðreynd, þá mun hún lenda í miklum ógöngum, bæði með orkumál landsins og pólitíska bakhjarla sína.
Þetta er nauðsynlegt að skýra með dæmum:
Nú eru um 70 % raforkunnar á Íslandi framleidd í vatnsorkuverum og um 30 % í jarðgufuverum. Vatnsorkuverin hafa markaðslega yfirburði, því að auðvelt er að breyta raforkuvinnslu þar á víðu sviði á skömmum tíma, en miklu meiri vinnslubreytingatregða er í jarðgufuverum. Vinnslukostnaður vatnsorkuvera er þar að auki umtalsvert lægri en í jarðgufuverum.
Landsvirkjun er langstærsta virkjunarfyrirtækið með um 80 % markaðshlutdeild. Með núverandi fyrirkomulagi raforkuviðskipta, hér kallað gjaldskrárkerfi, hefur Landsvirkjun vegna stærðar sinnar tekið að sér auðlindastjórnunina til að hámarka nýtingu og endingu vatns í meginmiðlunarlónum landsins með samkeyrslu vatnsorkuvirkjana og jarðgufuvirkjana. Þegar hækkar í miðlunarlónum er sett mikið álag á vatnsorkuverin og það haft í hámarki, þegar lónin nálgast fyllingu, en á móti dregið úr álagi jarðgufuvera. Öfugt er farið að við lækkun í lónum og við lágmark þar mæðir mest á jarðgufuverum. Þannig nýtist vatnið bezt.
Í góðum vatnsárum var áður búinn til markaður notenda, sem gátu nýtt sér ótryggða raforku á mun lægra verði en s.k. forgangsorku, sem aldrei má bresta. Þannig var framkölluð aukin raforkunotkun, þegar hún var þjóðhagslega hagkvæm. Þetta var margri starfseminni til hagsbóta, s.s. kyndistöðvum, fiskimjölsverksmiðjum og ylrækt. Nú hefur Landsvirkjun af dularfullum ástæðum dregið úr eða jafnvel lagt þessa þjónustu af. Það er ekki til þess fallið að bæta vatnsnýtinguna. Er það aðlögun að því, sem koma skal ?
Landsreglarinn, sem verður reglusetningararmur ACER (Orkustofnunar ESB) á Íslandi, mun hafa það hlutverk m.a. að markaðsvæða viðskipti með raforku og koma hér á uppboðskerfi. Hann hefur samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum ekki vald til að skipa fyrir um, að þetta skuli gera, en með þessum orkubálki leggst sú kvöð á stjórnvöld að koma á kerfinu, sem framkvæmdastjórn ESB telur skilvirkast og koma neytendum bezt. Það er sem sagt uppboðskerfi raforku, sem hérlendis getur valdið stórtjóni vegna straumleysis af völdum óleyfilegrar samstýringar virkjana og mun örugglega valda sveiflukenndu raforkuverði yfir árið og sennilega hærra meðalverði en nú er við lýði.
Vítin eru til þess að varast þau, og ættu stjórnvöld að kanna afleiðingar fyrir neytendur af markaðsvæðingunni í vatnsorkulöndum á borð við Noreg, Nýja-Sjáland og Kaliforníu. Það, sem mun gerast hérlendis á uppboðsmarkaði er, að vatnsorkuverin munu ryðja jarðgufuvirkjunum af markaði, á meðan eitthvað er til að selja af rafmagni frá vatnsorkuverum. Þetta mun leiða til ofnýtingar á vatnsauðlindinni og vannýtingar á jarðgufunni, og afleiðingin verður tiltölulega lág staða í miðlunarlónum lungann úr árinu og mikil hætta á vatnsskorti og þar með rafmagnsskorti e.t.v. þriðjung úr árinu, janúar-apríl.
Þetta skapar auðvitað óviðunandi afhendingaróöryggi raforku, og Landsreglarinn og ACER munu benda á hina augljósu lausn á vandanum, tengingu undir hafinu við rafkerfi annarra landa.
Aftur að hugsanlegu banni Alþingis á sæstreng. Slík lagasetning stenzt á yfirborðinu að Evrópurétti, því að í orði kveðnu á ekki að koma á nýjum millilandatengingum án samþykkis réttra yfirvalda í viðkomandi löndum. Með samþykki Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins ganga yfirvöld landsins undir það jarðarmen að styðja framkvæmd kerfisþróunaráætlunar ESB/ACER með ráðum og dáð. Með því að stofna til embættis Landsreglara í landinu, sem verður á íslenzku fjárlögunum, en að öðru leyti algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum, staðfestir framkvæmdavaldið þennan stuðning við kerfisþróunaráætlunina, því að eitt meginhlutverk Landsreglarans verður að hafa eftirlit með fylgni kerfisáætlunar Landsnets við kerfisþróunaráætlun ESB/ACER. Það myndast þar af leiðandi óviðunandi mótsetning á milli höfnunar Alþingis á sæstreng og innleiðingar Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Á þessu verður hamrað af Landsreglaranum, ESA, ACER og framkvæmdastjórn ESB. Ef Alþingi ekki breytir ákvörðun sinni, mun ágreiningurinn enda hjá EFTA-dómstólinum, og þar þarf ekki að spyrja að leikslokum.
Er frá líður og tímabundinn raforkuskortur verður árviss viðburður á Íslandi, mun þrýstingur aukast mjög á Alþingi að afnema þessi undarlegu lög, sem grípa fram fyrir hendur framkvæmdavaldsins. Hlutverk Landsreglarans um að sjá til þess, að Ísland framfylgi að sínu leyti kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, mun rekast á við slík lög, og á meðan "Icelink" sæstrengurinn á milli Íslands og Bretlands er í þessari kerfisþróunaráætlun, ber Landsreglaranum að sjá til þess, að kerfisáætlun Landsnets geri kleift að tengja slíkan sæstreng Íslandsmegin. Það er líklegt, að Vetrarpakkinn, sem er á leiðinni frá ESB og er Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn þaðan og væntanlega ekki sá síðasti, muni innihalda enn ríkari valdheimildir handa ACER og Landsreglaranum og heimildir framkvæmdastjórnar og ESB-dómstólsins og þá ESA og EFTA-dómstólsins í EFTA-löndunum til að víkja landslögum til hliðar fyrir Evrópurétti (lögum ESB). Hvað sem Vetrarpakkanum líður, mun Landsreglarinn geta látið reyna á sæstrengsbann Alþingis fyrir EFTA-dómstólinum. Það er þess vegna mjög lítið hald í og fullkomlega falskt öryggi fólgið í hugsanlegu banni Alþingis við tengingu íslenzka raforkukerfisins við útlönd.
Íslenzk stjórnvöld virðast ekki vera í færum til að greina þær hættur, sem felast í Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB fyrir starfsemi íslenzka raforkumarkaðarins í þágu almannahags. Þá virðast þau heldur ekki ná að átta sig á þýðingu kerfisþróunaráætlunar ESB/ACER né skuldbindingunni um stuðning við hana, sem felst í samþykki Alþingis á téðum lagabálki og stofnsetningu embættis Landsreglara. Ný greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögfræðings, handa iðnaðarráðherra er ekki þess eðlis, að hún hjálpi stjórnvöldum við að ná áttum. Hún er áróðursplagg fyrir skoðanir starfsmanna iðnaðarráðuneytis og utanríkisráðuneytis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum og afleiðingum af innleiðingu hans hérlendis.
Að öllu þessu metnu er eina skynsamlega afstaða ríkisstjórnarinnar sú að sýna fyllstu aðgát, tilkynna samstarfsaðilum Íslands innan EES um, að þar sem orkukerfi Íslands sé gjörólíkt orkukerfum ESB-landanna, sé hætta á, að markaðskerfi ESB henti ekki hér og að Íslendingar muni þurfa á allri sinni orku í nýtingarhluta Rammaáætlunar að halda fyrir orkuskipti og til að standa undir hagvexti vaxandi þjóðar. Af þessum sökum áskilji landið sér rétt til að hafna Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Jarðvegurinn hefur verið undirbúinn í felum og með falsi. Skráð er að 87% af orkuframleiðslu hérlendis sé nú með kolum, olíu og kjarnorku. Aðeins 13% með hreinni ómengandi vatnsorku. Erum við ekki þegar búin að tapa?
Kolbrún Hilmars, 19.9.2018 kl. 19:26
Ég held ekki, að baráttan sé töpuð. Þingleg meðferð hefst í febrúar 2019, ef áætlun stenzt. Þangað til á mikið vatn eftir að renna til sjávar og trúnaðarmenn og kjósendur stjórnmálaflokkanna munu láta Alþingismenn vita meira af sér. Þingmenn, sem hyggja á endurkjör, en ætla að leggja blessun sína yfir Þriðja orkupakka ESB, gjörsamlega að þarflausu, vita, að þeir munu verða spurðir um afstöðu sína í næstu kosningabaráttu. Það verður ekki gefið mikið fyrir svar á borð við "ESB vildi þetta" eða "við erum í EES". Slíkir þingmenn falla á prófinu.
Þú ert að vísa til s.k. upprunavottorða. Ef þessi skaðlega sala upprunavottorða heldur áfram og hingað kemur sæstrengur, mun hlutfall vatnsorku og jarðgufu minnka enn meir, en inn mun koma vindorka. Þessi vitlausu viðskipti valda atvinnuvegunum vandræðum og jafnvel tjóni, því að mörg fyrirtæki vilja flagga með sjálfbærri raforku.
Bjarni Jónsson, 19.9.2018 kl. 20:42
Sæll Bjarni og takk fyrir eljusemina.
Þú gerir hér góð skil á því ryki sem ráðherrar eru að kasta í augu þingmanna og þjóðar, með setningu laga um að sæstrengur verði einungis lagður með samþykki Alþingis.
En jafnvel þó slík lagasetning stæðist og með henni væri hægt að tryggja að ákvörðun um slíkan streng þyrfti a.m.k. 32 þingmanna meirihluta, þá er útilokað að hægt sé að treysta þeirri stofnun, eftir þá umræðu sem staðið hefur yfir síðustu misseri. Því miður er ekki hægt annað en ætla að þeir þingmenn sem nú tala fyrir samþykkt þriðja orkumálapakka ESB, muni einnig tala fyrir samþykkt lagningu slíks sæstrengs.
En að öðru varðandi þessa tilskipun. Nú hefur um nokkurn tíma verið karpað um hvort samþykkt hennar sá bara slæm fyrir okkur sem þjóð, eða hvort hún er mikið slæm. Ekki hefur mér tekist að finna nein rök sem leiða af sér einhvern hagnað fyrir landsmenn af henni, þó ég hafi fylgst nokkuð vel með málinu frá upphafi.
Því spyr ég þig Bjarni, er einhver hagur fyrir okkur af þessari tilskipun og ef svo,hver?
Reyndar má kannski segja að samþykkt tillögunnar gæti leitt af sér eitt gott. Ljóst er að verði hún samþykkt, mun krafan um uppsögn EES samningsins verða mjög hávær, ef ekki algjör.
Gunnar Heiðarsson, 20.9.2018 kl. 12:29
Ég ætla hvorki að fjalla hér um „hræðsluáróður“ né „martraðakennda söguburði“, sem eru hluti af lýsingu Bjarna Jónssonar á umræðu um Þriðja orkupakkann. Frekar halda mig við nokkur efnisleg grunnatriði, sem Bjarni blessunarlega minnist einnig á.
Bjarni segir: „[Mikið tjón] hlýzt af því að leggja núverandi auðlindastjórnun fyrir róða og taka upp hreinræktaða spákaupmennsku með raforkuna, sem leiðir til slæmrar auðlindanýtingar, sveiflukennds raforkuverðs og aukinnar hættu á orkuskorti í landinu."
thugasemd mín: Það er slagorðastíll yfir „auðlindastjórnuninni“ hjá Bjarna, en hann reynir að vísu að útskýra það nánar síðar í bloggi sínu og mun ég gera athugasemdir mínar þar. Svo ræðir hann um uppboðsmarkað með raforku og til hvers óskapnaðar hann mundi leiða, en þau atriði sem hann nefnir eru að mínu mati tilhæfulaust rugl. Uppboðsmarkaður var lögfestur hér á landi með raforkulögum 2003, en Landsnet falið að koma honum á. Síðustu tilkynningar frá Landsneti fyrr á þessu ári segja að markaðurinn muni taka til starfa árið 2020. Þetta hefur náttúrulega verið allt of langur undirbúningstími, en svona er þetta. Einnig má nefna að á undanförnum áratugum hefur uppboðsmarkaður verið grundvallar atriði í endurskipulagningu raforkukerfa um heim allan, með farsælum árangri. Bjarni virðist vilja að Íslendingar hanni sína eigin útgáfu af skipulagi raforkukerfa, sem styðjist við hið gamla skipulag og sem er verið að leggja af alls staðar á byggðu bóli. Synd.
Bjarni ræðir um: „lagningu sæstrengs frá útlöndum og tengingu hans við íslenzka raforkukerfið“ og finnur því allt til foráttu.
Athugasemd mín: Allt of mikið hefur verið gert úr áhrifum sæstrengs við endurskipulagningu raforkukerfisins. Þegar kostnaðaráætlun 600-1000 MW sæstrengs og raunveruleiki aðstæðna á raforkumarkaði í Bretlandi mun liggja fyrir, en hún hefur ekki ennþá verið gerð, þá mun að öllum líkindum koma í ljós að mannvirkið leiðir ekki af sér nægilega hagkvæmni til að réttlæta framkvæmdir. Helsta samkeppnisógnunin er 600-1000 MW nýtísku fjórðu kynslóðar kjarnorkuver á landtökustað sæstrengs á Bretlandi. Það verður svo langt í sæstrenginn, ef hann þá kemur nokkurn tíma, að við þurfum ekki að hugsa um hann á þessu stigi. Landsvirkjun, sem var málshefjandi sæstrengsins, virðist þessa dagana halda að sér höndum í málinu.
Bjarni segir: „Þá skellir iðnaðarráðherra skollaeyrum við vel ígrunduðum röksemdum um alvarlegar afleiðingar markaðsvæðingar raforkuge[i]rans á Íslandi án sæstrengs. Almenningur skynjar hættuna, framkvæmdavaldið er úti á þekju, einblínir á lögfræðileg formsatriði, en hugar lítt að raunverulegu innihaldi eða geigvænlegum fjárhagsafleiðingum, sem af rústun raforkumarkaðarins leiða. Hvort löggjafinn er með á nótunum, veit enginn enn.“
Athugasemd mín: Hvílíkt orðskrúð. Ég veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta yfir þessu bölsýnisrausi Bjarna. Ég ætla þó að reyna að halda andliti og leiða hjá mér þetta tilhæfulausa hjal og vísa því til heimahúsanna.
Bjarni segir: „Þórdís Kolbrún Reykfjörð, iðnaðarráðherra, er þeirrar hyggju, eins og höfundar allra orkumarkaðslagabálkanna þriggja og þess fjórða, sem er á leiðinni, að rafmagn sé vara, sem ganga eigi kaupum og sölum til hæstbjóðanda á uppboðsmarkaði. Þetta er öndvert við viðtekin sjónarmið á Íslandi og í Noregi um, að raforkan sé afurð náttúruauðlindar og að viðskipti með afurðina verði ekki aðgreind frá nýtingu náttúruauðlindarinnar.“
Athugasemd mín: Það er viðurkennt í nútíma hagfræði að í viðskiptum skuli raforka meðhöndluð sem vara á neytendamarkaði. Notkun þessa hugtaks hófst í Chile 1981 og hefur verið í stöðugri þróun síðan og er núna viðurkennd um allan heim. Norðmenn viðurkenna þetta og jafnframt Íslendingar með raforkulögunum 2003. Þá er spurningin hvort stýring kerfisins eigi að eiga sér stað með auðlindagjaldi á upprunastað orkunnar eða á notkunarstað með uppboðsmarkaði. Auðlindagjald á upprunastað breytir hvorki vatnsrennsli til virkjana né aðstreymi jarðvökva í borholum á jarðhitasvæðum. Væri hægt að taka upp auðlindagjald án þess að stofna um leið tilheyrandi verðlagsnefndir? Vilja menn það? Í öllu falli mundi auðlindagjald valda samstundis hækkun á orkuverði til almennings ef ekki verður hægt að breyta jafnframt orkuverði í orkusölusamningum við stóriðjuverin.
Bjarni segir: „Á Íslandi er uppi alveg einstök staða í Evrópu, þar sem er viðkvæmt samspil vatnsorkuvera og jarðgufuvera. Það þarf að stjórna þessu samspili af natni, og uppboðsmarkaður raforku í anda ESB er ófær um það, af því að kostnaðarmynztur þessara orkuvera er ólíkt.“
Athugasemd mín: Þetta er aðal styrkleiki íslenska raforkukerfisins, annars vegar að styðjast við orkuöflun vatnsorkuvera með vatni á yfirborði jarðar háð veðri og vindum og hins vegar með jarðvarmavökva á 2500 metra dýpi óháð veðri og vindum á yfirborði jarðar. Það er engin viðkvæmni i þessu samspili, bara styrkur. Þess vegna var olíunni útrýmt úr íslenska orkuöflunarkerfinu á sínum tíma.
Bjarni segir: „Þegar hækkar í miðlunarlónum er sett mikið álag á vatnsorkuverin og það haft í hámarki, þegar lónin nálgast fyllingu, en á móti dregið úr álagi jarðgufuvera.“
Athugasemd mín: Þetta er of einfaldað. Við þessar aðstæður er ekki endilega dregið úr álagi á jarðgufuverin heldur er hin almenna regla að látið er blása framhjá. Að þesu leyti er mismunur milli jarðhitahola og olíuborhola.
Jæja, nú nenni ég ekki meiru. En af mörgu er að taka. Þarna er öllu snúið á hvolf.
Og svo ætla ég bara rétt að vona að Þriðji orkupakkinn verði samþykktur á Alþingi Íslendinga í febrúar 2019.
Skúli Jóhannsson, 20.9.2018 kl. 13:04
Sæll, Gunnar;
Á hinum fræga Valhallarfundi, 30.08.2018, svaraði ég sams konar spurningu neitandi. Ég hef ekki rekizt á neina réttarbót fyrir Íslendinga, sem fylgja kynni þessum endemis Þriðja orkupakka. Eina ástæðan, sem tilfærð er fyrir upptöku, er, að "ESB vill þetta", og "við erum í EES", og síðan koma kveinstafir um, að EES fari á hliðina, ef við höfnum bálkinum. Fylgjendur meina, að bálkurinn sé okkur skaðlaus og breyti hér engu. Það eru versu öfugmæli, sem ég hef heyrt, og vitna um fullkomið vanmat á afleiðingum bálksins og þeirra bálka, sem í kjölfarið koma.
Bjarni Jónsson, 20.9.2018 kl. 13:11
En hver væri eiginlega skaðinn ef EES samningurinn yrði ekki lengur gildur??????
Jóhann Elíasson, 20.9.2018 kl. 22:21
Það hefur lítil efnislega umræða farið fram um kosti og galla sæstrengs. Djöflagangur um að kæfa umræðuna er ekki nýr af nálinni á Islandi.
Það hefur t.d. verið beitt öflugri þöggun um grundvallaratriði í fiskveiðistjórninni. Enginn segir múkk þó farið sé með gögnin úr togararallinu - beint til alþjóða hafrannsóknarráðsins í Kaupmannahögn - og þeir "reikna út" fyrir okkur hvað lítið er til aðf þorski á Islandsmiðum og hve lítið megi veiða. Það er ógeðfelldasta framsal á valdi sem ég veit um hérlendis og mér finnst það gróft brot á trúnaði að fara með slík gögn úr landi í skjóli nætur - það er engin lagaheimild fyrir þessu framsali svo ég viti.
Umræða um þennan "þriðja orkupakka" er auðvitað mikilvæg. Ég átta mig ekki á allri þessari gagnrýni á sæstrengsmöguleikanum. Raforkan fer ó báðar áttir. Norðmenn kaupa mikla orku á næturnar - og selja á daginn - með hagnaði. Það eitt er nýtt virkjanatækifæri - dæla vatni upp á nóttuni - og framleiða á daginn. Um þetta er engin umræða enn hérlendis.
Auðvitað geta Islendingar sett sínar reglur um orkusölu um sæstreng. Tækninni fleygir hratt fram - eftir 5-10 ár verður kömin enn betri tækni og ódýrara að leggja streng og minni orkutöp. Þetta er nauðsynlega umræða.
En að kæfa umræðuna með samansafni af neikvæum sjónarmiðum er út í hött. Það hvarflaði ekki aðp mér að fara á fundinn í Valhöll til að hlusta á fjóra ræðumenn sem allir ofur á móti umræðu um þetta. Minnir á umræðuna um kvótann hvað það má vieða mikinn afla. Bara haldnir fundir þar sem ræflarnir á Hafró "eiga fundarstjórann og meirihluta ræðumanna" - Umræan alltaf kæfð niður þannig - alla vega frá 19990 - og nú er engin umræða þó þorskaflinn sé um 50% af því sem hann var - og það er fjallað um það sem "stórkostlegan árangur". Fyrr má nú "ljúga í blýhólk" eins og maðurinn sagði - eða þá eins og prensturinn sagði á Snæfllsnesi að "þar ljúga menn með þögninni"....
Það er upplagt að þessu við með hugsanlegan sæstreng - "ljúga með þögninni" - láta alla "efasemdarmenn halda kjafti" eins og í hafrómálum og reynt er loftslagsmálum.
Einstain sagði; "Ef við vissum hvað það væri sem við værum að gera, þá væru störf okkar ekki kölluð rannsóknarstörf, er það"?
Málaið er að rannsíknarvinna viðp sæstreng þarf að fara fram - og umræað um þennan "þriðja orkupakka" - þarf líka að fara fram - án svona "ofbeldisþrýstings um þöggun" eins og verið er að beita.
Ég tek fram að ég ekki "ESB sinni" en ég vil að við nýtum EES samninginn rétt. Við höfum vanrækt að fylgjast með því - hvaða reglur var verið að setja - og hvernig við ættum svo að taka á móti reglunum þegar þær kæmu. Þess í stað var einhver deild sem vara bara í að þýða þetta - leggja fyrir Alþingi og allt rann í gegn - án þess að rétt fagvinna væri framkvæmd.... hvað viljum við - og hvernig aðlögum VIÐ okkur að þessu á okkar hátt...
En það er of langt gengi að ætla að "slátra þriðja orkupakkanum" á altari einhverrar þjóðrembu og að við ætlum sjálfir að nota allt rafmagnið. Bara vindorka sem hægt er að framleiða hérlendis - er miklu meiri orka en hægt er að selja um tvo sæstrengi - því varla er neitt vit í því nema leggja tvo - öruggislega séð - fyrir bæði seljanda og kaupanda orkunnar. Af hverju er ekki heimtað að við "étum allan fiskinn sjálfir" - þá yrði fiskur ódýrari hérlendis. Við hugsum ekkert svona í dag. Við hugsum ígrundað - kynnum okkur vel þennan þriðja orkupakka - engan æsing eða skotgrafahernað - og alls enga þöggun.
kv Kristinn Pétursson
Kristinn Pétursson, 21.9.2018 kl. 08:32
Afsakið prentvillur - ég gleymdi að nota "púkann"
Kristinn Pétursson, 21.9.2018 kl. 08:34
Sæll, Jóhann;
Ef EES-samningurinn fellur úr gildi (gerist ári eftir uppsögn annars aðilans), þá tekur sjálfvirkt við viðskiptasamningur Íslands við ESB frá því á 8. áratug síðustu aldar. Honum fylgdi t.d. tollfrelsi fyrir iðnaðarvörur, og lágur tollur á sjávarútvegsvörur. Heppilegra er að fara í viðræður við ESB um fríverzlunarsamning og jafnvel tollabandalag áður en EES-samninginum yrði sagt upp. Við þurfum að ná slíkum samningi við Bretland, og ESB hefur gert marga fríverzlunarsamninga, t.d. nýlega við Kanada og Japan.
Bjarni Jónsson, 21.9.2018 kl. 11:14
Sæll, Kristinn;
Ég held, að það sé mjög orðum aukið, hvaða áhrif við getum haft á mótun EES-gerða. Grunnurinn er lagður á lokuðum fundum ESB-ríkjanna. Norðmenn eru með 70 starfsmenn í Brüssel til að fylgjast með því, sem í gangi er, og reyna að hnika málum til á seinni stigum. ESB tekur æ minna tillit til sjónarmiða EFTA-ríkjanna.
Bjarni Jónsson, 21.9.2018 kl. 11:21
Sjaldséðir eru hvítir hrafnar. Hér flaug einn yfir, fúllyndislega, og sletti driti á vefsíðuna. Hér verður ekki hirt frekar um afurðir grákolls þessa, en minnt á, að Elías B. Elíasson, verkfræðingur, hefur verið ötull við að greina frá niðurstöðum athugana sinna á hrikalegum afleiðingum þess fyrir orkulindanýtinguna hérlendis og orkuafhendingaröryggið að koma hér á uppboðsmarkaði með raforku í anda ESB.
Í þessu sambandi getur einnig verið lærdómsríkt fyrir lesendur að lesa um atburð, sem varð í Noregi í síðustu viku, er þáverandi ríkasti maður Noregs, Einar Aas, varð gjaldþrota. Hann hafði auðgazt á viðskiptum með orku í orkukauphöllinni í Ósló, þar sem viðskipti með afleiður (futures) hafa breytt orkukauphöllinni í spilavíti. Viljum við slíkt á Íslandi ? Einar Aas hafði veðjað á minnkandi orkuverðmun á milli Þýzkalands og Noregs. Þá gerðist það, að óvænt kom gríðarlegt úrfelli í Noregi, svo að hækkaði í miðlunarlónunum og raforkuverð féll þess vegna, en í Þýzkalandi hækkaði verð á koltvíildiskvótum, sem leiddi til raforkuverðhækkunar þar. Afleiðingin varð aukinn verðmunur á raforku í löndunum tveimur, og ríkasti maður Noregs varð gjaldþrota. Nemur gjaldþrotið mrdISK 20. Orkufyrirtækin á börsinum þurfa að bæta varasjóði hans upp tapið. Orkumagnið, sem undir var, samsvarar ársnotkun í Stór-Ósló. Á börsinum er gríðarlegt fé undir, mikil áhætta og mikill gróði. Það eru raforkunotendur, sem bera kostnaðinn, sem þetta markaðsfyrirkomulag hefur í för með sér. Yfir 80 % Íslendinga vilja ekki hætta á slíkt hérlendis samkvæmt könnun Maskínu frá í vor.
Bjarni Jónsson, 21.9.2018 kl. 11:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.