28.1.2019 | 11:07
Af vanhæfi og umkomuleysi á veginum breiða
Tómas Ingi Olrich gerir það ekki endasleppt, heldur ritaði tímamótagrein í Morgunblaðið, 23. janúar 2019, sem hann nefndi:
"Hinn beini og breiði vegur umkomuleysisins".
Þar vakti hann athygli á því, að landsmenn virðast, margir hverjir, fljóta sofandi að feigðarósi Evrópusambandsaðildar með gagnrýnislítilli og að sumra mati sjálfsagðri innleiðingu margra, stórra og smárra, Evrópugerða og ESB-tilskipana í EES-samninginn og þar með í íslenzka löggjöf. Þrátt fyrir stranga Stjórnarskrá, hvað framsal ríkisvalds varðar, hafa þingmenn ekki skirrzt við að samþykkja risastóra ESB-lagabálka, sem fela í sér framsal ríkisvalds til stofnana, þar sem Ísland er ekki fullgildur aðili, og þetta framsal spannar m.a. vald til íþyngjandi aðgerða gegn einstaklingum og fyrirtækjum og snertir þannig hag alls almennings. Hafa þingmenn þá gjarna skýlt sér á bak við aðkeypt lögfræðiálit stjórnarráðsins, þar sem skákað er í skjóli loðmullu um "takmarkað framsal".
Þegar horft er til Þriðja orkumarkaðslagabálksins í þessu sambandi, er erfitt að verjast samsæringskenningum um stórkapítal og skriffinnskubákn Berlaymont (aðalstöðvar ESB) gegn hagsmunum lítillar þjóðar norður í Atlantshafi, sem á miklar endurnýjanlegar og enn ónýttar orkulindir.
Grein sína hóf Tómas Ingi þannig:
"Lögð er áherzla á það af hálfu þeirra, sem vilja, að Ísland samþykki þriðja orkupakkann, að EES-samningurinn hafi reynzt Íslendingum mjög vel. Jafnvel er ýjað að því, að aðild að EES hafi verið forsenda mikils efnahagslegs uppgangs á árunum 1994-2002.
Nú vill svo til, að engin formleg, fræðileg og ítarleg athugun hefur farið fram á því, hve vel EES-samningurinn hafi reynzt Íslendingum. Margt hefur breytzt á þeim tíma, sem samningurinn hefur verið í gildi.
Rétt er að líta til þess árangurs, sem Alþjóða viðskiptastofnunin hefur síðan 1994 náð í viðleitni sinni til að lækka eða fella niður hindranir á viðskiptum landa í millum.
Það er ljóst, að EES-samningurinn hefur haft í för með sér mikinn kostnað fyrir Ísland, og mikið reglugerðafargan hefur fylgt honum, sem í mörgum tilvikum á hingað lítið sem ekkert erindi, en getur verið skaðlegt."
Þetta er tímabær gagnrýni, enda hverju orði sannari. Það hefur verið reynt að skapa goðsögn um gríðarlegan ávinning EES-samningsins, jafnvel, að hann sé okkur ómissandi, sem er fjarstæða. Það er fyrir hendi viðskiptalegur ávinningur, en hann er dýru verði keyptur. Það er tollfrelsi fyrir iðnvarning, en það var fyrir hendi samkvæmt fríverzlunarsamningi EFTA og ESB frá 1973. Fiskafurðir og kjötafurðir eru ekki tollfrjáls inn á Innri markaðinn, af því að Ísland er ekki aðili að sameiginlegri landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB. Samt hefur Alþingi innleitt ESB-matvælalöggjöf hér, svo að EFTA-dómstóllinn gat í nóvember 2017 ógilt löggjöf Alþingis frá 2009 um varnir gegn sýklalyfjaónæmi og sjúkdómum í mönnum og dýrum. Þar gat dómstóllinn brugðið fyrir sig Evrópuréttinum, og íslenzkur réttur víkur fyrir honum samkvæmt EES-samninginum. Þarna er um líf eða dauða að tefla og helztu sjúkdómaógn næstu áratuga í Evrópu að mati prófessors Karls G. Kristinssonar (banvænir sýklar, ónæmir fyrir lyfjum). Þetta er ekki sýklahernaður gegn landsmönnum, en það er jafngildi rússneskrar rúllettu að flytja matvæli til landsins án öryggisráðstafana, þar sem íslenzkir sérfræðingar á þessu sviði telja þörf á.
EES-aðildin kostar bein útgjöld upp á rúma 20 mrðISK/ár, en óbeini kostnaðurinn, sem hlýzt af íþyngjandi, ofvöxnu reglugerða- og eftirlitsfargani, sem dregur úr krafti fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana til framleiðniaukningar allt að 1 %/ár, hefur verið áætlaður allt að tífaldur þessi beini kostnaður á hverju ári. Þessi kostnaður er meiri en ávinningur aðgengis að Innri markaði EES, ef miðað er við beztu kjör WTO-Alþjóða viðskiptaráðsins.
Langflestir starfsmenn hérlendis starfa hjá fyrirtækjum með undir 50 starfsmenn og margir hjá fyrirtækjum með undir 10 starfsmenn. Reglugerðafargan ESB er sniðið við mjög ólíkar aðstæður og leggst þess vegna með meiri þunga á okkar þjóðfélag en þjóðfélög meginlandsins. Þessir ókostir gera meira en að vega upp viðskiptalega umframhagræðið af fjórfrelsinu m.v. viðskiptaskilmála WTO eða fáanlega skilmála með fríverzlunarsamningi, sem líklegt er að EFTA-geri við Breta og gæti orðið fyrirmynd að samningi við ESB.
Tómas Ingi bendir síðan á nauðsyn þess "að komast að því með hlutlausri rannsókn, hver ávinningur okkar er af þessari samningsgerð". Slík rannsókn verður alltaf í lausu lofti, ef nettó ávinningur EES-aðildar er ekki borinn saman við aðra valkosti, sem fyrir hendi eru. Norðmenn gerðu slíka rannsókn fyrir nokkrum árum, og er gerð grein fyrir henni í "Alternativrapporten" 2012. Sú skýrsla varpar ljósi á, að fagurgalinn um EES-samninginn er aðeins goðsögn, sem hentar bezt þeim, sem vilja sem nánasta aðlögun Íslands og Noregs að Evrópuréttinum með fulla aðild að ESB í huga í fyllingu tímans. Verður þeim kápan úr því klæðinu ?
"Það er ekki viðeigandi að fela þeim þessa athugun, sem hafa þegar komizt að þeirri niðurstöðu, að samningurinn hafi reynzt okkur mjög vel; svo vel, að það eigi að búa honum sérstakt svigrúm með breytingu á stjórnarskrá Íslands. Hætt er við, að sú ótímabæra niðurstaða leiði til þess, sem við höfum hingað til nefnt fordóma og leiða af sér óhæfi til að fjalla hlutlaust um reynsluna af EES."
Hér fjallar Tómas Ingi um það, að formaður hóps utanríkisráðuneytisins um umrætt mat á reynslunni af EES-samninginum hefur tjáð sig opinberlega með þeim hætti um EES þannig, að hæfi sitt til að komast að hlutlægri niðurstöðu hefur hann rýrt svo verulega, að skýrsluna má fyrirfram telja ónýta vegna slagsíðu.
Nokkru síðar í greininni vék Tómas Ingi að Stjórnarskránni, en hún er auðvitað næg ástæða ein og sér fyrir Alþingismenn til að hafna lagabálki frá ESB á borð við Orkupakka #3:
"Þegar aðildin að EES var rædd og undirbúin, var flestum ljóst, að framsal valds til evrópskra stofnana skapaði vandamál varðandi stjórnarskrá Íslands. Á þeim tíma var talið, að framsalið væri á takmörkuðu sviði og því hægt að telja það standast ákvæði stjórnarskrárinnar. Nú hefur þetta framsal aukizt. Er það meginástæða þess, að ákveðin öfl leitast nú við af fremsta megni að breyta stjórnarskránni á þann veg, að hún heimili framsal.
Aðrir vilja huga að því, hvort rétt sé að styrkja stjórnvöld í þeirri viðleitni að athuga gaumgæfilega og með gagnrýnum hætti innleiðingu reglugerða ESB og beita neitun, ef mál ganga gegn hagsmunum Íslands. Enn öðrum finnst kominn tími til að hefja umræður um að endurskoða aðild að EES."
Síðan 1993, þegar EES-samningurinn var samþykktur á Alþingi, hefur mikið vatn runnið til sjávar, og samrunaþróun ESB tekið stakkaskiptum frá samþykkt Lissabonsáttmálans 2007. Þessi þróun reynist EFTA-löndunum, Íslandi og Noregi, þung í skauti, og nú teygir miðstýringarárátta Framkvæmdastjórnarinnar hramma sína inn á eitt meginauðlindasvið Íslands, orkusviðið. Þá hljóta landsmenn að spyrna við fótum, eins og Íslendingar og Norðmenn sameinuðust um að gera 1992 varðandi sjávarauðlindirnar.
Þegar fulltrúar þessara þjóða standa ekki saman í Sameiginlegu EES-nefndinni, eins og gerðist að lokum varðandi Orkupakka #3, þá gefur íslenzka stjórnsýslan eftir, lyppast niður undan fargi þrýstings frá bæði ESB og hinum tveimur EFTA-löndunum í EES. Þetta er grafalvarlegt í ljósi þess, að innleiðing þessa lagabálks um orkuna mun hafa miklu verri afleiðingar í för með sér fyrir Ísland en Noreg. Þessi alvarlegu mistök íslenzku stjórnsýslunnar getur Alþingi leiðrétt með höfnun lagabálksins.
Næst minnist Tómas Ingi á doðann, sem einkennir EES/ESB sinnana:
"Í stað þess að aðhafast er beðið. Sá ágæti lögfræðingur, Hilmar Gunnlaugsson, sem ég vitnaði til í fyrri grein, telur, að það sé hægt að horfa með vonaraugum fram til fjórða orkupakka ESB. Þar verði hugsanlega að finna lausn á orkumálum íslenzkra garðyrkjubænda. Hvers vegna ættum við að hafa áhyggjur af slíkum málum, ef úrlausnar er að vænta frá ESB ? Lögfræðingurinn er setztur í biðstofuna."
Það er rétt athugað hjá Tómasi Inga, að ræfildómur og umkomuleysi hafa heltekið EES/ESB-sinnana, sem ganga með grillur í hausnum um það, að regluverk búrókratanna í Brüssel hljóti að vera klæðskerasniðin að viðfangsefnum okkar hér uppi á Íslandi. Orkupakki #3 er þó prýðisdæmi um, að svo er alls ekki. Þessi lagabálkur snýr ekki að neinu þeirra viðfangsefna, sem við er að etja í íslenzka orkukerfinu. Þvert á móti myndi innleiðing hans hér skapa fjölda vandamála og valda miklum deilum og almennri óánægju í þjóðfélaginu. Sá, sem heldur, að s.k. Vetrarpakki ESB muni verða til einhvers nýtur hér, er algerlega úti á þekju um eðli og hlutverk orkustefnu ESB.
Lokaorðin í þessari ágætu Morgunblaðsgrein voru á þessa leið:
"Höfum við vanizt þeirri afstöðu að samþykkja athugasemdalaust tilskipanir ESB, unz við erum vaxin saman við þær ? Þegar ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins fullyrðir (í Morgunblaðinu 18. september s.l.), að ekki verði séð, að innleiðing þriðja orkupakkans feli í sér meiri háttar frávik frá fyrri stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki og ekki sé ljóst, hvert það myndi leiða, yrði honum hafnað, vaknar áleitin spurning: Erum við að troða farveg, sem víkkar og þjappast með hverju minniháttar fráviki, unz summa frávikanna verður hinn breiði og beini vegur íslenzks uppburðarleysis í stjórnmálum og umkomuleysis í fullveldismálum ?"
Þarna hittir Tómas Ingi Olrich aftur naglann á höfuðið, og svarið við lokaspurningunni er já. Öll sólarmerki á Alþingi undanfarin ár við innleiðingu risalagabálka ESB, sem taka af okkur forræðið á sviði heilsuverndar vegna matvælainnflutnings, fjármálaeftirlits, persónuverndar og nú það dýrkeyptasta af þessu öllu, sem er að setja æðstu stjórn orkumálanna undir ESA/ACER/ESB.
Hvernig stendur á blindingsmálflutningi iðnaðarráðherrans um, að innleiðing Orkupakka #3 feli ekki í sér "meiriháttar frávik frá fyrri stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki" ? Ein skýringin á þessu háttarlagi er sú, að hún hafi enn ekki gert sér grein fyrir þeirri stefnubreytingu í orkumálum, sem átti sér stað frá útgáfu fyrsta orkupakka ESB, sem innleiddur var í lög hér 2003, til útgáfu þriðja orkupakkans árið 2009. Þarna á milli varð til stjórnarskrárígildi ESB, Lissabonssáttmálinn, en hann leggur línurnar um æ nánari samruna, sem endi með stofnun sambandsríkis Evrópu. Þarna á milli varð líka orkukreppa í Evrópu, og það varð í kjölfarið forgangsmál hjá ESB-forystunni að taka orkumál álfunnar í sínar hendur til að forða ríkjum Evrópusambandsins í bráð og lengd frá hörmungum orkuskorts. Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB er afsprengi miklu róttækari stefnumörkunar til miðstýringar en í tilviki fyrri bálkanna tveggja. Það er ekki kyn þótt keraldið leki í iðnaðarráðuneytinu, ef ráðherrann áttar sig ekki á þessu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.