13.12.2018 | 11:06
Sjálfstæðið á undanhaldi - hver rekur flóttann ?
Það er deginum ljósara, að EES-samningurinn er orðinn stórvarasamur fyrir hagsmuni Íslands vegna þess, að hann hefur þróazt frá s.k. tveggja stoða fyrirkomulagi ákvarðanatöku og yfir í einnar stoðar ákvarðanatöku um mikilvæg málefni, þ.á.m. um ráðstöfun orkulinda og rekstur raforkumarkaðar.
Tveir forystumenn ríkisstjórnarinnar, s.k. Viðeyjarstjórnar, sem beitti sér fyrir lögfestingu EES-samningsins, hafa manna skeleggast bent á, að þróun þessa samnings geti reynzt Íslendingum hættuleg og að brýna nauðsyn beri til að spyrna við fótum á Alþingi, þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB verður þar borinn undir atkvæði.
Ágætis dæmi um þetta gaf að líta í Reykjavíkurbréfi sunnudagsblaðs Moggans 09.12.2018,
"Svör við röngum spurningum hafa aldrei komið að gagni".
Höfundurinn bendir á ömurlegan hlut íslenzka embættismannakerfisins, sem hefur látið sig hafa það að gerast taglhnýtingur forréttindastéttarinnar í Brüssel, sem þar situr við kjötkatlana og semur tilskipanir og reglugerðir, sem nánast allar þjóna stefnumiðum stórauðvalds Evrópu um sameinað eitt Evrópuríki, sem ekki hefur sézt þar síðan á dögum Karlamagnúsar í Aachen forðum, ef stutt ógnartilvist Þriðja ríkis þjóðernisjafnaðarmanna 1933-1945 er undanskilin. Þar stóðu um skeið engilsaxar á Bretlandseyjum einir á móti ofureflinu, og endurtekur sagan sig núna fyrir framan augun á okkur að breyttu breyttanda.
Eftir að hafa skrifað um Neville Chamberlain, Winston Churchill, Adolf Hitler og Tony Blair í inngangi, víkur höfundur Reykjavíkurbréfsins sögunni til Íslands:
"Umræður um þriðja orkupakkann eru gott dæmi um þetta [þ.e. að skynja eða skynja ekki um hvað málið snýst, og hvaða spurning og svar við henni skipti mestu máli (gæti vísað til spurninga og svara um Orkupakka #3 á vefsetri Auðlinda- og nýsköpunarráðuneytisins,ANR)]. Þar hefur ýmsu, sem engu skiptir eða litlu, verið blandað inn í aðdraganda ákvarðanatöku, og snýst það tal gjarna um það, hvort hætta af málinu sé á þessu stigi lítil eða mikil, og hvort Íslendingar geti fengið að hafa einhverja aðkomu að framtíðarstjórnun þess, þótt lokaorðið sé komið annað. Ekki sé endilega víst, að þetta eða hitt komi upp í málinu og verði vandamál. Þetta eru allt fjasspurningar. En spurningarnar, sem þarf að svara, eru þessar:
Er eitthvað í þessu máli fyrir okkur Íslendinga ? Svarið við því er nei. Heimilar stjórnarskrá okkar yfirfærslu valds í þessum málaflokki ? Svarið við því er líka nei. Af hverju í ósköpunum er þá málið enn að þvælast fyrir stjórnmálamönnum hér á landi ? [Undirstr. BJo - svar BJo: ESB hefur komið ár sinni vel fyrir borð hérlendis.]
Það er hárrétt, að ráðuneytin tvö, sem hafa þetta mál á sinni könnu, hafa afvegaleitt umræðuna um það með kolröngum áherzlum, rangfærslum og hártogunum. Dæmi um þetta eru fullyrðingar um, að ekkert muni breytast í íslenzka orkugeiranum fyrr en hingað verði lagður sæstrengur og að slíkt hafi Íslendingar í hendi sér. Hið rétta er, að eftir innleiðingu Orkupakka #3 verður ekki komizt hjá fullri markaðsvæðingu raforkuviðskiptanna, og þá er líklegast, að útibú "Nord Pool" orkukauphallar verði fyrir valinu sem vettvangur þessara viðskipta. Ef þá kemur kvörtun frá markaðsaðila til ESA yfir markaðshlutdeild Landsvirkjunar, mun ESA bregðast við með vísun til ESB-réttar.
Það er jafnframt engin ástæða til að efast um, að gerð #347/2013 verði innleidd hér í kjölfar innleiðingar pakkans, sem hún er náskyld, og þar með er komin forskrift fyrir Landsreglarann til að leggja mat á sæstrengsumsóknir. Alþingi hefur þá afsalað sér og yfirvöldum landsins stöðvunarvaldi yfir sæstrengsverkefni, enda er ákvörðunarferlið fyrir sæstreng einnar stoðar fyrirkomulag, eins og prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, hefur sýnt fram á í fyrirlestri hérlendis.
Síðan tekur höfundur Reykjavíkurbréfs til við að fjalla um þróun EES-samningsins, en sá samningur er auðvitað farvegur orkupakkans hingað til lands. Fá hérlendir embættismenn, sem um þessi mál fjalla, falleinkunn hjá höfundinum og sömu söguna er að segja af lögfræðilegum álitsgjöfum á vegum ráðuneyta, sem t.d. hafa veitt umsagnir um Orkupakka #3.
"Nú er komið á daginn, að því fer algjörlega fjarri, að þeim embættismönnum, sem treyst var til að halda á hagsmunum Íslands eftir EES-samninginn, hafi risið undir því. Þeir hafa, eins og frú Thatcher orðaði það fyrir löngu, flutt sitt ríkisfang og trúnað. Þeir hafa furðu fljótt tekið að líta á sitt hlutverk sem smala í hlutastarfi fyrir ESB. Er hægt að nefna nokkur dæmi um það.
Þetta þýðir að sjálfsögðu, að þeir stjórnmálamenn, sem fylgdu því eftir í góðri trú, að samþykkja bæri aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, hafa verið illa sviknir. Embættismannakerfið hefur smám saman unnið að því að koma sér upp lögfræðilegum álitsgjöfum, sem skrifa upp á hvað sem er í efnum sem þessum. Slíkir sýndu heldur betur á spilin sín í Icesave-málinu sællar minningar."
Það voru forystumenn Viðeyjarstjórnarinnar, Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson, sem fylgdu því manna fastast fram á Alþingi á sinni tíð, að EES-samningurinn yrði samþykktur, sem Alþingi svo gerði í janúar 1993. Nú lætur annar þeirra í ljós mikil vonbrigði með frammistöðu þeirra embættismanna og stjórnmálamanna, sem rekið hafa þennan samning, og báðir hafa þeir látið í ljós megna óbeit sína á fyrirætlun núverandi ríkisstjórnar um innleiðingu Þriðja orkupakkans frá ESB.
Ef allt er með felldu í Stjórnarráðinu, hljóta varnaðarorð þessara fyrrverandi ráðherra, sem mest véluðu um EES-samninginn á sinni tíð, að reka út í hafsauga allan vafa þar um, að beita beri neitunarvaldi gegn Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB.
Hérlendum embættismönnum og stjórnmálamönnum er ekki treystandi til að standa í ístaðinu til lengdar gagnvart þeirri viðleitni framkvæmdastjórnar ESB og helztu forkólfa þess að draga sífellt meiri völd frá þjóðríkjunum og til stofnana ESB; ekki frekar en kollegum þeirra í Noregi. Af þessu leiða æ stærri stjórnlagalegar spurningar á Íslandi og í Noregi, þótt hinir aðkeyptu lögfræðingar ríkisstjórna landanna setji kíkinn fyrir blinda augað og skrifi svo sín minnisblöð og greinargerðir til ráðherra. Þeir verða þá reyndar að sæta því, að sérfræðingar í Evrópurétti geri alvarlegar athugasemdir við niðurstöður þeirra. Eitt slíkt mál er nú rekið fyrir þingréttinum í Ósló vegna þeirrar túlkunar norsku ríkisstjórnarinnar, að einfaldur meirihluti dygði til að samþykkja Orkupakka #3 í Stórþinginu, af því að fullveldisframsalið væri minni háttar. Er líklegt, að dómur Þingréttarins verði kveðinn upp haustið 2019 og endanlegur dómur Hæstaréttar Noregs verði birtur haustið 2020.
Ekki er hægt að láta þessa spægipylsuaðferð ganga endalaust, og Orkupakki #3 er að margra dómi hérlendis þannig vaxinn, að gegn honum verður að spyrna við fótum, eins og Grettir gerði forðum, er hann glímdi við drauginn Glám á Þóroddsstöðum í Forsæludal. Það þarf að bregða saxinu sem fyrst og afhausa drauginn áður en orð hans verða að áhrínsorðum.
Þegar bent er á vaxandi alvarlega galla við EES-samninginn, er strax tekið að kyrja óttusöng um, að EES-samningurinn sé undirstaða núverandi lífskjara á Íslandi. Vegna gallanna, sem felast í að taka upp mjög íþyngjandi lagabálka ESB, sem Viðskiptaráð telur virka stórlega hamlandi á framleiðniaukningu landsins, sem er þá dragbítur á lífskjarabata, þarf að skoða með opnum huga möguleikana á fríverzlunarsamningi við ESB og Bretland með víðtækum samstarfsákvæðum í líkingu við samband Svisslands við ESB.
Nú er gerjun í þá átt í Noregi að segja EES-samninginum upp, því að löggjöf ESB eigi oft á tíðum illa við í Noregi, og þá getur opnazt sá möguleiki, að EFTA og ESB geri slíka fríverzlunarsamninga. Þetta þarf allt að vega og meta á hagsmunavog Íslands, þar sem markaðsaðgengið auðvitað mun vega þungt.
"Þegar EES-samningurinn var í umræðu í þinginu, voru lögð fram tvö gagnstæð lögfræðiálit um það, hvort EES-samningurinn stæðist stjórnarskrá landsins. Meirihluti þingsins byggði á áliti, sem taldi, að málið stæðist. En það fór ekki á milli mála, að samningurinn kallaði á mikla varfærni og einurð, hvað þetta varðaði. Ætli menn sér að skoða þróun samningsins, og hvernig á honum hefur verið haldið, þá er óhjákvæmilegt, að það sé gert á grundvelli þessara lögfræðiálita og framganga íslenzkra yfirvalda skoðuð með hliðsjón af því. Þá væri verra en ekkert, ef að því kæmu að einhverju leyti þeir aðkeyptu lögfræðingar, sem skrifað hafa upp á gerðir embættiskerfisins, sem stjórnmálamenn síðustu ár hafa gersamlega lagzt flatir fyrir, svo að til vanza er."
Höfundur Reykjavíkurbréfs hefur áhyggjur af því, að sú rýni á rekstri EES-samningsins, sem nú stendur yfir á vegum utanríkisráðuneytisins, verði með böggum hildar. Er ástæða til að búast við óvilhallri og hlutlægri umfjöllun í þeirri skýrslu ? Áhyggjur um það eru ekki ástæðulausar.
Á aldarfjórðungsrekstrartíma EES-samningsins hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina varðandi íþyngjandi innleiðingar ESB-gerða og tilskipana. Það eru engin teikn á lofti um breytingu á þessari tilhneigingu, og þess vegna nálgast Ísland stöðugt meir að verða með löggjöf, eins og ESB-ríki. Það er algerlega borin von, að íslenzkir embættismenn geti haft nokkur umtalsverð áhrif á tilurð þessara samfélagsforskrifta. Þær eru í upphafi mótaðar á lokuðum fundum ESB-ríkjanna, og bolmagn íslenzkra embættismanna til breytinga á síðari stigum er nánast ekkert. Það er hrein fjármunasóun að vera með tilburði til slíks. Norðmenn eru með 70 manns í störfum í Brüssel við að fylgjast með öllu moðverkinu og verður lítið ágengt að eigin mati. Með þessu áframhaldi sogumst við fyrr en síðar inn í svarthol ESB. Þar verðum við sem "krækiber í helvíti" eða fluga í köngulóarvef. Það er óþarfi nú, þegar kvarnast fer úr Evrópusambandinu og innri mótsetningar þess eru að verða óbærilegar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það virðist sem við höfum ekki lengur tíma til að lesa yfir og gagnrýna tilskipanir og reglugerðir ESB. Það er mjög alvarlegt þegar jafnvel ráðherrar virðast ekki átta sig á þeim orðaleik og orðhengilshætti sem viðgengst í stjórnkerfinu. ESB sinnar hafa náð undirtökum í þjóðfélaginu og fáir átta sig á því. Fullveldishugsjónin er á hröðu undanhaldi á 100 ára afmælinu. Verður afsal fullveldisins til ESB okkar afmælisgjöf til næstu kynslóða?
Júlíus Valsson, 13.12.2018 kl. 12:12
Þetta er hárrétt athugað, Júlíus. Íslenzka stjórnsýslan er engan veginn í stakkinn búin til að taka þátt í alþjóðasamstarfi á borð við EES, þar sem verið er að taka við löggjöf frá 500 milljón manna samfélagi Evrópuþjóða. Það er dúkað fyrir alvarleg og kostnaðarsöm mistök á þeirri leið. Þess vegna þarf að leita nýrra leiða til að tryggja markaðsaðgengið. Annars lendum við þarna innanstokks áður en við vitum af.
ESB-sinnar eru búnir að koma sér mjög vel fyrir, t.d. á fjölmiðlunum, í menntakerfinu og í stjórnarráðinu. Þessi barátta verður þess vegna flóknari og erfiðari en ætla mætti við fyrstu sín.
Bjarni Jónsson, 13.12.2018 kl. 14:31
Því miður er lítil von til að sú skoðun sem nú fer fram á EES samningnum muni leiða neitt í ljós honum til vansa. Þarf þar ekki annað en að skoða samsetningu þeirrar nefndar er skipuð var til skoðunar samningsins. Tveir yfirlýstir ESB sinnar undir stjórn manns sem ítrekað hefur mælt með EES samningnum,jafnvel eftir að hann var skipaður formaður endurskoðunarnefndarinnar. Niðurstaða nefndarinnar lá því nokkuð ljós fyrir áður en hún hóf störf.
Gunnar Heiðarsson, 13.12.2018 kl. 17:35
Það er orðið löngu tímabært að byrja að taka ærlega til í undirlægjuhóp ESB, sem hreiðrað hefur um sig í embættismannakerfi stjórnsýslunnar á Íslandi.
Reglugerða og tilskipanamaskína þessa viðbjóðsfyrirbæris, sem Evrópusambandið er orðið, malar 24/7 og dælir viljandi út þvílíkum aragrúa tilskipana og reglugerðafargans, að ekki nokkur þjóðstjórn hefur undan flaumnum sem frá þessu skrímsli kemur. Þetta er gert af ásetningi, sem miðar að því einu að sambandsviðbjóðurinn fái full og ótakmörkuð yfirráð yfir Evrópu allri, eins og hún leggur sig. Hér á landi finnast ótrúlega mörg skítseyði sem mæra þennan viðbjóð og vinna nótt sem nýtan dag gegn eigin þjóð.
Það er svo sannarlega kominn tími til að moka embættismannaflórinn og helst skola honum út í hafsauga, ásamt stjórnmálamönnum þeim, sem nú síðustu dægrin virðast hafa það eitt á stefnuskrá sinni að afnema lýðveldið Ísland, á hundrað ára afmælinu! Það er kominn tími á ærlega hreingerningu í stjórnkerfinu. Ef ekki með góðu, þá illu.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 14.12.2018 kl. 00:12
Bjarni.: Hafðu ævarandi þakkir fyrir pistla þína og raunsanna lýsingu á því hve illa embættismenn og þeirra stjórnendur, sem þó virðast minna vita en undirsátar sínir, hafa skipulega gert atlögu að sjálfstæði okkar! Hundrað ára afmælið var haldið að Þingvöllum í hundrað milljóna rugli (tuttugu milljóna ljósasjói) og nú ætlar þessi "elíta" endanlega að kasta okkur fyir hákarlana, með skilyrðislausri opnun landamæra okkar og banni við gagnrýni fjölmiðla, awm wina og oftast, eru svo utanviðsig að þeir skilja yfirleytt ekkert, í því sem þeir eru að fjalla um. "Copy paste aumingjar" svo maður komi þessu nú almennilega frá sér.
Virðist engu skipta hvort um er að ræða orkuna okkar eða framtíð barnanna okkar. Þetta rusl veður áfram í sjálfsánægju sinni og algerri forherðingu, því það getur ekki annað verið en að þeim hafi verið lofað einhverju, fyrir sinn snúð. Aðra ályktun er hreinlega ekki hægt að draga af háttalagi þeirra! Kökuskreytingar í beinni og annað andskotans bull, tár á hvarmi sem var ekkert annað en sull og klikkja síðan út með Þjóðarsjóði, sem á að ávaxta í útlöndum!
Það er varla að maður viti í hvaða landi maður er staddur, þessi dægrin. Ef ekki væri fyrir klausturbarinn og bullið þar, hroðalegar undirskriftir ótýndra embættismanna um örlög þjóðarinnar á næstu árum og afkomu barnanna okkar, sem samkvæmt samningnum verða að vinna, meða ruslið sefur á sósíalnum, hefði ég haldið að ég væri enn í Argentínu eða Kúala Lúmpúr!
Það er sorglegt að vera staddur á Íslandi, þessi dægrin. Ógeðslegir þingmenn gerðir uppvísir að ömurlegum ummælum. Fullir í vinnunni? Lögleg upptaka eður ei? "Who gives a shit?" Ummælin ömurleg, upptakan eflaust á gráu svæði, en að þvílíkir strigabassar og skítseyði sem þarna voru opinberuð verður ekki gleymt! Orð þeirra eru greypt í mynni þjóðarinnar!
Ef þetta eru kaupin á Eyrinni, þar sem ég eitt sinn vann, hefur mikið breyst. Þessa drullusokka á að sniðganga um aldur og ævi. Bára siglir eflaust milli skers og báru, en sjaldan er ein báran stök. (Djöfull held eg að Bára sé orðin þreytt á að heyra þennan)
Gleðileg jól og góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 14.12.2018 kl. 02:44
Frábær grein Bjarni og kommentin líka virkilega beitt !
Þú ert okkar sterkasta vopn í baráttunni gegn 3ja orkupakkanum.
Gunnlaugur I., 14.12.2018 kl. 04:25
Sæll, Gunnar Heiðarsson;
Ef hugur fylgdi máli um að rýna EES-samninginn, þyrfti að greina stjórnlagalegar og hagrænar afleiðingar hans. Það kæmi mér á óvart, ef nefndin, sem nú hefur fengið það hlutverk að rita skýrslu um EES-samninginn og reynsluna af honum, hefur einhverja tilburði uppi um það. Líklegasta útkoman er flatneskjuleg rulla um kosti samningsins, en ókostirnir verði lítt krufnir. Það þarf úttekt á því, hvort samanlagt valdaafsal ríkisins á samningstímanum rúmist innan Stjórnarskrár. Það þarf að greina samanlagt framleiðnitap atvinnulífs og stjórnsýslu vegna upptöku lagabálka, sem fela í sér byrðar fyrir atvinnulíf og stjórnsýslu, sem hefði mátt forðast án aðildar að EES-samninginum. Þá er löngu tímabært að greina, eins og Norðmenn hafa gert, þá valkosti, sem til boða standa, í stað EES-samningsins. Sem dæmi má taka samanburð á hagvexti á Íslandi með EES-samning og með víðtækan fríverzlunarsamning við ESB og Bretland. Það er nauðsynlegt að ganga að þessu verkefni með opinn huga, en ekki í gaddfreðinni og forstokkaðri varnarstöðu fyrir EES-samninginn. Skýrslan felur í sér hreina sóun, ef hún verður yfirborðsleg varnarræða fyrir EES-aðildina.
Bjarni Jónsson, 14.12.2018 kl. 10:37
Sæll, Halldór Egill;
Höfundur Reykjavíkurbréfs þekkir innviði stjórnsýslunnar. Þar segir hann liggja á fleti fyrir smala í hlutastarfi fyrir búrókratíska forréttindastétt Evrópu. Gangi Ísland í ESB (umsóknin liggur þar enn í skúffu), þá eygja þessir smalar von um að komast á þessa jötu. Hann nefnir líka löglærða álitsgjafa, sem aldrei skulu bregðast, þegar óskað er umsagna um áhugamál forréttindastéttar ESB, hvort sem það er bankaeftirlit, persónuvernd, orkupakki eða Icesave. Það stendur yfir barátta um Ísland.
Bjarni Jónsson, 14.12.2018 kl. 10:48
Þakka þér fyrir, Gunnlaugur. Þjóðin þarf að gefa rækilega gaum að afstöðu stjórnmálaflokka og þingmanna til Orkupakka #3 og taka afstöðu í næstu kosningum með hliðsjón af frammistöðunni á þeim vettvangi.
Bjarni Jónsson, 14.12.2018 kl. 10:51
Glæsileg grein og þörf, Bjarni, heilar þakkir fyrir hana. Björn Bjarnason mætti gjarnan gá að því, að hvorki Davíð Oddsson né Jón Baldvin eru eins og hann, veikir í hnjáliðunum fyrir Þriðja orkupakka ESB.
Góðir eru samherjar okkar hér, en ég verð að ljúka yfirferð um þeirra innlegg seinna.
Jón Valur Jensson, 14.12.2018 kl. 19:36
Sæll, Jón Valur;
Fjölmargir fyrrverandi Alþingismenn, sumir þeirra ráðherrar, hafa kvatt sér hljóðs um skaðræði Orkupakka #3 fyrir fullveldi landsins, en einn sker sig úr og hamast fyrir pakkann. Þarf það hvorki að vera harmsefni né undrunarefni. "Some are wise, and some are otherwise."
Bjarni Jónsson, 14.12.2018 kl. 20:53
Góður!
Jón Valur Jensson, 15.12.2018 kl. 22:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.