Átta landa gengið innan ESB

Í fersku minni er frá fyrsta ársfjórðungi 2016, er einn helzti fyrrum hvatamaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, líkti slíkri inngöngu við að hlaupa inn í brennandi hús. Það, sem Jóni B. Hannibalssyni ofbauð helzt við hið brennandi hús, var myntbandalagið og meðferð ráðandi afla þar, Frakklands og Þýzkalands, á veikburða suðurríkjum bandalagsins, einkum Grikklandi. 

Aðgerðir ESB, ESB-bankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, til að bjarga Grikklandi frá gjaldþroti í kjölfar alþjóðlegs fjármálahruns 2007-2008 voru í raun lenging í hengingaról Grikkja til bjargar lánadrottnum Grikkja, sem að stærstum hluta voru franskir og þýzkir bankar, sem margir hverjir stóðu tæpt og eru enn laskaðir. Síðan þá hefur runnið upp fyrir æ fleirum, hvað ESB í raun og veru er orðið: það er vanheilagt bandalag skriffinnskubákns og stórkapítals.  Hagsmunir hins vinnandi manns og konu á Íslandi og þeirrar klíku geta ekki farið saman.  Var ekki Icesave-deilan áminning um það ?

Það kennir margra grasa innan ESB, og núningurinn er ekki aðeins á milli norðurs og suðurs; hann er einnig á milli austurs og vesturs.  Límið, sem hindrað hefur klofning eftir gamla járntjaldinu, er ótti Austur-Evrópuríkjanna við rússneska björninn.

Eystrasaltslöndin þrjú, sem innlimuð voru í Ráðstjórnarríkin, þegar Wehrmacht hörfaði undan ofureflinu 1944 eftir vanhugsaða "Operation Barbarossa"-Rauðskeggsaðgerðina, stærstu hernaðaraðgerð sögunnar, eru reyndar ekki í bandalagi Austur-Evrópuríkjanna innan ESB, heldur eru þau í Nýja Hansasambandinu, þar sem eru 5 önnur ríki: Írland, Holland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland.  Það, sem sameinar þessi ríki, er, að standa fast á Maastricht-skilmálunum um heilbrigðan rekstur ríkissjóðs hvers lands, og þau vilja ekki sjá sameiginleg fjárlög og einn fjármálaráðherra evrusvæðisins né stóran samtryggingarsjóð til að forða veikum ríkissjóðum frá greiðslufalli.  Miðstýrðasta ríki Evrópu, Frakkland, sem að ýmsu leyti stendur veikt, herjar á um þessa óvinsælu samrunaþróun.  Þar horfa Frakkar aðallega til þess, að hinir duglegu, aðhaldssömu og skilvirku nágrannar austan Rínar dragi þá upp úr foraðinu, sem þeir hafa ratað í vegna óráðsíu.    

Ríkin 8 eiga sér reyndar stuðningsríki um þetta í Slóvakíu, sem var austan járntjaldsins í austurhluta Tékkóslóvakíu, og Slóveníu, sem var nyrzta ríki Júgóslavíu.  Þýzkaland er nú hlédrægur bakhjarl Nýja Hansasambandsins, eins og á miðöldum, þegar nokkrar þýzkar verzlunarborgir voru mikilvægur hluti Hansasambands miðalda.

Ástæðan fyrir hæglátri afstöðu Þýzkalands er sú, að Nýja Hansasambandið beinist aðallega að Frakklandi, og Þýzkaland reynir enn að stjórna ESB í nánu samstarfi við Frakkland.  Það verður hins vegar stöðugt erfiðara fyrir Þýzkaland að hlaupa eftir duttlungum Frakklands um "samstöðu", sem snýst um að hlaupa undir bagga með veika manninum í Evrópu, Frakklandi, sem neitar að taka á sínum málum.  Frá þessum veika manni Evrópu koma alls konar blautir draumar með rætur í gamalli og löngu horfinni stórveldistíð, t.d. lágvaxna Korsíkumannsins, eins og  um sameiginlegan herafla, sem varizt geti Rússum, Bandaríkjamönnum og Kínverjum.  Þetta er út í hött á sama tíma og þessi forysturíki ESB og mörg fleiri hafa ekki treyst sér til að standa við skuldbindingar sínar innan NATO um framlög til hermála.

Skattbyrðin er mest í Frakklandi innan OECD, og Macron, forseti, sem verið hefur með digurbarkalegar yfirlýsingar um að láta ekki óeirðaseggi stjórna málefnum Frakklands, hefur reynzt vera pappírstígrisdýr, sem gaf eftir fyrir gulvestungum og skaðaði þannig pólitískt orðspor sitt.  Við það vex hallinn á ríkisbúskap Frakka enn, og það verður fróðlegt að sjá Brüssel hirta Gallana fyrir skuldasöfnun, sem ógnar stöðugleika evrunnar.  Það verður þó aðeins gert með samþykki Berlínar, og þar er þolinmæðin á þrotum gagnvart framferði Gallanna.  Verði Gallinn hirtur, mun hrikta í öxlinum Berlín-París, en verði Gallanum sleppt við hirtingu, mun Nýja Hansasambandið, Ítalir, Grikkir o.fl. móðgast.

Hvatinn að Nýja Hansasambandinu, sem myndað var í desember 2017 að frumkvæði fjármálaráðherra landanna 8, var BREXIT.  Löndin höfðu talið hag sínum vel fyrir komið með Bretland sem boðbera frjáls markaðar og Þýzkaland sem boðbera heilbrigðra ríkisfjármála sem mótvægi við franskan ákafa um "samstöðu" í ríkisfjármálum og verndarstefnu á viðskiptasviðinu.  Valdajafnvægið innan ESB breytist við brotthvarf Breta, Frökkum í vil, og Nýja Hansasambandið á að verða þar mótvægi.  

Í sameiginlegri skýrslu fjármálaráðherra 8-landa gengisins frá marz 2018 er lögð áherzla á, að "fyrst og fremst" eigi ríkin að haga ríkisfjármálum í "fullu samræmi" við ríkissjóðsreglur ESB. Ef allir mundu haga sér með ábyrgum hætti og kæmu reglu á opinber fjármál, þá yrði hægt að takast á við ytri áföll, án þess að skattgreiðendur annarra landa þyrftu að hlaupa undir bagga, skrifuðu þeir.  Haukar ríkisfjármálanna halda því fram, líklega með Ítalíu í huga, að stöðugleikasjóður, sem dreifir áhættu á milli ríkja, mundi einnig virka hvetjandi til óhófs og letjandi á aðhaldssemi.  Nýja Hansasambandið mundi fremur hvetja til eflingar markaðsaflanna innan ESB, t.d. að hraða umbótum á fjármálamarkaðinum eða að gera fleiri fríverzlunarsamninga við ríki utan EES.

Íslendingar mundu að mörgu leyti eiga samleið með hinu Nýja Hansasambandi, en aðild að ESB kemur hins vegar ekki til greina, því að sjálfsákvörðunarrétturinn og umráðaréttur yfir auðlindum landsins færu þá veg allrar veraldar.  Bretar fengu nóg af miðstjórnarvaldinu í Brüssel og klíkustjórnun öxulsins Berlín-París, sem hundsaði Bretland. Slíku getur gamalt stórveldi ekki torgað lengi. Bretar hafa sennilega endanlega fengið sig fullsadda á Evrópusambandinu í útgönguviðræðunum og munu eftir útgönguna taka upp samkeppni við það á mörgum sviðum, sem leitt getur til, að þeirra gömlu bandamenn innan ESB, sem nú mynda Nýja Hansasambandið, segi skilið við ESB með tíð og tíma og gangi í fríverzlunarbandalag, hugsanlega EFTA. Mun þá gamla Hansasambandið ganga í endurnýjun lífdaganna.  Það eru ýmis innanmein í ESB, sem benda til, að þetta vanheilaga samband skrifstofuveldis og stórkapítals muni líða undir lok í sinni núverandi mynd fyrr en síðar.  

Þjóðríkishugmyndinni hefur vaxið fiskur um hrygg í Evrópu síðan ríki Habsborgara leið undir lok 1918.  Íslendingar kærðu sig ekki um að vera í ríkjasambandi við Dani, en meirihluti Færeyinga virðist enn kjósa það.  Skotar, Walesverjar og Norður-Írar verða líklega áfram í sambandsríki með Englendingum, þannig að það er mismunandi afstaða uppi, og tungumálið virðist ráða töluverðu um afstöðu þjóða, t.d. á Bretlandseyjum, þar sem allir tala ensku. 

Heillavænlegast er, að ákvarðanir um málefni íbúa séu teknar í nærumhverfi þeirra.  Þannig eru langflestir hérlendis þeirrar skoðunar, að stjórnun málefna Íslands hafi batnað markvert með Heimastjórninni 1904.  Að sama skapi telja mjög margir, að það yrði dapurlegt afturhvarf til fortíðar að flytja stjórnun málefna Íslands að talsverðu leyti til Brüssel, enda hefur iðulega komið í ljós, að hagsmunir landa á meginlandi Evrópu fara ekki saman við hagsmuni eyjarskeggja langt norður í Atlantshafi.  Það er auðskiljanlegt.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aztec

Það má ganga enn lengra og segja að hagsmunir ESB fari ekki saman við hagsmuni neinna ESB-ríkja annarra en Þýzkalands.

Aztec, 5.1.2019 kl. 23:17

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér, Bjarni, fyrir mjög fróðlega og gagnlega grein, sem kemur víða við.

Þegar þú í 6. klausu talar um "hægláta afstöðu Þýzkalands", sýnist mér þú eiga við tregðublandna afstöðu ráðamanna þar.

Jón Valur Jensson, 6.1.2019 kl. 00:52

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þakka enn einn góðan pistilinn Bjarni og gleðilegt ár. Tek undir með Jóni Val, hér að ofan, um Þýskaland. Getur verið að stjórnvöld þar í landi hangi enn á draumnum um "ríkið", þá sennilega það fjórða? Töpuðu tveimur styrjöldum með vopnum og skelfilegum voðaverkum, en þráskallast nú við með peningum. 

 Hvort bretar gangi samningslausir útúr esb viðbjóðnum, eður ei, skiptir engu máli. Enginn skal reyna að segja mér að bretar hætti að kaupa Benz, Porche eða Audi, frekar en þjóðverjar Ford eða Jaguar. Umræðan er vandamálið. Henni er stýrt í þá vera að skelfa og hræða. Fremstir í flokki umræðustjórnunarinnar eru duglaus möppudýr og ómerkilegir stjórnmálamenn, með enga hugsjón aðra en þá sem hentar þeim einum best.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 6.1.2019 kl. 02:12

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Aztec: hafa ber í huga, að evran er síður en svo hugarfóstur Þjóðverja.  Þeir sáu mjög eftir DEM.  "Deutscmark, Deutschmark, Schade das du alles vorbei ist", stóð á heyvögnum kjötkveðjuhátíðanna í Þýzkalandi.  Evran var skilyrði Frakka fyrir að samþykkja "die Wiedervereinigung Deutschlands", endursameiningu Þýzkalands.  Þjóðverjar hafa síðan oftast haldið í heiðri Maastricht-skilyrðin, en höfundar evrunnar, Frakkarnir, gefa skít í reglurnar, eins og þeir eru vanir, og leggja meira upp úr hinu ljúfa lífi.  Þýzka útflutningsvélin blómstrar, af því að gengi evrunnar er miklu lægra en svarar til styrkleika germönsku hagkerfanna innan evrusvæðisins.  Bjórvambir kýla vömbina, en rauðvínsbelgir væla.  Þetta gengur auðvitað ekki öllu lengur.  Grikkland og Ítalía geta ekki búið við sömu mynt og Þýzkaland.  Ef við ættum að búa við sömu mynt og Þjóðverjar, yrðum við að láta af fíflagangi í kjarasamningum, sem kallast víst "höfrungahlaup". 

Bjarni Jónsson, 6.1.2019 kl. 12:01

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Jón Valur; Hjarta Berlínar slær með Nýja Hansasambandinu, en þeir hafa enn ekki gefið Gallana upp á bátinn, því að þar með færi goðsögnin um friðarvarðveizluhlutverk ESB fyrir lítið.  Þar sem Annegrete Kramp Karrenbauer, nýkjörinn formaður CDU, er frá Saar-héraðinu, gæti hún verið hallari undir öxulinn Berlín-París en menn á borð við Mertz, sem varð undir í formannskjöri með litlum mun, en er líklega ekki af baki dottinn.  Bretar vita nákvæmlega um veikleika ESB og munu spila á þá eftir útgönguna.  Þjóðverjar sjá eftir Bretum úr ESB og munu kappkosta að eiga við þá vinsamlegt samband, enda gengur þeim yfirleitt mun betur að vinna með þeim en Frökkunum.  Hvert mismunandi viðhorf Evrópuþjóðanna leiðir, er ómögulegt að segja, en ég spái meiri hagvexti á Bretlandi en í Frakklandi og Þýzkalandi næsta áratuginn.  Aldurssamsetning og viðkoma er Bretum mun hagstæðari en Þjóðverjum.  Gamlingjarnir stefna í að verða þungur baggi á þýzka ríkissjóðinum, því að Þjóðverjar eru með gegnumstreymiskerfi.  Þessi staða myndar sterkan hvata til sjálfvirknivæðingar.  Slíkt kemur sér vel fyrir okkur hér í fámenninu, því að tæknin mun auðvitað berast hingað.

Bjarni Jónsson, 6.1.2019 kl. 13:21

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Mikið góð grein Bjarni. Það væri vert að senda hana Alþingismönnum þótt þeir kunni varla að lesa sér til gagns.. 

Valdimar Samúelsson, 6.1.2019 kl. 13:35

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Gleðilegt nýár, Halldór Egill.  Þýzkaland er ekki á höttunum eftir drottnunarstöðu í Evrópu.  Það er rangtúlkun á stöðu þeirra og viðhorfum.  Þeir eru alls staðar kraftmiklir og aðsópsmiklir, en viðskiptin setja þeir í öndvegi, og þau mundu ekki vænkast, ef þeir væru með "Fjórða ríkis" tilburði.  Slíkt er reyndar útilokað í lýðræðiskerfi þeirra.  Þjóðverjar vilja vinna, neyta, ferðast og njóta ellinnar.  Þess vegna spara þeir.  Þeir eru gramir ESB-bankanum fyrir lágvaxtastefnu hans, því að slíkt minnkar ráðstöfunarfé þeirra í ellinni.  Seðlaprentunarstefna ESB-bankans hefur reyndar enn ekki náð að koma af stað almennilegum hagvexti á evrusvæðinu, og nú er allt á niðurleið.  

Bjarni Jónsson, 6.1.2019 kl. 13:41

8 Smámynd: Aztec

Bjarni, það er rétt að Þjóoðverjar vildu helzt ekki hætta með DM, en engu að síður settu þeir það skilyrði fyrir evruupptökunni að ECB yrði staðsettur í Frankfurt-am-Main, þar sem þýzki seðlabankinn var með aðsetur. Fram að því hafði þýzki Bundesbank stjórnað þýzka markinu óháð fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Í dag stjórnar ECB hagkerfum 17 evruríkja óháð vilja ríkisstjórna og þinga þjóðríkjanna sjálfra, þannig að þessi ríki eru valdalausar hjáleigur í tvennum skilningi. Að evran komi mest Þjóðverjum til góðs auk þess að vera stjórnað af ECB (í Þýzkalandi) og Bundesbank í sameiningu gerir það að verkum að vel sé hægt að kalla evruna þýzka mynt.

Það er mín von og trú að Bretar losni við þetta bákn með No Deal, þannig að viðskipti framvegis fari fram með WTO skilmálum, sem er bezta lausnin fyrir Breta, en sem er eitur í beinum ESB elítunnar sem vill halda áfram að stjórna Bretlandi með aðstoð strengjabrúðunnar Theresu May. Það er víst að Þjóðverjar og Frakkar muni tapa á No Deal Brexit (sem var það sem 17,4 milljónir Breta kusu í þjóðaratkvæðagreiðslu), en ESB mun líklega (og því miður) ekki hrynja í fyrstu. Fyrst mun evran hrynja eftir nokkur ár með ötulli framgöngu Salvini og annarra. Það tók 70 ár fyrir fyrirmynd Evrópusambandsins í austri að hrynja svo að það gerist heldur ekki á nokkrum mánuðum fyrir ESB heldur.

Það er ergilegt að eftir allar mannfórnirnar sem Bretar og aðrar bandaþjóðir urðu fyrir í tveimur heimsstyrjöldum sem Þjóðverjar töpuðu, að þeir hafi nú töglin og hagldirnar og geti vaðið yfir önnur Evrópuríki með frekju og yfirgangi eina andskotans ferðina enn. En þetta er mögulegt þegar landráðamenn og hugleysingjar eru í forystum sumra ríkja.

ESB er blautur draumur nazista Þriðja ríkisins ("sameinuð Evrópa undir forystu Þjóðverja", eins og danski quislingurinn Scavenius orðaði það). Engin furða þótt ESB sé oft kallað Fjórða ríkið.

Aztec, 6.1.2019 kl. 14:42

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Aztec: Frankfurt var önnur mesta fjármálamiðstöð Evrópu, svo að ekki var óeðlilegt, að hún hýsti ECB.  Þjóðverjar hafa verið ósáttir við peningamálastefnu ECB undir Draghi.  Þjóðverjar hafa með öðrum orðum verið ofurliði bornir í bankaráði ECB.  Þjóðverjar hafa ekki viljað þessa gríðarlegu seðlaprentun, sem ECB hefur staðið að, og þeir hafa verið óánægðir með lágvaxtastefnu bankans.  Þeir ráða sem sagt ekki stefnu seðlabanka evrunnar, og skiptir þá engu, hvar bankinn er staðsettur.  Ef vextir hefðu verið hærri, þá hefði gengi evrunnar verið hærra, sem gert hefði útflutningi allra evrulandanna erfiðara fyrir.  Það, sem skiptir sköpum um samkeppnihæfni Þjóðverja, eru gæði framleiðslunnar, framleiðni og mikil hófsemd og skynsemi í kjarasamningum þar í landi.  Allt þetta veldur því, að atvinnuleysi er þar með minnsta móti, og útflutningsvélin framleiðir á fullum afköstum.  Þeir, sem eru lakari að þessu leyti, lepja dauðann úr skel.

Það getur verið, að Þjóðverjar séu harðir í horn að taka, en það er gott að eiga viðskipti við þá, því að yfirleitt stendur allt, eins og stafur á bók, sem þeir segja.  

Bjarni Jónsson, 7.1.2019 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband