Sæstrengur eða iðjuver

Enn er agnúazt hérlendis út í langtíma raforkusamninga við erlend stóriðjufyrirtæki.  Það er kostulegt, því að þessir samningar voru ekki einvörðungu undirstaða stórvirkjana á Íslandi, sem voru mun hagkvæmari í rekstri en smávirkjanir eða margir smááfangar stórvirkjana, heldur urðu þeir líka undirstaðan að öflugu flutningskerfi raforku frá virkjunum til þéttbýlisins á SV-landi.  Þetta kerfi væri bæði veigaminna, þ.e. væri með annmörkum minna afhendingaröryggis raforku til viðskiptavinanna, og væri miklu dýrara fyrir almenna notendur en reyndin er, ef raforkukerfið hefði einvörðungu verið sniðið við almenna markaðinn, sem nú er um 20 % af heild.

  Með samnýtingu stórnotenda og almennings á einu og sama raforkukerfinu, sem stórnotendur hafa fjármagnað að mestu leyti, hefur draumur brautryðjendanna um einna lægst raforkuverð á Íslandi með viðunandi afhendingaröryggi í samanburði við önnur lönd í Evrópu og reyndar víðast hvar í heiminum rætzt.  Við þessi hlunnindi bætast auðvitað hitaveiturnar, þar sem þeirra nýtur við til húsnæðishitunar hérlendis. Hitaveiturnar stórminnka raforkuþörfina eða um allt að 10 TWh/ár, sem er um helmingur núverandi virkjaðrar orku.  Íslendingar hafa þannig með áræðni, framsýni og dugnaði á þessu tæknilega sviði, sem orkunýting er, borið gæfu til að leysa þau viðfangsefni vel af hendi, sem felast í að breyta orkulindum í verðmæta afurð, samfélaginu öllu til mikilla hagsbóta.  Þó má betur, ef duga skal.  

Sem dæmi dugðu greiðslur frá ISAL til Landsvirkjunar fyrir raforku fyrstu 30 ár rekstrarins til að greiða upp allan upphaflegan stofnkostnað Búrfellsvirkjunar, Geithálsstöðvarinnar, tveggja flutningslína á milli Búrfells og ISAL ásamt vararafstöð Landsvirkjunar í Straumsvík.  Þessi mannvirki, nema vararafstöðin, leystu jafnframt úr almennum raforkuskorti á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sem tók að gæta í lok 7. áratugar síðustu aldar.  

Sumir hagfræðingar o.fl. eru haldnir þeirri bábilju, sem fyrir löngu komst á kreik, að fjárfestingar í raforkumannvirkjum, virkjunum, aðveitustöðvum og flutningslínum, á grundvelli gerðra langtímasamninga um raforkuafhendingu til iðjuvera, haldi ekki máli, hvað arðsemi varðar.  Þetta er alvarleg villa, sem stafar af því, að hagfræðingarnir hafa ekki tekið með í reikninginn óvenjulangan endingartíma virkjananna í fullri virkni og með litlum rekstrarkostnaði.

  Venjulega er reiknað með bókhaldslegum afskriftartíma 40 ár fyrir virkjanir, en tæknilegur endingartími þeirra getur hæglega varað 100 ár með eðlilegu viðhaldi og endurnýjun.  Ef hagfræðingarnir reikna bara arðsemina yfir afskriftartímann, er ekki kyn, þótt keraldið leki, því að botninn er þá suður í Borgarfirði.  Í neðangreindri tilvitnun í téðan Óðin hafa menn komizt að þeirri niðurstöðu, að arðsemi þessara fjárfestinga sé 5 %.  Réttara er að áætla hana 50 % fyrstu 100 árin að jafnaði, ef gert er ráð fyrir 5 % í 40 ár og 80 % í 60 ár:

"Staðreyndin er sú, að arðsemin af fjárfestingu tengdri stóriðju hefur verið óviðunandi, eins og Óðinn hefur oft bent á.  Þetta kemur fram í skýrslu, sem Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannsson skrifuðu fyrir Hagfræðistofnun Háskóla Íslands árið 2012, "Arðsemi Landsvirkjunar af rafmagnssölu til stóriðju 1966-2010".  Niðurstaða þeirrar skýrslu er, að arðsemi raforkusölunnar sé ekki nema liðlega 5 % fyrir skatta og verðbólgu, sem þýðir, að fjárfestingin stendur ekki undir fórnarkostnaði þess fjármagns, sem bundið er í henni.  Þjóðhagslegur ábati hefði verið meiri, ef ríkið hefði ekki sogað þetta fé til sín og það hefði verið til reiðu í aðra atvinnuvegafjárfestingu."

Málflutningi af þessu tagi er beitt í vanburða tilraun til að færa rök fyrir þeirri skoðun, að erlendar fjárfestingar í orkukræfum iðnaði hérlendis séu óalandi og óferjandi.  Þetta eru fordómar.  Þessi iðnaðarstarfsemi hefur gert íslenzkum orkufyrirtækjum kleift að fjárfesta í virkjunum, sem mala gull í 100 ár.  Bauðst íslenzka ríkinu einhvern tímann viðlíka fjárfestingartækifæri ? 

Jafnvel þótt álverið í Straumsvík muni aðeins starfa í tæplega 70 ár (út núverandi samningstíma um raforku), þá verður meðalarðsemin af fjárfestingum vegna þess samt um 50 %, því að orkuverðið þangað hefur hækkað mjög mikið á rekstrartímabilinu, ekki sízt eftir að afskriftartímabili Búrfellsvirkjunar lauk. 

Starfsemi fyrirtækjanna, sem útlendingar hafa stofnsett hérlendis til að skapa verðmæti úr endurnýjanlegri orku, hefur leitt til mikillar tækniþróunar hérlendis og öryggis- og umhverfisstjórnun hefur tekið stakkaskiptum fyrir þeirra tilverknað og þeirra íslenzka starfsliðs.  Það er þess vegna ekki reist á neinum rökum, að t.d. álverin hafi verið einhvers konar byrði hér, sem haldið hafi aftur af þróuninni vegna þess, að fénu til orkumannvirkjanna hefði getað verið betur varið.  Þetta er algerlega tilhæfulaust og sorglegt að sjá Óðin falla ofan í þennan fúla pytt.

Síðan víkur Óðinn sögunni að sæstrengsviðræðum þáverandi forsætisráðherranna, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Davids Cameron, en Óðinn er ekki sá eini, sem hefur tilhneigingu til að stilla aflsæstreng til útlanda upp sem heppilegum valkosti við málmiðjuverin.  Þar verður þá ekki komizt hjá því að stilla upp þriðja valkostinum, sem er vinnsla vetnis hérlendis úr vatni með rafgreiningu, en í uppsiglingu er á Bretlandi mikill markaður fyrir vetni til að leysa jarðgas af hólmi sem orkugjafi til upphitunar húsnæðis.  

"Ráðherrarnir ræddu einnig samstarf í orkumálum og var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng.  Sigmundur Davíð sagðist hafa fyrirvara um lagningu sæstrengs.  Forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri, að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki. Eðlilegt er þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif, sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér."

Hér er meinloka á ferðinni.  Það er útilokað, að tenging íslenzka raforkukerfisins við erlent raforkukerfi, þar sem heildsöluverð raforku er a.m.k. tvöfalt raforkuverðið hérlendis, hafi ekki áhrif á verðlagningu raforku hér til hækkunar.  Eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins hérlendis og tengingu raforkukerfanna mun verðlagningin hér ráðast í "Nord Pool" orkukauphöllinni, þar sem Ísland og Bretland verða.  Íslenzkir raforkukaupendur verða þar í samkeppni við brezka og kannski einnig við kaupendur á meginlandinu, því að Bretland er raftengt þangað og bráðlega við Noreg einnig.  Vilja Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins þetta ?  Þau mega ekki fljóta sofandi að feigðarósi, heldur ber að berjast gegn slíkum kostnaðarauka á sín aðildarfyrirtæki, sem raftenging við útlönd óhjákvæmilega hefur í för með sér.  

Hérlendis hafa heyrzt raddir um, að það muni verða á valdi íslenzkra stjórnvalda, hvert rafmagnsverðið verður til almennings hérlendis eftir slíka tengingu.  Það er tóm vitleysa. Hverjum dettur í hug, að ríkissjóður hafi bolmagn til slíkra niðurgreiðslna ?  Ef hann hins vegar reynir það, gerist hann umsvifalaust brotlegur við reglur EES-samningsins, sem banna slík inngrip ríkisins í samkeppnismarkað, enda eru t.d. engin fordæmi um slík inngrip norska ríkissjóðsins með sinn öfluga bakhjarl, olíusjóðinn, þótt norskum fjölskyldum og fyrirtækjum hafi sviðið mjög undan gríðarlegum verðhækkunum rafmagns þar í landi samfara útflutningi á rafmagni. 

Óðinn hefur furðulega afstöðu til þessa máls, því að hann skrifar, að hann sé sammála Sigmundi um, að "það er óásættanlegt, að íslenzkur almenningur taki á sig þyngri byrðar með tilkomu sæstrengs.  En þetta eru óþarfar áhyggjur Sigmundar bæði fyrr og nú".  Þær eru ekki óþarfar. Það er þvert á móti óhjákvæmilegt, að íslenzkur almenningur  beri kostnað af sæstrengsuppátæki, bæði beinan og óbeinan.  Beini kostnaðurinn felst í að standa undir kostnaði Landsnets við að reisa flutningslínur frá stofnkerfinu og niður að landtökustað sæstrengsins, sennilega tvær 400 kV línur samkvæmt forskrift Orkupakka #3, og óbeini kostnaðurinn felst í hækkun á verðlagningu raforku vegna tengingar við erlendan markað og minna framboðs en eftirspurnar.

Síðan fimbulfambar Óðinn um, að sú lífskjarastefna, sem felst í því að halda raforkuverði lágu til heimila, sem nota aðeins 5 % af heildarraforkunotkun, haldi verði niðri til hinna, þ.e. almenns atvinnurekstrar og stóriðju, og að þar með nái orkuseljendur minni hagnaði en ella.  Hann athugar það ekki, að lágt raforkuverð skapar atvinnurekstrinum í landinu nauðsynlegt forskot í samkeppni við fyrirtæki, sem eru betur staðsett m.v. aðdrætti og flutninga afurða á markað.  Þá dregur lágt raforkuverð til almennings ekkert úr svigrúmi raforkuheildsalanna til að gera hagstæða langtíma raforkusamninga.  

Það fettir enginn fingur út í það, þótt umsamið verð til stóriðju hækki, þegar langtímasamningar eru endurnýjaðir.  Stóriðjan hefur um langa hríð staðið undir fjármögnun raforkukerfisins og lágu raforkuverði til almennings.  Við það er ekkert að athuga.  

Þegar menn draga í efa, að staðan sé þessi, þá gleyma þeir dreifingarkostnaðinum, sem hérlendis nemur tæplega 40 % af heildarkostnaði rafmagns til almennings, en stóriðjan sér sjálf um fyrir sig.  Þá gleyma menn einnig, að fjárfesting á bak við hverja kWh er um 60 % meiri, þegar virkjað er fyrir ójafnt álag, eins og álag almenningsveitna, en fyrir jafnt álag stóriðjunnar, og hagkvæmni stærðarinnar er þá ótalin.  

Óðinn klykkir út með eftirfarandi hvatningu til iðnaðarráðherra:

"Óðinn vonar, að iðnaðarráðherra muni loks láta reyna á það, hvort lagning sæstrengs sé fær leið, enda allir helztu hagfræðingar landsins sammála um áhrif hennar á þjóðarhag."

´Oðinn vill sem sagt kanna til hlítar, hvort hægt sé að þróa álitlega viðskiptahugmynd með Englendingum um raforkuviðskipti við Íslendinga.  Af þeim gögnum, sem þegar eru fyrir hendi, má þó ljóst vera, að alvarlegir meinbugir eru á þessu sæstrengsverkefni, þótt Óðinn telji "alla helztu hagfræðinga landsins" telja verkefnið þjóðhagslega hagkvæmt.  Væri fróðlegt að sjá þá útrikninga, því að þetta stenzt ekki, á meðan heildsöluverð raforku á Englandi er undir 180 USD/MWh, sem er 2,25 x núverandi heildsöluverð þar.  Þetta stafar m.a. af gríðarlegum eða um 10 % afltöpum á leiðinni, sem flutningar um strenginn verða að borga.  Ef 1400 MW fara inn á endabúnaðinn, þá koma aðeins 1260 MW út eða með öðrum orðum 140 MW tap.  Það er tæplega aflgeta Blönduvirkjunar.

Nú er að opnast nýtt viðskiptatækifæri á NA-Englandi fyrir orku.  Leeds-borg hefur áform um orkuskipti við húshitun, og borgarstjórnin vill leysa jarðgas af hólmi með vetni.  Fljótt á litið getur reynzt arðsamt að rafgreina vatn á Íslandi og senda það utan með skipi, en flutningskostnaðinn þarf þó að kanna nánar.  Það er líka annar markaður að opnast fyrir vetni í Evrópu, en það er hluti stáliðnaðarins, sem vill verða kolefnishlutlaus með því að afoxa járngrýtið með vetni í stað jarðgass, sem notað er í sumum stálvinnsluofnum.  Það sparar orku að framleiða vetnið á Íslandi m.v. að gera það með íslenzku rafmagni á Englandi, og vetnisframleiðslan felur í sér verðmætasköpun með rafmagni  ásamt nokkurri atvinnusköpun.  Þá er hægt að leysa benzín og dísilolíu og væntanlega flotaolíu líka af hólmi með amoníum, NH3.  Vetnis- og ammoníumframleiðsla á Íslandi jafngilda að öllum líkindum meiri þjóðhagslegri hagkvæmni en hrár raforkuútflutningur.

ISAL í Straumsvík 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Bjarni, eins og þú reifar málið hér að ofan þá snýst það um hvort við eigum að senda hráefnin úr landi óunnin.  Leyfa öðrum þjóðum að fullvinna þau og kaupa svo til baka með tilheyrandi kostnaði.  Án þess að njóta góðs af fyrir vinnuafl og ríkissjóð.
Kærar þakkir fyrir góða og fræðandi pistla og sendi þér og þínum bestu óskir um gleðileg jól.

Kolbrún Hilmars, 24.12.2018 kl. 13:39

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einmitt, Kolbrún.  Þetta var minn boðskapur.  Við þurfum á okkar náttúruauðlindum að halda sjálf til að skapa vaxandi þjóð fjölbreytileg viðfangsefni við verðmætasköpun í landinu sjálfu.

Það getur mjög fljótt versnað hér verulega atvinnuástandið, ef við ekki fjölgum og eflum stoðir útflutnings, eins og nýlegar fréttir um væntanlega fækkun starfa 2019 í stað mikillar fjölgunar síðustu ára gáfu til kynna.  

Ég óska þér sömuleiðis gleðilegra jóla.

Bjarni Jónsson, 24.12.2018 kl. 15:18

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Bandamenn fluttu eldsneytið á stríðstólin í Evrópu um rör frá Englandi undir Ermasund. Hversu ,miklu einfladara væri ekki að blása vetmi um rör frá Íslandi til Evrópu en rafmagni um sæstreng?

Halldór Jónsson, 25.12.2018 kl. 11:54

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Já Gleðileg Jól Kollege Bjarni og takk fyrir samskiptin á árinu. Og góðar þakki fyrir þessa grein sem er hárbeitt og góð.

Halldór Jónsson, 25.12.2018 kl. 11:55

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Norðmenn flytja jarðgas undan hafsbotni til Englands og meginlandsins, en botn Norðursjávar er ólíkur botni Atlantshafsins.  Þar að auki grunar mig að óreyndu, að vetnismagn frá Íslandi geti ekki staðið undir fjárfestingu neðansjávarlagnar.  Gasið fer um þjöppur og er flutt háþrýst á vökvaformi, hvort sem það væri flutt í rörum eða með skipum.  Mér segir svo hugur um, að Atlantic Superconnector, sem hefur kynnt áform um atvinnuuppbyggingu á Norð-Austur Englandi með íslenzku rafmagni, hafi í hyggju að framleiða þar vetni til orkuskiptanna á NA Englandi og geta þá kallað vetnið umhverfisvænt.  

Ég óska þér, kollega Halldór, gleðilegra jóla, og til hamingju með Sám, fóstra, sem, eins og nafni hans á Hlíðarenda, forðum, er til algerrar fyrirmyndar.  

Bjarni Jónsson, 25.12.2018 kl. 14:59

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það sem gerist eftir 50 ár skiptir eiginlega engu máli þegar arðsemi verkefna er metin. Það fæst enginn fjárfestir með viti til að leggja fé í framkvæmd sem ekki skilar neinu fyrr en að 50 árum liðnum. Þeir einu sem leggja fé í slíkar framkvæmdir eru stjórnmálamenn sem hafa komist með krumlurnar í fé annars fólks og nota það til að kaupa atkvæði handa sjálfum sér af fólki sem hefur þau til sölu.

Þorsteinn Siglaugsson, 27.12.2018 kl. 09:27

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er alveg rétt, Þorsteinn, þegar beitt er núvirðingaraðferð.  Hún er prýðileg, þegar bera á saman fjárfestingarverkefni.  Í þessu tilviki stóð valið hins vegar um að byggja upp íslenzka raforkukerfið hér á SV-landinu og skapa mikla vinnu við þá uppbyggingu og við að reisa álverið í Straumsvík og síðan að reka það, eða að gera það ekki og jafnvel að gera ekki neitt.  Lánstraustið var nefnilega ekki beysið í þá daga, en Alþjóðabankinn var fús til að lána til raforkuframkvæmdanna, eftir að Landsvirkjun náði langtímasamningi við Alusuisse um langtíma raforkuviðskipti.  Til að ná þeim samningi, þurfti hins vegar að semja um lágt upphafsverð rafmagnsins, því að engin reynsla var þá af slíkum viðskiptum við Íslendinga.  Reynslan hefur sýnt, að þeir eru traustsins verðir, enda hefur rafmagnsverðið til áliðnaðar hérlendis hækkað jafnt og þétt.  

Stjórnmálamenn þeirrar tíðar vissu, hvað þeir voru að gera.  Þeir lögðu landsmenn í sáralitla fjárhagslega hættu, en lögðu grundvöll að innviðum, sem mala gull löngu eftir bókhaldslegan afskriftartíma.  Hverju var fórnað á þeim tíma ?  Ég veit ekki um nein betri fjárfestingartækifæri, sem hafi verið í boði 1965-1970.

Bjarni Jónsson, 27.12.2018 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband