Eignarhald á orkulindunum

Orkulindir Íslands eru mestu auðævi þjóðarinnar. Þegar er raforkunotkun landsmanna sú mesta á mann, og nú bíða orkuskiptin handan við hornið, þar sem ríkisstjórnin hefur lagt fram draumsýn sína.  Til að framkalla þá draumsýn í raunveruleikanum þarf að virkja mikið meira, sennilega sem nemur a.m.k. helmingi þess afls, sem þegar hefur verið virkjað, til að leysa allt jarðefnaeldsneyti af hólmi. 

Hérlendis er umframorka í kerfinu sáralítil, og Íslendingar eru þess vegna í ósambærilegri stöðu við Norðmenn, sem í venjulegu vatnsári búa megnið af árinu við umframafl og afgangsorku, sem þeir höfðu ekki markað fyrir innanlands.  Þetta er nú að breytast í Noregi með vaxandi fjölda utanlandstenginga, og með s.k. Northconnect sæstreng til Skotlands búast Norðmenn við, að öll umframorka í kerfinu gangi til þurrðar.

Þar sem bæði löndin eru vatnsorkulönd, má spyrja, hverju þessi munur sæti.  Svarið er jarðhitanýting hérlendis til húshitunar.  Í Noregi er megnið af húsnæðinu hitað með rafmagni, og virkjanir og allt rafkerfi landsins er sniðið við hámarksálag kaldasta tímabilsins.  Utan þess er aflgeta til reiðu í norska kerfinu fyrir útflutning um sæstrengi eða loftlínur.  Á Íslandi er hins vegar tiltölulega jafnt álag  á stofnkerfinu og jöfn nýting mannvirkja árið um kring vegna yfirgnæfandi þáttar stóriðjuálags.  Hér eru þess vegna engar "náttúrulegar" aðstæður fyrir hendi til útflutnings á rafmagni með sambærilegum hætti og í Noregi. Þess vegna er út í hött  hérlendis að vísa til fordæmis Norðmanna í þessum efnum. 

Orkulindir á Íslandi í nýtingarflokki eru um 30 TWh/ár, og þegar hafa um 2/3 verið virkjaðar.  Verðmæti þessara "virkjanlegu" orkulinda nema a.m.k. 200 mrðISK/ár, og verðmætasköpun með þessari raforku nemur miklu hærri upphæð.  Það er þess vegna mörgum hugleikið, hvernig eignarhaldinu á auðlindinni er og verður háttað.

Nýtingarrétturinn er bundinn virkjuninni hérlendis.  Eigandi virkjunarinnar er þannig handhafi nýtingarréttarins.  Það þýðir t.d., að verði hluti Landsvirkjunar seldur, t.d. vegna kvörtunar ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) út af yfirgnæfandi markaðshlutdeild fyrirtækisins hér, þá eignast nýir eigendur virkjanir og meðfylgjandi nýtingarrétt hinnar endurnýjanlegu orku.

Þann 17. september 2018 birtist skýrsla eftir Birgi Tjörva Pétursson, lögmann, BTP, sem iðnaðarráðuneytið keypti til að réttlæta baráttu sína fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  Skýrsla BTP, lögmanns, ber heitið:

"Greinargerð um ýmis álitaefni sem tengjast þriðja orkupakka ESB og innleiðingu hans í íslenskan rétt".

Lagaprófessor við Háskólann í Tromsö, Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, tók að sér að rýna þessa skýrslu og fylgir skýrsla hans á norsku með þessum pistli.  Hann gagnrýnir skýrslu BTP og telur hana ekki standast, m.a. vegna þess, að BTP virðist ekkert hafa kynnt sér dómaframkvæmd ESB-dómstólsins, en túlkun hans á ESB-lögunum er mikilvægari en lagabókstafurinn sjálfur, því að dómum ESB-dómstólsins verður ekki áfrýjað.  

Þetta á t.d. við um eignarréttinn og þar með eignarhaldið á orkulindunum.  Prófessor Peter Örebech tók saman örstutt yfirlit um gagnrýni sína og fylgir það hér á eftir í þýðingu pistilhöfundar:

"Niðurstaða mín er, að BTP, lögmaður, dragi ótækar ályktanir.  Þetta á við þann skilning lögmannsins, að EES-samningurinn gildi ekki um orkugeirann, því að, í fyrsta lagi, kafli 125 í EES-samninginum - reglan um eignarréttinn, sem alfarið sé á valdi hvers ríkis - að sögn - ætti að útiloka það.  Í öðru lagi sú afstaða lögmannsins, að kaflar 11, 12 og 13 í EES-samninginum um magntakmarkanir á viðskiptum gildi ekki fyrir Ísland, af því að landið er núna án utanlandstenginga rafkerfisins.  

Sá, sem hefur kynnt sér réttarvenjur, kemst auðveldlega að því, að kafli 125 á við - andstætt fullyrðingum BTP, lögmanns, eignarréttarmálefni á Íslandi, því að ESB-dómstóllinn hefur slegið föstu, að þessi málefni verði ekki almennt undanþegin, hvorki frá Innri markaðinum eða "frelsunum fjórum".  Einnig er þessu slegið föstu fyrir orkugeirann, sbr EFTA-dómstólinn 2007 um eignarhaldsflutning orkuvera frá einkafyrirtækjum til norska ríkisins ["Hjemfall"-heimkvaðning].

Það er ennfremur á misskilningi reist, þegar BTP, lögmaður, með einfaldri vísun til þess, að rafkerfi Íslands er ótengt við útlönd, slær föstu, að Ísland sé þar með undanþegið grundvallar ákvæðum í EES-samninginum, köflum 11, 12 og 13.  Þetta stangast á við EES-samninginn sjálfan, sbr "Viðauka IV orka" (kafla 24) og EES-kafla 2a. Hið sama má leiða af formála nýrra gerða og tilskipana innan orkugeirans, sbr orðalagið, "EES-viðeigandi texti".

Öll ákvæði í EES-aðalsamninginum eiga sér - með framvindu samþykktra mismunandi "orkupakka" - ótakmarkað notkunarsvið á Íslandi.  Þetta þýðir t.d., að íslenzkt bann gegn utanlandstengingu við rafkerfið mun verða í andstöðu við kafla 12 í EES-samninginum." 

Þarna er í lokin í raun skrifað, að áform iðnaðarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð, um að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um, að tengingarumsókn eiganda millilandasæstrengs við íslenzka rafkerfið skuli hljóta lokaafgreiðslu Alþingis, sé út í hött, því að bann við slíkri tengingu mundi jafngilda broti á EES-samninginum.  Þetta er svo augljóst, að leikmaður, sem aðeins nusar af málinu, áttar sig strax á, að Peter Örebech hefur hér að lög að mæla.  Það er verulegt áhyggjuefni,ef lögfræðingurinn í stóli iðnaðarráðherra er ekki betur að sér um EES-samninginn en svo, að hún ætli að beita sér fyrir lagasetningu á Alþingi, sem brýtur í bága við þennan umdeilda samning. 

Það er ljóst, að eftirfarandi orð BTP, lögmanns, í umræddri greinargerð hans, og gagnrýni Peters Örebech, prófessors, geta ekki samtímis verið sönn.  Lesendum verður eftirlátið að meta, hvor þeirra er líklegri til að hafa rétt fyrir sér.  Í greinargerð BTP stendur m.a.:

"Þá varða reglur þriðja orkupakkans eða samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar um aðlögun hans að samningnum ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkulindum á Íslandi.  Hvergi er að finna neitt í reglunum, sem um ræðir, sem gefur tilefni til að draga slíka ályktun.  Í því sambandi er líka rétt að minna á 125. gr. EES-samningsins, þar sem segir:"Samningur þessi hefur engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar.""

Það er með öðrum orðum engin vörn í þessari klausu gegn því, að erlend orkufyrirtæki geti ekki eignazt íslenzkar virkjanir og þar með öðlazt afnotarétt af orkulindunum, ef Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn verður samþykktur á Alþingi.   

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elías B Elíasson

Áhugaverð lesning.

Ég held út af fyrir sig, að orð BTP um eignarréttinn standist svo langt sem þau ná. Það eru engin ákvæði í orkupakkanum sem rýra hann. Hins vegar eru það önnur atriði EES samningsins sem setja ríkinu ákveðnar skorður um það hvernig það ráðstafar þessum eignarrétti. Í þeirri ráðstöfun má ekki felast mismunun af neinu tagi gagnvart erlendum aðilum með ríkisfang innan EES. 

Til dæmis segir Ólafur Jóhannes Enarsson (ÓJE) í sínu minnisblaði til iðnaðarráðuneytis:

Þær reglur sem er að finna í þriðja orkupakka ESB hagga í engu þeim heimildum íslenska ríksins sem að framan eru raktar.

Hins vegar er rétt að hafa í huga, að almennar reglur EES-samningsins gilda, ákveði Ísland t.d. að veita tímabundin afnotaréttindi að þessum auðlindum líkt og heimilt er lögum samkvæmt. Viðslíkt má t.d. ekki mismuna á grundvelli þjóðernis og eins verða leyfisveitingar að vera í samræmi við aðrar viðeigandi reglur EES-samningsins, eins og t.d. þjónustutilskipunina. Af úrskurðarframkvæmd Eftirlitsstofnunar EFTA er ljóst, að ákvæði þjónustutilskipunarinnar gilda um leyfisveitingar á sviði orkumála. Einnig hefur raforkutilskipunin að geyma reglur sem þarf að taka tillit til í því samhengi og eins hefur hún áhrif á skipulag stjórnsýslu þessara mála. Samkvæmt þriðju raforkutilskipuninni er t.d. hert á kröfum um sjálfstæði og heimildir eftirlitsstjórnvalda. Hins vegar hefur ACER, eins og rakið verður að neðan, ekkert að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu. Upptaka þriðja orkupakkans hefur einungis í för með sér óverulegar breytingar í þessu sambandi.

Minnisblað BTB rökstyður sömu skoðu, þá að við höfum þegar samþykkt þær reglur sem sem takmarka frelsi okkar til auðlindanýtingar hér. 

Þessi minnisblöð forðast þannig alla umfjöllun um þau atriði í öðrum reglum en orkupakkanum sem auka á hættuna sé hann innleiddur. Það er heldur ekki minnst á landsreglarann sem virkar sem eins konar trójuhestur og skal gæta þess, að við notum ekki auðlindina okkur sjálfum til hagsbóta, heldur öllum notendum innan ESB jafnt. Landsreglarinn setur reglugerðir um markað og flutningskerfið sem eiga að vera samhljóma þeim reglugerðum sem gilda innan ESB. Ef ekki er farið að þeim reglugerðum getur framkvæmdastjórnin kært til ESA eftir að ACER hefur sent henni upplýsingar um málið. Valdheimildir landsreglarans taka strax gildi.

Mér virðist þessar innlendu greinargerðir ráðuneytann vera þess eðlis, að verið sé að tala niður til fólks á lagamáli og halda því að þjóðinni, að þetta stórmál, orkupakkinn sé smámál af því við séum nú þegar komin langleiðina með að afsala okkur auðlindinni.

Það er hárrétt hjá Örebech, að pantaðar túlkanir íslenskra lögfræðinga eru einskis virði án samanburðar við túlkanir ESB lögfræðinga og fordæma í úrskurðum ESA nefndarinnar og EFTA dómstólsins.

Kveðja Elías

Elías B Elíasson, 30.9.2018 kl. 23:52

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Elías;

Prófessor Örebech sýnir fram á með skýrum lögfræðilegum rökum, að eignarhald Íslendinga á orkulindunum verður í uppnámi eftir samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Gagnrýni hans á greinargerð BTP er að mínu mati harður áfellisdómur á efnistök lögfræðinganna BTP og ÓJE (Ólafur Jóhannes Einarsson), en báðir rífa þeir Þriðja orkupakkann úr samhengi við aðra löggjöf ESB og dóma ESB-dómstólsins.  Út úr slíkri umfjöllun hlýtur að koma afar villandi niðurstaða, svo að ekki sé meira sagt.  

Gagnrýni prófessors Peters Örebechs, sérfræðings í Evrópurétti, ætti að opna augu stjórnmálamanna og allra annarra fyrir þeirri staðreynd, að með samþykkt Þriðja orkupakkans verður leið fjárfesta á EES-svæðinu opnuð til óheftra ítaka í orkumálum landsins undir löggjöf og eftirliti ESB, sem Íslendingar hafa engin áhrif á.  

Með góðri kveðju / 

Bjarni Jónsson, 1.10.2018 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband